Fara í efni

Byggðarráð Norðurþings

347. fundur 10. desember 2020 kl. 08:30 Fjarfundur
Nefndarmenn
  • Helena Eydís Ingólfsdóttir formaður
  • Kolbrún Ada Gunnarsdóttir varaformaður
  • Hafrún Olgeirsdóttir aðalmaður
  • Hjálmar Bogi Hafliðason áheyrnarfulltrúi
  • Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri
  • Benóný Valur Jakobsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Drífa Valdimarsdóttir fjármálastjóri
Fundargerð ritaði: Drífa Valdimarsdóttir fjármálastjóri
Dagskrá
Fundurinn fer fram í gegnum Teams fjarfundabúnað.

1.Úthlutun byggðakvóta - sérreglur Norðurþings

Málsnúmer 202010078Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur bréf atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins frá 30. nóvember sl. varðandi úthlutun byggðarkvóta 2020/2021. Frestur sveitarfélaga til að óska eftir breytingum á þegar innsendum tillögum, er til 8. desember.
Hjálmar Bogi leggur fram eftirfarandi tillögu;
Á 312. fundi fundi byggðarráðs þann 9. janúar síðastliðinn samþykkti byggðarráð tillögu þess efnis að fela sveitarstjóra að sækjast eftir aukinni úthlutun byggðakvóta á bæði Raufarhöfn og Kópaskeri. Auk þess að fá úthlutun byggðakvóta á Húsavík. Því miður hefur ekkert þokast í því máli.
Undirritaður leggur því aftur til að hafin verði vinna við að fá úthlutun byggðakvóta á Húsavík, t.d. með ósk um breytingu á reglugerð.

Greinargerð
Sjávarútvegur hefur gengt gríðarlega mikilvægu hlutverki í atvinnulífi Norðurþings (og forverum þess) svo áratugum skiptir á þéttbýlisstöðunum Húsavík, Kópaskeri og Raufarhöfn. Ekki þarf að fara mörgum orðum um mikilvægi þess fyrir samfélagið að gætt sé að rekstarumhverfi þeirra fyrirtækja sem í greininni starfa með hóflegum hafnargjöldum og öðrum gjöldum sem á greinina falla og þau séu í góðu samræmi við það sem annarsstaðar gerist. Í sveitarfélaginu eru tvö svæði sem falla undir byggðir í vörn, aðkoma sveitarfélagsins sem og ríkisvaldsins skipti sköpum í þessu samhengi. Byggðakvóti skiptir sköpum í því hlutverki og mikilvægt að sveitarfélagið beiti sér í þeim efnum.
Dregið hefur úr úthlutun byggðakvóta í sveitarfélaginu. Árið 2014 hurfu um 60% af aflaheimildum á Húsavík auk þess sem heimaaðilar seldu kvóta frá byggðalaginu. Það þarf að bregðast við því til að tryggja stöðu sjávarútvegs í sveitarfélaginu.

Hafrún og Kolbrún Ada greiða atkvæði með tillögunni.
Helena Eydís situr hjá.


Kolbrún Ada óskar bókað;
Búið er að samþykkja þessa tillögu áður og verið að vinna í þessu máli. Skil því ekki hvers vegna þarf að leggja hana fram aftur. Vil gjarnan sjá útfærslu á því hvernig á að vinna þetta mál betur og hvaða vinnu eigi þá að hefja í þetta skipti.


Helena Eydís óskar bókað;
Undirrituð telur tillöguna óþarfa þar sem byggðarráð hefur þegar samþykkt tillögu sama efnis. Málið er í farvegi og m.a. beðið eftir að Alþingi taki til umfjöllunar skýrslu starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um atvinnu- og byggðakvóta - Endurskoðun á meðferð og ráðstöfun 5,3% aflaheimilda.

2.Aðgerðir Norðurþings í tengslum við COVID-19

Málsnúmer 202009043Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur yfirlit yfir aðgerðir sveitarfélagsins í tengslum við COVID-19.
Byggðarráð mun í byrjun janúar endurskoða aðgerðir sveitarfélagsins í tengslum við Covid-19 hvað varðar gildistíma m.t.t. framvindu innheimtumála.

3.Uppbygging hjúkrunarheimilis á Húsavík

Málsnúmer 202012068Vakta málsnúmer

Hjálmar Bogi Hafliðason óskar eftir að ræða uppbyggingu hjúkrunarheimilis á Húsavík.
Hjálmar Bogi leggur fram eftirfarandi tillögu;
Undirritaður leggur til að haldinn verði kynningarfundur vegna uppbyggingar nýs hjúkrunarheimilis á Húsavík fyrir miðjan janúar.

Greinargerð
Frá því að uppbyggingarferlið hófst hafa forsendur breyst mikið og ástæða til að upplýsa íbúa samfélagsins um stöðu mála.

Tillagan er samþykkt samhljóða.



4.Fjárhagsáætlun íþrótta og tómstundamála 2021

Málsnúmer 202010072Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur til kynningar fjárhagsáætlun málaflokks 06-æskulýðs- og íþróttamál.
Lagt fram til kynningar.

5.Rekstur Norðurþings 2020

Málsnúmer 202002108Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur yfirlit yfir rekstur málaflokka fyrir tímabilið janúar til október 2020.
Lagt fram til kynningar.

6.EFS - með hvaða hætti standa sveitarfélög að eftirliti og framkvæmd fjárfestinga á árinu 2019

Málsnúmer 201903128Vakta málsnúmer

Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur óskað eftir gögnum um samanburð á fjárfestingum og framkvæmdum ársins 2019 við áætlun ársins 2019 og hefur það verið sent nefndinni.
Lagt fram til kynningar.

7.Verklagsreglur vegna umsókna um niðurfellingu sorphirðugjalda

Málsnúmer 202009175Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggja drög að verklagsreglum vegna umsókna um niðurfellingu sorphirðugjalda.
Byggðarráð mun fjalla nánar um verklagsreglurnar á næsta fundi sínum.

8.Framlög til stjórnmálasamtaka 2020

Málsnúmer 202012008Vakta málsnúmer

Norðurþing hefur undanfarin ár greitt stjórnmálasamtökum styrki í samræmi við 5. gr. laga númer 162 frá 2006. Samkvæmt lögunum og viðmiðunarreglum Sambands íslenskra sveitarfélaga skulu viðkomandi stjórnmálasamtök hafa áður uppfyllt upplýsingaskyldu sína við ríkisendurskoðanda. Fyrir byggðarráði liggur yfirlýsing frá Ríkisendurskoðun varðandi skil á gögnum stjórnmálasamtaka sem hafa þegið styrk frá Norðurþingi.
Lagt fram til kynningar.

9.Styrktarsamningur Norðurþings við Björgunarsveitina Pólstjörnuna

Málsnúmer 202012063Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggja drög að styrktarsamningi við Björgunarsveitina Pólstjörnuna á Raufarhöfn.
Byggðarráð samþykkir fyrirliggjandi samningsdrög og felur sveitarstjóra að undirrita þau fyrir hönd sveitarfélagsins.

10.Styrktarsamningur Norðurþings við Björgunarsveitina Garðar

Málsnúmer 202012064Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggja drög að styrktarsamningi við Björgunarsveitina Garðar á Húsavík.
Byggðarráð samþykkir fyrirliggjandi samningsdrög og felur sveitarstjóra að undirrita þau fyrir hönd sveitarfélagsins.

11.Ósk um breytingu á álagningu fasteignagjalda geymsluhúsnæðis.

Málsnúmer 202012004Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur erindi frá eigendum geymsluhúsnæðis að Fiskifjöru 1 á Húsavík varðandi álagningu fasteignagjalda á geymslubilin.
Byggðarráð telur sig ekki geta orðið við erindinu þar sem Fiskifjara 1 er iðnaðar- og athafnalóð skv. gildandi skipulagi og er skráð sem slík í fasteignaskrá. Gjaldtaka fasteignagjalda á að vera í samræmi við það skv. samþykktum sveitarstjórnar. Fasteignaskattur af húsnæði á iðnaðar- og athafnalóðum er skv. samþykkt sveitarstjórnar 1,60% af fasteignamati (flokkur C) en verður 1,55% á árinu 2021.

12.Opnunartími stjórnsýsluhúsa Norðurþings

Málsnúmer 202011120Vakta málsnúmer

Í tengslum við styttingu vinnuvikunnar liggur fyrir að endurskoða þarf opnunartíma stjórnsýsluhúsa Norðurþings á Húsavík og Kópaskeri.
Byggðarráð samþykkir að opnunartími stjórnsýsluhúsa Norðurþings á Húsavík og Kópaskeri verði frá kl. 9:00 til kl. 15:00 mánudaga til fimmtudaga og frá kl. 9:00 til kl. 13:00 á föstudögum og að opið verði í hádeginu alla daga vikunnar. Opnunartíminn tekur gildi frá og með 1. janúar nk.

13.Áskorun á Reykjavíkurborg, bókun frá Byggðarráði Skagafjarðar.

Málsnúmer 202012014Vakta málsnúmer

Á 941. fundi byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar þann 24. nóvember 2020 var eftirfarandi bókað;

2011213 - Áskorun á Reykjavíkurborg

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar harmar þá stöðu sem upp er komin í málefnum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Reykjavíkurborg virðist ætla að halda til streitu kröfu á hendur Jöfnunarsjóði upp á um 8,7 milljarða króna fyrir meint vangoldin framlög úr sjóðnum.Þessari kröfu hefur þegar verið hafnað af hálfu ríkisins.
Ljóst er hins vegar að muni krafan ná fram að ganga þá eru það sveitarfélögin í landinu, í gegnum Jöfnunarsjóð, sem á endanum munu greiða kröfuna í formi skertra framlaga til þeirra eins og fyrri kröfur sem lent hafa á sjóðnum. Með því er ljóst að fjárhagsleg framtíð sveitarfélaga í landinu er í uppnámi sem og framtíð þess jöfnunarkerfis sem hingað til hefur verið sátt um á meðal sveitarfélaga landsins. Mörg sveitarfélög treysta að miklu leyti á framlög Jöfnunarsjóðs til að sinna þeim fjölmörgu verkefnum sem þeim eru falin og því ljóst að skerðing á framlögum til þeirra í gegn um jöfnunarkerfið mun gera mörgum sveitarfélögum ókleift að sinna þessum verkefnum. Það mun leiða til þess að þjónusta við íbúana mun skerðast verulega frá því sem nú er.
Flest sveitarfélög landsins takast nú á við mjög erfiða fjárhagsstöðu á árinu 2020 og jafnframt er flestum þeirra mikil áskorun að ná endum saman við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2021. Nái krafa höfuðborgar Íslands, sem byggð hefur verið upp af hálfu ríkisins og skattborgara landsins alls sem miðstöð stjórnsýslu, menningar, íþrótta og lista, fram að ganga er ljóst að rekstur sveitarfélaga landsins er í uppnámi um komandi framtíð.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar skorar á Reykjavíkurborg að draga kröfu sína til baka og leita annarra leiða gagnvart ríkisvaldinu til að ná fram þeirri leiðréttingu sem borgin telur sig eiga rétt á en í gegnum jöfnunarsjóð sveitarfélaga og þar með gagnvart sveitarfélögunum í landinu, með ófyrirséðum afleiðingum fyrir sveitarfélögin og íbúa þeirra. Byggðarráð skorar jafnframt á önnur sveitarfélög landsins að taka undir bókunina og gera að sinni.
Byggðarráð Norðurþings tekur undir bókun byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar og gerir að sinni.

14.Flugeldasala á Húsavík 2020

Málsnúmer 202011121Vakta málsnúmer

Kiwanisklúbburinn Skjálfandi óskar eftir umsögn sveitarfélagsins vegna flugeldasölu klúbbsins í kringum áramótin 2020/2021.
Byggðarráð veitir jákvæða umsögn við flugeldasölu Kiwanisklúbbsins Skjálfanda.

15.Brothættar byggðir - Öxarfjörður í sókn

Málsnúmer 202012070Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur minnisblað sveitarstjóra varðandi verkefnið Öxarfjörður í sókn.
Fyrir liggur að taka þarf ákvörðun um að halda verkefninu áfram á nýju ári og í framhaldinu að fela sveitarstjóra að ganga frá ráðningu í starf atvinnu- og samfélagsfulltrúa í Öxarfirði þannig að rof verði ekki á umsjón með þeim verkefnum sem tengjast byggðaverkefninu.
Byggðarráð samþykkir að ráða tímabundið í starf atvinnu- og samfélagsfulltrúa í Öxarfirði til eins árs. Sveitarstjóra er falið að ganga frá starfslýsingu og ráðningarsamningi og kynna fyrir ráðinu í janúar.

Kristján Þór vék af fundi kl. 10:34.

16.Félagsheimilið Heiðarbær - raunverulegir eigendur

Málsnúmer 202012067Vakta málsnúmer

Borist hefur bréf frá RSK þar sem fram kemur að skráningu á raunverulegum eigendum vantar vegna Félagsheimilisins Heiðarbæs. Eignarhlutur Norðurþings í félaginu er 85% og aðrir eigendur eru Ungmennafélagið Reykhverfingur sem á 10% og Kvenfélag Reykjahrepps sem á 5%.
Byggðarráð felur sveitarstjóra ganga frá skráningu raunverulegra eiganda í samráði við aðra eigendur félagsins.

17.Hvalamiðstöðin á Húsavík ehf. - möguleg slit á félagi

Málsnúmer 202011129Vakta málsnúmer

Borist hefur erindi frá Evu Björk Káradóttur, framkvæmdastjóra Hvalasafnsins, þar sem óskað er eftir samþykki sveitarfélagsins til að slíta einkahlutafélaginu Hvalamiðstöðinni á Húsavík ehf. Norðurþing á 34,39% eignarhlut í félaginu en enginn rekstur hefur verið í því síðastliðið ár.
Byggðarráð samþykkir að slíta félaginu og felur sveitarstjóra að ganga frá málinu.

18.Fundargerðir fulltrúaráðs HNÞ bs. 2020-2022

Málsnúmer 202012062Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð fulltrúaráðs Héraðsnefndar Þingeyinga bs. frá 24. nóvember sl. ásamt rekstraráætlun fyrir árin 2021-2024 og yfirliti yfir framlög sveitarfélaganna á næsta ári.
Lagt fram til kynningar.

19.Fundargerðir SSNE 2019 - 2020

Málsnúmer 202002015Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð 18. fundar stjórnar SSNE frá 25. nóvember sl.
Lagt fram til kynningar.

20.Fundargerðir Samtaka orkusveitarfélaga 2020

Málsnúmer 202009077Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð aðalfundar Sambands orkusveitarfélaga frá 5. nóvember 2020.
Lagt fram til kynningar.

21.Atvinnuveganefnd: til umsagnar frumvarp til laga um opinberan stuðning við nýsköpun, 322. mál.

Málsnúmer 202011117Vakta málsnúmer

Atvinnuveganefnd Alþingis óskar eftir umsögn um frumvarp til laga um opinberan stuðning við nýsköpun,322. mál.
Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 11. desember nk.
Byggðarráð samþykkir að senda atvinnuveganefnd Alþingis eftirfarandi umsögn vegna frumvarps til laga um opinberan stuðning við nýsköpun:

Í frumvarpi til laga um opinberan stuðning kemur fram að meginmarkmið laganna skuli vera að efla opinberan stuðning við nýsköpun á landinu með sveigjanlegu stuðningskerfi, sterkum tengslum við háskólasamfélag, atvinnulíf og hagaðila og áherslu á nýsköpun á landsbyggðinni. Þá er jafnframt ætlunin að skýra ábyrgð, einfalda verklag og forgangsraða opinberum stuðningi og þjónustu við atvinnulífið.
Í greingargerð sem fylgir frumvarpinu er fjallað um áherslu á stuðning við nýsköpun á landsbyggðinni. Þar er fjallað um nýjan verkefnasjóð fyrir nýsköpun í samstarfi við landshlutasamtök og sóknaráætlanir. Einnig er fjallað um sterka umgjörð stafrænna smiðja og mælanleg markmið um starfsemi þeirra. Einnig kemur fram að atvinnuþróun á landsbyggðinni kalli á nýjar áherslur í atvinnuuppbyggingu með áherslu á nýsköpun og frumkvöðlastarfs sem byggi á þekkingu, mannauði og tækifærum á hverjum stað fyrir sig.
Byggðarráð Norðurþings getur tekið undir framangreint, hvort tveggja meginmarkmið laganna og þá áherslu sem birtist í greinargerðinni um nýsköpun á landsbyggðinni. Byggðarráð telur þó að andi meginmarkmiðs lagafrumvarpsins og þau atriði greinargerðarinnar sem fjalla um nýsköpun á landsbyggðinni endurspeglist ekki nægilega vel í lagatextanum sjálfum. Frumvarpið nær því sem næst eingöngu yfir stofnun tækniseturs, tilgang þess og stjórnun.
Byggðarráð telur mikilvægt að skýra hvort starfrænar smiðjur (Fab Labs) verði eingöngu þar sem núverandi smiðjur eru staðsettar eða hvort þeim verður fjölgað. Þá er jafnframt mikilvægt að skýra hvort sveitarfélög, stofnanir, eins og rannsóknasetur, þekkingarsetur og símenntunarmiðstöðvar og atvinnulíf ýmist hvert fyrir sig eða í samstarfi muni njóta stuðnings við að byggja upp og reka a.m.k. tímabundið, nýsköpunar- og frumkvöðlasetur með í það minnsta lágmarksútbúnaði stafrænna smiðja. Hlutverk samfélags í svæðisbundinni þróun er mikilvægt og jafnframt að innan þeirra sé jarðvegur sem fóstrar nýsköpunar og frumkvöðlastarf. Dæmin sýna að vel er hægt að reka stafrænar smiðjur í minni byggðum þar sem frumkvöðlar sem eru að stíga sín fyrstu skref í þróun vöru eða viðskiptahugmyndar eiga sinn tímabundna vinnustað. Stafrænar smiðjur eru mikilvægur hlekkur í undirbúningi vinnumarkaðar sem og námsmanna fyrir breytingar sem óhjákvæmilega fylgja fjórðu iðnbyltingunni. Þegar best tekst til spilar saman atvinnulíf, fræðslu- og þekkingarstofnanir og samfélagið allt við þróun og framkvæmd atvinnuskapandi hugmynda.
Byggðarráð leggur til að fjallað verði um verkefnasjóð um nýsköpun á landsbyggðinni og umgjörð um stafrænar smiðjur í ákvæðum frumvarpsins en ekki greingargerðinni eingöngu.

22.Álit samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins á notkun fjarfundabúnaðar á fundum sveitarstjórnar.

Málsnúmer 202012069Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur álit samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og varðar notkun fjarfundarbúnaðar á fundum sveitarstjórna og nefnda sveitarfélaga.
Sveitarstjóra er falið að undirbúa að sveitarstjórnarfundir verði opnir á næstu misserum í samræmi við þær sóttvarnarreglur sem í gildi verða.

Fundi slitið.