Fara í efni

Skipulags- og byggingarnefnd Norðurþings

135. fundur 24. nóvember 2015 kl. 14:00 - 17:00 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Sif Jóhannesdóttir formaður
  • Röðull Reyr Kárason aðalmaður
  • Soffía Helgadóttir aðalmaður
  • Jónas Hreiðar Einarsson aðalmaður
  • Arnar Guðmundsson aðalmaður
Starfsmenn
  • test
Fundargerð ritaði: Gaukur Hjartarson Skipulags- og byggingarfulltrúi
Dagskrá

1.Fjárhagsáætlun skipulags- og byggingarmála 2015

Málsnúmer 201509035Vakta málsnúmer

Með ákvörðun bæjarráðs þann 12. nóvember s.l. er fjárhagsrammi skipulags- og byggingarmála (bókhaldslykill 09) þrengdur umtalsvert fyrir árið 2016. Skipulags- og byggingarfulltrúi kynnti tillögu að breyttri fjárhagsáætlun til samræmis við nýjan ramma.

Skipulags- og byggingarnefnd leggur til við bæjarráð og bæjarstjórn að fjárhagsáætlunin fyrir skipulags- og byggingarmál verði afgreidd til samræmis við tillögu skipulags- og byggingarfulltrúa.

2.Deiliskipulag iðnaðarsvæðis við Kaldbak

Málsnúmer 201505018Vakta málsnúmer

Nú er lokið kynningu á deiliskipulagi iðnaðarsvæðis við Kaldbak. Athugasemdir og umsagnir bárust frá fimm aðilum.

1. Vegagerðin tilkynnti með bréfi dags. 12. nóvember um að hún gerði ekki athugasemdir við skipulagstillöguna.
2. Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra tilkynnir með bréfi dags. 6. nóvember að ekki séu gerðar athugasemdir við skipulagstillöguna.
3. Minjastofnun Íslands tilkynnir í bréfi sínu dags. 10. nóvember að stofnunin geri ekki athugasemd við deiliskipulagstillöguna en minnt er á ákvæði 2. mgr. 24 gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012.
4. Umhverfisstofnun bendir í bréfi sínu dags. 13. nóvember að stutt sé á milli förgunarsvæðis fyrir úrgang og frístundahúsasvæðis við Kaldbak. M.a. er vísað til 12. gr. reglugerðar nr. 294/2014 þar sem fram kemur að ekki megi vera minna en 500 m milli íbúðarhverfa og sorpurðunarstaðar. UST bendir einnig á að koma þurfi í veg fyrir að sigvatn á sorpförgunarsvæðinu berist í grunnvatn. Mikilvægt sé að ekki verði lyktarmengun frá urðunarstað að frístundasvæði.
Viðbrögð: Skipulags- og byggingarnefnd bendir á að ekki er urðunarsvæði á skipulagssvæðinu. Eftir að sorpbrennslustöð var lokað á svæðinu hefur ekki verið nein sorpförgun á svæðinu heldur fer þar einungis fram móttaka og flokkun á sorpi í dag. Sett verði í greinargerð ákvæði um að komið verði í veg fyrir að sigvatn af sorpförgunarsvæðinu lendi í grunnvatni. Einnig verði í greinargerð ákvæði um að lyktarmengun á sorpförgunarsvæði verði haldið í lágmarki.
5. Skipulagsstofnun tilkynnir með bréfi dags. 6. nóvember að ekki sé gerð athugasemd við skipulagstillöguna af hálfu stofnunarinnar, en minnir hinsvegar á ákvæði 9. gr. laga nr. 105/2006 vegna endanlegrar afgreiðslu áætlunarinnar.

Skipulags- og byggingarnefnd leggur til við bæjarstjórn að skipulagstillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem fram koma hér að ofan. Skipulags- og byggingarfulltrúa verði falið að ljúka ferli skipulagstillögunnar.

3.Deiliskipulag á Öskjureit

Málsnúmer 201411061Vakta málsnúmer

Nú er lokið kynningu á deiliskipulagi Búðarvallar. Athugasemdir og umsagnir bárust frá fimm aðilum.

1. Vegagerðin tilkynnti með bréfi dags. 12. nóvember um að hún gerði ekki athugasemdir við skipulagstillöguna.
2. Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra tilkynnir með bréfi dags. 6. nóvember að ekki séu gerðar athugasemdir við skipulagstillöguna.
3. Minjastofnun Íslands minnir í bréfi sínu dags. 6. nóvember á mikilvægi svæðisins í sögu Húsavíkur. Þar séu 6 aldursfriðuð hús, eitt til viðbótar umsagnarskylt skv. 30. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 auk þess sem stofnunin óskar að fá sérstaklega til umsagnar mögulegar breytingartillögur að Samkomuhúsinu að Garðarsbraut 22. Innan skipulagssvæðisins eru skráðir 14 fornleifastaðir. Þó ekki sjáist til fornleifa á yfirborði er viðbúið að minjar um mannvist fyrri tíma leynist þar neðanjarðar. Því þarf að gera sérstakar ráðstafanir áður en farið er í jarðvegsframkvæmdir á reitnum. Þar sem fyrirhugað er að fara í jarðrask innan svæðisins þarf fyrst að grafa könnunarskurði undir stjórn fornleifafræðings til að ganga úr skugga um hvort þar leynist fornleifar. Fjöldi könnunarskurða, umfang þeirra og dreifing yfir fyrirhugaða byggingarreiti skal ákveðin í samráði viðkomandi fornleifafræðings og minjavarðar. Í kjölfar könnunarskurðanna þarf að ákveða nánar hvort og þá undir hvaða skilyrðum framkvæmdir á svæðinu geta haldið áfram. Ennfremur er minnt á að við allar umfangsmiklar framkvæmdir skal sá sem stendur fyrir þeim bera kostnað af nauðsynlegum rannsóknum og vettvangsskráningu fornleifa.
Viðbrögð: Færð verði inn í greinargerð deiliskipulagsins ákvæði um fornleifaathuganir til samræmis við óskir Minjastofnunar. Ennfremur verði sérstaklega tiltekið að samráð verði haft við Minjastofnun áður en heimilaðar eru verulegar breytingar á Samkomuhúsi.
4. Umhverfisstofnun tilkynnir í bréfi dags. 13. nóvember að ekki séu gerðar athugaemdir við skipulagstillöguna er bendir engu að síður á að við suðausturhorn væntanlegrar byggingar nr. 4 er þröngt um göngustíg og mætti huga að því að rýmka þar fyrir aðgengi almennings.
Viðbrögð: Skipulags- og byggingarnefnd tekur undir sjónarmið UST um þrengsli við göngustíg við SA-horn byggingar nr. 4. Byggingarreitur og lóðarmörk verði ekki nær stígnum en 5 m.
5. Víkurraf ehf gerir eftirfarandi athugasemdir með bréfi dags. 14. október: a) Einstefna í Garðarsbraut sé óþörf og muni auka umferð framhjá grunnskóla. b) Gerðar eru athugasemdir við aukið byggingarmagn og fækkun bílastæða á svæðinu. Vandræði skapast ítrekað við núverandi aðstæður vegna bílastæðaskorts, sérstaklega að sumarlagi. c) Vegna aukinnar umferðar á hafnarsvæðinu í tengslum við uppbyggingu á Bakka væri frekar tilefni til að malbika veg um Búðargil heldur en að leggja af núverandi veg.
Viðbrögð: a) Horfið verði frá einstefnu um Garðarsbraut á þessu stigi. Til mótvægis við fækkun bílastæða verði gert ráð fyrir bílastæðum inni á lóð nr. 2. b) Skipulags- og byggingarnefnd telur nægilegan fjölda bílastæða á svæðinu þrátt fyrir aukið byggingarmagn skv. skipulagstillögunni. c) Opnun farvegs Búðarár í Búðargili er í samræmi við ákvæði aðalskipulags. Nefndin telur ekki pláss fyrir slitlagða götu í gilinu samhliða ánni.
6. Lagnatak ehf mótmælir harðlega skerðingu lóðar að Garðarsbraut 20b eins og fyrirhugað er í kynntri tillögu að deiliskipulagi.
Viðbrögð: Ekki er til þinglýstur lóðarsamningur fyrir lóðina að Garðarsbraut 20b og þannig nokkuð óljóst hversu stór hún skal vera. Það flatarmál lóðar sem skráð er í fasteignaskrá er skv. lóðarblaði sem varla hefur lögformlegt gildi. Nefndin felur byggingarfulltrúa að ræða nánar við lóðarhafa um ný lóðarmörk.

Skipulags- og byggingarnefnd felur skipulags- og byggingarfulltrúa að láta vinna tillögu að ofangreindum breytingum í deiliskipulagstillöguna. Stefnt verði að frekari afgreiðslu skipulagstillögunnar á næsta fundi.

4.LNS Saga ehf. sækir um lóðir á Höfða fyrir vinnubúðir

Málsnúmer 201511065Vakta málsnúmer

Óskað er eftir tímabundnum afnotum af lóðunum að Höfða 14, 16 og 18 undir svefnbúðir og mötuneyti fyrir starfsmenn fyrirtækisins. Gert er ráð fyrir að vinnubúðir stæðu á lóðunum til desember 2017. Erindið var áður til umfjöllunar á fundi skipulags- og byggingarnefndar 17. nóvember s.l. og þá ákveðið að grenndarkynna fyrirhugaðar byggingar.

Umsækjandi hefur nú skilað inn skriflegu samþykki þeirra nágranna sem tilgreindir voru vegna grenndarkynningarinnar.

Skipulags- og byggingarnefnd leggur til við bæjarstjórn að LNS Sögu ehf verði úthlutað lóðunum þremur tímabundið til ársloka 2017 undir vinnubúðir. Byggingarfulltrúa verði heimilað að veita lóðarhafa byggingarleyfi fyrir vinnubúðunum til samræmis við framlagða teikningu. Þar sem lóðaafnot eru tímabundin verði embættismönnum bæjarins falið að semja sérstaklega um gjöld vegna tengingar lóðanna við götur og lagnir.

5.Frágangur úthlutaðra lóða

Málsnúmer 201305024Vakta málsnúmer

Guðjón Vésteinsson ítrekar fyrri athugasemdir við frágang lóðarinnar að Laugarbrekku 23 í tölvupósti til byggingarfulltrúa dags. 15. október. Ekkert hefur áunnist í að rykbinda lóðina þrátt fyrir kröfu um að það yrði gert fyrir síðasta sumar. Einnig telur hann að frágangur við gangstétt við Laugarbrekku í sumar hafi verið unnin með mjög rykgjörnu efni.

Skipulags- og byggingarnefnd harmar þau óþægindi sem nágrönnum hafa hlotist vegna frágangs lóðarinnar að Laugarbrekku 23. Skipulags- og byggingarfulltrúa er falið að krefja lóðarhafa um að rykbinda lóðaryfirborð fyrir lok maí n.k. Verði ekki brugðist við í tíma verði þvingunarúrræðum skv. ákvæðum mannvirkjalaga beitt.

6.Olíudreifing ehf. óskar eftir nýjum lóðarsamningi fyrir breytta lóð að Höfða 10

Málsnúmer 201511058Vakta málsnúmer

Óskað er eftir að gefinn verði út lóðarsamningur á Olíudreifingu vegna lóðarinnar að Höfða 10.

Skipulags- og byggingarnefnd leggur til við bæjarstjórn að gefinn verði út lóðarleigusamningur um Höfða 10 við Olíudreifingu á grundvelli breytingar deiliskipulags á Höfða.

7.Olíudreifing ehf. sækir um deiliskipulag fyrir breytta lóð að Höfða 10

Málsnúmer 201511059Vakta málsnúmer

Óskað er eftir að unnið verði deiliskipulag fyrir nýja lóð að Höfða 8 undir olíubirgðastöð til samræmis við samkomulag milli Olíudreifingar og Norðurþings frá 22. október s.l.

Skipulags- og byggingarfulltrúa er falið að láta vinna tillögu að breytingu deiliskipulags iðnaðarsvæðis að Höfða til samræmis við tilgreint samkomulag.

8.Olíudreifing ehf. sækir um framkvæmdaleyfi fyrir girðingu og uppsetningu tveggja olíugeyma í birgðastöð að Höfða 10

Málsnúmer 201511060Vakta málsnúmer

Óskað er eftir heimild til að setja tvo 60 m³ eldsneytisgeyma niður á lóð Höfða 10. Einnig er óskað eftir leyfi til uppsetningar girðingar á nýjum lóðarmörkum og breyttri aðkomu með annarri innkeyrslu á lóðina.

Erindið var samþykkt með fyrirvara af byggingarfulltrúa þann 23. nóvember s.l.

9.Þórey Agnarsdóttir sækir um byggingarleyfi fyrir frístundahús að Laxárlundi 7

Málsnúmer 201507037Vakta málsnúmer

Óskað er eftir byggingarleyfi fyrir frístundahúsi að Laxárlundi 7. Húsið er 37,3 m² að flatarmáli og teiknað af Friðriki Ólafssyni verkfræðingi. Fyrir liggur skriflegt samþykki nágranna í Laxárlundi 8 fyrir húsbyggingunni nær lóðarmörkum en 10 m.

Skipulags- og byggingarnefnd samþykkir þau frávik frá deiliskipulagi sem felast í nálægð hússins frá lóðarmörkum. Byggingarfulltrúa er falið að gefa út byggingarleyfi fyrir húsinu.

Fundi slitið - kl. 17:00.