Fara í efni

Skipulags- og framkvæmdaráð

112. fundur 16. nóvember 2021 kl. 13:00 - 16:00 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Benóný Valur Jakobsson formaður
  • Kristinn Jóhann Lund varaformaður
  • Hjálmar Bogi Hafliðason aðalmaður
  • Nanna Steina Höskuldsdóttir varamaður
  • Heiðar Hrafn Halldórsson varamaður
  • Kristján Friðrik Sigurðsson varamaður
Starfsmenn
  • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfulltrúi
  • Þórir Örn Gunnarsson hafnarstjóri
  • Jónas Hreiðar Einarsson framkv.- og þjónustufulltrúi
  • Hermína Hreiðarsdóttir Ritari
  • Smári Jónas Lúðvíksson starfsmaður í stjórnsýslu
  • Ketill Gauti Árnason starfsmaður í stjórnsýslu
Fundargerð ritaði: Hermína Hreiðarsdóttir þjónustu- og skjalafulltrúi
Dagskrá
Gaukur Hjartarson skipulags- og byggingafulltrúi sat fundinn undir liðum 1-10.
Ketill G. Árnason verkefnastjóri sat fundinn undir liðum 1-10.
Smári J. Lúðvíksson umhverfisstjóri sat fundinn undir liðum 1-10.
Drífa Valdimarsdóttir fjármálastjóri sat fundinn undir lið 11.

1.Lýsing vegna endurskoðunar aðalskipulags Vopnafjarðarhrepps

Málsnúmer 202111029Vakta málsnúmer

Vopnafjarðarhreppur sendir til umsagnar skipulagslýsingu fyrir endurskoðun aðalskipulags Vopnafjarðarhrepps.
Skipulags- og framkvæmdaráð Norðurþings gerir ekki athugasemdir við skipulagslýsinguna.

2.Deiliskipulag á Höfða

Málsnúmer 202103143Vakta málsnúmer

Nú er lokið kynningu heildarendurskoðunar deiliskipulags á Höfða á Húsavík. Athugasemdir bárust frá fjórum aðilum. 1) Minjastofnun, 2) Vegagerðinni, 3) Faglausn f.h. Gullmola ehf. og 4) Faglausn f.h. Gentle Giants.
1. Minjastofnun (bréf dags. 28. október 2021):
1.1: Gerð er athugasemd við missögn í texta 15. kafla greinargerðar um að ekki séu skráðar minjar innan skipulagssvæðisins.
1.2: Gerðar eru athugasemdir við að minjum matjurtagarðs hefur verið raskað innan skipulagssvæðis án samþykkis Minjastofnunar.

2. Vegagerðin (bréf dags. 15. nóvember 2021):
2.1: Vegagerðin fer fram á að jarðgöng og 20 m öryggissvæði meðfram þeim verði sýnd á skipulagsuppdrætti.
2.2: Setja þarf skilyrði í greinargerð um samráð við Vegagerðina vegna allra framkvæmda sem gætu haft áhrif á jarðgöng.

3. Faglausn f.h. Gullmola ehf (bréf dags. 10. nóvember 2021):
3.1: Óskað er eftir að byggingarreitur lóðar Höfða 10 verði stækkaður til norðurs til samræmis við samþykkt byggingaráform vegna matshluta 09.
3.2: Óskað er eftir því að byggingarreitur verði skilgreindur 3 m frá vesturmörkum lóðar við matshluta 08.
3.3: Óskað er eftir því að merkingum aðkomuleiða að Höfða 10 verði breytt til samræmis við tillögu lóðarhafa.

4. Faglausn f.h. Gentle Giants (bréf dags. 11. nóvember 2021):
4.1: Óskað er eftir því að lóðin að Höfða 3 verði stækkuð um 3 m til austurs inn á lóð Höfða 1.
4.2. Óskað er eftir því að lóðinni að Höfða 3 verði skipt í þrjár skv. tillögu lóðarhafa.
4.3. Óskað er eftir að byggingarreitur verði teiknaður til suðurs af skemmubyggingu Gentle Giants í línu við byggingarreiti trésmíðaverkstæðis innan sömu lóðar og Höfða 1.

Tillögur Skipulags- og framkvæmdaráðs að viðbrögðum Norðurþings vegna athugasemdanna:

1.1: Kafli 15 um fornminjar á skipulagssvæði verði lagaður til samræmis við ábendingu Minjastofnunar.
1.2: Skipulags- og framkvæmdaráð harmar röskun leifa matjurtagarðs á Höfða 14.
2.1: Lega jarðganga og öryggissvæði verði teiknað inn á uppdrátt til samræmis við ábendingu Vegagerðarinnar.
2.2: Sett verði í greinargerð deiliskipulagsins skilyrði um samráð við Vegagerðina vegna framkvæmda á skipulagssvæðinu sem kynnu að hafa áhrif á jarðgöngin.
3.1: Byggingarreitur Höfða 10 verði útvíkkaður til norðurs til samræmis við samþykkt skipulags- og framkvæmdaráðs frá 14. september s.l.
3.2: Miðað verði við að vesturmörk byggingarreits Höfða 10 við matshluta 08 verði 3 m frá lóðarmörkum.
3.3: Aðkomuleiðir að Höfða 10 verði teiknaðar á skipulagsuppdrátt til samræmis við óskir lóðarhafa.
4.1: Lóðarmörk milli Höfða 1 og Höfða 3 eru teiknuð inn á skipulagsuppdrátt til samræmis við þinglýsta lóðarleigusamninga beggja lóða. Skipulags- og framkvæmdaráð er ekki reiðubúið að leggja upp með breytingu á þeim lóðarmörkum í deiliskipulaginu.
4.2: Skipulags- og framkvæmdaráð telur rétt að skipta lóðinni að Höfða 3 upp í eignaskiptasamningi í samningum milli lóðarhafa fremur en í deiliskipulagi. Ráðið er því ekki reiðubúið að breyta deiliskipulagstillögunni vegna athugasemdarinnar.
4.3: Skipulags- og framkvæmdaráð fellst á að suðurmörk byggingarreits vegna skemmu Gentle Giants verði færð í línu við aðra byggingarreiti á svæðinu.

Lagfæra þarf orðalag 2. og 4. kafla greinargerðar vegna núgildandi deiliskipulags sem samþykkt var í bæjarstjórn Húsavíkur þann 21. desember 1999. Gildistaka þess skipulags var auglýst í Stjórnartíðindum 25. janúar 2000. Gera þarf grein fyrir því, bæði á uppdrætti og í greinargerð, að núgildandi deiliskipulag falli úr gildi við gildistöku nýs deiliskipulags. Fella þarf út setningu í 7. kafla um að lóðin að Höfða 3 teljist fullbyggð.

Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að deiliskipulagið verði samþykkt með ofangreindum breytingum. Skipulags- og byggingarfulltrúa verði falið að vinna að gildistöku breytts deiliskipulags.

3.Tillaga að afmörkun lóðar, Aðalbraut 4

Málsnúmer 202111086Vakta málsnúmer

Fyrir liggur tillaga skipulags- og byggingarfulltrúa að afmörkun lóðar umhverfis húseignir GPG á hafnarsvæði Raufarhafnar. Tillagan var unnin í samráði við lóðarhafa. Í tillögunni er horft til þess að sameina þrjár lóðir í eina; Hafnarsvæði L154483, Jökull L154494 og Hafsilfur L154487. Nýtt heiti lóðar verði Aðalbraut 4. Flatarmál lóðarinnar er 12.276,56 m².
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að afmörkun sameinaðrar lóðar verði samþykkt og skipulags- og byggingarfulltrúa falið að útbúa lóðarsamning til undirritunar.

4.Umsókn um lóð að Hraunholti 1

Málsnúmer 202111052Vakta málsnúmer

Hjörvar Jónmundsson óskar eftir úthlutun lóðarinnar að Hraunholti 1 undir byggingu einbýlishúss.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að Hjörvari verði úthlutað lóðinni.

5.Ósk um sameiningu lóða við Útgarð

Málsnúmer 202111076Vakta málsnúmer

Naustalækur ehf. óskar eftir að lóðir að Útgarði 2 og Útgarði 4-6 verði sameinaðar í eina. Fyrir liggur tillaga að lóðarblaði sameinaðrar lóðar undir heitinu Útgarður 2-6. Sameinuð lóð yrði 5.260 m² skv. lóðarblaðinu. Fyrir liggja undirrituð samkomulög milli lóðarhafa vegna sameiningar lóðanna. Lóðarblaðið sýnir einnig hnitsetta breytta afmörkun lóðarinnar að Pálsgarði 1.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að lóðirnar verði sameinaðar. Skipulags- og byggingarfulltrúa verði falið að útbúa lóðarsamninga fyrir Útgarð 2-6 og Pálsgarð 1 til samræmis við framlagt lóðarblað.

6.Lokun verslunar Húsasmiðjunnar á Húsavík

Málsnúmer 202110118Vakta málsnúmer

Byggðarráð harmar að það sé niðurstaða eigenda Húsasmiðjunnar að hverfa frá Húsavík með tiheyrandi skerðingu á þjónustu við íbúa á svæðinu.
Byggðarráð vísar erindi Ásmundar til fjölskylduráðs og skipulags- og framkvæmdaráðs til umfjöllunar.
Skipulags- og framkvæmdaráð telur sig ekki hafa not fyrir eignina að svo stöddu.

7.Fjárhagsáætlun framkvæmda- og þjónustusviðs 2022

Málsnúmer 202110019Vakta málsnúmer

Til kynningar er uppfærð fjárhagsáætlun framkvæmda- og þjónustusviðs 2022.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir fjárhagsáætlun framkvæmda- og þjónustusviðs og vísar henni til kynningar í byggðarráði og seinni umræðu í sveitarstjórn.

8.Framkvæmdaáætlun framkvæmdasvið 2022

Málsnúmer 202111048Vakta málsnúmer

Til kynningar er framkvæmdaáætlun fyrir árið 2022.
Lagt fram til umræðu.

9.Erindi varðandi sorpílát á Raufarhöfn og víðar

Málsnúmer 202111068Vakta málsnúmer

Hjörtur Skúlason sendir eftirfarandi erindi á Skipulags og framkvæmdanefnd.

"Ég fer hér fram á að Norðurþing útvegi heimilum ílát fyrir heimilissorp í öllu Norðurþingi.
Ílát eiga að vera innifalin í sorphirðugjaldi."

í rökstuðningi var m.a. vitnaði í 8.gr. í "Samþykt um meðhöndlun úrgangs í Norðurþingi".

"8. gr.
Sorpílát.
Norðurþing leggur heimilum í sveitarfélaginu til sorpílát undir venjulegan heimilisúrgang,
endurvinnsluefni og lífrænan úrgang. Húseigendur eða húsráðendur skulu nota þau ílát við geymslu
úrgangs sem framkvæmdanefnd ákveður hverju sinni í samræmi við lög og reglur þar að lútandi.
Húsráðendur skulu halda ílátum hreinum og í góðu ástandi.
Á stöðum þar sem aðstæður leyfa ekki að sorpílátum sé stillt upp við hvert heimili er heimilt að
setja upp sameiginleg sorpílát fyrir fleiri en eitt heimili. Skal þess þá gætt að aðgengi íbúa að ílátum
sé eins gott og við verður komið. Jafnframt er heimilt að verða við óskum húseigenda um sameiginleg sorpílát að fengnu samþykki allra hlutaðeigandi.
Í dreifbýli er framkvæmdanefnd heimilt, í samráði við heilbrigðisnefnd og skipulagsnefnd, að
setja upp gáma fyrir heimilisúrgang á stöðum þar sem aðgengi er gott í stað þess að sækja heimilisúrgang á hvert heimili.
Ekki er skylt að hirða úrgang sem ekki er í viðurkenndum sorpílátum."
Skipulags- og framkvæmdaráð tekur vel í erindið og felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að leita til þjónustuaðila sorphirðu um að bæta við almennum tunnum í þéttbýli Kópaskers og Raufarhafnar í samræmi við 8.gr. Samþykktar um meðhöndlun úrgangs í Norðurþingi.
Skipulags- og framkvæmdaráð stefnir á, í samræmi við ný lög, að hefja hirðingu lífræns úrgangs í þéttbýli Kópaskers og Raufarhafnar 2023.

10.Endurskoðun svæðisáætlunar um meðhöndlun úrgangs á Norðurlandi 2015-2026

Málsnúmer 202111087Vakta málsnúmer

Eyþór Björnsson fyrir hönd SSNE sendi tölvupóst til aðildasveitarfélaga þar sem eftirfarandi var lagt til og óskað eftir afstöðu.

"Hér með leggur SSNE það til að ráðist verði í endurskoðun á Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á Norðurlandi og að verkefnið verði unnið í samstarfi við Norðurland vestra. Einnig að Svalbarðshreppi og Langanesbyggð verði boðin þátttaka í svæðisáætluninni. SSNE leggur það til að endurskoðunin verði fjármögnuð sem áhersluverkefni 2022."

Hér með óskar SSNE eftir afstöðu aðildarsveitarfélaga til eftirfarandi:

-Að Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á Norðurlandi 2015-2026 verði endurskoðuð á næsta ári.
-Að endurskoðun verði unnin í samstarfi við Norðurland vestra.
-Að endurskoðun verði fjármögnuð sem áhersluverkefni (framlög ríkis).
-Að Svalbarðshreppur og Langanesbyggð verði þátttakendur í svæðisáætluninni, kjósi þau það.



Skipulags- og framkvæmdaráð gerir grein fyrir afstöðu sinni og vísar erindinu til afgreiðslu í sveitastjórn.
Ráðið tekur vel í að Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á Norðurlandi 2015-2026 verði endurskoðuð á næsta ári.
Ráðið tekur vel í að endurskoðun verði unnin í samstarfi við Norðurland vestra.
Ráðið tekur vel í að endurskoðun verði fjármögnuð sem áhersluverkefni (framlög ríkis).
Ráðið tekur vel í að öll aðildarsveitafélög SSNE verði verði þátttakendur í svæðisáætluninni og fagnar þátttöku Svalbarðshrepps og Langanesbyggðar, kjósi þau það.


11.Fjárhagsáætlun Hafnasjóðs 2022

Málsnúmer 202110100Vakta málsnúmer

Fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggur fjárhagsáætlun hafnasjóðs 2022.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir fjárhagsáætlun hafnasjóðs og vísar henni til kynningar í byggðarráði og til seinni umræðu í sveitarstjórn.

Fundi slitið - kl. 16:00.