Fara í efni

Skipulags- og framkvæmdaráð

184. fundur 26. mars 2024 kl. 13:00 - 15:00 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Soffía Gísladóttir formaður
  • Kristinn Jóhann Lund aðalmaður
  • Eysteinn Heiðar Kristjánsson aðalmaður
  • Ingibjörg Benediktsdóttir varaformaður
  • Birkir Freyr Stefánsson aðalmaður
  • Rebekka Ásgeirsdóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfulltrúi
  • Ketill Gauti Árnason starfsmaður í stjórnsýslu
  • Elvar Árni Lund sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs
  • Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Ketill Gauti Árnason Verkefnastjóri
Dagskrá
Katrín Sigurjónsdóttir sat undir liðum 1-8.

1.Ósk um umögn um rekstrarleyfi gistingar fyrir Garðarsbraut 15D

Málsnúmer 202403083Vakta málsnúmer

Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra óskar umsagnar Norðurþings um rekstrarleyfi til sölu gistingar í íbúð 0202 að Garðarsbraut 15 á Húsavík. Fyrir liggur skriflegt samþykki nágranna sem nýtir sama inngang í fjöleignahúsinu.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur skipulags- og byggingarfulltrúa að veita jákvæða umsögn um erindið.

2.Dimmuborgir ehf sækir um lóð að Fiskifjöru 5

Málsnúmer 202403098Vakta málsnúmer

Dimmuborgir ehf óska lóðarinnar að Fiskifjöru 5 á Húsavík til uppbyggingar 756 m² atvinnuhúsnæðis. Með erindi fylgja hugmyndir að hönnun húss og uppskiptingu þess milli væntanlegra notenda.
Skipulags- og framkvæmdaráð telur fullnægjandi grein gerða fyrir byggingaráformum og leggur til við sveitarstjórn að Dimmuborgum verði úthlutað lóðinni að Fiskifjöru 5.

3.Ósk um byggingarleyfi fyrir nýju þjónustuhúsi við tjaldsvæðið á Húsavík

Málsnúmer 202403116Vakta málsnúmer

Eignasjóður Norðurþings óskar byggingarleyfis fyrir nýju þjónustuhúsi á tjaldstæðið á Húsavík. Meðfylgjandi umsókn eru teikningar af fyrirhuguðu húsi og afstöðumynd. Teikningar eru unnar af Ragnari Hermannssyni byggingarfræðingi.
Skipulags- og framkvæmdaráð telur fyrirhugaða byggingu í samræmi við skipulagsskilmála og heimilar byggingarfulltrúa að veita byggingarleyfi fyrir húsinu þegar fullnægjandi gögnum þar að lútandi hefur verið skilað inn.

4.Umsókn um lóðirnar að Hrísmóum 3 og 5 undir þurrkstöð

Málsnúmer 202308050Vakta málsnúmer

Sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs kynnti fyrir skipulags- og framkvæmdaráði samning við GG2023 um afnot af lóðinni Hrísmóar 3 fyrir þurrkstöð.
Skipulags- og Framkvæmdaráð samþykkir fyrirliggjandi afnotasamning.

5.Umsókn um framkvæmdaleyfi til skógræktar í landi Saltvík Yggdrasill

Málsnúmer 202403075Vakta málsnúmer

Óskað er eftir framkvæmdaleyfis til skógræktar á landspildu úr jörðinni Saltvík með þeirri breyttu afmörkun sem sveitarstjórn Norðurþings samþykkti á fundi sínum þann 22. febrúar s.l. Við breytta afmörkun landsins er komið til móts við sjónarmið Náttúrufræðistofnunar Íslands um verndun rjúpnatalningarsvæðis. Fyrir fundi liggur greinargerð umsækjanda og umsögn skógræktarráðgjafa Lands og Skógar um skógrækt innan breyttar afmörkunar landsins. Fyrir liggur einnig skógræktaráætlun sem grunduð er á fyrri afmörkun landsins. Gengið út frá að endurvinna hana eins fljótt og unnt er þegar aðstæður leyfa. Landspildan er 160 ha í heild sinni og horft til þess að planta trjáplöntum í um 120 ha af því. Um 40 ha verða undanskildir skógrækt vegna umferðarleiða, berjasvæða og náttúruminja.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að Yggdrasil Carbon ehf verði veitt framkvæmdaleyfi fyrir skógræktinni á grunni fyrirliggjandi gagna. Skipulagsfulltrúa verði falið að hafa eftirlit með að framkvæmdin sé í samræmi við framlögð gögn.

Samþykkt með atkvæðum Soffíu og Eysteins.

Birkir, Ingibjörg og Kristinn sitja hjá.

6.Efnisnám í nágrenni Húsavíkur

Málsnúmer 202403081Vakta málsnúmer

Sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs óskar eftir heimild til efniskönnunar.
Skipulags- og framkvæmdarráð heimilar sviðsstjóra að fara í efniskönnun í Flatarholti sunnan við Krókalágsnámu.

7.Bílastæðamál við Hafnarstétt 1 og 3

Málsnúmer 202403063Vakta málsnúmer

Óli Halldórsson f.h. Þekkingarnetsins, óskar eftir því að rútubílastæði framan við Hafnarstétt 1 og 3 verði fellt út af deiliskipulagi Miðhafnarsvæðisins og þess í stað gert ráð fyrir almennum bílastæðum á svæðinu. Á það er minnt að atvinnustarfsemi Stéttarinnar innifelur í dag 48 heilsárstarfsmenn og verulega fleiri gesti af ýmsu tagi. Fá bílastæði tilheyra Hafnarstétt 1 og 3 og fækkar enn frekar ef byggt verður norðan Hafnarstéttar 1 eins og skipulagstillaga heimilar.
Skipulags- og framkvæmdaráð er ekki reiðubúið á þessu stigi að leggja af tímabundið bílastæði fyrir rútur framan við Hafnarstétt 1 og 3. Ráðið telur þetta stæði mikilvægt þeirri miklu ferðaþjónustu sem er á hafnarsvæðinu. Ráðið felur sviðsstjóra, í samráði við hafnarstjóra, að taka til skoðunar mögulega fjölgun bílastæða á Hafnarstétt, samhliða undirbúningsvinnu vegna stofnunar bílastæðasjóðs.

Ingibjörg situr hjá.

8.Breyting deiliskipulags miðhafnarsvæðis

Málsnúmer 202311118Vakta málsnúmer

Á 183. fundi ráðsins voru bókaðar inn þær umsagnir sem bárust við tillögu að breytingu deiliskipulags Miðhafnarsvæðis á Húsavík. Ráðið taldi þá aðeins umsögn Gentle Giants hvalaferða ehf fela í sér athugasemdir við fyrirliggjandi tillögu. Ráðið óskaði umsagnar stjórnar hafnarsjóðs um þá athugasemd sem snýr að lengingu einnar flotbryggjunnar. Á fundi sínum þann 25. mars s.l. fjallaði stjórn hafnarsjóðs um athugasemd Gentle Giants hvalaferða og bókaði:
"Að mati stjórnar Hafnarsjóðs er með lengingu flotbryggjunnar ekki þrengt um of að starfsemi hafnarinnar. Byggir mat stjórnar m.a. á samskiptum starfsmanna hafnarinnar við Siglingasvið Vegagerðarinnar en flotbryggja af þessari stærð á þessum stað hefur verið á samgönguáætlun í nokkur ár.
Stjórnin samþykkir að óska eftir því við skipulags- og framkvæmdaráð að fyrirliggjandi breytingartillögu að deiliskipulagi miðhafnarsvæðis verði breytt þannig að byggingarreitur aðliggjandi flotbryggju norðan við verði einnig lengdur um 15 metra.
Stjórnin ítrekar að þessar aðgerðir eru til að bæta aðstöðu ferðaþjónustunnar í Húsavíkurhöfn, bæði vegna hvalaskoðunar og komu farþega úr skemmtiferðaskipum."
Skipulags- og framkvæmdaráð telur ekki tilefni til að fallast á tillögu Gentle Giants um að fjarlægja Helguskúr af skipulagsuppdrættinum. Húsið stendur enn á þeim stað þar sem það er teiknað.

Með vísan til ofangreindrar umsagnar stjórnar Hafnarsjóðs fellst skipulags- og framkvæmdaráð á að gert verði ráð fyrir lengingu tveggja flotbryggja um allt að 15 m í deiliskipulagi og felur skipulagsráðgjafa að breyta uppdrættinum til þess.

Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að tillaga að breytingu deiliskipulags miðhafnarsvæðis verði samþykkt með þeirri breytingu að skipulagið heimili einnig allt að 15 m lengingu næstu flotbryggju norðan þeirrar sem gert er ráð fyrir að lengist í kynntri tillögu.

9.Hljóðvist í skólum

Málsnúmer 202403079Vakta málsnúmer

Fyrir Skipulags- og Framkvæmdaráði liggur erindi frá umboðsmanni barna varðandi hljóðvist í skólum.
Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar umboðsmanni barna fyrir erindið og felur sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs að framkvæma hljóðvistarmælingar í skólum og leikskólum sveitarfélagsins ásamt Sundlaug Raufarhafnar.

10.Auglýsing um umferð 2024

Málsnúmer 202403087Vakta málsnúmer

Sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs kynnti fyrir skipulags- og framkvæmdaráði breytingar á auglýsingu um umferð á Húsavík, en núgildandi auglýsing er frá 9.desember 2020.
Sviðsstjóri lagði fram tillögu að breytingum á auglýsingu um umferð á Húsavík og leggur til að í stað þess að auglýsa breytingar á eldri auglýsingu, að gerð verði ný auglýsing með þeim breytingum sem koma fram í samantektinni sem var lögð fyrir ráðið.

Eysteinn Heiðar Kristjánsson leggur til að hámarkshraði á Mararbraut til norðurs verði tekinn niður í 30 km/klst við Uppsalaveg. Undirritaður telur þetta mikilvægt vegna umferðaröryggis þar sem akstur er samhliða nálægum íbúðarhúsum en rannsóknir sýna að ef ekið er á gangandi vegfarenda á 50 km/klst eru 80% líkur á að vegfarandinn látist en einungis 10% líkur sé ökuhraðinn 30 km/klst.

Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir fyrirliggjandi tillögur og felur sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs að vinna málið áfram og leggja fyrir ráðið að nýju.

Fundi slitið - kl. 15:00.