Fara í efni

Skipulags- og framkvæmdaráð

63. fundur 07. apríl 2020 kl. 13:00 - 15:40 Fjarfundur
Nefndarmenn
  • Silja Jóhannesdóttir formaður
  • Heiðar Hrafn Halldórsson aðalmaður
  • Hjálmar Bogi Hafliðason aðalmaður
  • Kristján Friðrik Sigurðsson áheyrnarfulltrúi
  • Kristinn Jóhann Lund varaformaður
  • Guðmundur Halldór Halldórsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfulltrúi
  • Gunnar Hrafn Gunnarsson framkv.- og þjónustufulltrúi
  • Þórir Örn Gunnarsson hafnarstjóri
  • Jónas Hreiðar Einarsson starfsmaður í stjórnsýslu
  • Kristján Þór Magnússon
Fundargerð ritaði: Gunnar Hrafn Gunnarsson Framkvæmda- og þjónustufulltrúi
Dagskrá
Bjarni Páll Vilhjálmsson sat fundinn undir máli nr. 1 en Silja Jóhannesdóttir vék af fundi undir því máli.
Kristján Þór Magnússon sat fundinn undir máli nr. 7.
Jónas Hreiðar Einarsson sat fundinn undir málum 1-13.

1.Málefni Nausts

Málsnúmer 202003096Vakta málsnúmer

Guðmundur Salómonsson, f.h. húseigenda Hafnarstéttar 7 á Húsavík óskar eftir:

1. Heimild til að grafa frá austurvegg hússins til að veita jarðraka frá veggnum.
2. Samþykki fyrir byggingarleyfi fyrir viðbyggingu norðan núverandi húss skv. meðfylgjandi rissmynd.
3. Samþykki fyrir hækkun nýtingarhlutfalls lóðarinnar í deiliskipulagi.
4. Að Orkuveita Húsavíkur taki á sig kostnað við lagfæringar og breytingar á þeim lögnum sem kunna að koma í ljós við uppgröft.
5. Að sveitarfélagið taki á sig kostnað við lagfæringar á slitlagi og kantsteinum austan Hafnarstéttar 7 að framkvæmdum loknum.
6. Að sveitarfélagið felli niður alla gjaldtöku skv. gjaldskrám vegna afgreiðslu erinda.
Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar Björgunarsveitinni Garðari fyrir erindið og tekur undir að brýn þörf er á að bæta aðstöðu fyrir starfsemi sveitarinnar. Ráðið tekur jákvætt í erindið en þó þarf að hnýta ýmsa lausa enda áður en lengra er haldið. Samþykki allra eigenda húseignarinnar þarf að liggja fyrir, lóðamörkin þurfa að vera skýr og hugsanlegar breytingar samþykktar af hálfu nágranna. Kostnaðarhluti sveitarfélagsins þarf jafnframt að liggja fyrir áður en ráðið samþykkir að leggja fram fjármagn til verkefnisins. Einnig eru ýmis mál tæknilegs eðlis sem þarf að skoða sérstaklega.
Ráðið ákveður að starfsmenn sveitarfélagsins meti kostnað við þátttöku Norðurþings í verkefninu og jafnhliða eigi sér stað samtal við forsvarsmenn björgunarsveitarinnar og aðra hagsmunaaðila um framtíðarlausn á húsnæðismálum sveitarinnar áður en næstu skref verða tekin. Þessum verkefnum verði hraðað eins og framast er unnt.

2.Ósk um stækkun lóðar að Höfða 24

Málsnúmer 201909089Vakta málsnúmer

Fasteignafélag Húsavíkur ehf óskar stækkunar lóðar að Höfða 24. Erindi var áður tekið fyrir á fyrra ári, en nú liggur fyrir tillaga skipulagsráðgjafa að hnitsettu lóðarblaði tvískiptrar lóðar, 3117,8 m² norðan Laugarbrekku og 843,6 m² sunnan Laugarbrekku.
Skipulags- og framkvæmdaráð fellst á afmörkun lóðarinnar og leggur til við sveitarstjórn að gefinn verði út lóðarleigusamningur á grunni fyrirliggjandi lóðarblaðs.

3.Þröstur Sigurðsson fyrir hönd lóðarhafa, óskar eftir breytingu byggingarleyfis á lóðinni að Laugarbrekku 23.

Málsnúmer 202004018Vakta málsnúmer

Óskað er eftir samþykki fyrir breyttum teikningum að húsi að Laugarbrekku 23. Nú er gert ráð fyrir að húsið verði tveggja íbúða, ein á hvorri hæð. Ennfremur er gert ráð fyrir bílskúr á efri hæð við austurjaðar lóðar. Teikningar eru unnar af Þresti Sigurðssyni hjá Opus. Fyrir liggur undirritað samþykki nágranna vegna þeirra frávika frá gildandi deiliskipulagi sem erindið innifelur.
Skipulags- og framkvæmdaráð fellst á fyrirhugaða byggingu og heimilar skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi þegar honum hafa borist fullnægjandi gögn þar að lútandi.

4.Útboð vegna sorphirðu 2020

Málsnúmer 202001017Vakta málsnúmer

Opnuð hafa verið tilboð sem bárust í tengslum við ný-afstaðið útboðsferli vegna sorphirðu á Húsavík og í Reykjahverfi, en þrátt fyrir að tölur sem þar skiluðu sér hafi verið nokkuð á pari við kostnaðaráætlun, er um umtalsverða hækkun kostnaðar að ræða sé litið til núverandi samnings um soprhirðu á þessu sama svæði.
Leitað var til lægstbjóðanda að endurskoða m.a. verklag og í grunninn að leita allra leiða til þess að lækka kostnaðinn við sorphirðu eins og mögulegt er, en tillögur frá ÍG hafa ekki skilað sér ennþá til Norðurþings.
Tillaga
Undirritaður leggur til að öllum tilboðum verði hafnað, verkþáttum skipt upp og sveitarfélagið taki verkefnið að sér.
Greinargerð
Miðað við þau tilboð sem liggja fyrir mun gjaldskrá sorphirðu hækka nokkuð. Því er ástæða til að leita nýrra leiða. Það er möguleiki að skoða samþættingu við starfsemi og þjónustu sveitarfélagsins.
Virðingafyllst
Hjálmar Bogi Hafliðason

Hjálmar Bogi Hafliðason er samþykkur tillögunni.
Silja Jóhannesdóttir, Kristinn Jóhann Lund og Guðmundur Halldór Halldórsson hafna tillögunni.
Heiðar Hrafn Halldórrson situr hjá.

5.Snjómokstur í Reykjahverfi 2019-2020

Málsnúmer 201911057Vakta málsnúmer

Til kynningar fyrir skipulags- og framkvæmdaráð, lagður er fyrir undirritaður samningur við Fjallasýn ehf. um snjómokstur í Reykjahverfi til vors 2020.
Undirritaður samningur lagður fram til kynningar fyrir skipulags- og framkvæmdaráð.

6.Snjómokstur

Málsnúmer 202003078Vakta málsnúmer

Hjálmar Bogi óskar upplýsinga um kostnað við snjómokstur í Norðurþingi sl. þrjú ár.
Á 62. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs var framkvæmda- og þjónustufulltrúa falið að taka saman kostnað vegna snjómoksturs undanfarin þrjú ár m.t.t. fjárhagsáætlunar og leggja fyrir ráðið.
Kostnaðartölur vegna snjómoksturs undangenginna ára lagðar fram og ræddar í ráðinu.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að taka saman kostnað vegna snjómoksturs þriggja síðustu vetra (október-maí)og birta í gagnasjá Norðurþings.

7.Bygging á íbúðakjarna fyrir fatlaða

Málsnúmer 201909041Vakta málsnúmer

Fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggja drög að samþykktum og umsókn vegna byggingar íbúðakjarna fyrir fatlaða einstaklinga til kynningar og umræðu.
Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings fór yfir grunnþætti málsins og kynnti verkefnið.

8.Sjóvarnir í suðurfjöru

Málsnúmer 202003113Vakta málsnúmer

Borist hefur erindi frá Vegagerðinni þar sem tilkynnt er að líklega verði flýtt framhaldsframkvæmdum við sjóvarnir undir bökkum í Suðurfjöru og að þá verði farið í verkið í sumar.
Áætlaður heildarkostnaður við framkvæmdina er 36 milljónir, verkið er ríkisstyrkt að 7/8 hluta en 1/8 fellur á sveitarfélagið. Óskað var eftir staðfestingu frá sveitarfélaginu um framlag þess til verksins sem er áætlað 4,5 milljónir. Erindið var tekið fyrir á Byggðaráðsfundi nr. 322 og þar var eftirfarandi bókað;
“Byggðaráð samþykkir fjárheimild til verksins og vísar málinu til skipulags- og framkvæmdaráð til úrvinnslu."
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir að farið verði í verkefnið og felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að fylgja málinu eftir.

9.Hafnasamband Íslands - Fundargerðir 2020

Málsnúmer 202001107Vakta málsnúmer

421. fundargerð Hafnasambandsins og 22. fundur Siglingaráðs eru lagðar fram.
Lagt fram til kynningar.

10.Samkomulag um þjónustu dráttarbáta 2019 - 2020

Málsnúmer 201902093Vakta málsnúmer

Hafnasamlag Norðurlands óskar eftir afstöðu skipulags- og framkvæmdaráðs á því hvort fyrirhugað sé að endurnýja samkomulag um dráttarbátaþjónustu.
Samkomulagið hefur verið í gildi frá því í apríl 2019 og skal tekið til endurskoðunar í október 2020.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir að samkomulag um dráttarbátaþjónustu verði endurnýjað við endurskoðun þess, svo fremi að gjaldtaka hækki ekki umfram verðlagsþróun.

11.Styrktarsjóður EBÍ

Málsnúmer 202003070Vakta málsnúmer

Styrktarsjóður EBÍ var stofnaður árið 1996 og er tilgangur sjóðsins að styrkja með fjárframlögum sérstakar athuganir eða rannsóknir á ýmsum þróunarþáttum í atvinnulífi, samgöngum, fræðslu- og menningarmálum í aðildarsveitarfélögum. Sveitarfélaginu er hér með boðið að senda inn umsókn um stuðning við verkefni vegna sérstakra framfaraverkefna á vegum þess. Umsóknarfrestur er til aprílloka. Erindið var tekið fyrir á Byggðaráðsfundi nr. 321 sem bókaði eftirfarandi;
"Vísað til umræðu í fjölskylduráði og skipulags- og framkvæmdaráði".
Lagt fram til kynningar.

12.Aðgerðahópur Norðurþings vegna COVID-19 - framkvæmdaáætlun 2020

Málsnúmer 202004019Vakta málsnúmer

Aðgerðahópur Norðurþings vegna COVID-19 hefur yfirfarið framkvæmdaáætlun ársins 2020 þar sem forgangsraðað hefur verið verkefnum eftir ákveðnum neðangreindum forsendum;
1. Að verkefnin krefðust mannafla umfram aðföng.
2. Að verkefnin væru tiltölulega aðgengileg að fara í.
3. Að verkefnin næðu til fjölbreytts hóps iðnaðarmanna og verktaka.
4. Að hægt væri hægt að vinna verkefnin með sumarstarfsfólki á umhverfissviði og/eða í áhaldahúsi.
5. Að hægt væri að ná hagkvæmni, með því að fara í samskonar verkefni á nokkrum stöðum samtímis.

Aðgerðahópurinn óskar eftir að skipulags- og framkvæmdaráð yfirfari áætlunina með eftirfarandi í huga:

1. Ráðið forgangsraði verkefnunum sem tilgreind eru í þremur aðgreindum flipum (fjárfestingar, viðhald og framkvæmdir) í A, B eða C flokk.

A: Verkefni sem eru tilbúin, hægt að samþykkja og koma í framkvæmd.

B. Verkefni sem þarfnast undirbúnings.

C. Verkefni sem eru á byrjunarstigi og þarfnast verulegs undirbúnings.


2. Metinn verði kostnaður við verkefnin.


3. Þá óskar aðgerðhópur eftir upplýsingum um hvaða verkefni af þeim sem ráðið hefur tekið afstöðu til er hægt að hætta við þ.e. ekki búið að ganga frá bindandi samningum um framkvæmd þeirra.

Gott væri ef ráðið gæti svarað lið 1 og 3 á næsta fundi sínum en augljóst að lið 2 þarf lengri tíma til að svara og er horft til þess að þeirri vinnu ljúki fyrir síðustu viku aprílmánaðar.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að meta stöðu þeirra verkefna sem talin eru upp í verkefnalista aðgerðahóps vegna COVID-19. Ráðið felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa jafnframt að koma með tillögur að fleiri brýnum verkefnum og leggja fyrir ráðið að nýju.

13.Aðgerðarhópur Norðurþings til að fást við efnahagsmál vegna Covid-19

Málsnúmer 202003079Vakta málsnúmer

Á 322. fundi byggðarráðs voru samþykktar tillögur aðgerðahóps Norðurþings vegna COVID-19 og eru þær til kynningar og umfjöllunar í skipulags- og framkvæmdaráði.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 15:40.