Fara í efni

Byggðarráð Norðurþings

325. fundur 30. apríl 2020 kl. 08:30 - 11:54 Fjarfundur
Nefndarmenn
  • Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri
  • Helena Eydís Ingólfsdóttir formaður
  • Silja Jóhannesdóttir varaformaður
  • Bergur Elías Ágústsson aðalmaður
  • Hafrún Olgeirsdóttir áheyrnarfulltrúi
  • Kolbrún Ada Gunnarsdóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Drífa Valdimarsdóttir fjármálastjóri
Fundargerð ritaði: Drífa Valdimarsdóttir fjármálastjóri
Dagskrá
Fundurinn fer fram í gegnum Teams fjarfundabúnað í samræmi við samþykkt sveitarstjórnar Norðurþings þann 23. mars sl.

1.Aðalfundur Hvalasafns Húsavíkur SES 2020

Málsnúmer 202004104Vakta málsnúmer

Boðað hefur verið til aðalfundar Hvalasafnsins á Húsavík SES þann 30. apríl klukkan 9:00.
Lagt fram til kynningar. Fulltrúi Norðurþings á fundinum er Jónas Einarsson.

2.Skipun nýs aðalmanns Norðurþings í stjórn Hvalasafns Húsavíkur SES

Málsnúmer 202004106Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur að tilnefna nýjan aðalmann Norðurþings í stjórn Hvalasafns Húsavíkur SES í stað Jónasar Einarssonar sem hefur óskað eftir lausn sem fulltrúi í stjórninni.
Byggðarráð tilnefnir Hjálmar Boga Hafliðason sem aðalmann í stjórn Hvalasafns Húsavíkur SES og til vara Silju Jóhannesdóttur.

3.Fundir fastanefnda Norðurþings eftir 4. maí 2020

Málsnúmer 202004088Vakta málsnúmer

Á 101. fundi sveitarstjórnar var eftirfarandi bókað undir máli 202003071;

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að tryggja starfhæfi sitt og til að auðvelda ákvarðanatöku við stjórn Norðurþings, að nota fjarfundarbúnað á fundum sveitarstjórnar og fastanefnda í Norðurþingi. Engin takmörk verði á fjölda lögmætt boðaðra fundarmanna sem taka þátt í fundum í fjarfundarbúnaði. Jafnframt samþykkir sveitarstjórn að ritun fundargerða fari fram með öðrum hætti en mælt er fyrir um í leiðbeiningum innanríkisráðuneytisins, um ritun fundargerða, nr. 22/2013. Fundargerð skal annað hvort deilt með öllum fundarmönnum á skjá í lok fundar og lesin yfir og síðan staðfest með tölvupósti eða undirrituð rafrænt.

Fyrir byggðarráði liggur að taka ákvörðun um fyrirkomulag funda hjá fastanefndum Norðurþings eftir 4. maí nk.
Formaður byggðarráðs leggur til að fundir ráða verði með óbreyttu fyrirkomulagi fram yfir sveitarstjórnarfund þann 19. maí nk. svo unnt verði að grípa til ráðstafana með kaffistofur og vinnurými starfsmanna í stjórnsýsluhúsi sem tryggja að þeir geti farið að tilmælum m.a. um 2 m. fjarlægð á milli fólks.
Byggðarráð samþykkir tillöguna.

4.Samningamál Völsungs 2020

Málsnúmer 201909096Vakta málsnúmer

Á 53. fundi fjölskylduráðs voru tekin fyrir samningamál Völsungs 2020, á fundinum var bókað;
Fjölskylduráð samþykkir fyrirliggjandi samning á milli Norðurþings og Völsungs. Ráðið vísar samningnum til umfjöllunar í byggðarráði og í skipulags- og framkvæmdaráði.

Jafnframt liggur fyrir byggðarráði að skoða hvort taka eigi upp afreksgreiðslur til félagsins.
Áður en byggðarráð tekur afstöðu til afreksgreiðslna til félagsins felur ráðið sveitarstjóra að boða fulltrúa Völsungs á fund byggðarráðs til samtals um starfsemi félagsins og rekstur þess á árinu 2020.

5.Umræða um stöðu sorpmála

Málsnúmer 202004077Vakta málsnúmer

Á 102. fundi sveitarstjórnar þann 21. apríl sl. var eftirfarandi bókað varðandi útboð á sorphirðu 2020;

Undirritaður óskar eftir að eftirfarandi fyrirspurn verið bókuð.
Fram kemur að tilboð lægstbjóðanda felur í sér 66% hækkun sorphirðugjalda, jafnfram hefur verið greint frá því að kostnaðarmat felur í sér 50% hækkun á nefndum gjöldum og að tilboð lægst bjóðanda hafi verið 10% yfir kostnaðaráætlun. Óskað er eftir því að formaður Skipulags og framkvæmdaráðs geri grein fyrir eftirfarandi (þar sem um verulega fjármuni er að ræða fyrir heimilin á þeim mismun sem hér er að finna). Spurt er;
a) Hverjar eru helstu breytingarnar sem fela í sér 50% hækkun á kostnaðarmati?
b) Hver er skýringin á mismuninum þ.e. frá 50% til 66% og í hverju felst hann?
c) Hver verða sorphirðugjöld á heimili á Húsavík og Reykjahverfi í krónum og aurum gefið þau verði hækkuð um 66%?
Bergur Elías Ágústsson

Silja leggur til að spurningunum verði svarað á næsta fundi byggðarráðs.

Gunnar Hrafn Gunnarsson framkvæmda- og þjónustufulltrúi sat fundinn undir þessum lið.

Silja Jóhannesdóttir biður um vikufrest í viðbót til að leggja fram frekari greiningar og minnisblað varðandi hækkun á tilboðsskrá frá Eflu 2020 á núverandi gjöldum. Beiðnin byggist á því að umhverfisstjóri kemur til starfa aftur að loknu fæðingarorlofi 4. maí og hann getur aðstoðað við greiningu svo hún verði nægjanlega ítarleg.

Byggðarráð samþykkir beiðni Silju um vikufrest og tekur málið fyrir aftur að viku liðinni.

6.Erindi vegna fasteignagjalda og þjónustu sveitarfélagsins

Málsnúmer 202004068Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fyrirspurn frá Sigurjóni Benediktssyni fyrir hönd Gestahús cottages.is varðandi innheimtu fasteignagjalda og snjómokstur.
Gunnar Hrafn Gunnarsson framkvæmda- og þjónustufulltrúi sat fundinn undir þessum lið.

Erindið verður einnig tekið fyrir hjá skipulags- og framkvæmdaráði og hjá stjórn Orkuveitu Húsavíkur ohf. og er sveitarstjóra falið að svara erindinu að því loknu.

7.Byggðakvóti í Norðurþingi

Málsnúmer 202001139Vakta málsnúmer

Á 319. fund byggðarráðs þann 5. mars sl. kom Þóroddur Bjarnason prófessor við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri og fjallaði um nýútkomna skýrslu um framtíð byggðarkvótakerfisins. Þóroddur var formaður starfshóps sem skipaður var af Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að endurskoða meðferð og ráðstöfun aflaheimilda sem ríkið fer með forræði yfir. Fyrir byggðarráði liggur til umræðu minnisblað frá sveitarstjóra um stöðuna á byggðarkvótamálum í sveitarfélaginu.

Á fundinum var bókað;
Byggðarráð þakkar Þóroddi Bjarnasyni fyrir greinargóða yfirferð á nýútkominni skýrslu um endurskoðun á meðferð og ráðstöfun 5,3% aflaheimilda.

Bergur Elías leggur fram eftirfarandi tillögu;
Norðurþing sæki um sértækan byggðarkvóti fyrir Kópasker í tengslum við verkefnið Öxarfjörður í sókn. Kópasker uppfyllir öll skilyrði um sértækan byggðakvóta samkvæmt reglugerð nr. 643/2016. Þau sjö skilyrði sem þurfa að vera til staðar eru uppfyllt.

Byggðarráð samþykkir tillöguna og felur sveitarstjóra að vinna umsókn í samstarfi við stjórn Öxarfjarðar í sókn um sértækan byggðakvóta fyrir Kópasker. Umsóknin verði lögð fyrir byggðarráð til umræðu og afgreiðslu.
Fyrir byggðarráði liggur minnisblað sveitarstjóra um sértækan byggðakvóta og felur ráðið honum að vinna áfram að umsókn.

8.Trúnaðarmál

Málsnúmer 202004110Vakta málsnúmer

Fært í trúnaðarmálabók.

9.Ósk um aðkomu að endurbótum hússins Breiðabliks á Raufarhöfn

Málsnúmer 202002063Vakta málsnúmer

Á 318. fundi byggðarráðs var tekið fyrir erindi Hólmsteins Helgasonar ehf. varðandi húsið Breiðablik á Raufarhöfn. Á fundinum var bókað;
Byggðarráð felur sveitarstjóra að leggja drög að samningi við aðila fyrir byggðarráð til umfjöllunar og afgreiðslu.
Byggðarráð felur sveitarstjóra að undirrita samninginn og vísa til staðfestingar í sveitarstjórn.

10.Þjónustusamningur Orkuveitu Húsavíkur og Norðurþings 2020

Málsnúmer 201911045Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggja drög að þjónustusamningi milli Orkuveitu Húsavíkur ohf. og Norðurþings sem tekin voru til umræðu á fundi stjórnar Orkuveitu Húsavíkur ohf. þann 12. mars sl. og samþykkt af meirihluta stjórnar.
Gunnar Hrafn Gunnarsson framkvæmda- og þjónustufulltrúi og framkvæmdastjóri Orkuveitu Húsavíkur ohf. sat fundinn undir þessum lið.

Byggðarráð samþykkir með atkvæðum Helenu og Silju að fela sveitarstjóra að undirrita samninginn og vísa honum til staðfestingar í sveitarstjórn.

Bergur Elías greiðir atkvæði gegn samningnum.

11.Styrkur til Heimskautsgerðisins vegna aukaframlags í Framkvæmdasjóð ferðamanna í tengslum við COVID-19

Málsnúmer 202004066Vakta málsnúmer

Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur, sem hluta af sérstöku tímabundnu fjárfestingarátaki stjórnvalda vegna COVID-19 faraldursins, ráðstafað 200 m.kr. viðbótarframlagi til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða á árinu 2020 með hliðsjón af vinnu stjórnar sjóðsins frá úthlutun ársins í mars.
Í ljósi þess hefur verið tekin ákvörðun um að veita styrk að fjárhæð kr. 35.000.000.- til verkefnisins; Norðurþing - Bifröst við Heimskautsgerði - velkomin. Jafnframt er afturkölluð fyrri ákvörðun um synjun styrks dags 11.03. sl. á grundvelli 1. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga.
Byggðarráð fagnar framlaginu úr Framkvæmdasjóði ferðamanna til uppbyggingar Heimskautsgerðisins og telur það verða mikið framfaraspor að koma þessum áfanga í uppbyggingu gerðisins í framkvæmd.

12.Framlenging á samningi við Húsavíkurstofu

Málsnúmer 202004070Vakta málsnúmer

Á 323. fundi byggðarráðs var samþykkt tillaga aðgerðahóps Norðurþings vegna COVID-19 um að samningur við Húsavíkurstofu verði framlengdur um eitt ár. Fyrir byggðarráði liggja nú drög að samkomulagi um framlengingu.
Byggðarráð samþykkir framlögð drög að samkomulagi um framlengingu á samningi við Húsavíkurstofu og felur sveitarstjóra að undirrita þau og vísar til staðfestingar í sveitarstjórn.

13.Enduráætluð framlög Jöfnunarsjóðs 2020

Málsnúmer 202004039Vakta málsnúmer

Borist hefur erindi frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga þar sem ítrekað er að mikil óvissa ríki um áætlaðar tekjur sjóðsins á árinu 2020 og jafnframt að framkvæma þurfi nýja greiðsluáætlun vegna framlaga ársins þegar forsendur um tekjufall sjóðsins liggja fyrir.

Ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga fundaði um stöðu mála 24. apríl sl. og var á fundinum ákveðið í ljósi væntanlegs samdráttar á tekjum sjóðsins að lækka áætlaðar mánaðargreiðslur til sveitarfélaga vegna útgjaldajöfnunarframlaga og framlaga vegna lækkunar tekna af fasteignaskatti um 12,5%.

Framlög tengd yfirfærslu fatlaðs fólks og grunnskólans sem byggja á staðgreiðslu útsvars í sjóðinn verða með óbreyttu sniði um þessi mánaðamót. Sá hluti tekna er tilheyrir yfirfærslu fatlaðs fólksog byggir á skatttekjum ríkissjóðs verður enduráætlaður síðar.

Vonir standa til þess að sjóðnum berist ný spá um áætlaðar skatttekjur ríkissjóðs og útsvarstekjur sveitarfélaga á næstu dögum, en þá fyrst verður unnt að enduráætla framlög ársins.
Lagt fram til kynningar og vísað til kynnningar í fjölskylduráði.

14.Aðgerðarhópur Norðurþings til að fást við efnahagsmál vegna Covid-19

Málsnúmer 202003079Vakta málsnúmer

Aðgerðahópur Norðurþings vegna COVID-19 hefur fundað reglulega og liggja nú fyrir byggðarráði tvö minnisblöð, annars vegar vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar sem snúa að sveitarfélögum og hins vegar um meðhöndlun krafna hjá sveitarfélagin ásamt fundargerð hópsins frá 22. apríl sl.
Tillaga aðgerðahópsins um meðhöndlun krafna felur í sér almenna aðgerð sem snýr að því að fella niður innheimtukostnað á kröfum sem gefnar eru út á tímabilinu 1. mars til 30. júní 2020 og að sveitarfélagið muni ekki hafa frumkvæði að aðfarargerðum vegna þeirra krafna út árið 2020.
Auk þess verður fyrirtækjum og einstaklingum gert kleift að sækja um frest á greiðslum eftirtalinna gjalda fyrir mánuðina mars til júní 2020 til mars til júní 2021;

- Skipagjöld skipa undir 1000 brt.
- Flotbryggjugjöld


Tillögunum er vísað til skipulags- og framkvæmdaráðs til kynningar og umsagnar.

Jafnframt er því beint til stjórnar Orkuveitu Húsavíkur ohf. að skoða sambærilegar aðgerðir varðandi frestun á innheimtu gjalda.

Ofangreint verður endurskoðað fyrir 15. júní næstkomandi.

Nánari útlistun á umsóknarferlinu verður birt á heimasíðu sveitarfélagsins í næstu viku.


15.Aðalfundarboð Orkuveitu Húsavíkur ohf. 2020

Málsnúmer 202004100Vakta málsnúmer

Boðað er til aðalfundar Orkuveitu Húsavíkur ohf. 2020 fimmtudaginn 7. maí kl. 14:00.
Byggðarráð felur Helenu Eydísi Ingólfsdóttur að fara með umboð sveitarfélagsins á fundinum og Silju Jóhannesdóttur til vara.

16.Fundargerðir SSNE 2019 - 2020

Málsnúmer 202002015Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð 8. fundar stjórnar SSNE frá 8. apríl sl.
Lagt fram til kynningar.

17.Fundargerðir Markaðsstofu Norðurlands 2020

Málsnúmer 202002023Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggja fundargerðir stjórnar Markaðsstofu Norðurlands frá 6. og 21. apríl.
Lagt fram til kynningar.

18.Fundargerðir 2020 - Samband íslenskra sveitarfélaga

Málsnúmer 202002019Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð 881. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 24. apríl sl.
Byggðarráð tekur undir bókun stjórnar Sambandins í máli nr. 11 - Áætlun um hugsanlegt tekjufall sveitarfélaga, um mikilvægi þess að ríkissjóður komi að málum með fjölbreyttum almennum aðgerðum og með beinum fjárhagslegum stuðningi til að verja þjónustu og starfsemi sveitarfélaganna á landinu öllu. Við þessar aðstæður er mikilvægt að sveitarfélögin hafi nægan fjárhagslegan styrk og svigrúm til þess að halda uppi þjónustu við íbúa, ráðast í nauðsynlega fjárfestingu og uppbyggingu og tryggja framlög til skólahalds, velferðarþjónustu, íþrótta- og menningarstarfsemi svo fátt eitt sé nefnt. Gangi þau áhrif eftir sem lýst hefur verið verður rekstur sveitarfélaganna þungur um langan tíma og verður ekki leystur með lántökum og niðurskurði í þjónustu sveitarfélaganna.

19.Ársskýrsla Byggðastofnunar 2019.

Málsnúmer 202004081Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur ársskýrsla Byggðastofnunar fyrir árið 2019.
Lagt fram til kynningar.

20.Allsherjar- og menntamálanefnd: Til umsagnar frumvarp til laga um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021-2025, 643. mál.

Málsnúmer 202004076Vakta málsnúmer

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis óskar eftir umsögn um frumvarp til laga um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021-2025, 643. mál.
Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 6. maí nk.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 11:54.