Fara í efni

Framkvæmda- og hafnanefnd Norðurþings

37. fundur 15. janúar 2014 kl. 16:00 - 16:00 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Þráinn Guðni Gunnarsson formaður
  • Jón Grímsson varaformaður
  • Hjálmar Bogi Hafliðason aðalmaður
  • Sigurgeir Höskuldsson aðalmaður
  • Tryggvi Jóhannsson framkv.- og þjónustufulltrúi
  • Sigríður Hauksdóttir varamaður
  • Stefán Sigurður Stefánsson starfsmaður í stjórnsýslu
  • Sveinn Birgir Hreinsson starfsmaður í stjórnsýslu
Fundargerð ritaði: Tryggvi Jóhannsson Framkvæmda- og þjónustufulltrúi
Dagskrá

1.Málefni Slökkviliðanna í Norðurþingi

Málsnúmer 201305010Vakta málsnúmer

Grímur Kárason, nýráðinn slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Norðurþings gerði grein fyrir stöðu mála og framtíðarsýn. Nýtt slökkvilið, Slökkvilið Norðurþings, mun taka til starfa 1. febrúar n.k. Slökkviliðin á Húsavík, Kópaskeri og Raufarhöfn verða þá lögð niður.Störf slökkviliðsstjóra á Húsavík, Kópaskeri og Raufarhöfn verða aflögð samhliða þessum breytingum. Þeim slökkviliðsstjórum sem hafa um árabil sinnt þessum þessum störfum er þakkað farsælt starf. Ljóst er að byggja þarf upp slökkvilið í sveitarfélaginu til lengri tíma. Grímur kynnti drög að gjaldskrá Slökkviliðs Norðurþings sem verður lögð fyrir næsta fund nefndarinnar. Jafnframt kynnti hann nýtt merki slökkviliðs Norðurþings. Framkvæmda- og hafnanefnd þakkar Grími Kárasyni fyrir kynninguna og óskar honum góðs gengis í nýju starfi.

2.361. fundur stjórnar Hafnasambands íslands

Málsnúmer 201312080Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar.

3.Erindi frá GPG seafood varðandi löndunarhúsið á Raufarhöfn

Málsnúmer 201312094Vakta málsnúmer

GPG Seafood óskar eftir viðræðum við sveitarfélagið um nýtingu á svokölluðu Löndunarhúsi á Raufarhöfn vegna þátttöku í verkefninu "Nýting á slógi til áburðar" sem styrkt er af vaxtarsamningi norðausturlands. Vegna verkefnis, og þess sem af því getur leitt, þarf húsnæði. Framkvæmda- og hafnanefnd bendir á að eignin er í útleigu, er til sölu og var auglýst fyrir skemmstu.

4.Forsætisráðuneytið styrkir viðhald Kvíabekks um 10 milljónir

Málsnúmer 201401002Vakta málsnúmer

Borist hefur bréf frá forsætisráðuneytinu þar sem tilkynnist að ráðuneytið mun veita 10 milljóna kr. styrk til framkvæmda vegna viðhalds á Kvíabekk og endurbyggingar torfhúss á Húsavík. Bærinn er síðan 1893.Jan Klitgaard, garðyrkjustjóri Norðurþings gerði grein fyrir stöðu verkefnisins en það hefur staðið yfir undanfarin ár. Hann kynnti hugmyndir að verkáætlun. Framkvæmda- og hafnanefnd þakkar Jan fyrir kynninguna og ákveður að skipa starfshóp sem mun koma með tillögu að því hvernig byggja eigi bæinn upp. Hópinn skipa; Jan, Halldór Valdimarsson, Gaukur Hjartarson, Arnhildur Pálmadóttir og Hjálmar Bogi Hafliðason.

5.Hafnasamband Íslands, ósk um umsögn um tillögur að breyttum reglum um skráningu og vigtun sjávarafla

Málsnúmer 201312091Vakta málsnúmer

Í bréfi Hafnasambandsins segir að um nokkra hríð hafi verið til athugunar að gera tillögur um breytingar á gildandi reglum um vigtun og skráningu sjávarafla í þeim tilgangi að tryggja betur en nú er að vigtarupplýsingar séu áreiðanlegar og að eftirlit með framkvæmd vigtunar sé gegnsætt og auðhægt. Einnig segir að tveir kostir séu fyrir hendi. Annars vegar að herða reglur um skráningu vigtarupplýsinga (kostur A) og hinsvegar (kostur B) sá að í stað þess að herða eftirlit og reglur, eins og segir í kosti A, verði vigtun lokið á hafnarvog, fast hlutfall dregið af vegna íss í afla auk þess sem útileguskipum verði heimilt að vigta um borð. Óskað er eftir að skriflegar athugasemdir og ábendingar berist ráðuneytinu eigi síðar en 13. janúar. Framkvæmda- og hafnanefnd telur ekki ástæðu til að veita umsögn um málið enda umsagnarfrestur liðinn.

6.Ósk um viðræður vegna Nýja Lundar, Öxarfirði

Málsnúmer 201401032Vakta málsnúmer

Gunnar Björnsson og Anna Englund Sandfelli í Öxarfirði óska eftir viðræðum við sveitarfélagið um kaup á Nýja-Lundi. Framkvæmda- og hafnanefnd þakkar fyrir áhugan. Samþykkt að eignin verði auglýst til sölu þegar lóðarskipting liggur fyrir.

7.Vegna skúrs á lóð heimavistarhússins í Lundi, Öxarfirði

Málsnúmer 201312030Vakta málsnúmer

Erla Óskarsdóttir býður Norðurþingi til kaups skúr er stendur á lóð Nýja-Lunds. Framkvæmda- og hafnanefnd samþykkir að umsjónamanni fasteigna verði falið að gera tilboð í skúrinn. Málið verði síðan lagt fyrir bæjarráð.

8.Örn Sigurðsson og Sólveig Guðmundsdóttir óska eftir umsögn Norðurþings vegna stofnunar lögbýlis í landi Þverár í Reykjahverfi

Málsnúmer 201312054Vakta málsnúmer

Örn og Sólveig óska eftir skriflegri umsögn bæjarstjórnar Norðurþings vegna umsóknar um stofnun lögbýlis á landskika þeirra með landnúmeri 212570 í landi Þverár í Reykjahverfi. Á býlinu er fyrirhuguð bygging íbúðarhúss, uppbygging ferðaþjónustu og skógrækt. Framkvæmda- og hafnanefnd samþykkir fyrir sitt leyti að stofnað verði lögbýli með landnúmerið 212570 í landi Þverár í Reykjahverfi enda munu aðrir aðilar gera slíkt hið sama.

9.Erindi frá Menningarfélaginu Úti á Túni

Málsnúmer 201306034Vakta málsnúmer

Menningarfélagið óskaði eftir viðræðum við framkvæmda- og hafnanefnd um framtíð efri hæðar verbúðanna og var erindið tekið fyrir á 33. fundi nefnarinnar þann 3. sept. sl. og samþykkt. Nefndin kynnti sér starfsemina á 34. fundi þann 9. okt. sl. Framkvæmda- og hafnanefnd samþykkir að fræðslu- og menningarnefnd verði falin umsjón með efri hæð verbúðanna að undanskilinni nyrstu verbúðinni sem er í útleigu.

10.Gjaldskrá hafna Norðurþings 2014

Málsnúmer 201401052Vakta málsnúmer

Tillaga að gjaldskrá hafna Norðurþings árið 2014 lá fyrir fundinum. Almennt hækkar gjaldskráin um 4%. Sorphirðugjald hækkar umtalsvert enda á það gjald að standa undir kostnaði við þjónustuna samkv. lögum. Framkvæmda- og hafnanefnd samþykkir fyrirliggjandi gjaldskrá með áorðnum breytingum.

11.RS lögmannsstofa fyrir hönd Jóns Gunnarssonar lýsir yfir kröfu á hendur sveitarfélaginu vegna tjóns á jörð Jóns, Arnarnesi í Kelduhverfi

Málsnúmer 201401042Vakta málsnúmer

Málið snýst um meintar aðgerðir sveitarfélagsins og afleiðingar þeirra er flóð varð í Jökulsá árið 2006. Með kröfunni fylgdu afrit af samskiptum lögmanns Jóns við Orkustofnun þar sem fram kemur að lögmaðurinn óskar eftir að stofnunin meti lögmæti framkvæmda Norðurþings. Orkustofnun kallar eftir sérstaklega eftir umsögn Norðurþings, svo málið verði nægilega upplýst, um hvort umrædd "framkvæmd" hafi verið heimiluð af þar til bærum stjórnvöldum áður en stofnunin tekur endanlega afstöðu. Framkvæmda- og hafnanefnd felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að svara Orkustofnun og óska jafnaframt eftir því að Orkustofnun boði til fundar um framtíðarfyrirkomulag flóðvarna á svæðinu.

12.Norðurþing auglýsir til leigu landafnot á Þórseyri og Ytri Bakka í Kelduhverfi

Málsnúmer 201310129Vakta málsnúmer

Á síðasta fundi nefndarinnar var farið yfir tilboð í Þórseyri og Ytri- Bakka í Kelduhverfi. Framkvæmda- og þjónustufulltrúi og umsjónamaður fasteigna kynntu leigusamninga vegna jarðanna. Framkvæmda- og hafnanefnd samþykkir fyrirliggjandi samninga.

13.Norðurþing óskar eftir því við Siglingastofnun að sjóvarnargarður við sláturhús Norðlenska verði endurbyggður

Málsnúmer 201307011Vakta málsnúmer

Í byrjun desembermánaðar myndaðist stór geil í bakkann sunnan við Norðlenska enda gengur brim óbrotið upp í bakkann. Ljóst er að bregðast verður við hið fyrsta. Framkvæmda- og hafnanefnd felur hafnastjóra að ítreka enn kröfu sveitarfélagsins gagnvart Siglingastofnun vegna þessa.

14.Börkur Emilsson f.h. Sölkusiglinga ehf sækir um leyfi fyrir skilti á flotbryggju

Málsnúmer 201401053Vakta málsnúmer

Sölkusiglingar óska eftir leyfi til að setja upp skilti/hlið við hafnarstétt til að merkja flotbryggju sem fyrirtækið hefur afnot af. Skiltið verður með svipaðri stærð og lögun eins og hjá öðrum fyrirtækjum sem bjóða upp á hvalaskoðun. Framkvæmda- og hafnanefnd samþykkir erindið enda verði skiltið/hliðið sett upp í samráði við hafnarvörð og skipulags- og byggingafulltrúa.

15.Götulýsing, möguleg hagræðing

Málsnúmer 201012017Vakta málsnúmer

Framkvæmda- og hafnanefnd felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að kalla eftir upplýsingum frá Orkuveitu Húsavíkur ohf. vegna mögulegrar hagræðingar í götulýsingu á Húsavík. Tillaga um að kanna þann möguleika að slökkva tímabundið á allri götulýsingu á Húsavík þegar aðstæður skapast til himinljósaskoðunar. Framkvæmda- og hafnanefnd samþykkir að fela framkvæmda- og þjónustufulltrúa að kanna þann möguleika hjá Orkuveitu Húsavíkur og leggja fyrir nefndina.

16.Endurbygging Suðurgarðs á Húsavík

Málsnúmer 201205018Vakta málsnúmer

Hafnastjóri fór yfir lokafund vegna framkvæmdarinnar. Framkvæmdinni telst lokið en endanlegt uppgjör liggur ekki fyrir. Ljóst er að verkið mun fara fram úr áætlun. Kostnaðarskipting verksins er ríkið 60/40 sveitarfélagið.

17.Framkvæmdir í Norðurþingi 2013 og 2014 yfirferð

Málsnúmer 201401062Vakta málsnúmer

Nefndin telur mikilvægt að fara yfir meiriháttar viðhald og framkvæmdir fyrir árið 2013. Annars vegar þarf að skoða fjárhagslega stöðu verkefna og hinsvegar framkvæmdalega stöðu þeirra. Nefndin felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að gera yfirlit fyrir árið 2013. Umsjónamaður fasteigna kynnti tillögur að nauðsynlegu viðhaldi og framkvæmdum fyrir árið 2014. Ljóst er að framkvæmdir 2014 munu að mestu miðast við verkefni tengd atvinnuuppbyggingu á Bakka. Fjárhagsrammi nefndarinnar varðandi framkvæmdir og viðhald fyrir árið 2014 liggur ekki fyrir.

18.Umhverfisverðlaun Norðurþings 2014

Málsnúmer 201401060Vakta málsnúmer

Framkvæmda- og hafnanefnd samþykkir að veitt verði umhverfisverðlaun fyrir árið 2014. Veitt verða verðlaun fyrir lögbýli, fyrirtæki/stofnun og íbúðarhúsnæði. Framkvæmda- og hafnanefnd felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að auglýsa verkefnið.

19.Vallholtsvegur 10 ýmsar upplýsingar

Málsnúmer 201401061Vakta málsnúmer

Umsjónarmaður fasteigna Norðurþings hefur tekið saman ýmsar upplýsingar um húseignina Vallholtsveg 10 og gerð nefndinni grein fyrir þeim. Framkvæmda- og hafnanefnd felur umsjónamanni fasteigna að vinna málið áfram m.t.t. framtíðarnotkunar svæðisins.

20.Styrkur vegna fjárleita 2012

Málsnúmer 201401064Vakta málsnúmer

Ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt fjögurra m.kr. styrk til sveitarfélaga á Norðurlandi vegna tjóns sveitarfélagsins í óveðrinu haustið 2012. Tvær milljónir króna falla í hlut Norðurþings. Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 16:00.