Fara í efni

Covidpistill sveitarstjóra #15

Við erum öll búin að vera áhyggjufull vegna þeirra dæmalausu aðstæðna sem uppi hafa verið sl. mánuð. Það er hreint ekkert óeðlilegt við það enda aðstæðurnar viðsjárverðar, um stöðuna hefur ríkt mikil óvissa og takmarkanir á samskipti fólks í millum aukið á einsemd og kvíða margra. Ótti getur verið mikill og sterkur hvati til þess að breyta hegðun fólks. Það segir sagan okkur og reynsla okkar allra sennilega. Það er aftur á móti varasamt að óttinn ráði algjörlega för og því aðdáunarvert hvað skipstjórarnir þrír í brúnni hafa náð að hvetja þjóðina áfram án þess að auka á óttann sem margir bera undir niðri. Réttar upplýsingar, nægar upplýsingar, góðar útskýringar, húmor og auðmýkt hafa verið meðul þríeykisins sem líknað hefur ástandið umfram annað, að mínum dómi.

Nú erum við á þeim stað, hvort sem litið er til okkar litla samfélags í Norðurþingi eða í stærri samfélögin á höfuðborgarsvæðinu, að faraldurinn virðist vera á undanhaldi. Ótti fólks dvínar gagnvart vánni, sem er mjög jákvætt, en hvata til áframhaldandi eftirfylgni samkomubannsins og mikilvægrar sóttvarnahegðunar þarf engu að síður að viðhalda af miklum þrótti áfram. Við megum hvergi verða værukær nú þegar við finnum okkur í eftirsóknarverðri stöðu. Forsætisráðherra talaði í dag um síðustu brekkuna uppá tindinn, að hana þyrfti að klífa áður en við fögnum um of. Það má til sanns vegar fær. Við gætum líka verið að koma á harða spretti út úr síðustu beygjunni í 400 metra hlaupinu, eftir sterka 300 metra og markið blasir við. Enn getum við þó misstígið okkur, hrasað, dottið og ekki komist í mark. Það þarf ekki nema einn smitaðan einstakling sem fer víða og hittir fólk, til að leggja jafnvel heilt bæjarfélag í sóttkví. Munum það.

Það er jákvætt að óttinn við heilsufarslegt tjón stórs hluta þjóðarinnar sé á undanhaldi og við skulum leyfa okkur að hlakka til fallegu vordaganna þegar snjórinn hefur hvatt okkur og þegar við sjáum fyrstu tveggja stafa hitatölurnar. Við skulum leyfa okkur að hlakka til sumarfrísins sem við förum í innanlands í sumar, á staði sem við höfum jafnvel ekki áður komið á og eigum eftir að upplifa dásamlegar stundir með fjölskyldu og vinum. Við skulum gefa sjálfum okkur klapp á bakið fyrir hversu vel við höfum staðið okkur hingað til í baráttunni við veiruna. Sameinum þetta allt í öflugan hvata sem við nýtum áfram upp síðustu brekkuna, síðustu 100 metrana í hlaupinu okkar og gerum þetta almennilega fram til 4. maí.

Línudansinn á stultunum sem fólk og fyrirtæki þurfa að dansa næstu mánuði verður erfiður og mun taka á þótt faraldrinum verði bæjað frá að sinni. Það verður áskorun sem við tökum öll og neglum rétt eins og við erum búin að gera hingað til. Það er ekkert annað í boði, því við höfum séð hversu vel við getum staðið okkur þegar fjölskyldan, samfélagið, þjóðin stendur saman.

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri.