Fara í efni

Skipulags- og umhverfisnefnd

14. fundur 14. mars 2017 kl. 14:00 - 16:00 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Sif Jóhannesdóttir formaður
  • Röðull Reyr Kárason aðalmaður
  • Örlygur Hnefill Örlygsson varaformaður
  • Soffía Helgadóttir aðalmaður
  • Jónas Hreiðar Einarsson aðalmaður
  • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfull
Starfsmenn
  • Margrét Hólm Valsdóttir
Fundargerð ritaði: Gaukur Hjartarson Skipulags- og byggingafulltrúi
Dagskrá

1.Norðurhöfn. Tillaga að breyttu deiliskipulagi.

Málsnúmer 201610076Vakta málsnúmer

Breytingar á deiliskipulagi norðurhafnar voru auglýstar til almennrar kynningar á síðasta ári. Nokkrar athugasemdir bárust og var afgreiðslu skipulagsins frestað á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 17. janúar s.l.

Á fundi sínum þann 20. febrúar s.l. óskaði framkvæmdanefnd eftir því við skipulags- og umhverfisnefnd að felld verði inn í deiliskipulög breytt vegtenging milli hafnarsvæðis og Höfða, þannig að tengingin verði austan athafnasvæðis Eimskips.

Ennfremur hefur Faglausn ehf, f.h. Eignasjóðs Norðurþings, óskað eftir fráviki frá gildandi deiliskipulagi vegna hönnunar nýrrar slökkvistöðvar að Norðurgarði 5. Lóðarhafi að Naustagarði 2 hefur óskað eftir auknum byggingarrétti á þeirri lóð þannig að heimiluð verði viðbygging til norðausturs frá núverandi húsi, leyft verði 2ja hæða hús með mænishæð allt að 7,5 m og nýtingarhlutfall verði 0,3.
Skipulags- og umhverfisnefnd felur skipulags- og byggingarfulltrúa að láta vinna tillögu að eftirfarandi breytingum á deiliskipulagi Norðurhafnarsvæðis:

1. Minnka lóð, og þar með byggingarrétt, að Naustagarði 6 frá áður kynntri tillögu.
2. Færa inn í skipulagstillöguna breytta vegtengingu milli hafnarsvæðis og Höfða skv. tillögu Mannvits.
3. Fella út byggingarlóðina að Norðurgarði 3 og breyta lóðarmörkum og byggingarskilmálum Norðurgarðs 5 til samræmis við hugmyndir Faglausnar.
4. Skilgreina byggingarrétt vegna mögulegrar viðbyggingar að Naustagarði 2.

2.Sótt um stækkun lóðar við Auðbrekku 10.

Málsnúmer 201703033Vakta málsnúmer

Óskað er eftir að lóðin að Auðbrekku 10 verði stækkuð til samræmis við gildandi deiliskipulag í Auðbrekku.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að lóð Auðbrekku 10 verði stækkuð til samræmis við gildandi deiliskipulag.

3.Óska eftir stækkun lóðar á Uppsalavegi 13

Málsnúmer 201703050Vakta málsnúmer

Óskað er eftir stækkun lóðarinnar að Uppsalavegi 13 um u.þ.b. 7 m til austurs til að útbúa þar bílastæði.
Skipulags- og umhverfisnefnd felur skipulags- og byggingarfulltrúa að útbúa tillögu að breyttu lóðarblaði fyrir lóðina.

4.Umsókn um byggingarleyfi fyrir bílskúr/geymslu

Málsnúmer 201702174Vakta málsnúmer

Óskað er eftir byggingarleyfi fyrir bílskúr/geymslu að Brávöllum 7 skv. framlögðum teikningum eftir Örn Sigurðsson byggingartæknifræðing. Um er að ræða timburhús á steinsteyptum grunni, 33,4 m² að flatarmáli og 106,2 m³ að rúmmáli. Fyrir liggur skriflegt samþykki nágranna fyrir byggingunni.
Skipulags- og umhverfisnefnd fellst á bygginguna fyrir sitt leiti og heimilar byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi þegar fullnægjandi gögnum hefur verið skilað.

5.Umsókn um byggingarleyfi - setja upp 5 vegvísa

Málsnúmer 201703041Vakta málsnúmer

Sif Jóhannesdóttir, f.h. Menningarmiðstöðvar Þingeyinga, óskar er eftir leyfi til að setja vegvísa á fimm ljósastaura til að leiðbeina vegfarendum til Safnahússins.
Skipulags- og umhverfisnefnd heimilar skipulags- og byggingarfulltrúa að veita leyfi fyrir vegvísunum.

Sif vék af fundi við afgreiðslu þessa erindis.

6.Umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu.

Málsnúmer 201703042Vakta málsnúmer

Óskað er eftir byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við Stekkjarhvamm 1 í Reykjahverfi. Viðbyggingin er 16,0 m² að flatarmáli og 50,2 m³ að rúmmáli. Teikning er unnin af Erni Sigurðssyni byggingartæknifræðingi.
Skipulags- og umhverfisnefnd telur fyrirhugaða byggingu í samræmi við ákvæði deiliskipulags og heimilar skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi þegar fullnægjandi gögnum hefur verið skilað.

7.Breytingar á gluggum Baldursbrekka 10

Málsnúmer 201702162Vakta málsnúmer

Jón Hermann Óskarsson, f.h. Flóka ehf, óskar eftir leyfi til að setja nýjan glugga á norðurhlið efri hæðar að Baldurbrekku 10. Meðfylgjandi umsókn eru rissmyndir af glugganum.
Skipulags- og byggingarfulltrúi samþykkti erindið 22. febrúar s.l.
Skipulags- og umhverfisnefnd gerir ekki athugasemd við þessa afgreiðslu.

8.Frágangur úthlutaðra lóða

Málsnúmer 201305024Vakta málsnúmer

Skipulags- og umhverfisnefnd telur frágangi nokkurra úthlutaðra byggingarlóða ábótavant. Í því samhengi er sérstaklega horft til byggingarlóða þar sem lítið hefur gerst til frágangs til fjölda ára, þrátt fyrir óskir og ábendingar sveitarfélagsins þar um.
Skipulags- og byggingarfulltrúi kynnti mögulegar aðgerðir til að knýja fram úrbætur.
Skipulags- og umhverfisnefnd telur ekki boðlegt að einstakar byggingarlóðir innan íbúðarsvæða séu opnar og ófrágengnar til fjölda ára. Skipulags- og byggingarfulltrúa er falið að senda áskorun um úrbætur lóðarfrágangs á lóðarhafa eftirfarandi lóða:

Laugarbrekka 23
Stakkholt 2

Ábyrgðaraðila lóðanna verði gefinn kostur á að koma fram sínum sjónarmiðum, andmælum og tillögum til úrbóta til 2. maí n.k. Horft er til umfjöllunar um málið að nýju á fundi nefndarinnar í maí n.k.

9.Vinnureglur um umsagnir vegna rekstrarleyfa

Málsnúmer 201703047Vakta málsnúmer

Í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 1277/2016 veitir sýslumaður rekstrarleyfi vegna gististaða í flokki II - IV. Skv. 26. gr. reglugerðarinnar skal sýslumaður senda umsókn ásamt fullnægjandi gögnum til hlutaðeigandi sveitarstjórnar, heilbrigðisnefndar, byggingarfulltrúa, vinnueftirlits og lögreglu. Umsagnir þessara aðila eru bindandi og skulu veittar eigi síðar en 45 dögum frá móttöku erindis leyfisveitanda þar að lútandi. Berist umsagnir ekki innan þess frest er leyfisveitanda heimilt að gefa út leyfi.
Í grein 6.2 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 segir sem svo um landnotkunarflokkinn "íbúðarbyggð": Svæði fyrir íbúðarhúsnæði og nærþjónustu sem því tengist, auk minniháttar atvinnustarfsemi sem samrýmist búsetu eftir því sem nánar er kveðið á um í stefnu skipulagsins.
Í kafla 24.3.4 um íbúðarsvæði í Aðalskipulagi Norðurþings 2010-2030 segir: Á íbúðarsvæðum skal fyrst og fremst gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði. Þar má þó einnig gera ráð fyrir starfsemi sem eðlilegt er að þar sé til þjónustu við íbúa viðkomandi hverfis, s.s. verslunum, hreinlegum iðnaði, handiðnaðarfyrirtækjum, þjónustustarfsemi og leiksvæðum eða annari starfsemi sem hvorki verður ætlað að muni valda óþægindum vegna lyktar, hávaða eða óþrifnaðar né dragi að sér óeðlilega mikla umferð.
Bæði skipulagsreglugerð og aðalskipulag gera því ráð fyrir tiltekinni atvinnustarfsemi í íbúðarbyggð. Skilyrði eru m.a. að atvinnustarfsemin samrýmist búsetu og sé ekki líkleg til að valda nágrönnum óeðlilega miklum óþægindum.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að fyrst um sinn verði eftirfarandi vinnureglur lagðar til grundvallar veitinga umsagna vegna rekstrarleyfa til sölu gistingar:

1. Ekki verði veittar jákvæðar umsagnir fyrir nýjum rekstrarleyfum til sölu gistingar í íbúðarhverfum í þéttbýli skv. gildandi aðalskipulagi. Undantekningar eru eftirfarandi:
a. Gisting í heimahúsi gistisöluaðila fyrir allt að 5 einstaklinga. Jákvæð umsögn er háð ábúð rekstraraðila og nægilegum fjölda bílastæða innan lóðar eða á nálægum almennum bílastæðum. Rekstraraðili þarf í umsókn að gera skýra grein fyrir því hversu stór hluti hússins verði notaður til gistisölu og eingöngu er heimilt að selja gistingu í íbúðarherbergjum samkvæmt samþykktum teikningum.
b. Þar sem ekki verður séð að þörf sé fyrir húsnæðið til íbúðarnota og sýnt hafi verið fram á að gistisala sé í sátt við næstu nágranna.

2. Við umsögn vegna endurnýjunar rekstrarleyfis til sölu gistingar innan íbúðarsvæða skal horfa til þess hvort nægilegur fjöldi bílastæða sé innan lóðar eða á nálægum almennum bílastæðum. Vegna umsagnar um endurnýjun rekstrarleyfis vegna sölu gistingar í fjölbýlishúsi verði kallað eftir umsögn húsfélags innan hússins.

3. Á miðsvæðum og verslunar- og þjónustusvæðum í þéttbýli verði jákvæð umsögn sveitarfélags háð því að sýnt sé fram á nægilegan fjölda bílastæða innan lóðar eða á nálægum almennum bílastæðum.

4. Í dreifbýli er jákvæð umsögn sveitarfélagsins háð því að umferð gesta sé ekki líkleg til að valda umtalsverðri truflun til nágranna. Það gildir m.a. um frístundahúsasvæði.

Byggingarfulltrúa er falið að veita umsagnir til sýslumanns skv. framangreindum reglum.

Með þessum reglum þessum falli út vinnureglur sem nefndin setti sér í október 2016. Vinnureglur þessar verði teknar til endurskoðunar í lok þessa árs.

10.Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra óskar eftir umsögn vegna rekstrarleyfis að Laxhúsum, Laxamýri 2.

Málsnúmer 201702067Vakta málsnúmer

Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra óskar eftir umsögn vegna rekstrarleyfis til sölu gistingar í fjórum nýbyggðum smáhýsum að Laxamýri 2.
Skipulags- og byggingarfulltrúa er heimilað að veita jákvæða umsögn til sýslumanns þegar öryggisúttekt húsanna hefur farið fram.

11.Umsókn um byggingarleyfi

Málsnúmer 201703048Vakta málsnúmer

Ingi Sveinbjörnsson, f.h. Bílaþjónustunnar ehf, óskar eftir leyfi til að setja iðnaðarhurð á Garðarsbraut 50 og byggja upp ramp til aðkomu. Fyrir liggur rissmynd af breytingunni og samþykki meðeiganda í húsinu.
Skipulags- og umhverfisnefnd fellst á framkvæmdina.

12.Faglausn ehf tilkynnir framkvæmdir fyrir hönd Gb5 ehf. Lyfja fer á 1. hæð austanvert.

Málsnúmer 201612067Vakta málsnúmer

Með tölvupósti dags. 13. febrúar s.l. fékk byggingarfulltrúi tilkynningu um framkvæmdir vegna breytinga á jarðhæð Garðarsbrautar 5. Þar er verið að innrétta aðstöðu fyrir lyfjaverslun.
Lagt fram til kynningar.

13.Ósk um niðurrif á viðbyggingum

Málsnúmer 201703062Vakta málsnúmer

Hvalasafnið óskar eftir heimild til að rífa tvær viðbyggingar við Hafnarstétt 1. Um er að ræða timburbyggingar norðan eldri byggingar. Þær eru í lélegu ásigkomulagi og í deiliskipulagi er gert ráð fyrir að þær víki.
Skipulags- og umhverfisnefnd fellst á að þessar byggingar verði fjarlægðar, enda ráð fyrir því gert í deiliskipulagi.

Fundi slitið - kl. 16:00.