Bæjarráð Norðurþings
Dagskrá
1.Garðarshólmur 2013
201301062
Á fund bæjarráðs mættu fulltrúar stjórnar Garðarshólms SES til fara yfir og kynna uppbyggingu félagsins á Húsavík. Á fundinn mættu, Valgerður Sverrisdóttir, formaður stjórnar, Árni Sigurbjarnarson og Sigurður Eyberg, framkvæmdastjóri. Farið var yfir stöðu verkefnisins, framtíðarsýn og aðra áhugaverða þætti tengda verkefninu.Bæjarráð þakkar fulltrúum Garðarshólm SES fyrir góða kynningu. Undir þessum lið sat Hjálmar Bogi Hafliðason, bæjarfulltrúi.
2.Aflið, styrkbeiðni
201105032
Fyrir bæjarráði liggur styrkbeiðni frá Aflinu, samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi. Bæjarráð samþykkir að styrkja samtökin um sömu upphæð og á síðasta ári.
3.Atvinnuveganefnd Alþingis, 570. mál til umsagnar
201302052
Fyrir bæjarráði liggur til umsagnar, frá Atvinnuveganefnd Alþingis, frumvarp til laga um stjórn fiskveiða, 570. mál. Soffía leggur fram eftirfarandi bókun:"Við gerð á frumvarpi til laga um stjórn fiskveiða, þingskjali 968 - 570. mál, hefur ekki verið leitað sérfræðiálita með hagfræðilegri úttekt á einstök svæði, útgerðarflokka o.s.frv. Mörg sjávarútvegssveitarfélög, Starfsgreinasambandið, ASÍ og aðrir hagsmunaaðilar eru á móti þessu frumvarpi, og tel ég því ákveðna sáttarleið að leitað verði til óháðra sérfræðinga og hagfræðileg úttekt verði gerð á frumvarpinu."
4.Aukafundur Eyþings 12. feb. 2013
201302032
Fyrir bæjarráði liggur fundarboð og dagskrá aukafundar Eyþings sem fram fer í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Lagt fram til kynningar.
5.Erindi frá JS seafood varðandi niðursuðuverksmiðju á Kópaskeri
201302050
Fyrir bæjarráði liggur erindi frá JS seafood varðandi uppsetningu á niðursuðuverksmiðju að Bakkagötu 11 á Kópaskeri. Áætlað er að sjóða niður þorskalifur ásamt fleiru, sbr. markríl og síld. Gert er ráð fyrir að allar vélasamstæður verði komnar á staðinn í næstu viku og starfsemi hefjist fljótlega þar á eftir. Kaupendur vörunnar eru til staðar og því ræðst sölumagn af því hráefnismagni sem vinnslan getur aflað sér. Fyrirtækið væntir samstarfsvilja útgerðaraðila innan sveitarfélagsins. Fyrirtækið er aðili að rekstri samskonar vinnslu í Grindavík og starfa þar 18 manns.Fyrirtækið óskar eftir samvinnu við sveitarfélagið um þá þætti sem geta leitt til styrkingar reksturs niðursuðuverksmiðjunnar. Bæjarráð tekur jákvætt í erindið og felur bæjarstjóra að ræða við forsvarsmenn fyrirtækisins.
6.Erindi frá Norðlenska varðandi lokun sorpbrennslunnar á Húsavík
201302074
Fyrir bæjarráði liggur erindi frá Norðlenska þar sem þess er óskað að fyrirhuguð lokun fyrir brennslu sorps hjá Sorpbrennslu Þingeyinga verði endurskoðuð. Norðlenska bendir á að brennslan hefur gert fyrirtækinu kleift að losna við svokallaðan áhættudýraúrgang ( flokk 1 og flokk 2 ) í öruggan og samþykktan farveg. Á þetta bæði við um starfsstöð Norðlenska á Húsavík og Akureyri. Vegna mögulegra smitleiða dýrasjúkdóma er t.d. ekki heimilt að senda áhættuflokka í moltu, einnig er ekki ljóst hvort heimilt sé að urða þessa áhættuflokka á urðunarstað Norðurár í Stekkjavík.Það er því ljóst að lokun sorpbrennslunar mun gera fyrirtækinu erfitt fyrir að losa sig við dýraúrgang í áhættuflokki 1 og 2, og kostnaður sem af þessu gæti hlotist verið mikill baggi á fyrirtækinu.Norðlenska vill því koma því á framfæri við sveitarfélagið að reyna í lengstu lög að komast hjá lokun sorpbrennslunar þannig að fyrirtæki á staðnum hafi ásættanlegan farveg fyrir sorp og úrgang. Einnig vill fyrirtækið gjarnan fá að vita hvað sveitarfélagið sér fyrir sér varðandi losun dýraúrgangs frá sláturhúsinu á staðnum þegar/ef verður af lokun sorpbrennslunar. Bæjarráð hefur meðtekið beiðni Norðlenska og vísar því til stjórnar Sorpsamlags Þingeyinga.
7.Frá Velferðarvaktinni
201109005
Fyrir bæjarráði liggur tilkynning frá Velferðarvaktinni sem sent hefur verið til allra sveitarfélaga landsins en í tilkynningunni er minnt á málefni fjölskyldna á Íslandi og margbreytileika nútímafjölskyldunnar. Sveitarfélög eru því hvött til að setja sér fjölskyldustefnu og áætlun um framkvæmd hennar. Erindið lagt fram til kynningar.
8.Fundarboð og fundagerðir Orkuveitu Húsavíkur ohf. 2013
201301049
Fyrir bæjarráði liggur til kynningar fundargerð 108. fundar Orkuveitu Húsavíkur ohf. sem fram fór 19. febrúar s.l. Fundargerðin lögð fram til kynningar.
9.Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra
201302078
Fyrir bæjarráði liggur til kynningar fundargerðir 148., 149., og 150. fundar Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra. Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.
10.Fundur með umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis
201302070
Fyrir bæjarráði liggur fundarboð frá umhverfis- og samgögnunefnd Alþingis til að fjalla um 429. mál, náttúruvernd. Sveitarfélagið Norðurþing var einn af mörgum umsagnaraðilum um frumvarpið og fær tök á að gera grein fyrir umsögn sinni á fundi með nefndinni.
11.Lánasjóður sveitarfélaga ohf
201109047
Fyrir bæjarráði liggur aðalfundarboð ásamt dagskrá Lánasjóðs sveitarfélaga ohf., fyrir árið 2012. Aðalfundurinn verður haldinn föstudaginn 15. mars, kl. 16:00 á Grand Hóteli Reykjavík. Bæjarráð felur bæjarstjóra, Bergi Elíasi Ágústssyni, að fara með umboð sveitarfélagsins á fundinum.
12.Ósk um söluheimild fyrir íbúðina að Gbr 83 nr. 303
201103105
Fyrir bæjarráði liggur beiðni um söluheimild eigna. Tilboð liggur fyrir í Garðarsbraut 83 íbúð 303. Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi beiðni.
13.Skipulagsstofnun sendir til umsagnar frummatsskýrslu um kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka
201302075
Fyrir bæjarráði liggur til umsagnar, að beiðni Skipulagsstofnunar, frummatsskýrsla um kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka. Frummatsskýrslan er aðgengileg í gegnum heimasíðu Skipulagsstofnunar. Umsögn óskast send Skipulagsstofnun fyrir 15. mars n.k. Bæjarráð vísar beiðni Skipulagsstofnunar til umfjöllunar og umsagnar skipulags- og bygginganefndar. Bæjarráð hvetur jafnframt íbúa til að kynna sér skýrsluna. Frummatsskýrslan er aðgengileg í gegnum heimasíðu Skipulagsstofnunar og á; <A href="http://www.efla.is/kisilmalmverksmieja-a-bakka-vie-husavik">http://www.efla.is/kisilmalmverksmieja-a-bakka-vie-husavik</A>
14.Skipun starfshóps um frágang lóðar Síldarvinnslu ríkisins á Raufarhöfn.
201201062
Fyrir bæjarráði liggur erindi frá fulltrúum starfshóps sem skipaður var vegna frágangs lóðar við SR húsin á Raufarhöfn. Fulltrúarnir óska eftir skilgreiningu á verksviði sínu þannig að álitsgjöf verði skilvirkari og meira bindandi en verið hefur. Bæjarráð tekur undir sjónarmið starfshópsins og felur bæjarstjóra að gera erindisbréf þar sem hlutverk er betur skilgreint og leggja það fyrir næsta bæjarráðsfund.
15.Skúlagarður - fasteignafélag, aðalfundarboð
201204014
Fyrir bæjarráði liggur aðalfundarboð ásamt dagskrá vegna Skúlagarðs - fasteignafélags ehf. Aðalfundurinn fer fram í Skúlagarði þriðjudaginn 5. mars n.k. og hefst hann kl. 20:00 Bæjarráð felur Jóni Grímssyni að fara með umboð sveitarfélagsins á fundinum og Bergi Elías Ágústssyni til vara.
16.Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, 537. mál til umsagnar
201302067
Fyrir bæjarráði liggur til umsagnar frá Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis frumvarp til laga um kosningar til sveitarstjórna, 537. mál. Erindið lagt fram til kynningar.
17.Stracta Konstruktion ehf. sækir um lóð undir hótel
201301029
Fyrir bæjarráði liggur samningur milli sveitarfélagsins og Stracta Konstruction ehf. vegna skipulagsvinnu sem ráðast þarf í vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar hótelstarfsemi á Húsavík. Samningur þessi byggir á því að aðilar eru sammála um með hvaða hætti unnið verði að tillögu að deiliskipulagi, sbr. 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi samning.
18.Stúlknakór Húsavíkur. Umsókn um styrk vegna kórferðar á kóramót til vinabæjarins Fredrikstad í Noregi.
201302037
Fyrir bæjarráði liggur erindi frá Stúlknakór Húsavíkur þar sem óskað er eftir styrk vegna fyrirhugaðrar ferðar kórsins á kóramót í maí. Kóramótið er haldið í Fredrikstad í Noregi sem er vinabær Húsavíkur. Eirindið hafði áður fengið umfjöllun fræðslu- og menningarnefndar sem vísaði því til afgreiðslu bæjarráðs þar sem um vinarbæjarsamskipti er um að ræða. Bæjarráð samþykkir að styrkja kórinn um 250.000.- krónur þar sem þessi ferð er hluti af vinarbæjarsamstarfi.
19.XXVII. landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga
201302053
Fyrir bæjarráði liggur fundarboð ásamt dagskrá á XXVII. landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga sem fram fer föstudaginn 15. mars á Grand Hóteli í Reykjavík. Lagt fram til kynningar.
Fundi slitið - kl. 18:00.