Skipulags- og umhverfisnefnd

24. fundur 09. janúar 2018 kl. 16:15 - 18:15 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Sif Jóhannesdóttir formaður
  • Röðull Reyr Kárason aðalmaður
  • Örlygur Hnefill Örlygsson varaformaður
  • Soffía Helgadóttir aðalmaður
  • Jónas Hreiðar Einarsson aðalmaður
  • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfulltrúi
Fundargerð ritaði: Gaukur Hjartarson Skipulags- og byggingafulltrúi
Dagskrá

1.Deiliskipulag athafnasvæði A5 - Kringlumýri

201711108

Nú er lokið athugasemdafresti vegna skipulagslýsingar deiliskipulags athafnasvæðis A5 við Kringlumýri. Umsagnir og athugasemdir bárust frá Skipulagsstofnun, Vegagerðinni,Minjastofnun og Heilbrigðiseftirliti Norðurlands Eystra.

Skipulagsstofnun minnir á að í tillögunni þarf að leggja áherslu á ásýnd sbr. stefnu aðalskipulags og skoða þarf hvort hætta sé á mengun frá starfseminni á svæðinu og þá hvernig skuli brugðist við.

Vegagerðin telur æskilegt að loka annarri af núverandi vegtengingum af þjóðvegi inn á lóð Norðlenska. Endurhanna þarf nyrðri vegtengingu inn á lóð Norðlenska. Vegagerðin telur veghelgunarsvæði vegarins eiga að vera 30 m og minnir á ákvæði um lágmarksfjarlægðir milli bygginga og vega í skipulagsreglugerð. Vegagerðin óskar þess að fá tillögu að deiliskipulagi til umsagnar.

Minjastofnun gerir ekki athugasemdir við skipulagslýsinguna.

Heilbrigðiseftirlit gerir ekki skýrar athugasemdir við skipulagslýsinguna sem slíka en veltir vöngum yfir landnotkun, ákvæði aðalskipulags um A5, mengunarhættu og kröfum um umgengni.Skipulags- og umhverfisnefnd þakkar fram komnar ábendingar og athugasemdir og felur skipulagsráðgjafa að taka tillit til þeirra sem kostur er við vinnslu skipulagstillögu.

2.Breyting á deiliskipulagi Rifóss.

201712046

Rifós hf óskar eftir að tekin verði til umfjöllunar tillaga að breytingu deiliskipulags fiskeldisstöðvar Rifóss að Lóni í Kelduhverfi. Tillagan er sett fram á einu blaði þar sem breytingin er sýnd á uppdrætti auk þess sem greinargerð og umhverfisskýrsla eru felld inn á uppdrátt. Tillagan gerir ráð fyrir stækkun lóðar seiðaeldisstöðvar, stærri byggingarreitum og auknum byggingarrétti fyrir fiskeldisker í landi. Gert er ráð fyrir byggingarreit fyrir nýja seiðaeldisstöð og skilgreindir skilmálar fyrir þá byggingu. Skilgreint er nýtt svæði undir eldiskvíar um 250 m vestan núverandi seiðastöðvar.
Gert er ráð fyrir að uppbygging skv. breytingu deiliskipulags falli innan gildandi starfsleyfis sem gildir til ársins 2027. Skipulagstillagan er sögð unnin í samráði við landeigendur.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að tillagan verði kynnt skv. ákvæðum 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga.

3.Verkefnið Raufarhöfn og framtíðin óskar eftir að SR lóðin á Raufarhöfn verði deiliskipulögð

201801021

Verkefnið Raufarhöfn og framtíðin fer þess á leit við Norðurþing að SR lóðin verði deiliskipulögð svo að næstu skref framkvæmda á lóðinni séu í samræmi við gildandi deiliskipulag. Þessi ósk er í samræmi við vilja íbúa sem kom fram á íbúaþingi sem lagt var til grundvallar markaðssetningu ofangreinds verkefnis.

Skipulags- og umhverfisnefnd telur ekki forsendur skv. fjárhagsáætlun ársins til að hefja deiliskipulagsvinnu fyrir SR-lóð á Raufarhöfn á þessu stigi. Nefndin telur farsælla að leggja út í deiliskipulagsvinnu þegar fram eru komnar álitlegar fyrirætlanir um landnotkun.

4.Sveinn Hreinsson og Björg Björnsdóttir sækja um úthlutun byggingarlóðar fyrir einbýlishús að Hrísateig 11.

201712088

Sveinn Hreinsson og Björg Björnsdóttir óska eftir að fá lóðinni að Hrísateigi 11 úthlutaðri sem byggingarlóð. Fái þau lóðinni úthlutað óska þau þess að fá að snúa húsi þannig að útsýni frá húsi til sjávar og fjalla njóti sín sem best.
Skipulags- og umhverfisnefnd óskar umsagnar Framkvæmdanefndar um úthlutunina áður en afstaða er tekin þar sem lóðarúthlutun krefst umtalsverðrar gatnagerðar. Skipulags- og byggingarfulltrúa er falið að auglýsa lóðir við Hrísateig lausar til umsóknar ef framkvæmdanefnd fellst á gatnagerð. Nefndin telur rétt að horfa til þess að megin mænisstefna húss skuli vera samsíða götu til samræmis við þegar byggð hús í götunni.

5.Helga Sveinbjörnsdóttir sækir um byggingarlóð að Hrísateig 12

201801019

Helga Sveinbjörnsdóttir óskar eftir að fá lóðinni að Hrísateigi 12 úthlutaðri sem byggingarlóð.
Skipulags- og umhverfisnefnd óskar umsagnar Framkvæmdanefndar um úthlutunina áður en afstaða er tekin þar sem lóðarúthlutun krefst umtalsverðrar gatnagerðar. Skipulags- og byggingarfulltrúa er falið að auglýsa lóðir við Hrísateig lausar til umsóknar ef framkvæmdanefnd fellst á gatnagerð.

6.Skipulagsstofnun óskar eftir umsögn um framleiðsluaukningu hjá N-Lax á Laxamýri.

201712107

Skipulagsstofnun óskar umsagnar Norðurþings vegna framleiðsluaukningar N-lax að Laxamýri úr 20 tonnum í 60 tonn. Meðfylgjandi umsagnarbeiðni er greinargerð rekstraraðila vegna fyrirhugaðrar framleiðsluaukningar. Vegna minnkandi umsvifa í ræktun laxaseiða hyggst rekstraraðili nýta núverandi mannvirki til aukningar á eldi bleikju og regnbogasilungs. Ekki er gert ráð fyrir að framleiðsluaukningin krefjist aukinnar vatnsnotkunar. Gerð er grein fyrir núverandi vatnsöflun. Aukin framleiðsla mun hafa í för með sér aukningu á lífrænum úrgangi. Gerð er grein fyrir hvernig ætlunin er að lágmarka þann lífræna úrgang sem fellur til Laxár. Sérstök grein er einnig gerð fyrir því hvernig komið verði í veg fyrir að eldisfiskur sleppi til Laxár.
Skipulags- og umhverfisnefnd Norðurþings telur greinargerð gera ágætlega skýra grein fyrir afleiðingum aukningar á framleiðslu og þeim mótvægisaðgerðum sem ætlað er að lágmarka hættu á slysaleppingum eldisfisks og lágmörkun lífrænnar mengunar til Laxár. Fram kemur að stöðin hefur þegar verið starfrækt í 46 ár og aldrei orðið þar meiriháttar slysaslepping. Gerð er grein fyrir vöktun mengunar í frárennslisvatni frá stöðinni.

Aðalskipulags Norðurþings 2010-2030 gerir ráð fyrir áframhaldandi fiskeldi á svæðinu og þar með tilheyrandi mannvirkjum. Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir fiskeldið.

Skipulags- og umhverfisnefnd telur að í greinargerð sé nægileg grein gerð fyrir aukningu á framleiðslu í eldisstöðinni við Laxamýri, umhverfi hennar, mótvægisaðgerðum og vöktun. Nefndin telur ekki að aukning í framleiðslu stöðvarinnar skuli háð mati á umhverfisáhrifum að teknu tilliti til 2. viðauka laga nr. 106/2000.

7.Framkvæmda- og þjónustufulltrúi óskar leyfis skipulags- og umhverfisnefndar varðandi uppsetningu vatnsrennibrautar við Sundlaug Húsavíkur.

201712119

Óskað er samþykkis skipulags- og umhverfisnefndar til að setja upp vatnsrennibraut við Sundlaug Húsavíkur. Nákvæm hönnun rennibrautarinnar liggur ekki fyrir en fyrir liggur áætlað umfang og tillaga að staðsetningu.
Skipulags- og umhverfisnefnd fer fram á að lögð verði fram skýrari mynd af fyrirhuguðu mannvirki og skipulags- og byggingarfulltrúa falið að grenndarkynna það. Nefndin telur hæfilegt að kynna fyrirhugaða framkvæmd nágrönnum að Höfðabrekku 2-10 og Laugarbrekku 1-9.

8.Lionsklúbbur óskar eftir að setja auglýsingu á húshlið Árgötu 14

201801004

Óskað er eftir leyfi til að setja upp auglýsingu sem þekur V-hlið Árgötu 14. Meðfylgjandi umsókn er mynd af fyrirhugaðri auglýsingu.
Skipulags- og umhverfisnefnd telur að auglýsing sem þessi spilli heildarmynd götunnar og leggst því gegn uppsetningu hennar.

9.Umsókn um stofnun lóðar, Skarðatún, út úr landeigninni Skörð (154.018)

201801005

Óskað er samþykkis fyrir stofnun 2.000 m² leigulóðar utan um gamla íbúðarhúsið að Skörðum í Reykjahverfi. Þess er óskað að ný lóð fái heitið Skarðatún. Meðfylgjandi umsókn er hnitsettur uppdráttur lóðarinnar unnin hjá Búgarði.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að stofnun lóðarinnar verði samþykkt og jafnframt að lóðin fái heitið Skarðatún.

10.Starfsleyfistillaga frá Umhverfisstofnun fyrir olíubirgðastöð Olíudreifingar efh. á Húsavík.

201801025

Umhverfisstofnun hefur unnið tillögu að starfsleyfi fyrir olíubirgðastöð Olíudreifingar ehf á Höfða 10 á Húsavík og er hún nú til kynningar.
Skipulags- og umhverfisnefnd Norðurþings gerir ekki athugasemdir við tillögu Umhverfisstofnunar að starfsleyfi fyrir olíubirgðastöð Olíudreifingar að Höfða 10. Í gildi er deiliskipulag af svæðinu þar sem verið hefur olíubirgðastöð um áratugaskeið. Raunar var lóð Olíudreifingar að Höfða 10 skert við síðustu breytingu deiliskipulagsins vegna jarðgangagerðar í Húsavíkurhöfða. Unnið er að breytingu deiliskipulags svæðisins þar sem m.a. er horft til stækkunar lóðarinnar aftur í samræmi við samkomulag milli aðila þar að lútandi.

11.Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra óskar eftir umsögn um rekstrarleyfi fyrir Sölku

201801018

Óskað er umsagnar um veitingu rekstrarleyfis til sölu veitinga (flokki III) í Sölku.
Skipulags- og umhverfisnefnd veitir f.h. Norðurþings jákvæða umsögn um erindið.

12.Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra óskar eftir umsögn um rekstrarleyfi fyrir Hótel Norðurljós.

201801028

Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra óskar umsagnar Norðurþings um rekstrarleyfi til sölu gistingar og áfengisveitinga (flokkur IV) vegna hótels Norðurljósa á Raufarhöfn.
Skipulags- og umhverfisnefnd, f.h. Norðurþings, veitir jákvæða umsögn um erindið.

Fundi slitið - kl. 18:15.