Covidpistill sveitarstjóra #17

Lögreglan sinnir virku eftirliti með því að fólk fari eftir reglum sem gilda um samkomubannið. Sýnum…
Lögreglan sinnir virku eftirliti með því að fólk fari eftir reglum sem gilda um samkomubannið. Sýnum ábyrgð áfram og gerum lögreglu starfið auðvelt.

Á upplýsingafundi þríeykisins í dag var farið yfir áhyggjur þeirra af því að fólk virðist strax orðið værukært nú þegar hyglir undir fyrsta skrefið sem taka á til afléttingar samkomubanns. Eins og allir vita á það að gerast 4. maí n.k. og hefur nákvæm útlistun ekki verið birt ennþá, þótt megin útlínurnar liggi fyrir. Um er að ræða frekar lítið skref m.v. núverandi stöðu, en þó sérstaklega mikilvægt fyrir starf skóla og ákveðinna starfsgreina sem mega hefja aftur störf með takmörkunum þó. Það eru ennþá 17 dagar í 4. maí, svo því sé til haga haldið. Engar tilslakanir eru á aðgerðum þótt staðan sé góð og því algerlega nauðsynlegt að við höldum vöku okkar áfram.

Ég vil nota tækifærið í dag og hrósa lögreglunni hér í umdæminu sérstaklega vel fyrir sín störf undanfarnar vikur. Hér er mjög virkt eftirlit og vel fylgst með því hvort t.a.m. hópar fólks eða barna séu að koma saman utandyra. Það má segja að þetta hafi ekki verið stórt vandamál í umdæminu hingað til hvað unga fólkið okkar varðar, og alls ekki hér í Norðurþingi. Þessu eftirliti verður fram haldið næstu vikurnar og mér finnst mikilvægt að við hrósum krökkunum líka fyrir að fara eftir þessum fyrirmælum. Það er ekki auðvelt og sérstaklega þegar farið er að vora og ungt og fjörugt fólk á í hlut. Hvetjum þau áfram til halda línunni. Þetta hefst á endanum.

Að lokum vil ég hvetja fólk sérstaklega til að líta til með þeim sem búa einir og eiga jafnvel ekki marga að. Látum það okkur varða ef við vitum af fólki sem mögulega er einmanna eða líður illa sökum einangrunar. Það eru ýmis úrræði í boði og mikilvægt að leita aðstoðar þegar svo ber undir. Félagsþjónusta Norðurþings er á vaktinni, sem og Rauði krossinn, en starfsmenn og sjálfboðaliðar hafa verið óþreytandi í að hringja í fólk og stappa í það stálinu. Missum ekki dampinn!

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri