Fara í efni

Skipulags- og framkvæmdaráð

186. fundur 16. apríl 2024 kl. 13:30 - 16:25 í fundarsal GB5
Nefndarmenn
  • Soffía Gísladóttir formaður
  • Kristinn Jóhann Lund aðalmaður
  • Aldey Unnar Traustadóttir varamaður
  • Stefán Haukur Grímsson varamaður
  • Reynir Ingi Reinhardsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfulltrúi
  • Hermína Hreiðarsdóttir Ritari
  • Ketill Gauti Árnason starfsmaður í stjórnsýslu
  • Elvar Árni Lund sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs
Fundargerð ritaði: Hermína Hreiðarsdóttir stjórnsýslufulltrúi
Dagskrá
Ketill Gauti Árnason verkefnastjóri sat fundinn undir lið 1.
Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri sat fundinn undir lið 7.
Aðalmaður og varamaður M lista boðuð forföll.

Sigríður Sigþórsdóttir og Ástríður Magnúsdóttir arkitektar hjá Basalt sátu fundinn undir lið 1.

1.Borgarhólsskóli - viðbygging, Fjölnotahúsnæði

Málsnúmer 202311123Vakta málsnúmer

Sigríður Sigþórsdóttir og Ástríður Magnúsdóttir arkitektar hjá Basalt arkitektum mættu á fundinn og kynntu drög að hönnun á fjölnota húsnæði við Borgarhólsskóla.
Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar Sigríði og Ástríði fyrir kynninguna.

2.Fundargerðir starfshóps vegna vinnu við aðalskipulag Norðurþings

Málsnúmer 202303083Vakta málsnúmer

Kynntar voru fimm síðustu fundargerðir starfshóps vegna vinnu við endurskoðun aðalskipulags. Fundirnir voru haldnir 30. nóvember, 14. desember, 25. janúar, 19. febrúar og 21. mars.
Fundargerðir lagðar fram og ræddar.

3.Breyting á deiliskipulagi fyrir Röndina fiskeldi

Málsnúmer 202404064Vakta málsnúmer

Fyrir liggur tillaga skipulagsráðgjafa að breytingu deiliskipulags fiskeldis á Röndinni á Kópaskeri. Tillagan felur í sér nýja vegtengingu inn á eldissvæðið sem tengist þjóðvegi gegnt Kotatjörn. Markmið með breytingu deiliskipulagsins er að draga úr umferð stóra ökutækja í gegn um byggðina á Kópaskeri og jafnframt að létta umferðarálagi af Röndinni.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur skipulagsfulltrúa að kynna deiliskipulagsbreytinguna samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga.

4.Breyting deiliskipulags Stórhóll- Hjarðarholt

Málsnúmer 202311126Vakta málsnúmer

Fyrir liggja frumhugmyndir skipulagsráðgjafa að þéttingu byggðar á skipulagssvæðinu. Hugmyndirnar fela í sér uppbyggingu allt að 42 nýrra íbúða í fjölbýlishúsum, raðhúsum og einbýlishúsum innan skipulagssvæðisins auk þess sem skipulagið opni á fjölgun íbúða innan þegar byggðra húsa.
Skipulags- og framkvæmdaráð telur rétt að fella út á þessu stigi fjögur lítil fjölbýlishús út af lóðum framan eldri fjölbýlishúsa við Garðarsbraut. Ráðið felur skipulagsfulltrúa að láta vinna nánar tillögu að breytingu deiliskipulags á grunni fyrirliggjandi tillögu. Ráðið telur rétt að vinna með tvö þriggja hæða fjölbýlishús austanvert á Hjarðarholtstúni. Ennfremur leggur ráðið til að skoðað verði hvort hagkvæmt sé að gera ráð fyrir litlu fjölbýlishúsi sunnan Garðarsbrautar 79-83 í stað húss sem teiknað er við gatnamót Garðarsbrautar og Þverholts.

5.Umsókn um breytingu á deiliskipulagi Holtahverfis

Málsnúmer 202404037Vakta málsnúmer

Sveinn Veigar Hreinsson óskar eftir að gerð verði deiliskipulagsbreyting í Holtahverfi sem heimili uppbyggingu þriggja íbúða raðhúsa á einni hæð í fjórum lóðum við Hraunholt sem ætlaðar eru í gildandi deiliskipulagi undir fjögurra íbúða fjölbýlishús á tveimur hæðum. Lóðir sem um ræðir eru Hraunholt 11-13, 15-17, 19-21 og 23-25.
Skipulags- og framkvæmdaráð telur rétt að horfa til uppbyggingar tveggja hæða fjölbýlishúsa á lóðunum að Hraunholti 11-13, 15-17, 19-21 og 23-25. Ráðið hafnar því erindinu.

6.Umsókn um byggingarleyfi fyrir sauðburðaraðstöðu að Reykjavöllum

Málsnúmer 202404063Vakta málsnúmer

Hilmar Kári Þráinsson, f.h. Litlu-Reykja ehf óskar byggingarleyfis fyrir sauðburðaraðstöðu á Reykjavöllum. Með erindi fylgja aðalteikningar unnar af Hallgrími Inga Jónssyni hjá Stoð ehf verkfræðistofu. Húsið er stálgrindarskemma klædd PIR stálsamlokueiningum. Húsið yrði 346,9 m² að grunnfleti og 1.854 m3 að rúmmáli. Fyrir liggur jákvæð umsögn eldvarnareftirlits.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir erindið og heimilar byggingarfulltrúa að veita byggingarleyfi þegar fullnægjandi gögnum þar að lútandi hefur verið skilað.

7.Gjaldtaka á bílastæðum í miðbænum og á hafnarsvæði

Málsnúmer 202311017Vakta málsnúmer

Á 461. fundi byggðarráðs 11. apríl 2024, var eftirfarandi bókað: Byggðarráð felur sveitarstjóra að vinna að stofnun Bílastæðasjóðs Norðurþings og vísar frekara skipulagi og útfærslu gjaldskyldra bílastæða til skipulags- og framkvæmdaráðs.
Skipulags- og framkvæmdaráð vísar erindinu til umfjöllunar í Stjórn hafnasjóðs og lokaútfærslu í byggðarráði. Sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs er falið að vinna málið áfram með sveitarstjóra.

8.Refa- og minkaveiði í Norðurþingi

Málsnúmer 202210111Vakta málsnúmer

Sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs kynnti fyrir skipulags- og framkvæmdaráði tillögu að samningum við refaveiðimenn á Norðurþingi.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs að ganga til samninga við refaveiðimenn á þeim forsendum sem fram koma í tillögu sviðsstjóra og voru kynntar fyrir ráðinu.

Fundi slitið - kl. 16:25.