Fara í efni

Skipulags- og framkvæmdaráð

134. fundur 27. september 2022 kl. 13:00 - 16:40 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
 • Soffía Gísladóttir formaður
 • Kristinn Jóhann Lund aðalmaður
 • Eysteinn Heiðar Kristjánsson aðalmaður
 • Áki Hauksson aðalmaður
 • Aldey Unnar Traustadóttir varamaður
  Aðalmaður: Kolbrún Heiða Valbergsdóttir
 • Ísak Már Aðalsteinsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
 • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfulltrúi
 • Hermína Hreiðarsdóttir Ritari
 • Jónas Hreiðar Einarsson framkv.- og þjónustufulltrúi
 • Ketill Gauti Árnason starfsmaður í stjórnsýslu
Fundargerð ritaði: Hermína Hreiðarsdóttir þjónustu- og skjalafulltrúi
Dagskrá

1.Fjárhagsáætlun sviða Norðurþings 2022

Málsnúmer 202209008Vakta málsnúmer

Bergþór Bjarnason fjármálastjóri kom á fundinn undir þessum lið.
Lagt fram til kynningar.

2.Söluheimild Eigna, Félagsleg Íbúð

Málsnúmer 202209004Vakta málsnúmer

Verkefnastjóri á framkvæmdasviði óskar eftir söluheimild vegna fyrirhugaðrar sölu fasteignar að Lindarholti 6, Raufarhöfn.

Fjölskylduráð bókaði eftirfarandi á fundi sínum 13. september 2022:
Fjölskylduráð samþykkir sölu á Lindarholti 6, Raufarhöfn.
Skipulags-og framkvæmdaráð samþykkir að Lindarholt 6, Raufarhöfn verði sett í söluferli og felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að hefja söluferlið.

3.Sala á eldri bifreiðum og tækjum

Málsnúmer 202201021Vakta málsnúmer

Fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggur ósk um söluheimild á vinnuvél í eigu Norðurþings.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að hefja söluferli á vinnuvélinni.

4.Afsláttur af gatnagerðagjöldum í Norðurþingi.

Málsnúmer 201807070Vakta málsnúmer

Framlenging á afslætti af gatnagerðargjöldum af ákveðnum lóðum í Norðurþingi.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að boðinn verði áframhaldandi 50% afsláttur frá gildandi gjaldskrá af gatnagerðargjöldum eftirtalinna lóða svo fremi að fokheldisstigi bygginga verði náð fyrir árslok 2024. Lóðir sem afsláttur nái til séu: Lyngbrekka 6, 8, 9 og 11. Ennfremur verði boðinn 100% afsláttur af gatnagerðargjöldum fyrir lóðina að Urðargerði 5 svo fremi að fokheldisstigi byggingar verði náð fyrir árslok 2024. Afsláttur af öðrum lóðum fellur niður um komandi áramót til samræmis við fyrri ákvörðun.

5.Ósk um upplýsingar um stöðu mála varðandi húsnæði frístundaheimilisins Túns

Málsnúmer 202209089Vakta málsnúmer

Fyrir hönd V-listans óskar Aldey Unnar Traustadóttir eftir upplýsingum um stöðu mála varðandi húsnæði frístundaheimilisins Túns.
Farið var yfir stöðu mála varðandi húsnæði frístundaheimilisins Túns.

6.Húsnæði fyrir frístund barna

Málsnúmer 202111135Vakta málsnúmer

Soffía, Eysteinn og Kristinn leggja til að skoðað verði að byggja frístunda- og ungmennahús við vesturenda Íþróttahallarinnar á Húsavík sbr. meðfylgjandi teikningu. Slíkt húsnæði myndi hýsa bæði frístundastarfsemi og félagsmiðstöð. Að auki yrðu samlegðaráhrif með þörf íþróttahallar á geymsluplássi sem yrði komið fyrir í kjallara nýbyggingarinnar.
Samhliða kostnaðarmati við nýbyggingu frístunda- og ungmennahúss verði núverandi kostnaðarmat við niðurrif og förgun Túns, Miðgarðs 4 haft til hliðsjónar ásamt því að óska eftir verðmati í eignina.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir tillöguna og vísar henni til umfjöllunar í fjölskylduráði.

Aldey, Áki og Ísak óska bókað:
Fulltrúar M-, S- og V- lista fagna umræðu um húsnæði undir frístund en á sama tíma erum við hugsi yfir hversu hægt þessu máli hefur fleytt fram. Einnig lýsum við yfir áhyggjum af samráðsleysi við hagsmunaaðila í þessu máli, skóla, frístundar og íþróttafélagsins Völsungs. Staða húsnæðismála fyrir Frístund hefur verið í ólestri allt of lengi og núverandi tillaga býr enn og aftur til húsnæðisvanda á meðan á fyrirhuguðum framkvæmdum stendur. Æskilegt væri að móta heildstæða stefnu í skóla-, frístundar- og íþróttamálum samhliða þessari ákvörðun.

7.Búðarvöllur

Málsnúmer 202203012Vakta málsnúmer

Fyrir Skipulags- og framkvæmdaráði liggja niðurstöður forkönnunar á fornleifarannsóknum á Búðarvöllum frá Fornleifastofnun Íslands
Minjavörður hefur óskað eftir fundi með starfsfólki sveitarfélagsins.
Lagt fram til kynningar.

8.Ósk um heimild til að breyta deiliskipulagi fyrir fiskeldisstöðina Röndina á Kópaskeri

Málsnúmer 202208025Vakta málsnúmer

Fyrir liggur tillaga að breytingu deiliskipulags fiskeldis á Röndinni á Kópaskeri. Eftir breytinguna er horft til þess að hámarkslífmassi fiskeldisstöðvarinnar aukist úr 400 tonnum í 2.700 tonn af laxi. Breyting felst í að nýtingarland vegna vatnstöku til fiskeldisins er skilgreint á uppdrætti. Við það stækkar skipulagssvæði um 1,2 ha. Gert er ráð fyrir 24 borholum til vatnstöku sem ýmist verða innan núverandi byggingarlóðar eða á nýtingarsvæðinu. Ekki er gert ráð fyrir öðrum mannvirkjum á nýtingarsvæðinu en borholunum og niðurgrafinni lögn frá þeim að fiskeldismannvirkjunum. Með stækkun eldisins vex jafnaðarvatnsþörf úr 150 l/sek í 980 l/sek á ársgrunni en vatnstaka yrði mest 2.160 l/sek í takmarkaðan tíma. Samhliða aukinni vatnstöku er gert ráð fyrir vöktun á grunnvatnsstöðu og vatnsstöðu yfirborðsvatns. Viðbragðsáætlun verður virkjuð sannist að vatnstaka hafi neikvæð áhrif á stöðu yfirborðsvatns á svæðinu. Breyttir byggingarskilmálar fela í sér að heimilt yrði að byggja yfir ker í fleiri húsum á óbyggðum byggingarreitum en gildandi skipulag gerir ráð fyrir, þ.e. allt að fjórum húsum á hvorum byggingarreit.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að skipulagsbreytingin verði kynnt skv. ákvæðum skipulagslaga.

9.Beiðni um umsögn vegna fiskeldis Rifós hf.að Röndinni á Kópaskeri

Málsnúmer 202209044Vakta málsnúmer

Matvælastofnun óskar umsagnar Norðurþings um hvort náttúrulegar aðstæður á fyrirhuguðu starfssvæði fiskeldisstöðvar eða fyrirhugaðar eldistegundir, eldisstofnar eða eldisaðferðir gefi tilefni til neikvæðra vistfræði- eða erfðafræðiáhrifa sem leitt getur af leyfisskyldri starfsemi.
Skipulags- og framkvæmdaráð telur ekki tilefni til að ætla að starfsemi Rifóss á Röndinni hafi neikvæð vistfræði- eða erfðafræðiáhrif.

10.Ósk um stækkun lóðar að Garðarsbraut 6

Málsnúmer 202209045Vakta málsnúmer

Veitingahúsið Setberg óskar eftir lóðarstækkun til suðurs frá núverandi lóð Garðarsbrautar 6 sem nemur bílastæðum að innkeyrslu frá Garðarsbraut.
Skipulags- og framkvæmdaráð telur mikilvægt að umrædd bílastæði verði áfram almenn og fellst því ekki á umbeðna lóðarstækkun.

11.Umsókn um lóð að Stakkholti 7

Málsnúmer 202209049Vakta málsnúmer

Einar Páll Þórisson óskar eftir að fá lóðina að Stakkholti 7 úthlutaða til uppbyggingar einbýlishúss.
Skv. grein 3.1.1 í Vinnureglum um lóðaveitingar sem birt er á heimasíðu sveitarfélagsins hafa einstaklingar forgang við úthlutun einbýlishúsalóða. Á þeim grunni leggur skipulags- og framkvæmdaráð til við sveitarstjórn að Einari Páli verði úthlutað lóðinni að Stakkholti 7.

12.Bolverk ehf.sækir um lóð að Stakkholti 7

Málsnúmer 202209055Vakta málsnúmer

Bolverk ehf óskar eftir að fá lóðina að Stakkholti 7 úthlutaða til uppbyggingar einbýlishúss.
Skv. grein 3.1.1 í Vinnureglum um lóðaveitingar sem birt er á heimasíðu sveitarfélagsins hafa einstaklingar forgang við úthlutun einbýlishúsalóða. Í ljósi þess hefur skipulags- og framkvæmdaráð gert tillögu um að þessari lóð verði úthlutað til annars umsækjanda.

13.Skipulagsnámskeið

Málsnúmer 202206128Vakta málsnúmer

Námskeið um skipulagsvinnu fyrir kjörna fulltrúa verður haldið á sveitarstjórnarskrifstofu Norðurþings fimmtudaginn 29. september. Þar mun Hrafnhildur Brynjólfsdóttir hjá Eflu kynna lagaumhverfi og ferli skipulagsmála.
Lagt fram til kynningar.

14.Beiðni um umsögn vegna jarðstrengs frá Þeistareykjum að Kópaskerslínu 1

Málsnúmer 202208013Vakta málsnúmer

Skipulagsstofnun hefur komist að þeirri niðurstöðu að fyrirhuguð framkvæmd Landsnets við lagningu jarðstrengs frá Þeistareykjum að Kópaskerslínu sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Stofnunin kynnti þessa niðurstöðu sína með bréfi dags. 21. september s.l.
Niðurstaða Skipulagsstofnunnar var lögð fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 16:40.