Fara í efni

Skipulags- og framkvæmdaráð

123. fundur 05. apríl 2022 kl. 13:00 - 15:35 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Benóný Valur Jakobsson formaður
  • Kristinn Jóhann Lund varaformaður
  • Eysteinn Heiðar Kristjánsson aðalmaður
  • Hjálmar Bogi Hafliðason aðalmaður
  • Kristján Friðrik Sigurðsson áheyrnarfulltrúi
  • Nanna Steina Höskuldsdóttir varamaður
Starfsmenn
  • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfulltrúi
  • Þórir Örn Gunnarsson hafnarstjóri
  • Hermína Hreiðarsdóttir Ritari
  • Jónas Hreiðar Einarsson framkv.- og þjónustufulltrúi
Fundargerð ritaði: Hermína Hreiðarsdóttir þjónustu- og skjalafulltrúi
Dagskrá
Þórir Örn Gunnarsson hafnastjóri sat fundinn undir liðum 1-2.

1.Verkefni vegna innleiðingar hringrásarkerfis

Málsnúmer 202111014Vakta málsnúmer

Fyrir fundinum er kynning á verkefninu innleiðingar hringrásarkerfis. Smári Jónas verkefnastjóri hjá SSNE kom á fundinn til að kynna stöðu verkefnisins.
Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar Smára fyrir kynninguna og felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að vinna áfram að verkefninu og skila minnisblaði á fyrsta fundi ráðsins eftir páska.

2.Íslandsþari ehf. óskar eftir úthlutun lóða á hafnarsvæði H2 við Norðurgarð

Málsnúmer 202203126Vakta málsnúmer

Íslandsþari ehf. óskar eftir úthlutun um 10.000 m² lóðar á hafnarsvæði H2 við Húsavíkurhöfn. Um er að ræða landfyllingu vestan við nýlega byggða slökkvistöð sveitarfélagsins. Í deiliskipulagi eru skilgreindar á þessu svæði lóðirnar Norðurgarður 7 og 9 auk þess sem bæta þyrfti við landi þar vestan við til að uppfylla plássþörf fyrirtækisins. Úthlutun lóðarinnar er háð breytingu á deiliskipulagi. Horft er til þess að byggja allt að 6.000 m² vinnsluhúsnæði á lóðinni. Umsókn er gerð með fyrirvara um niðurstöðu úr matsskylduferli. Í umsókn kemur fram rökstuðningur umsækjanda fyrir því að svæði á H2 sé heppilegra fyrir fyrirtækið en fyrirliggjandi landfylling í Suðurfjöru (A3). Í erindi er þess óskað að sérstakt samkomulag verði gert milli umsækjanda, sveitarfélags, hafnaryfirvalda og veitna um uppbyggingu lóðarinnar.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að Íslandsþara verði veitt vilyrði fyrir 10.000 m² lóð á óráðstafaðri landfyllingu á hafnarsvæði H2. Endanleg úthlutun lóðarinnar er háð því að deiliskipulagsbreyting sem heimilar byggingaráform fyrirtækisins taki gildi.

Varðandi sérstakt samkomulag milli aðila um uppbyggingu lóðarinnar vísar skipulags- og framkvæmdaráð erindi til byggðaráðs og Orkuveitu Húsavíkur.

3.Ósk um óverulega breytingu á deiliskipulagi Jökulsárgljúfur

Málsnúmer 202203140Vakta málsnúmer

Vatnajökulsþjóðgarður óskar eftir að Norðurþing samþykki tillögu að breytingu deiliskipulags við bílastæði á Langavatnshöfða. Í gildandi deiliskipulagi er gert ráð fyrir snyrtihúsi við bílastæðið en tillaga að breytingu gerir ráð fyrir að afmörkuð verði 315,3 m² lóð og byggingarreitur fyrir allt að 100 m² salernishúsi við bílastæðið. Þess er óskað að breyting deiliskipulagsins verði samþykkt sem óveruleg skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga.
Skipulags- og framkvæmdaráð tekur undir sjónarmið Vatnajökulsþjóðgarðs um að framlögð breyting teljist óveruleg með vísan til 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Ráðið telur að breyting skipulagsins varði ekki hagsmuni annara en landeiganda og sveitarfélags. Með vísan til 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga telur ráðið því ekki tilefni til grenndarkynningar á skipulagsbreytingunni. Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að skipulagsbreytingin verði samþykkt sem óveruleg eins og hún er lögð fram og að skipulags- og byggingarfulltrúa verði falið að vinna að gildistöku hennar.

4.Deiliskipulag Fiskeldið Haukamýri

Málsnúmer 202202058Vakta málsnúmer

Nú er lokið kynningu skipulagslýsingar vegna fiskeldis í Haukamýri við Húsavík. Umsagnir og athugasemdir bárust frá Fiskistofu (30. mars), Samgöngustofu (29. mars), Vegagerðinni (28. mars), Skipulagsstofnun (24. mars), Veðurstofu Íslands (24. mars), Umhverfisstofnun (24. mars), Náttúrufræðistofnun Íslands (23. mars), Náttúruverndarnefnd Þingeyinga (17. mars), Minjastofnun (15. mars) og Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra (22. mars).
Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar þær umsagnir sem bárust og felur skipulagsráðgjafa að hafa þær til hliðsjónar við mótun tillögu að deiliskipulagi svæðisins.

5.Beiðni um umsögn vegna eldisstöðvar á Röndinni á Kópaskeri

Málsnúmer 202203119Vakta málsnúmer

Skipulagsstofnun óskar umsagnar Norðurþings skv. 16. gr. reglugerðar nr. 1381/2021 um mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðrar aukningar fiskeldis á Röndinni á Kópaskeri. Fyrir liggur umhverfismatsskýrsla unnin af Eflu hf verkfræðistofu dags. 1. mars 2022. Skv. skýrslunni er áformað að framleiða allt um 8.800 tonn af laxaseiðum á ári á lóð fyrirtækisins. Framleiðslan fari fram á fjórum kerjapöllum til samræmis við ákvæði fyrirliggjandi deiliskipulags svæðisins. Niðurstaða umhverfismatsskýrslu er að framkvæmdin muni hafa talsverð neikvæð áhrif á tvo umhverfisþætti sem metnir voru í umhverfismatinu. Annarsvegar á grunnvatn og vatnafar en hinsvegar á fuglalíf. Helstu mótvægisaðgerðir sem horft er til er sláttur eða beit á lúpínu til að bæta kjörlendi varpfugla og dreifing á vatnstöku til að draga úr staðbundnu álagi. Áhrif framkvæmdar á fornleifar, náttúruverndarsvæði, lyktarmengun, útivist og upplifun og sjónræn áhrif eru talin óveruleg.
Skipulags- og framkvæmdaráð Norðurþings telur að framkvæmdinni, umhverfi hennar, umhverfisáhrifum og mótvægisaðgerðum sé lýst á fullnægjandi hátt í greinargerð. Uppbyggingaráform eru í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins sem sveitarstjórn hefur samþykkt. Uppbygging svæðisins er þegar hafin með uppbyggingu tveggja húsa auk annarra innviða lóðarinnar. Fiskeldi er þegar hafið í einu húsi. Frekari uppbygging er háð framkvæmdaleyfi og byggingarleyfi af hálfu sveitarfélagsins.

6.Ósk um umsögn vegna tillögu að svæðisskipulagi Austurlands 2022-2044

Málsnúmer 202203120Vakta málsnúmer

Svæðisskipulagsnefnd SSA kynnir tillögu að svæðisskipulagi Austurlands og tilheyrandi umhverfismatsskýrslu. Athugasemdafrestur er til 21. apríl n.k. Óskað er umsagnar Norðurþings um skipulagstillöguna.
Skipulags- og framkvæmdaráð gerir ekki athugasemdir við skipulagstillöguna.

7.Jötunverk ehf.sækir um lóð að Hraunholti 22-24

Málsnúmer 202203121Vakta málsnúmer

Jötunverk ehf óskar eftir lóðinni að Hraunholti 22-24 til uppbyggingar parhúss.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að Jötunverki verði úthlutað lóðinni að Hraunholti 22-24.

8.Jötunverk ehf.sækir um lóð að Hraunholti 26-28

Málsnúmer 202203122Vakta málsnúmer

Jötunverk ehf óskar eftir lóðinni að Hraunholti 26-28 til uppbyggingar parhúss.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að Jötunverki verði úthlutað lóðinni að Hraunholti 26-28.

9.Ósk um umsögn um rekstrarleyfi vegna Húsavík Cape Hótel

Málsnúmer 202203134Vakta málsnúmer

Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra óskar umsagnar vegna breytinga á rekstrarleyfi.
Skipulags- og framkvæmdaráð veitir jákvæða umsögn um erindið.

10.Ósk um stofnun lóðar í kringum íbúðarhús á Höfða við Raufarhöfn

Málsnúmer 202203116Vakta málsnúmer

Nanna Steina Höskuldsdóttir og Steinþór Friðriksson óska samþykkis fyrir stofnun lóðar umhverfis gamla íbúðarhúsið á Höfða sunnan Raufarhafnar. Þess er ennfremur óskað að lóðinni verði skipt út úr jörðinni. Meðfylgjandi umsókn er hnitsett lóðarblað. Ný lóð fái heitið Höfði 3.
Nanna Steina vék af fundi undir þessum lið.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að stofnun lóðarinnar og útskipti hennar úr jörðinni verði samþykkt. Jafnframt verði nafn nýju lóðarinnar, Höfði 3, samþykkt.

11.Félagar í Miðjunni hæfingu óska eftir aðstöðu i Kvíabekk til að starfrækja kaffihús sumarið 2022

Málsnúmer 202203137Vakta málsnúmer

Félagar í Miðjunni hæfingu óska eftir að fá að starfrækja kaffihús í Kvíabekk með sama sniði og gert var sumarið 2021. Óskað er afstöðu skipulags- og framkvæmdaráðs til erindisins.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir að leyfa Miðjunni hæfingu að nota Kvíabekk sem kaffihús sumarið 2022.

12.Framtíðarsýn um opinberar byggingar á Raufarhöfn

Málsnúmer 202110160Vakta málsnúmer

Til kynningar eru teikningar af breytri notkun af skólahúsinu á Raufarhöfn.
Lagt fram til kynningar. Skipulags- og framkvæmdaráð sendir teikningar til kynningar og umræðu í Fjölskylduráði.


13.Ósk um úrbætur í námsveri Borgarhólsskóla

Málsnúmer 202203144Vakta málsnúmer

Fyrir Skipulags- og framkvæmdaráði liggur beiðni frá Borgarhólsskóla um bættan aðbúnað í námsveri skólans.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur þjónustu- og framkvæmdafulltrúa að þarfagreina og kostnaðarmeta verkið.

14.Gatnagerðargjöld í Norðurþingi

Málsnúmer 202204006Vakta málsnúmer

Fyrir fundinum eru samþykktir Norðurþings um gatnagerðagjöld.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 15:35.