Fara í efni

Félagsmálanefnd

9. fundur 19. janúar 2017 kl. 15:00 - 17:00 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Kolbrún Ada Gunnarsdóttir formaður
  • Sif Jóhannesdóttir aðalmaður
  • Anna Ragnarsdóttir aðalmaður
  • Hróðný Lund aðalmaður
  • Dögg Káradóttir fjármálastjóri
  • Díana Jónsdóttir Ritari
Starfsmenn
  • Margrét Hólm Valsdóttir
Fundargerð ritaði: Díana Jónsdóttir ritari
Dagskrá

1.Aðbúnaður og öryggismál í ferðaþjónustubifreiðum fyrir fatlaða

Málsnúmer 201612003Vakta málsnúmer

Þann 29. nóvember 2016 barst sveitarstjórn Norðurþings fyrirspurn frá Sjálfsbjörg um aðbúnað og öryggismál í ferðaþjónustubifreiðum fyrir fatlaða með vísan í reglugerð nr. 822/2004 með síðari breytingum.
Sveitarstjóri Norðurþings svaraði erindinu með tölvupósti þann 12.12.2016 Í viðhengi með tölvupósti voru myndir sem teknar voru í bifreið Fjallasýnar sem annast ferðaþjónustu fatlaðra fyrir hönd sveitarfélagsins. Myndirnar sýna að öllum öryggiskröfum skv. áðurnefndri reglugerð er fullnægt.
Erindið Sjálfsbjargar ásamt myndum frá Fjallasýn lagt fram til staðfestingar.

2.Húsnæðisáætlanir, stofnframlög og skyldur sveitarfélaga gagnvart fötluðu fólki.

Málsnúmer 201612060Vakta málsnúmer

Lög um almennar íbúðir nr. 52/2016 tóku gildi á Alþingi þann 15. júní sl. í 1. gr. laganna segir: Markmið laga þessara er að bæta húsnæðisöryggi fjölskyldna og einstaklinga, sem eru undir tekju- og eignarmörkum skv. 10. gr. við upphaf leigu, með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi leiguhúsnæði og stuðla að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu leigjenda eða að jafnaði ekki umfram fjórðung tekna. Í því skyni er ríki og sveitarfélögum heimilt að veita stofnframlög til byggingar og kaupa á almennum íbúðum til að stuðla að því að í boði verði leiguíbúðir á viðráðanlegu verði fyrir þá sem þurfa á því að halda, þ.m.t. fyrir námsmenn, ungt fólk, aldraða, fatlað fólk og fólk sem ekki er fært um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna eða verulegs fjárhagsvanda.
Með gildistöku laga um almennar íbúðir verða ekki lengur sérlausnir í málaflokki fatlaðs fólks.
Þann 7. des sl. sendi Þroskahjálp erindi til bæjarstjórnar þar sem þeir hvetja stjórnendur sveitarfélaga eindregið til að huga sérstaklega að aðstæðum og þörfum fólks með þroskahömlun og fatlaðs fólks almennt þegar gerðar eru áætlanir í húsnæðismálum. Vísað er til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem íslensk stjórnvöld hafa fullgilt.
Félagsmálanefnd leggur til við sveitastjórn að félagsmálastjóra verði falið að skipa starfshóp sem fer yfir búsetuþörf og kostnaðargreinir mismunandi möguleika á framtíðar búsetu fyrir einstaklinga með þroskahömlun og fatlað fólk. Óskað er eftir að fyrstu drög verði lögð fyrir nefndina í maí 2017.

3.Ósk um samstarf v.geðræktarmála

Málsnúmer 201612150Vakta málsnúmer

Þann 1. desember sl. var sent erindi til Heilbrigðisstofnunar Norðurlands og Rauða kross Íslands þar sem óskað var eftir tilnefningu í starfshóp um bætta þjónustu við einstaklinga með geðraskanir í Norðurþingi.
Hópurinn hefur verið skipaður, einum aðila frá HN einum frá RKÍ og einum frá Félagsþjónustu Norðurþings sem jafnframt verður formaður hópsins og leiðir starfið.
Lagt fram.

4.Reglur um sérstakan húsnæðisstuðning

Málsnúmer 201701065Vakta málsnúmer

Hinn 16. júní sl. samþykkti Alþingi lög nr. 75/2016, um húsnæðisstuðning. Gildistökudagur laganna var þann 1. janúar sl. og leysa þau eldri lög um húsaleigubætur af hólmi.
Með 32. gr. hinna nýju laga um húsnæðisstuðning varð gerð breyting á 45. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, og eftirfarandi þremur málsgreinum bætt inn í þá lagagrein:
Sveitarfélög skulu veita sérstakan húsnæðisstuðning í samræmi við nánari reglur sem sveitarstjórn setur.
Sveitarfélög skulu veita foreldrum eða forsjáraðilum 15-17 ára barna sem leigja herbergi á heimavist eða námsgörðum vegna náms fjarri lögheimili húsnæðisstuðning. Stuðningurinn skal vera óháður tekjum og eignum foreldra eða forsjármanna og ekki yfir 75% af húsnæðiskostnaði vegna leigunnar.
Í þessari viðbót felst sú breyting frá eldra fyrirkomulagi opinbers húsnæðisstuðnings (valkvæðar sérstakar húsaleigubætur sveitarfélaga) að öllum sveitarfélögum var frá og með 1. janúar sl. skylt að veita sérstakan húsnæðisstuðning.
Jafnframt er það nýmæli í lögunum að sveitarfélög skuli veita foreldrum eða forsjáraðilum 15-17 ára barna, sem leiga herbergi á heimavist eða námsgörðum vegna náms fjarri lögheimili, húsnæðisstuðning.
Félagsmálanefnd staðfestir framlagðar reglur og vísar þeim til sveitarstjórnar til staðfestingar.

5.Reglur um félagslegar leiguíbúðir

Málsnúmer 201701067Vakta málsnúmer

Með gildistöku laga nr. 75/2016, um húsnæðisstuðning breytast reglur Norðurþings um félagslegar leiguíbúðir til samræmis við þau lög. Reglur Norðurþings um félagslegar leiguíbúðir hafa því verið uppfærðar til samræmis við lög um húsnæðisstuðning. Helsta breytingin er að eigna og tekjumörkum hefur verið breytt, þau hækkuð.
Félagsmálanefnd samþykkir framlagðar eglur um félagslegar leiguíbúðir hjá Norðurþingi vísar þeim til sveitarstjórnar til staðfestingar.

6.Forvarnastefnastefna Norðurþings 2017

Málsnúmer 201701068Vakta málsnúmer

Forvarnarhópur er starfræktur í sveitarfélaginu. Í honum eiga sæti félagsmálastjóri, æskulýðsfulltrúi, fulltrúar frá lögreglu, Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, auk fulltrúa frá grunnskólanum og framhaldsskólanum.
Ekki er til forvarnarstefna Norðurþings og því verið óljóst eftir hverju hópurinn á að vinna.
Hópurinn hefur verið upplýsingahópur þ.e. aðilar hafa skipst á upplýsingum um hvað er í gangi hjá ungmennum á Húsavík og hverju þurfi helst að fylgjast með.
Nefndin telur brýnt að fá staðfestingu á hvers forræði forvarnarhópur Norðurþings eigi að vera og að endurskipað verði í hópinn með erindisbréfi þannig að hlutverk hópsins liggi ljóst fyrir. Frekari umræðu frestað þar til frekari upplýsingar liggja fyrir um hlutverk hópsins.

7.Tómstundir aldraðra

Málsnúmer 201701071Vakta málsnúmer

Á síðasta ári var gerður samningur við Félag eldri borgara -Húsavík um að þeir sinntu tómstundastarfi fyrir eldri borgara á Húsavík. Samningurinn var bundinn húsaleigu FEB í Snælandi.
FEB-Húsavík hafa nú eignast sitt eigið húsnæði og flutt starfsemi sína úr Snælandi.
Spurning er hvort gera eigi annan samning við FEB-Húsavík um tómstundastarf fyrir eldri borgara og hvað sá samningur á að fela í sér. Lagt fram til umræðu.
Félagsmálanefnd felur félagsmálastjóra að ræða nýjan þjónustusamning við FEB-Húsavík.

8.Gjaldskrá heimaþjónustu 2017

Málsnúmer 201701072Vakta málsnúmer

Samkvæmt reglum um félagslega heimaþjónustu Norðurþings á að uppfæra gjaldskrána um áramót til samræmis við launaflokk 126 hjá STH. Lagt fram til staðfestingar
Félagsmálanefnd staðfestir framlagða gjaldskrá um félagslega heimaþjónustu og vísar henni til staðfestingar í sveitarstjórn.

9.Jafnréttis-og framkvæmdaáætlun Norðurþings 2014-2018

Málsnúmer 201607309Vakta málsnúmer

Borist hefur boð á kynningarfund frá Jafnréttissjóði Íslands sem haldinn verður 20. janúar n.k. Jafnréttissjóður Íslands styrkir verkefni sem auka jafnrétti kynjanna, markmið hans er að styrkja verkefni á sviði jafnréttismála en sjóðurinn hefur yfir að ráða 100 milljónum í árlega styrki á árunum 2016-2020. Lagt fram til umræðu. Ekki er boðið upp á að hlusta á fundinn í fjarfundarbúnaði en fundargerð verður send til okkar eftir fundinn.
Félagsmálanefnd ákveður að verja febrúarfundi í vinnu við jafnréttis- og framkvæmdaáætlun Norðurþings 2014-2018 og felur félagsmálastjóra að senda erindi til annarra nefnda Norðurþings til að árétta hlutverk þeirra í samþykktri jafnréttis- og framkvæmdaáætlun Norðurþings.

Fundi slitið - kl. 17:00.