Fara í efni

Ósk um viðræður um uppbyggingarsamning við Golfklúbb Húsavíkur

Málsnúmer 201709170

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Norðurþings - 229. fundur - 09.10.2017

Golfklúbbur Húsavíkur fagnar um þessr mundir 50 ára afmæli sínu og hyggst ráðast í byggingu nýs skála norðan Þorvaldsstaðarár. Golfklúbburinn óskar eftir viðræðum vegna uppbyggingarsamnings til lengri tíma sem og hefðbundins rekstrarsamnings til skemmri tíma til að reka Katlavöll.
Byggðarráð óskar Golfklúbbi Húsavíkur til hamingju með afmælið og felur sveitarstjóra að hefja viðræður um uppbyggingarsamning til lengri tíma.

Byggðarráð Norðurþings - 230. fundur - 17.10.2017

Forsvarsmenn Golfklúbbs Húsavíkur hafa fundað með sveitarstjóra nýverið og kynnt hugmyndir klúbbsins að uppbygging og framtíðarsýn félagsins. Sú sýn er afar metnaðarfull og lýsir áhuga golfklúbbsins á því að byggja upp nýja og glæsilega aðstöðu fyrir gesti Katlavallar, austan Þorvaldsstaðarár, á nýjum stað til samræmis við deiliskipulag á svæðinu. Sveitarstjóri fer yfir stöðu viðræðna og hugmyndir golfklúbbsins með hvaða hætti þau sjá fyrir sér að taka næstu skref í málinu.
Lagt fram til umræðu og kynningar.

Byggðarráð Norðurþings - 231. fundur - 26.10.2017

Sveitarstjóri fer yfir stöðu málsins sem kynnt var á síðasta fundi ráðsins. Farið verður yfir upplýsingar sem snúa að hliðstæðum samningum sem önnur sveitarfélög hafa gert við golfklúbba annarsstaðar á landinu. Ljóst er að um metnaðarfullt verkefni golfklúbbsins er að ræða og uppbygging á nýrri aðstöðu muni umbylta starfi klúbbsins.
Byggðarráð fagnar metnaðarfullum áformum Golfklúbbs Húsavíkur og telur þau líkleg til að hafa jákvæð áhrif á skipulag byggðar á Húsavík. Með bættu aðgengi að golfvellinum skapist ennfremur tækifæri til að auka afþreyingarmöguleika og styðja við lýðsheilsumarkmið. Byggðarráð felur sveitarstjóra að vinna drög að uppbyggingarsamningi þegar fyrir liggur nánari fjárhags- og tímaáætlun verkefnisins, fyrir seinni umræður um fjárhagsáætlun Norðurþings.

Sveitarstjórn Norðurþings - 75. fundur - 28.11.2017

Fyrir sveitarstjórn liggur erindi frá stjórn Golfklúbbs Húsavíkur þar sem óskað hefur verið eftir aðkomu Norðurþings að uppbyggingu til næstu ára á golfvellinum við Húsavík. Áform eru uppi um að færa aðkomu að golfvellinum frá núverandi stað þar sem aðkoma er eftir malarvegi frá þjóðvegi sunnan Húsavíkur, yfir að íbúahverfunum í suðurhluta Húsavíkur. Samhliða þessu verði byggður nýr golfskáli með tilheyrandi aðstöðu fyrir iðkendur.

Óli Halldórsson óskar eftir því að málið verði tekið til umfjöllunar á fundi sveitarstjórnar 29. nóvember 2017
Til máls tóku: Óli, Kjartan, Jónas og Gunnlaugur.


Óli Halldórsson leggur fram eftirfarandi tillögu:

Sveitarstjórn telur líklegt að jákvæð samfélagsleg áhrif gætu orðið nokkur af umræddum áformum ef vel tekst til. Sveitarstjórn fellst á að vinna með Golfklúbbi Húsavíkur að hugmyndum um færslu aðkomu golfvallarins við Húsavík. Sveitarstjóra er falið að ganga til samninga við Golfklúbb Húsavíkur um gerð uppbyggingarsamnings til 3-5 ára og leggja fyrir sveitarstjórn að nýju.

Tillagan er samþykkt með atkvæðum Soffíu, Óla, Gunnlaugs, Stefáns, Jónasar, Kjartans, Örlygs og Sifjar.

Olga situr hjá.

Byggðarráð Norðurþings - 240. fundur - 26.01.2018

Sveitarstjóri skýrir frá framgangi málsins og ræðir grunn sveitarfélagsins að uppleggi verkefnisins.
Sveitarstjóra falið að vinna málið áfram.

Byggðarráð Norðurþings - 248. fundur - 13.04.2018

Á fundinn koma Arnhildur Pálmadóttir og Brynhildur Sólveigardóttir frá DARK studio og kynna uppbyggingu á golfvelli Golfklúbbs Húsavíkur við Katlavöll.
Jafnframt eru lögð fram drög að samkomulagi Norðurþings og Golfklúbbs Húsavíkur um uppbyggingu nýrrar golf- og frístundaaðstöðu við Katlavöll á Húsavík.
Byggðarráð þakkar Arnhildi og Brynhildi frá DARK studio fyrir kynninguna á uppbyggingunni á golfvellinum.
Norðurþing hefur undanfarið unnið að hugmyndum um uppbyggingu nýrrar golf- og frístundaaðstöðu við Katlavöll á Húsavík í samstarfi við Golfklúbb Húsavíkur. Farið var yfir efnisatriði samnings og fjárhagsskuldbindingar.
Sveitarstjóra er falið að vinna að samningnum áfram og leggja fyrir byggðarráð á nýju.

Byggðarráð Norðurþings - 249. fundur - 20.04.2018

Sveitarstjóri fer yfir stöðuna á uppbyggingarsamningi við Golfklúbb Húsavíkur.
Sveitarstjóra falið að leggja fram kostnaðaráætlun á uppbyggingu hússins í samráði við Golfklúbbinn. Stefnt verði að því að frágangi samningsins verði lokið í maí.

Byggðarráð Norðurþings - 252. fundur - 11.05.2018

Sveitarstjóri leggur fram drög að kostnaðaráætlun fyrir uppbyggingu nýrrar aðstöðu við Katlavöll, norðan Þorvaldsstaðarár og ræðir stöðuna á uppbyggingarsamningnum við Golfklúbb Húsavíkur. Markmið þess samnings er að ný aðstaða verði tekin í notkun innan þriggja ára frá undiskrift samningsins.
Byggðarráð felur sveitarstjóra að leggja fyrir samning á næsta fundi byggðarráðs.

Byggðarráð Norðurþings - 253. fundur - 25.05.2018

Til umræðu í byggðarráði eru drög að uppbyggingarsamningi sveitarfélagsins og Golfklúbbs Húsavíkur um nýtt aðstöðuhús við Katlavöll.
Málið kynnt, sveitarstjóra falið að klára samninginn og leggja fyrir sveitarstjórn.

Byggðarráð Norðurþings - 258. fundur - 19.07.2018

Fyrir byggðarráði liggur samningur tilbúinn til undirritunar um uppbyggingu við Golfklúbb Húsavíkur. Samningurinn hefur verið til umfjöllunar í byggðarráði síðustu mánuði.
Byggðarráð samþykkir fyrirliggjandi samning og felur sveitarstjóra að undirrita hann fyrir hönd sveitarfélagsins.