Fara í efni

Skipulags- og byggingarnefnd Norðurþings

132. fundur 15. september 2015 kl. 14:00 - 18:00 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Sif Jóhannesdóttir formaður
  • Röðull Reyr Kárason aðalmaður
  • Örlygur Hnefill Örlygsson aðalmaður
  • Soffía Helgadóttir aðalmaður
  • Jónas Hreiðar Einarsson aðalmaður
Starfsmenn
  • test
Fundargerð ritaði: Gaukur Hjartarson Skipulags- og byggingarfulltrúi
Dagskrá

1.Deiliskipulag iðnaðarsvæðis við Kaldbak

Málsnúmer 201505018Vakta málsnúmer

Skipulags- og byggingarfulltrúi kynnti tillögu skipulagsráðgjafa að deiliskipulagi iðnaðarsvæðis við Kaldbak.

Skipulags- og byggingarnefnd óskar eftirfarandi breytinga á skipulagstillögunni:
1. Gert verði ráð fyrir vegtengingu Víðimóa við golfvallarafleggjara og inn á Norðausturveg.
2. Færa þarf inn á skipulagsuppdrátt stofnæð hitaveitu og gera grein fyrir henni í greinargerð.

Skipulags- og byggingarnefnd leggur til við bæjarstjórn að skipulagstillagan með ofangreindum breytingum verði kynnt skv. ákvæðum skipulagslaga.

2.Deiliskipulag á Öskjureit

Málsnúmer 201411061Vakta málsnúmer

Skipulags- og byggingarfulltrúi kynnti tillögu Arnhildar Pálmadóttur arkitekts að deiliskipulagi Búðarreits ásamt tilheyrandi húsakönnun.

Skipulags- og byggingarnefnd leggur til við bæjarstjórn að skipulagstillagan verði kynnt skv. ákvæðum skipulagslaga.

3.Breyting á deiliskipulagi miðhafnarsvæðis

Málsnúmer 201411063Vakta málsnúmer

Fyrirhugaðar breytingar á deiliskipulagi miðhafnarsvæðis á Húsavík voru síðast til umfjöllunnar í nefndinni 14. apríl s.l.

Skipulags- og byggingarnefnd felur skipulags- og byggingarfulltrúa að óska eftir því við skipulagsráðgjafa að eftirfarandi breytingar verði gerðar á deiliskipulagi miðhafnarsvæðis:

1. Skipt verði lóð undir Flókahúsi og Helguskúr og gerð tillaga að byggingarrétti hvorrar lóðar.
2. Gert verði ráð fyrir smáhýsum við aðkomu að flotbryggjum. Þessi smáhýsi megi nýta sem aðstöðu fyrir þá sem gera út frá bryggjunum á hverjum tíma.
3. Gert verði ráð fyrir að torgsala sem heimiluð hefur verið við flotbryggjur verði færð suður fyrir Helguskúr.
4. Merkt verði tvö bílastæði fyrir fatlaða langsum við Hafnarstétt 3.
5. Gert verði ráð fyrir tengibyggingu yfir götu milli Hafnarstéttar 1 og 3.
6. Gert verði ráð fyrir byggingarrétti á lóð Hafnarstéttar 31 til samræmis við óskir lóðarhafa.
7. Gert verði ráð fyrir að byggja megi allt að 45 m² lyftu- og þjónustuhús upp úr norðurhluta þaks verbúða hafnarsjóðs (Hafnarstétt 17) og einnig allt að 10 m² lyftuhús upp úr þaki Hafnarstéttar 11.

Soffía og Röðull taka undir liði 1-6. Ekki er ljóst hvað meirihlutinn ætlar sér með verbúðir hafnarsjóðs, hvort þær fari í söluferli. Starfsemi og nýsköpun listafólks og menningarviðburðir þeirra gætu lent í uppnámi vegna aðstöðuleysis, ásamt aðstöðu sjómanna. Brýn þörf er á lyftu á þetta svæði og taka Soffía og Röðull undir þau sjónarmið en sitja hjá við 7. lið.

Breytingartillögunni er vísað til umfjöllunar í framkvæmda- og hafnanefnd.

4.Fjárhagsáætlun skipulags- og byggingarmála 2015

Málsnúmer 201509035Vakta málsnúmer

Skipulags- og byggingarfulltrúi kynnti tillögu sína að fjárhagsáætlun bóhaldslykils 09, skipulags- og byggingarmála. Áætlunin gengur út frá uppgefnum fjárhagsramma.

Skipulags- og byggingarnefnd leggur til við bæjarráð að áætluninni verði vísað til fyrri umræðu í bæjarstjórn eins og hún var kynnt.

5.Guðmundur Vilhjálmsson f.h. Vélaleigu Húsavíkur ehf. sækir um lóð undir iðnaðarhúsnæði

Málsnúmer 201509040Vakta málsnúmer

Óskað er eftir 2.000 m² lóð undir allt að 600 m² aðstöðu og verslunarhús fyrir starfsemi fyrirtækisins. Æskileg staðsetning væri norðantil í bænum, helst á Bakka eða á hafnarsvæði.

Skipulags- og byggingarnefnd telur að ekki séu lausar heppilegar lóðir undir starfsemi fyrirtækisins á þessu stigi. Umræðu um erindið frestað til næsta fundar.

6.Jónas Sigmarsson og Þórhildur Jónsdóttir sækja um byggingarleyfi fyrir einbýlishús að Lyngholti 3

Málsnúmer 201507019Vakta málsnúmer

Nú er lokið grenndarkynningu vegna óverulegra breytinga deiliskipulags Holtahverfis. Í breytingartillögunni felst að bílskúr að Lyngholti 3 verði byggður undir aðalhæð íbúðarhússins en ekki sem sérstæð bygging. Nyrsti hluti kjallara undir húsinu yrði hinsvegar hluti af íbúð hússins sem heimilt væri að breyta í sjálfstæða litla íbúð með vesturhlið óniðurgrafna. Ekki er gert ráð fyrir breytingum á gólfhæð aðalhæðar eða mænishæð.

Engar athugasemdir bárust við grenndarkynninguna.

Skipulags- og byggingarnefnd leggur til við bæjarstjórn að tillaga að breytingu deiliskipulagsins verði samþykkt og byggingarfulltrúa heimilað að gefa út byggingarleyfi þegar fullnægjandi gögn hafa borist þar að lútandi.

7.LNS Saga ehf. óskar eftir afnotum að landi undir geymslusvæði á Höfða sunnan lóðar Steinsteypis

Málsnúmer 201509036Vakta málsnúmer

Óskað er eftir leyfi til að útbúa tímabundið um 500 m² geymslusvæði sunnan við gömlu sorpeyðingarstöðvarinnar á Húsavíkurhöfða. Framkvæmdin fælist í að fylla með berandi malarefni ofan á jarðvegsdúk, um 40 cm þykkt lag. Í verklok yrði unnt að fjarlægja fyllinguna og endurheimta fyrra gróðurlendi. Leigutími geymslusvæðisins yrði til 15. ágúst 2016. Meðfylgjandi erindi er afstöðumynd.

Skipulags- og byggingarnefnd fellst á fyrir sitt leyti að umrætt svæði verði tímabundið nýtt sem geymslusvæði. Í ljósi ákvæða aðalskipulags leggur skipulags- og byggingarnefnd áherslu á að malarpúði verði fjarlægður að verki loknu og sáð í sárið. Samið verði sérstaklega um leigu landsins og tryggingu fyrir frágangi þess að verki loknu.





8.Umsókn um stækkun lóðar að Víkurbraut 18, Raufarhöfn

Málsnúmer 201509002Vakta málsnúmer

Óskað er eftir 600 m² lóðarstækkun Víkurbraut 18 á Raufarhöfn skv. meðfylgjandi rissmynd. Ætlunin er að nýta lóðarauka til að útbúa bílastæði við húsið sem nú er nýtt sem gistiheimili.

Umbeðin lóðarstækkun gengur inn á óbyggða íbúðarhúsalóð. Skipulags- og byggingarnefnd fellst ekki á að veita umbeðna lóðarstækkun. Nefndin heimilar byggingarfulltrúa að semja við umsækjanda um tímabundin afnot svæðis.

9.Ragnar Hermannsson f.h. Steinsteypis ehf. sækir um stöðuleyfi fyrir skála fyrir starfsmannaaðstöðu að Haukamýri 3

Málsnúmer 201509013Vakta málsnúmer

Óskað er eftir leyfi til að setja tímabundið niður vinnubúðareiningar sem starfsmannaðstöðu á lóð fyrirtækisins að Haukamýri 3. Meðfylgjandi erindi eru teikningar af húsinu og afstaða þess. Húsið er 129,1 m² að grunnfleti. Fyrir liggur áritun Vinnueftirlits á teikningum sem og samþykki eldvarnareftirlits.

Skipulags- og byggingarnefnd samþykkir erindið.

10.Gullmolar ehf. óska eftir stöðuleyfi fyrir bragga á lóðinni að Höfða 9

Málsnúmer 201507025Vakta málsnúmer

Óskað er eftir byggingarleyfi fyrir þremur bogaskemmum á lóðinni að Höfða 9. Fyrir liggja rissmyndir af útliti og afstöðu húsanna. Jafnframt er óskað eftir leyfi til að reisa 1,8 m háa girðingu umhverfis lóð Höfða 9 eins og fram kemur á myndunum. Fyrir liggur skriflegt samþykki nágranna fyrir mannvirkjunum.

Hliðstætt erindi var áður til umfjöllunar á fundi skipulags- og byggingarnefndar á fundi 14. júlí s.l. og þar kom fram að nefndinni hugnuðust ekki þau frávik frá gildandi deiliskipulagi sem lagt var upp með. Nú hefur fyrirhuguð uppbygging verið útfærð nánar og horft til snyrtilegs frágangs á lóðinni allri.

Skipulags- og byggingarnefnd fellst á framkvæmdirnar fyrir sitt leyti og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi þegar fullnægjandi gögn hafa borist.

11.Þ.S. Verktakar ehf. sækja um stöðuleyfi fyrir vinnubúðir við vegamót Dettifossvegar, norðan þjóðvegar 85.

Málsnúmer 201509003Vakta málsnúmer

Óskað er eftir stöðuleyfi fyrir vinnubúðir vegna gerðar Dettifossvegar. Vinnubúðir eru staðsettar í efnistökusvæði við vegamót Dettifossvegar og Norðausturvegar, norðan þjóðvegar nr. 85. Fyrirhugaður verktími er til 15. júlí 2016.

Skipulags- og byggingarfulltrúi samþykkti ósk um leyfi fyrir vinnubúðunum þann 1. september s.l.

12.Andri Rúnarsson og Dana Ruth Aðalsteinsdóttir, Arnþór H. Birgisson og Jóna Björg Arnarsdóttir, sækja um byggingarleyfi fyrir tvíbýlishúsi að Túngötu 17a og 17b

Málsnúmer 201509039Vakta málsnúmer

Óskað er eftir umsögn skipulags- og byggingarnefndar um fyrirhugaða uppbyggingu á lóðunum að Túngötu 17a og 17b. Gengið er út frá að núverandi hús verði fjarlægt og í stað þess komi stærra tvílyft íbúðarhús innar á lóðinni. Fyrir liggja rissmyndir af fyrirhuguðu húsi. Með umsagnarbeiðni var skilað inn skriflegu samþykki nágranna.

Skipulags- og byggingarnefnd telur nýtingarhlutfall vegna fyrirhugaðrar byggingar á lóðinni of hátt og fellst því ekki á hugmyndir lóðarhafa. Skipulags- og byggingarfulltrúa falið að ræða við umsækjendur um aðrar útfærslur.

13.Óleyfisbyggingar á miðhafnarsvæði

Málsnúmer 201509044Vakta málsnúmer

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar þann 12. febrúar 2014 var farið fram á að óleyfibyggingar á þaki Hafnarstéttar 7 yrðu fjarlægðar fyrir 1. júní 2014. Mannvirkin eru enn á þaki hússins.

Skipulags- og byggingarnefnd felur skipulags- og byggingarfulltrúa að ítreka fyrri kröfu um að óleyfisbyggingarnar verði fjarlægðar. Verði húsin ekki farin fyrir 5. október n.k. verði viðeigandi þvingunarúrræðum beitt.

14.Ragnar Hermannsson, Trésmiðjan Rein ehf. f.h. Steinsteypis ehf. sækir um byggingarleyfi fyrir steypustöð og inntakshúsi að Haukamýri 3

Málsnúmer 201506079Vakta málsnúmer

Óskað er eftir byggingarleyfi fyrir steypustöð og inntakshúsi að Haukamýri 3. Fyrir liggur útlitsmynd fyrirhugaðs mannvirkis.

Skipulags- og byggingarnefnd fellst á erindið og heimilar skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi fyrir mannvirkinu þegar fullnægjandi gögn hafa skilað sér.

Fundi slitið - kl. 18:00.