Skipulags- og umhverfisnefnd

23. fundur 13. desember 2017 kl. 16:15 - 19:00 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Sif Jóhannesdóttir formaður
  • Röðull Reyr Kárason aðalmaður
  • Örlygur Hnefill Örlygsson varaformaður
  • Soffía Helgadóttir aðalmaður
  • Jónas Hreiðar Einarsson aðalmaður
  • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfulltrúi
Fundargerð ritaði: Gaukur Hjartarson Skipulags- og byggingafulltrúi
Dagskrá

1.Breyting á deiliskipulagi Rifóss.

201712046

Rifós hf óskar heimildar til að gera tillögu að breytingu deiliskipulags fyrir kvíaeldisstöð Rifóss að Lóni Í Kelduhverfi. Vilji stendur til að fjölga eldiskerjum utanhúss. Ekki er þó gert ráð fyrir framleiðslu umfram fyrirliggjandi heimildir heldur er beiðnin tilkomin vegna breyttra áherslna í framleiðslunni.
Skipulags- og umhverfisnefnd tekur vel í hugmyndir að breytingum deiliskipulags og gerir ekki athugasemdir við að Rifós láti vinna tillögu að skipulagsbreytingum til að leggja fyrir nefndina.

2.Fakta Bygg AS sækir um lóðina að Vitaslóð 2 undir hótel.

201711054

Erindið var áður til umfjöllunar á fundi nefndarinnar í nóvember og þá ákveðið að bjóða þeim tveimur aðilum sem sækjast eftir lóðinni að kynna sínar hugmyndir að nýtingu lóðarinnar. Fulltrúar beggja aðila kynntu sínar hugmyndir fyrir nefndinni fyrr í dag. Skipulags- og umhverfisnefnd þakkar kynningarnar. Jónas vék af fundi við umfjöllun þessara tveggja erinda.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að samið verði við Fakta Bygg um að lóðin að Vitaslóð 2 verði frátekin fyrir Fakta Bygg til loka apríl 2019 meðan fyrirtækið þróar sínar hugmyndir að uppbyggingu lóðarinnar.

3.Sjóböðin óska eftir framlengingu á forgangi á hótellóð að Vitaslóð 2.

201711034

Erindið var áður til umfjöllunar á fundi nefndarinnar í nóvember og þá ákveðið að bjóða þeim tveimur aðilum sem sækjast eftir lóðinni að kynna sínar hugmyndir að nýtingu lóðarinnar. Fulltrúar beggja aðila kynntu sínar hugmyndir fyrir nefndinni fyrr í dag. Skipulags- og umhverfisnefnd þakkar kynningarnar. Jónas vék af fundi við umfjöllun þessara tveggja erinda.
Skipulags- og umhverfisnefnd hefur lagt það til við sveitarstjórn að Fakta Bygg verði veitt vilyrði fyrir lóðinni til loka apríl 2019. Nefndin er því ekki reiðubúin að framlengja forgang Sjóbaðanna fyrir lóðinni.

4.Umsókn um byggingarleyfi að Stakkholti 5

201712014

Kristinn Jóhann Ásgrímsson óskar byggingarleyfis fyrir einbýlishúsi að Stakkholti 5. Um er að ræða steinsteypt hús, einangrað að utan og klætt múrklæðningu. Brúttóflötur húss er 263,0 m² og rúmmál 1.078,3 m3. Húsið er teiknað af Ragnari Hermannssyni byggingarfræðingi.
Skipulags- og umhverfisnefnd fellst á húsbygginguna og heimilar skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi fyrir húsinu þegar öll tilskilin gögn hafa borist.

5.Umhverfisstofnun óskar umsagnar um olíubirgðastöð Skeljungs á Raufarhöfn.

201711113

Umhverfisstofnun óskar umsagnar Norðurþings um endurnýjun starfsleyfis fyrir olíubirgðastöð Skeljungs á Síldarverksmiðjulóð á Raufarhöfn. Ekki er verið að breyta neinum verulegum þáttum í starfseminni. Heildarrýmd stöðvarinnar verður 2.213 m3 og þar af eru 1.140 m3 í stærsta geymi undir skipadísilolíu. Ekki liggur fyrir deiliskipulag af svæðinu. Olíubirgðastöðin er á blönduðu athafna- og hafnasvæði A3/H2 skv. gildandi aðalskipulagi.
Skipulags- og umhverfisnefnd telur að umrædd olíubirgðastöð falli að ákvæðum aðalskipulags fyrir A3/H2. Fyrirhuguð notkun fyrirliggjandi mannvirkja er í samræmi við núverandi skráningu þeirra. Nefndin felur því skipulags- og byggingarfulltrúa að veita jákvæða umsögn um erindið.

6.Sveinn Hreinsson og Björg Björnsdóttir sækja um lóð í landi Saltvíkur.

201711122

Sveinn Hreinsson og Björg Björnsdóttir óska eftir stofnun og úthlutun byggingarlóðar fyrir einbýlishús í landi Saltvíkur. Í því samhengi minna þau á hugmyndir um skipulagningu íbúðahúsalóða á svæðinu við síðustu endurskoðun aðalskipulags.
Skipulags- og umhverfisnefnd er ekki reiðubúin á þessu stigi að hefja skipulagsvinnu við nýtt íbúðarhúsasvæði við Saltvík. Nefndin tekur þó undir sjónarmið umsækjenda um að ástæða kunni að vera til að auka fjölbreytni íbúðarhúsalóða við Húsavík og leggur til að hugmyndirnar verði teknar til skoðunar við fyrirliggjandi endurskoðun aðalskipulags Norðurþings.

7.Varðveisla eða niðurrif gamla íbúðarhússins að Garði í Núpasveit

201709112

Eigendur Garðs í Núpasveit hafa óskað eftir leyfi til að fjarlægja eða rífa gamla íbúðarhúsið að Garði. M.a. liggur fyrir að eigendur eru reiðubúnir að gefa húsið til brottflutnings. Með bréfi dagsett 4. desember s.l. gerir Minjastofnun grein fyrir sínum sjónarmiðum í málinu.
Málið lagt fram til upplýsingar.

8.Kiwanisklúbburinn Skjálfandi óskar eftir umsögn um staðsetningu auglýsingaskiltis.

201712034

Óskað er eftir umsögn skipulags- og umhverfisnefndar um auglýsingaskilti á Húsavík sem Skjálfandi hefur hug á að setja upp. Skiltið yrði 2-2,4 m² að flatarmáli.
Skipulagsnefnd frestar afgreiðslu erindisins og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að afla frekari upplýsinga.

9.Helgi Héðinsson óskar eftir leyfi til að nýta lóðina að Hafnarstétt 15 að fullu samkv. deiliskipulagi.

201712049

Með tölvupósti dags. 11. desember s.l. óska Kristín og Helga Guðrún Helgadætur, f.h. eiganda Helguskúrs á Hafnarstétt, eftir:

1) Umsögn Skipulags- og umhverfisnefndar um stöðu fasteignarinnar Helguskúrs í náinni framtíð.
2) Leyfi til að nýta lóðina að Hafnarstétt 15, að fullu samkvæmt stærð hennar í gildandi deiliskipulagi. Ætlunin er að nýta lóðina til suðurs undir merkt bílastæði fyrir gesti hússins.

Jafnframt kemur fram í erindi að fyrirhugaðar eru viðhaldsframkvæmdir á Helguskúr og umhverfi hússins sumarið 2018. Stefnt er á aukna menningar- og atvinnutengda starfsemi í húsinu.
Deiliskipulag á miðhafnarsvæði Húsavíkur hefur gengið út frá að Helguskúr víki allt frá árinu 1997. Með því nýja deiliskipulagi miðhafnarsvæðisins sem samþykkt var á vordögum var lóðin undir Helguskúr og Flókahúsi klofin í tvennt, Hafnarstétt 13 og Hafnarstétt 15. Nú er unnið að uppbyggingu Flókahúss til samræmis við ákvæði deiliskipulagsins. Helguskúr stendur nokkuð út fyrir lóðina að Hafnarstétt 15 og þrengir þannig að umferðarleið milli Helguskúrs og verbúðahúsi. Ekki er tímasett í deiliskipulagi hvenær Helguskúr þarf að víkja.

Sunnan Hafnarstéttar 15 er gert ráð fyrir svæði undir torgsölu. Það væri í mótsögn við deiliskipulagið að útbúa bílastæði sunnan Helguskúrs sem miðaði við aðkomu um torgsölusvæðið.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkt verði stöðuleyfi fyrir Helguskúr til ársloka 2023 og jafnframt samþykkt afnot eiganda Helguskúrs að lóðinni að Hafnarstétt 15 þann sama tíma. Fyrir lok þessa tíma verði afstaða tekin til áframhaldandi stöðu hússins.

10.Gentle Giants - Hvalaferðir ehf leggur fram lóðartillögu vegna Hafnarstéttar 13/Flókahúss.

201711109

Með tölvupósti dagsettum 1. desember s.l. óskar Stefán Guðmundsson, fyrir hönd Gentle Giants - Hvalaferða ehf, eftir endurskoðun ákvörðunar nefndarinnar frá síðasta fundi um frágang umhverfis Hafnarstéttar 13.
Skipulags- og umhverfisnefnd telur að með samþykki fyrir lóðarfrágangi að Hafnarstétt 13 eins og óskað var eftir verði brotið á hagsmunum eiganda Helguskúrs. Nefndin fellst því ekki á frágang lóðar Hafnarstéttar 13 fram fyrir Helguskúr. Nefndin staðfestir því fyrri afgreiðslu nefndarinnar og staðfestingu sveitarstjórnar 28. nóvember s.l.

Fundi slitið - kl. 19:00.