Sveitarstjórn Norðurþings

76. fundur 19. desember 2017 kl. 16:15 - 17:30 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
 • Olga Gísladóttir aðalmaður
 • Örlygur Hnefill Örlygsson Forseti
 • Soffía Helgadóttir aðalmaður
 • Jónas Hreiðar Einarsson aðalmaður
 • Kjartan Páll Þórarinsson aðalmaður
 • Óli Halldórsson aðalmaður
 • Sif Jóhannesdóttir aðalmaður
 • Stefán Jón Sigurgeirsson aðalmaður
 • Gunnlaugur Stefánsson 1. varaforseti
Starfsmenn
 • Berglind Jóna Þorláksdóttir Ritari
 • Drífa Valdimarsdóttir fjármálastjóri
Fundargerð ritaði: Berglind Jóna Þorláksdóttir skrifstofu- og skjalastjóri
Dagskrá

1.Dettifossvegur - Brýn nauðsyn

201612032

Áskorun til Alþingis um lok framkvæmda Dettifossvegar.
Til máls tóku: Örlygur, Kjartan, Olga og Óli.


Örlygur leggur fram eftirfarandi bókun:

Það eru átta ár frá því framkvæmdir hófust við Dettifossveg vestan Jökulsárgljúfra og við hverjar kosningar hefur stjórnmálafólk talað fjálglega um lok framkvæmda, sem alltaf er þó frestað.

Íbúar við Öxarfjörð eru langþreyttir á síendurtekinni frestun framkvæmdanna. Þar er samfélag sem Byggðastofnun skilgreinir sem brothætta byggð, en á inni ótrúleg tækifæri á sviði ferðaþjónustu með náttúruperlur sem vekja athygli á heimsvísu. Sama stjórnmálafólk og talað hefur um uppbyggingu vegarins árum saman talar einnig um betri dreifingu ferðafólks um landið. Búið er að ræða uppbyggingu Dettifossvegar á Alþingi frá árinu 1999. Nú er kominn tími á aðgerðir en ekki aðeins fögur fyrirheit.

Dettifoss er aflmesti foss Evrópu og hefur oft verið valinn á lista áhugaverðustu og fallegustu fossa heims, og hefur þar prýtt lista ásamt Viktoríufossum og Niagarafossum. Mikil verðmæti liggja í að hafa slíka náttúruperlu hér á landi og ætti að vera eitt helsta verkfærið í verfærakistu ríkisstjórnar sem vill jafna dreifingu ferðafólks um landið.

Uppbygging ferðaþjónustu í Öxarfirði og á Melrakkasléttu, og árangur í uppbyggingarverkefni Byggðastofnunar/ríkisins, er að mjög miklu leyti háð lokum framkvæmda við Dettifossveg. Mun hann skipta sköpum á Kópaskeri, í Kelduhverfi og á Raufarhöfn. Opnun hans mun einnig efla ferðaþjónustu á Akureyri, Húsavík, í Þingeyjarsveit, við Mývatn og á Þórshöfn.

Með Dettifossvegi opnast tenging milli tveggja helstu perla Norðausturlands, Ásbyrgis og Dettifoss og um leið gífurlega verðmæt hringleið sem tengir þéttbýlisstaðina Húsavík og Akureyri og sveitir Þingeyjarsýslna. Einnig verður til þjóðbraut frá samfélögunum við Öxarfjörð og austur um sem tengir þau við þjóðveg 1.

Dettifossvegur er forgangsmál í Sóknaráætlun Norðurlands eystra og hefur aðalfundur Eyþings ályktað um málið árin 2010, 2011, 2014, 2016 og 2017. Í ályktunum frá árunum 2016 og 2017 er sérstök áhersla á að hér sé um að ræða forgangsverkefni.

Sveitarstjórn Norðurþings skorar heilshugar á þingmenn Norðausturkjördæmis að standa með þessum byggðarlögum og beita sér af alefli fyrir lokum framkvæmda við Dettifossveg. Það er skýlaus krafa Norðurþings að fjármagn verði veitt til að ljúka Dettifossvegi að fullu á árinu 2018.

Bókunin er samþykkt samhljóða.

2.Fjárframlög til heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi 2018

201712129

Í frumvarpi til fjárlaga 2018 er ráðgert að auka fjárveitingar til heilbrigðiskerfisins almennt. Samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðisstofnun Norðurlands er þrátt fyrir þetta gerð hagræðingarkrafa á stofnunina.
Til máls tók: Óli og Soffía.

Óli leggur fram eftirfarandi bókun:

Í sáttmála ríkisstjórnarinnar er sérstök áhersla lögð á heilbrigðismál og að allir landsmenn óháð búsetu eigi að njóta góðrar þjónustu í heilbrigðiskerfinu. Þessu fagnar sveitarstjórn Norðurþings en bendir á að það skýtur skökku við að hagræðingarkrafa skuli vera gerð á Heilbrigðisstofnun Norðurlands í fjárlagafrumvarpi sem lagt var fyrir til fyrstu umræðu. Gera verður leiðréttingu þegar í stað á fjárlagafrumvarpinu í meðförum þingsins.

Þannig verði vikið alfarið frá fyrrgreindri hagræðingarkröfu og fjárheimilidir auknar með áþekkum hætti og ráðgert er fyrir höfuðborgarsvæðið. Þjónustuþörfin hefur aukist verulega bæði vegna aðstæðna á starfssvæði heilbrigðisstofnunarinnar, svo sem fjölgun íbúa og breyttri aldurssamsetningu, en einnig vegna þjónustu við sívaxandi fjölda ferðamanna. Þá vill sveitarstjórn einnig benda á nauðsyn þess að Sjúkrahúsið á Akureyri verð eflt til þjónustu við íbúa með sambærilegum hætti og Landsspítalinn, enda gegnir það afar mikilvægu hlutverki í heilbrigðisþjónustu íbúa á norðanverðu Íslandi.

Sveitarstjórn Norðurþings skorar á heilbrigðisráðherra og alþingismenn að bregðast við og sjá til þess að á Norðurlandi verði innviðir styrktir og heilbrigðisþjónusta efld með sama hætti og annars staðar.

Bókunin er samþykkt samhljóða.

3.Norðurþing - Heilsueflandi samfélag

201712041

Á 16. fundi æskulýðs- og menningarnefndar Norðurþings var eftirfarandi bókað;

Æskulýðs- og menningarnefnd telur verkefnið mikilvægt samfélagsverkefni og skorar nefndin á Sveitarstjórn Norðurþings að taka málið til umræðu hvort Norðurþing eigi að gerast heilsueflandi samfélag.

Nefndin vill leggja ríka áherslu á að ef ákveðið verður að fara í verkefnið, sé mikilvægt að vel verði haldið utan um það og tryggt verði fjármagn fyrir verkefnisstjóra.

Erindinu er vísað til Sveitarstjórnar.
Til máls tóku: Kjartan, Örlygur, Óli, Jónas og Gunnlaugur.


Sveitarstjórn tekur jákvætt í málið og felur æskulýðs- og menningarnefnd að vinna málið og leggja fyrir sveitarstjórn að nýju.

4.Eignasjóður Norðurþings óskar eftir lóðinni að Norðurgarði 5, fyrir slökkvistöð.

201712019

Á 20. fundi hafnanefndar Norðurþings var eftirfarandi bókað;

Hafnanefnd samþykkir að lóðinni verði úthlutað til Eignarsjóðs.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða tillögu hafnanefndar.

5.Gjaldskrá hafna 2018

201712043

Á 20. fundi hafnanefndar Norðurþings var eftirfarandi bókað;

Gjaldskrá hafna Norðurþings tekur að mestu leyti breytingum miðað við verðlagsþróun.
Til verða nýir gjaldstofnar t.d. farþega- og farmverndargjald, geymslugjöld á farmverndarsvæðum, leigugjöld fyrir landganga og rafmagnsmæla og skráningargjald vegna endurvigtunar.

Kynnt voru vinnugögn varðandi fjárfestingar í aðstöðu fyrir farþega á næstu árum. Hafnarstjóra er falið að láta vinna nánari útfærslu og rýmisþarfir ferðaþjónustufyrirtækja ásamt kostnaðarmati.
Farþegagjald fyrir árið 2018 verður 173 kr. á hvern farþega sem er hækkun um 3 kr. milli ára.

Hafnarnefnd samþykkir fyrirliggjandi gjaldskrá og vísar henni til samþykktar í sveitarstjórn.

Gjaldskrá verður aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins.
Til máls tóku: Gunnlaugur og Drífa.

Sveitarstjórn samþykkir fyrirlagða gjaldskrá hafna 2018 með atkvæðum Örlygs, Óla, Olgu, Stefáns, Sifjar, Kjartans og Gunnlaugs.

Soffía situr hjá.

6.Fakta Bygg AS sækir um lóðina að Vitaslóð 2 undir hótel.

201711054

Á 23. fundi skipulags- og umhverfisnefndar Norðurþings var eftirfarandi bókað;

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að samið verði við Fakta Bygg um að lóðin að Vitaslóð 2 verði frátekin fyrir Fakta Bygg til loka apríl 2019 meðan fyrirtækið þróar sínar hugmyndir að uppbyggingu lóðarinnar.

Til máls tók: Sif.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða tillögu skipulags- og umhverfisnefndar.

7.Helgi Héðinsson óskar eftir leyfi til að nýta lóðina að Hafnarstétt 15 að fullu samkv. deiliskipulagi.

201712049

Á 23. fundi skipulags- og umhverfisnefndar Norðurþings var eftirfarandi bókað;

Deiliskipulag á miðhafnarsvæði Húsavíkur hefur gengið út frá að Helguskúr víki allt frá árinu 1997. Með því nýja deiliskipulagi miðhafnarsvæðisins sem samþykkt var á vordögum var lóðin undir Helguskúr og Flókahúsi klofin í tvennt, Hafnarstétt 13 og Hafnarstétt 15. Nú er unnið að uppbyggingu Flókahúss til samræmis við ákvæði deiliskipulagsins. Helguskúr stendur nokkuð út fyrir lóðina að Hafnarstétt 15 og þrengir þannig að umferðarleið milli Helguskúrs og verbúðahúsi. Ekki er tímasett í deiliskipulagi hvenær Helguskúr þarf að víkja.

Sunnan Hafnarstéttar 15 er gert ráð fyrir svæði undir torgsölu. Það væri í mótsögn við deiliskipulagið að útbúa bílastæði sunnan Helguskúrs sem miðaði við aðkomu um torgsölusvæðið.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkt verði stöðuleyfi fyrir Helguskúr til ársloka 2023 og jafnframt samþykkt afnot eiganda Helguskúrs að lóðinni að Hafnarstétt 15 þann sama tíma. Fyrir lok þessa tíma verði afstaða tekin til áframhaldandi stöðu hússins.
Til máls tók: Sif og Örlygur.


Sif leggur fram eftirfarandi viðbótar bókun:
Rétt er að árétta hér að horft er til þess að bráðabirgðaaðstaða Gentle Giants innan lóðarinnar vegna uppbyggingar Flókahúss fái að standa óáreitt til loka maí 2018 og frystigámur sem er á lóðinni þar til honum hefur verið fundinn annar staður.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða tillögu skipulags- og umhverfisnefndar með áorðnum breytingum.


8.Fræðslunefnd - Erindisbréf nefndar

201710123

á 21. fundi fræðslunefndar Norðurþings var eftirfarandi bókað;

Erindisbréf fræðslunefndar yfirfarið og samþykkt. Fræðslunefnd vísar erindisbréfinu til samykktar í sveitarstjórn.
Sveitarstjórn samþykkir erindisbréf fræðslunefndar samhljóða.

9.Byggðarráð Norðurþings - 236

1712001F

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 236. fundar byggðarráðs Norðurþings.
Til máls tók undir lið 9 "Rekstraráætlanir HNÞ og MMÞ 2018": Gunnlaugur

Fundargerðin er lögð fram.

10.Hafnanefnd - 20

1712004F

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 20. fundar hafnanefndar Norðurþings.
Fundargerðin er lögð fram.

11.Fræðslunefnd - 21

1711014F

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 21. fundar fræðslunefndar Norðurþings.
Fundargerðin er lögð fram.

12.Æskulýðs- og menningarnefnd - 16

1712003F

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 16. fundar æskulýðs- og menningarnefndar Norðurþings.
Til máls tóku undir lið 3 "Skjálfandi 2017 - ósk um samstarf": Gunnlaugur, Óli og Stefán.

Fundargerðin er lögð fram.

13.Skipulags- og umhverfisnefnd - 23

1712002F

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 23. fundar skipulags- og umhverfisnefndar Norðurþings.
Fundargerðin er lögð fram.

14.Byggðarráð Norðurþings - 237

1712005F

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 237. fundar byggðarráðs Norðurþings.
Til máls tók undir lið 1 "Raufarhöfn og framtíðin - staða og framtíðarsýn verkefnisins": Óli.

Fundargerðin er lögð fram.

Fundi slitið - kl. 17:30.