Fara í efni

Skipulags- og byggingarnefnd Norðurþings

98. fundur 14. nóvember 2012 kl. 13:00 - 13:00 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Jón Grímsson formaður
  • Soffía Helgadóttir varaformaður
  • Guðlaug Gísladóttir aðalmaður
  • Dóra Fjóla Guðmundsdóttir aðalmaður
  • Arnþrúður Dagsdóttir aðalmaður
  • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfulltrúi
Fundargerð ritaði: Gaukur Hjartarson Skipulags- og byggingarfulltrúi
Dagskrá

1.Deiliskipulag iðnaðarlóðar á Bakka

Málsnúmer 201209005Vakta málsnúmer

Per Langsöe Christensen, Vigfús Sigurðsson og Björn Jóhannsson kynntu tillögu að lýsingu skipulagsverkefnis fyrir deiliskipulag á hluta iðnaðarsvæðis á Bakka.
Skipulags- og byggingarnefnd leggur til við bæjarstjórn að lýsing skipulagsverkefnis verði samþykkt sbr. 2. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

2.Deiliskipulag fyrir fiskeldið Rifósi

Málsnúmer 201211017Vakta málsnúmer

X2 hönnun óskar eftir því að tillaga að skipulagslýsingu fyrir fiskeldisstöð að Lóni í Kelduhverfi verði samþykkt hjá bæjarstjórn Norðurþings. Skipulags- og byggingarnefnd leggur til við bæjarstjórn að skipulagslýsingin verði samþykkt sbr. 2. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

3.Tillaga að breyttu deiliskipulagi hesthúsahverfis í Saltvík

Málsnúmer 201206044Vakta málsnúmer

Á fundi sínum þann 25. júní s.l. fól bæjarstjórn Norðurþings skipulags- og byggingarfulltrúa að grenndarkynna breytingu deiliskipulags hesthúsasvæðis við Saltvík. Tilgreindur nágranni á svæðinu samþykkti breytingu deiliskipulagsins með áritun sinni á skipulagsuppdrátt. Skipulags- og byggingarnefnd leggur því til við bæjarstjórn að breyting deiliskipulagsins verði samþykkt og gildistaka breytingarinnar verði auglýst í B-deils stjórnartíðinda.

4.Skipulagsstofnun, tillaga að landsskipulagsstefnu 2013-2024, ósk um umsögn

Málsnúmer 201209104Vakta málsnúmer

Skipulags- og byggingarnefnd Norðurþings hefur kynnt sér tillögu að landsskipulagsstefnu 2013-2024 og tilheyrandi umhverfisskýrslu. Nefndin felur skipulags- og byggingarfulltrúa að koma eftirfarandi athugasemdum og ábendingum til Skipulagsstofnunar: 1. Vegsamgöngur um miðhálendi (bls. 29): Nefndin áréttar að heilsársvegir yfir miðhálendið geta orðið mikilvægar samgönguleiðir milli landshluta og ber að byggja þá upp og líta á þá sem slíka. Skoða þarf sérstaklega hvernig mögulegt er að stytta leiðir milli austurlands og vesturlands með tengingu frá austurlandi inn á Sprengisandsleið og skilgreina mannvirkjabelti til samræmis við það. Eðlilegt er að miða hönnun umferðarmannvirkja yfir miðhálendið við að umferð um þá sé sem tryggust allt árið um kring. 2. Skipulagstillagan tekur skýra afstöðu gegn því dreifða búsetumynstri sem heimilað er í mörgum aðalskipulögum sveitarfélaga og þ.m.t. í Norðurþingi. Skipulagsnefnd Norðurþings telur að litið sé framhjá þeim jákvæðu hliðum sem dreifing íbúðarbyggðar vissulega hefur. Heimilun á uppbyggingu íbúða í dreifbýli sem ekki tengjast beint landbúnaði og tilkoma s.k. búgarðabyggða er líkleg til að styðja við landbúnaðarbyggðir með hækkuðu þjónustustigi. 3. Sú kvöð sem ætluð er sveitarfélögum um skilgreiningu hverfisverndar á grannsvæðum Vatnajökulsþjóðgarðs og Þjórsárvera er óásættanleg (bls. 23). Eðlilegt er að mörk þjóðgarðs séu jafnframt mörk þess svæðis sem vernduð verða og þannig óþarft og óeðlilegt að skilgreina kvöð um sérstaka verndun á "grannsvæðum" í landsskipulagi. 4. Óásættanlegt er með öllu að landskipulagsstefna taki mið af ósamþykktri tillögu að rammaáætlun um vernd og orkunýtingu þar sem hún er í mótsögn við fyrirliggjandi samþykktar skipulagsáætlanir (svæðis- og aðalskipulög sveitarfélaga sem og svæðisskipulag miðhálendis). Hluti Gjástykkissvæðis er innan afmörkunar miðhálendis eins og hún er skilgreind í svæðisskipulagi miðhálendisins og þar með landskipulags. Sveitarfélögin á svæðinu hafa markað sér stefnu um nýtingu þess svæðis til orkuvinnslu en fyrirliggjandi tillaga að rammaáætlun gerir ráð hinsvegar fyrir verndun svæðisins. 5. Landskipulagstillagan er nokkuð fjárhagslega íþyngjandi fyrir sveitarfélög. Sérstaklega virðist greining, kortlagning og flokkun landbúnaðarlands eftir verðmæti íþyngjandi fyrir dreifbýl landbúnaðarhéruð og í raun óljóst hverju það mun skila in í aðalskipulag. Nauðsynlegt er að lagt verði mat á kostnað við slíka flokkun á landsvísu. Frekari athugasemdir og ábendingar hefur skipulagsnefnd Norðurþings ekki á þessu stigi. Arnþrúður tekur ekki undir þær athugasemdir sem fram koma í 3. og 4. tölulið, en tekur að öðru leyti undir sjónarmið meirihluta nefndarinnar.

5.Fjárhagsáætlun skipulags- og byggingarnefndar

Málsnúmer 201211032Vakta málsnúmer

Skipulags- og byggingarfulltrúi kynnti tillögu sína að fjárhagsáætlun fyrir bókhaldslið 09 - skipulags- og byggingarmál. Tillagan miðar við fjárhagsramma sem samþykktur var af bæjarráði í október s.l. Fyrir liggur að tekjur embættis skipulags- og byggingarfulltrúa munu skerðast umtalsvert á næsta ári vegna uppsagnar samninga við Skútustaðahrepp og Þingeyjarsveit um rekstur embættisins. Erfitt verður hinsvegar að ná niður tilkostnaði við skipulags- og byggingarmál í ljósi aukinna umsvifa á sviðinu vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar stóriðju við Húsavík. Skilgreind fjárveiting mun því vart duga fyrir almennum rekstri deildarinnar og ekki til skipulagsvinnu. Skipulags- og byggingarnefnd telur nauðsynlegt að veitt verði fé til skipulagsvinnu á næsta ári. Ljúka þarf vinnu við fyrsta áfanga deiliskipulags iðnaðarsvæðis á Bakka sem hafin er vinna við. Einnig þarf að deiliskipuleggja bæði íbúðar og þjónustusvæði á Húsavík. Því óskar skipulags- og byggingarnefnd þess við bæjarstjórn að fjárhagsrammi 09 verði hækkaður um 5.000.000 kr. svo ekki verði tafir á nauðsynlegri skipulagsvinnu.

6.Árni Kristinsson sækir um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við frístundahúsið að Laxárlundi 4

Málsnúmer 201211022Vakta málsnúmer

Skv. teikningum er fyrirhugað hús hærra en önnur hús á svæðinu. Skipulagsskilmálar deiliskipulags eru óskýrir, en ekki er hægt að sjá á skipulagsgögnum að til stæði að heimila svo háa byggingu í þessu frístundahúsahverfi. Jafnramt telur nefndin óæskilegt útlitslega að svo hátt hús verði byggt á þessum stað. Skipulags- og byggingarnefnd fellst því ekki á erindið.

7.Egill Olgeirsson á Mannvit f.h. Orkuveitu Húsavíkur ohf. óskar eftir byggingarleyfi fyrir hæð ofan á áður samþykkta byggingu við íþróttavöll

Málsnúmer 201210019Vakta málsnúmer

Erindið var áður á fundi nefndarinnar í október og var þá frestað. Kynntar voru nýjar útlitsmyndir sem ætlað er að sýna betur hvernig fyrirhugað mannvirki fer í landi milli íþróttavalla. Skipulags- og byggingarnefnd telur fyrirhugaða byggingu hafa óveruleg áhrif á umhverfið og samþykkir því byggingu hússins.

8.Hermann Sigurðsson f.h. landeigenda sækir um leyfi fyrir afmörkun jarðarinnar Brúna innan jarðarinnar Sigurðarstaða

Málsnúmer 201211030Vakta málsnúmer

Óskað er eftir samþykki bæjarstjórnar Norðurþings fyrir afmörkun jarðarinnar Brúna innan jarðarinnar Sigurðarstaða á Melrakkasléttu. Meðfylgjandi umsókn er hnitsettur uppdráttur sem sýnir afmörkun 6,645 ha lands umhverfis Brúnir. Jörðin Brúnir hefur ekki áður verið afmörkuð með skýrum hætti, en samkomulag mun vera milli eigenda jarðanna um afmörkunina. Skipulags- og byggingarnefnd leggur til við bæjarstjórn að fyrirliggjandi tillaga að afmörkun lands Brúna verði samþykkt.

9.Kristbjörg Sigurðardóttir f.h. Verslunarinnar Bakka ehf. og Víðihóll - orlofsíbúðir, sækir um leyfi til að fjölga bílastæðum við Klifagötu 8, Kópaskeri

Málsnúmer 201210101Vakta málsnúmer

Óskað er eftir leyfi til að gera bílastæði í suðvesturhorni lóðarinnar að Klifagötu 8 eins og sýnt er á meðfylgjandi teikningu. Með umsókn fylgir skriflegt samþykki nágranna að Klifagötu 6 og Akurgerði 13. Skipulags- og byggingarnefnd fellst á gerð nýs bílastæðis og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að gera tillögu að nákvæmum mörkum lóðarinnar.

Fundi slitið - kl. 13:00.