Fara í efni

Útboð vegna sorphirðu 2020

Málsnúmer 202001017

Vakta málsnúmer

Skipulags- og framkvæmdaráð - 54. fundur - 07.01.2020

Kynning á núverandi stöðu útboðs á sorphirðu 2020.
Fyrir fundi liggja uppfærð útboðsgögn til kynningar og gróf tímaáætlun.
Lagt fram til kynningar.

Skipulags- og framkvæmdaráð - 55. fundur - 14.01.2020

Á síðasta fundi ráðsins voru lögð fram til kynningar, drög að útboðslýsingu vegna útboðs sorphirðu síðar á þessu ári.
Óskað er athugasemda kjörinna fulltrúa við gögnin, ef einhverjar eru svo ljúka megi útboðsferlinu.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir fyrirliggjandi drög og vísar þeim til sveitarstjórnar til staðfestingar.

Sveitarstjórn Norðurþings - 98. fundur - 21.01.2020

Á 55. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs var eftirfarandi bókað:

Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir fyrirliggjandi drög og vísar þeim til sveitarstjórnar til staðfestingar.
Til máls tóku Silja, Kristján, Hafrún og Lilja.


Sveitarstjórn samþykkir samninginn með atkvæðum Eiðs, Hafrúnar, Helenu, Heiðbjartar, Kolbrúnar Ödu, Kristjáns og Silju.

Gísli og Lilja sitja hjá.

Skipulags- og framkvæmdaráð - 59. fundur - 25.02.2020

Athugasemd barst vegna útboðs "Söfnun, flutningur, afsetning og endurvinnsla úrgangs ásamt rekstri móttökustöðvar á Húsavík fyrir sveitarfélögin Norðurþing og Tjörneshrepp 2020-2025 - 202001017"
athugasemdin var eftirfarandi
"Sæll Smári, með tilvísan í lið 0.1.7 í útboðsgögnunum gerir undirritaður athugasemd við lið 0.4.7: Meðferð og mat á tilboðum.
Vísað er í óvenju hátt hlufall á vægi umhverfisstjórnunarkerfis og gæðastjórnunarkerfis sem vega á 10% hvort um sig í útboði þessu.
Ljóst er að aðeins brot af íslenskum fyrirtækjum eru með slík kerfi til staðar í sínum rekstri.
Þau fyrirtæki sem ekki hafa þessi kerfi til staðar eiga ekki möguleika á því að taka þau upp áður en tilboðsfrestur er liðinn.
Það er því að mati undirritaðs líklegt að Norðurþing og Tjörneshreppur muni þurfa að greiða umtalsvert hærri fjárhæðir en ella og viðbúið er að bjóðendur verði talsvert færri fyrir vikið.
Undirritaður leggur því til við Norðurþing og Tjörneshrepp að umræddum kröfum verði breytt og vægi þeirra minnkað umtalsvert."

Svör við fyrirspurn voru eftirfarandi
Fyrirspurn 3: Tvær fyrirspurnir bárust um vægi gæða- og umhverfisstjórnunarkerfa í útboði en bæði vega 10% í heildareinkunn í útboði og tilboðsupphæð 80%. Gagnrýnt var hversu hátt vægi þessara kerfa væri og óskað eftir endurskoðun á vægi.
Svar: Tekið skal fram að gæðakerfi og umhverfisstjórnunarkerfi eru ekki nauðsynleg til að taka þátt í útboði og ekki krafa um þessi kerfi til að tilboði verði tekið. Norðurþing gerir hins vegar þá kröfu í sínum innkaupum á vörum og þjónustu að sínir birgjar og verktakar vinni eftir ákveðnum ferlum er varða gæði og umhverfismál, til að tryggja gæði vara/þjónustu og lágmörkun á umhverfisáhrifum. Efnisleg afstaða til breytinga á vægi þessara kerfa í útboðinu verður tekin á fundi skipulags og framkvæmdaráðs þriðjudaginn 25. febrúar n.k. Tilkynning verður send til allra aðila sem óskuðu eftir útboðsgögnum ef ákveðið verður að breyta vægi þessara kerfa í útboðinu. Að öðru leyti verður vísað í bókun ráðsins.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir að breyta ekki útboðsgögnum.

Vert er að koma þeim upplýsingum á framfæri að ef tilboðsaðilar geta sýnt fram á staðfestingu eða samning þess efnis að þeir séu að koma sér upp vottuðu gæða- og/eða umhverfisstjórnunarkerfi og það yrði klárað fyrir gildistöku verksins þá sé horft til þess við mat tilboða.

Skipulags- og framkvæmdaráð - 61. fundur - 10.03.2020

Yfirstaðið er útboð vegna sorphirðu á Húsavík og í Reykjahverfi og hafa tilboð sem bárust verið opnuð. Fjórir aðilar sendu inn tilboð og eru þau lögð hér fram til kynningar fyrir skipulags- og framkvæmdaráð.

Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að ræða við lægstbjóðanda um mögulega lækkun á ákveðnum kostnaðarliðum t.d. tíðni losana í öllum sorpflokkum og stækkun á sorpílátum, til að reyna að minnka fyrirsjáanlega hækkun á sorphirðugjöldum.
Hjálmar Bogi tekur ekki undir þessa niðurstöðu nefndarinnar.

Skipulags- og framkvæmdaráð - 63. fundur - 07.04.2020

Opnuð hafa verið tilboð sem bárust í tengslum við ný-afstaðið útboðsferli vegna sorphirðu á Húsavík og í Reykjahverfi, en þrátt fyrir að tölur sem þar skiluðu sér hafi verið nokkuð á pari við kostnaðaráætlun, er um umtalsverða hækkun kostnaðar að ræða sé litið til núverandi samnings um soprhirðu á þessu sama svæði.
Leitað var til lægstbjóðanda að endurskoða m.a. verklag og í grunninn að leita allra leiða til þess að lækka kostnaðinn við sorphirðu eins og mögulegt er, en tillögur frá ÍG hafa ekki skilað sér ennþá til Norðurþings.
Tillaga
Undirritaður leggur til að öllum tilboðum verði hafnað, verkþáttum skipt upp og sveitarfélagið taki verkefnið að sér.
Greinargerð
Miðað við þau tilboð sem liggja fyrir mun gjaldskrá sorphirðu hækka nokkuð. Því er ástæða til að leita nýrra leiða. Það er möguleiki að skoða samþættingu við starfsemi og þjónustu sveitarfélagsins.
Virðingafyllst
Hjálmar Bogi Hafliðason

Hjálmar Bogi Hafliðason er samþykkur tillögunni.
Silja Jóhannesdóttir, Kristinn Jóhann Lund og Guðmundur Halldór Halldórsson hafna tillögunni.
Heiðar Hrafn Halldórrson situr hjá.

Skipulags- og framkvæmdaráð - 64. fundur - 16.04.2020

Það kostnaðarmat sem fyrir liggur og unnið hefur verið með í tengslum við útboð sorphirðu á Húsavík og í Reykjahverfi kallar á ríflega 50% hækkun gjalda umfram það sem sveitarfélagið innheimtir í dag vegna sorphirðumála.
Engin tilboð bárust í tengslum við útboðið sem voru undir kostnaðarmati en hagstæðasta tilboð sem skilaði sér við opnun tilboða kallar á ríflega 66% hækkun sorphirðugjalda og því ljóst að bregðast þarf við með einhverjum hætti til þess að lágmarka hækkun sorphirðugjalda sem þó er fyrirsjáaneg.
Leitað hefur verið til lægstbjóðanda varðandi möguleika til lágmörkunar kostnaðarauka og liggja fyrir tillögur varðandi það sem snúa að mestu að stækkun sorpíláta og fækkun sorplosana í því samhengi.

Óskað er afstöðu skipulags- og framkvæmdráðs til tilboðs lægstbjóðanda vegna sorphirðu á Húsavík og í Reykjahverfi.

Óskað er afstöðu skipulags- og framkvæmdaráðs til þeirra tillagna sem lagðar hafa verið fram af hálfu lægstbjóðanda til takmörkunar kostnaðarauka vegna sorphirðu á Húsavík og í Reykjahverfi.

Óskað er heimildar skipulags- og framkvæmdaráðs til þess að ganga frá samningi við lægstbjóðanda á þeim forsendum sem kynntar hafa verið ráðinu.
Meirihluti skipulags- og framkvæmdaráðs samþykkir tilboð lægstbjóðanda með þeim tillögum sem lagðar hafa verið fram til þess að takmarka kostnaðarauka Norðurþings vegna sorphirðu á Húsavík og í Reykjahverfi. Ennfremur felur ráðið framkvæmda- og þjónustufulltrúa að ganga frá samningi um sorphirðu við lægstbjóðanda.

Hjálmar Bogi greiðir atkvæði gegn tillögunni og leggur fram eftirfarandi bókun:
Undirritaður hafði áður boðið upp tillögu þess efnis að sveitarfélagið taka verkefnið til sín en hún felld. Það er enn skoðun mín og trú að málefninu væri betur borgið í eigin höndum og velta þannig ekki beinum kostnaði á íbúa. Um leið gætu skapast tækifæri heima fyrir og í rekstri sveitarfélagsins.
Hjálmar Bogi Hafliðason.

Skipulags- og framkvæmdaráð - 65. fundur - 28.04.2020

Umræða í skipulags- og framkvæmdaráði um ástæður hækkana á einingaverðum vegna sorphirðu í Norðurþingi.
Lagt fram til umræðu.

Skipulags- og framkvæmdaráð - 66. fundur - 05.05.2020

Fyrir fundi liggja drög að samningi við Íslenska Gámafélagið. Einnig liggja fyrir upplýsingar varðandi þá hækkun á milli útboða 2015 og 2020 sem fyrir liggur. Ráðið þarf að taka afstöðu til samnings.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir fyrirliggjandi samningsdrög og að gengið verði frá samningi um sorphirðu við Íslenska Gámafélagið til samræmis við fyrirliggjandi tilboð og tillögur um breytingar þar á, með atkvæðum Silju Jóhannesdóttur, Kristins Jóhanns Lund, Guðmundar H. Halldórssonar og Heiðars Hrafns Halldórssonar.

Hjálmar Bogi Hafliðason óskar bókað:
Undirritaður er mótfallinn samningnum í meira lagi og greiðir atkvæði á móti málinu.
HBH