Fara í efni

Skipulags- og framkvæmdaráð

48. fundur 22. október 2019 kl. 14:00 - 15:55 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Silja Jóhannesdóttir formaður
  • Heiðar Hrafn Halldórsson aðalmaður
  • Hjálmar Bogi Hafliðason aðalmaður
  • Kristján Friðrik Sigurðsson áheyrnarfulltrúi
  • Guðmundur Halldór Halldórsson aðalmaður
  • Birna Ásgeirsdóttir varamaður
Starfsmenn
  • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfulltrúi
  • Gunnar Hrafn Gunnarsson framkv.- og þjónustufulltrúi
  • Hermína Hreiðarsdóttir Ritari
Fundargerð ritaði: Hermína Hreiðarsdóttir þjónustu- og skjalafulltrúi
Dagskrá
Hjalmar Bogi Hafliðason sat fundinn í fjarfundi.
Gaukur Hjartarson skipulags- og byggingarfulltrúi sat fundinn undir liðum 1-5.
Smári Jónas Lúðvíksson umhverfisstjóri sat fundinn undir liðum 3-6.

1.Breyting aðalskipulags vegna hjúkrunarheimilis.

Málsnúmer 201910111Vakta málsnúmer

Skipulags- og byggingarfulltrúi kynnti tillögu Alta að skipulagslýsingu fyrir breytingu aðalskipulags vegna nýbyggingar hjúkrunarheimilis á Húsavík.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að skipulagslýsingin verði kynnt eins og hún var lögð fram.

2.Umsókn um byggingarleyfi fyrir bílskúr að Tjarnarholti 6, Raufarhöfn.

Málsnúmer 201910129Vakta málsnúmer

Ríkarður Reynisson og Birna Björnsdóttir óska eftir byggingarleyfi fyrir bílskúr að Tjarnarholti 6 á Raufarhöfn. Teikningar eru unnar af Marínó Eggertssyni. Fyrir liggur grunnur að húsinu.
Skipulags- og framkvæmdaráð heimilar skipulags- og byggingarfulltrúa að veita byggingarleyfi þegar fyrir liggur skriflegt samþykki nágranna að Tjarnarholti 4.

3.Gjaldskrá hunda- og kattahalds 2020

Málsnúmer 201910031Vakta málsnúmer

Fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggja drög að gjaldskrá Hunda-og kattahalds í Norðurþingi fyrir árið 2020.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að samþykkja fyrirliggjandi gjaldskrá sem felur í sér almenna vísitöluhækkun.

4.Umhverfisstefna Norðurþings

Málsnúmer 201707063Vakta málsnúmer

Fyrir Skipulags- og framkvæmdaráði liggja drög að Umhverfisstefnu og aðgerðaáætlun henni að lútandi.
Lagt fram til kynningar.

5.Losun garðaúrgangs.

Málsnúmer 201812045Vakta málsnúmer

Umhverfisstjóri kynnir framkvæmd losunar garðaúrgangs sumarið 2019.
Umhverfisstjóri mætti á fundinn og gerði grein fyrir verkefninu sem hefur tekist vel. Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að leggja fyrir ráðið drög að fyrirkomulagi fyrir árið 2020.

6.Hraðatakmarkanir á Húsavík og annarra þéttbýlisstaða innan Norðurþings

Málsnúmer 201709113Vakta málsnúmer

Á 44. fundi Skipulags- og framkvæmdaráðs þann 24.9.2019 var eftirfarandi bókað:
Kristinn Jóhann Lund leggur til að tillaga skipulags- og framkvæmdaráðs um hraðatakmarkanir á Húsavík fari í íbúðasamráð í gegnum rafræna samráðsgátt. Samráðið verði sett af stað sem allra fyrst þannig að ráðið geti fjallað um umsagnir íbúa. Samráðið verði kynnt fyrir íbúum á vef sveitarfélagsins og facebooksíðu Norðurþings ásamt því að kynna það í öðrum staðbundnum miðlum.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir tillögu Kristins.
Skipulags- og framkvæmdaráð þarf að taka afstöðu til framkvæmdar við íbúasamráðið.
Skipulags- og framkvæmdaráð ákveður að leggja fram fyrirliggjandi mynd á betraisland.is þar sem íbúum verður boðið uppá að taka afstöðu til myndarinnar og koma með ábendingar og tillögur.

7.Raufarhöfn Varmadæla - Skrifstofa stjórnsýslu

Málsnúmer 201910125Vakta málsnúmer

Til kynningar fyrir skipulags- og framkvæmdaráð.
Sótt hefur verið um styrk til Orkusjóðs til fjármögnunar kaupa og uppsetningar á varmadælubúnaði í skrifstofuhúsnæði stjórnsýslu Norðurþings að Aðalbraut 23 á Raufarhöfn.
Lagt fram til kynningar.

8.Raufarhöfn Varmadæla - Áhaldahús og slökkvistöð

Málsnúmer 201910126Vakta málsnúmer

Til kynningar fyrir skipulags- og framkvæmdaráð.
Sótt hefur verið um styrk til Orkusjóðs til fjármögnunar kaupa og uppsetningar á varmadælubúnaði í áhaldahúsi og slökkvistöð Norðurþings á Raufarhöfn.
Lagt fram til kynningar.

9.Raufarhöfn Varmadæla - Hnitbjörg

Málsnúmer 201910127Vakta málsnúmer

Til kynningar fyrir skipulags- og framkvæmdaráð.
Sótt hefur verið um styrk til Orkusjóðs til fjármögnunar kaupa og uppsetningar á varmadælubúnaði í Hnitbjörgum, félagsheimili á Raufarhöfn í eigu Norðurþings.
Lagt fram til kynningar.

10.Fyrirspurn vegna skipulagsbreytinga á framkvæmdasviði

Málsnúmer 201910040Vakta málsnúmer

Fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggur fyrirspurn frá Hjálmari Boga Hafliðasyni, varðandi skipulagsbreytingar á framkvæmdasviði. Einnig liggur fyrir svar við umræddri fyrirspurn frá sveitarstjóra og framkvæmda- og þjónsutufulltrúa Norðurþings.
Svar við fyrirspurn Hjálmars Boga Hafliðasonar frá 8.10.2019

Fyrirspurn:
Undirritaður óskar eftir skriflegu svari vegna auglýsingar á nýju starfi sem varð til við sameiningu bæjarverkstjóra á Húsavík og umhverfisstjóra Norðurþings. Á fundi skipulags- og framkvæmdaráðs þann 11. júní síðastliðinn var samþykkt að auglýsa starfið laust til umsóknar.
a)
Hvar er vinna við auglýsingarferlið stödd?
b)
Hvaða áherslur liggja til grundvallar augýsingunni?
c)
Liggur fyrir erindisbréf vegna þessa nýja starfs?

Skipulags- og hagræðingaraðgerðirnar sem búið er að ráðast í á grunni ákvörðunar skipulags- og framkvæmdaráðs fyrr í sumar standa þannig: Þau verkefni sem voru á borði bæjarverkstjóra, sem nú hefur lokið störfum og kominn á eftirlaun, verður sinnt af öðrum starfsmönnum innan framkvæmdasviðsins og ekki er áformað að endurráða í þá stöðu heldur leggja það starf niður.
Ekki verður ráðið í starf það sem starfsmaður í áhaldahúsi sagði upp störfum á nú í sumar auk þess að einum starfsmanni hefur verið sagt upp störfum á grunni hagræðingar í rekstrinum.
Til að hagræðing náist fram er því mikilvægt að mati undirritaðra að gerður verði viðauki við starfslýsingu umhverfisstjóra sem gilda myndi út sumarið 2020, hvar honum verði falið að bera ábyrgð á verkstjórn þeirra tveggja starfsmanna sem eftir verða í þjónustumiðstöð sveitarfélagsins á Húsavík. Gerður verði einfaldur tímabundinn viðauki við starfslýsingu umhverfisstjóra um að látið verði reyna á hvort skipulagsbreytingarnar, undir þessum formerkjum hér að ofan geti gengið eftir.

Skipulagsbreytingarnar í Þjónustumiðstöð ganga einmitt út á að ekki verði formað nýtt starf yfirmanns þar, heldur að umhverfisstjóri sinni verkefnastjórn starfsmanna í þjónustumiðstöð, ásamt því að sinna yfirumsjón með umhverfisdeild sveitarfélagsins eftir sem áður.
Ýmis verkefni sem bæjarverkstjóri hefur sinnt til þessa, svo sem utanumhald með námum sveitarfélagsins, ýmiskonar verkutanumhald á gatnakerfinu, snjómokstur og annað verður á ábyrgð verkefnisstjóra á framkvæmdasviði, Jónasar Einarssonar.

Einu raunverulegu breytingarnar á starfi umhverfisstjóra eins og skipulagsbreytingarnar eru settar upp ganga út á að verkstýra tveimur auka starfsmönnum í þjónustumiðstöð á Húsavík sem sinna hálkuvörnum á gangstígum, hirðingu opinna svæða fyrir umhverfissviðið (sem umhverfisstjóri ber nú þegar ábyrgð á) og viðhaldi áhalda og búnaðar í þjónustumiðstöðinni.

Að mati undirritaðra gætir ákveðins misskilnings í fyrirspurninni sem og tillögu meirihluta nefndarinnar þegar staðhæft er að nýtt starf verði til við sameiningu bæjarverkstjóra á Húsavík og umhverfisstjóra Norðurþings. Skipulagsbreytingarnar ganga einmitt út á að nýtt starf verði ekki formað heldur sé aðeins um að ræða tilfærslu verkefna sem ekki útheimtir að umhverfisstjóra verði sagt upp störfum og það starf auglýst aftur laust til umsóknar.

Sveitarstjóri og framkvæmda- og þjónustufulltrúi leggja því eindregið til að umhverfisstjóra verði ekki sagt upp störfum og það starf auglýst til umsóknar, enda ráðgjöf til sveitarfélagsins hvað það varðar neikvæð og hefði ótæk áhrif á réttindi þess starfsmanns sem nú gegnir því starfi. Illa væri hægt að færa málefnaleg rök fyrir þeirri uppsögn. Í öllu falli er lagt upp með að umhverfisstjóri sinni verkstýringu í áhaldahúsinu á Húsavík út næsta sumar á meðan skipulagsbreytingarnar ganga yfir.

Að ofansögðu eru svör við fyrirspurn Hjálmars Boga eftirfarandi:
a)
Vinna við auglýsingaferlið, ef af verður er ekki hafið, enda lagt til að því verði í það minnsta frestað fram til hausts 2020.
b)
Áherslur í slíkri auglýsingu myndu byggja að stærstum hluta á núverandi starfslýsingu umhverfisstjóra.
c)
Erindisbréf, eða öllu heldur viðauki við starfslýsingu umhverfisstjóra yrði með eftirfarandi sniði:
„Frá 01.09.2019 tekur umhverfisstjóri við því hlutverki að stýra starfsmönnum og verkefnum þjónustumiðstöðvar á Húsavík í tengslum við skipulagsbreytingar innan einingarinnar sem nú ganga yfir. Umhverfisstjóri mun áfram vinna skv. þeirri starfslýsingu sem fram kemur í áður gerðum ráðningarsamningi frá 13.12.2017, að viðbættum þeim verkefnum sem aukin umsvif starfsins fela í sér er snýr að verkstjórn starfsmanna í þjónustumiðstöð. M.a. fela skipulagsbreytingarnar í sér að aðstaða umhverfissviðs Norðurþings færist í áhaldahúsið á Húsavík að Höfða 1, ásamt því að stjórnun starfsmanna þjónustumiðstöðvar, ábyrgð á vélum, tækjum og öðrum búnaði þjónustumiðstöðvar mun heyra undir umhverfisstjóra.

Gert er ráð fyrir að umhverfisstjóri sinni starfinu til samræmis við viðauka þennan í eitt ár til reynslu eða til 01.09.2020, en að þeim tíma liðnum verði sú tilhögun endurskoðuð m.t.t. árangurs af þeirri rekstrarhagræðingu sem stefnt er að og þeirrar reynslu sem þá mun liggja til grundvallar á endurskoðun þessa fyrirkomulags.“

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri,
Gunnar Hrafn Gunnarsson framkvæmda- og þjónustufulltrúi.

Undirritaðir vilja vekja athygli á því að þann 11. júní síðastliðinn var eftirfarandi tillaga samþykkt á fundi skipulags- og framkvæmdaráðs:
Undirritaðir leggja til að það starf sem verður til við sameiningu bæjarverkstjóra og umhverfisstjóra (áður garðyrkjustjóra) verði auglýst laust til umsóknar að loknum skipulagsbreytingum á framkvæmdasvæði, sem undirritaðir samþykkja.

Greinargerð: Undanfarin ár hafa verið uppi hugmyndir um endurskoðun Þjónustustöðvar á Húsavík og stofnaðir starfshópar þar um. Nú liggja fyrir tillögur að skipulagsbreytingum sem er mikilvægt að séu sýnilegar. Sömuleiðis þarf erindisbréf fyrir nýtt starf að liggja fyrir. Nýtt starf sem sameinar bæjarverkstjóra á Húsavík og Umhverfisstjóra (áður garðyrkjustjóra) Norðurþings er ábyrgðarmikið starf og felur í sér nokkur mannaforráð. Það samræmist góðum starfsháttum að auglýsa slíkt starf laust til umsóknar.

Síðan þá hefur ráðið ekki fengið upplýsingar um stöðu mála og óskaði Hjálmar Bogi Hafliðason eftir skriflegu svari vegna málsins sem hljóðar svo:
Undirritaður óskar eftir skriflegu svari vegna auglýsingar á nýju starfi sem varð til við sameiningu bæjarverkstjóra á Húsavík og umhverfisstjóra Norðurþings. Á fundi skipulags- og framkvæmdaráðs þann 11. júní síðastliðinn var samþykkt að auglýsa starfið laust til umsóknar.
a)
Hvar er vinna við auglýsingarferlið stödd?
b)
Hvaða áherslur liggja til grundvallar auglýsingunni?
c)
Liggur fyrir erindisbréf vegna þessa nýja starfs?

Ljóst má vera að ekki var farið eftir niðurstöðu tillögunnar er varðar auglýsingu starfsins, enda þótt málið hafi verið kynnt og staðfest á 93. fundi sveitarstjórnar þann 18. júní síðastliðinn. Þess í stað hefur verið unnið þvert gegn niðurstöðu ráðsins sem er ámælisvert og skortur á vandaðri stjórnsýslu.

Heiðar Hrafn Halldórsson, Hjálmar Bogi Hafliðason og Kristján Friðrik Sigurðsson.

Silja Jóhannesdóttir óskar bókað: Í svari sveitarstjóra kemur fram að stefnt er að auglýsa starfið eftir að skipulagsferli lýkur næsta ár en lagt var til að starfið yrði laust til umsóknar að loknum skipulagsbreytingum sem enn er ekki lokið skv. Framkvæmda- og þjónustufulltrúa. Í ljósi þess er ekki verið að vinna gegn ákvörðun ráðsins.


Fundi slitið - kl. 15:55.