Covidpistill sveitarstjóra #18

Tolli - Fjallabak.
Tolli - Fjallabak.

Í dag eru 16 virk covid-19 smit í umdæmi Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra; 13 á Akureyri, eitt á Húsavík, eitt á Dalvík og eitt á Siglufirði. Nú hafa liðið 11 dagar frá því að síðasta smit greindist á okkar svæði sem er mjög jákvætt. Við skulum þó hafa það í huga að dómurinn um það hvernig fólk stóð sig í að virða sóttvarnir og samkomubannið um páskana fellur líklegast núna um komandi helgi. Flestir sem smitast af covid-19 og fá einkenni fá þau um viku eftir að hafa smitast. Það vona ég að ekkert bakslag verði í þessu hjá okkur og þeim góða árangri sem við höfum náð í baráttunni við veiruna. Það má segja að þótt tilfellin séu í raun fá í okkar umhverfi hefur ástandið engu að síður sett feiknarlegt álag á heilbrigðisþjónustuna á Norðurlandi. Því verðum við að gera allt sem við getum til að fá ekki faraldurinn aftur í vöxt á næstu vikum, sem jafnvel gæti þýtt enn strangari samkomu skilyrði ef upp kæmi hópsmit.

Alls greindust 15 smit á landinu í gær og alls eru nú 500 virk smit í gangi. Enn er nær helmingur smita að greinast utan sóttkvíar sem hlýtur að valda ákveðnum vonbrigðum. Munum að við getum smitast hvar sem er á Íslandi. Jafnvel bara af snertingu handriðs við búðina eða vegna þess að einhver stóð of nálægt þér og hóstaði. Því er ekkert val um að sýna áfram ábyrgð og skilning á aðstæðum.

Annars er vor í lofti. Mikið ofboðslega sem það er nú gott, mikilvægt og tímabært. Ég er sannfærður um að vorið muni eiga mikilvægan þátt í því að bæta líðan margra sem upplifa sig dapra eða kvíðna yfir ástandinu. Við skulum öll reyna að njóta útiveru um helgina sé þess kostur. Í tengslum við umræðu um líðan fólks og þá staðreynd að félagsþjónustan og starfsmenn í velferðarþjónustu víðsvegar um landið sjá aukningu í hópi þeirra sem glíma við depurð og erfiðar hugsanir þá kom upp sú hugmynd á starfsmannafundi hjá okkur í stjórnsýslunni í morgun að verkefni helgarinnar yrði að heyra í minnst tveimur vinum eða kunningjum sem við hefðum ekki heyrt í síðastliðinn mánuðinn. Hringja bara til að taka stöðuna og spjalla um daginn og veginn, gamla og góða tíma eða til að leggja drög að næsta hittingi. Ég vil gera þessa áskorun okkar að ykkar sömuleiðis. Heyrið í einhverjum tveimur sem langt er um liðið að þið heyrðuð frá. Tvö símtöl. Eitt á laugardag og annað á sunnudag. Einfalt og ánægjulegt heimaverkefni.

Að lokum. Þótt veðrið sé gott og að sólin vermi okkur í dag getum við aldrei gefið afslátt af sóttvörnunum. Á það verður ekki of oft minnst. Þvoið ykkur reglulega um hendurnar með sápu. Passið uppá tveggja metra regluna og njótið stundar með hvort öðru, í hæfilegri fjarlægð. Megi helgin verða ykkur öllum ánægjuleg.

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri