Fara í efni

Covidpistill sveitarstjóra #19

Það er fullt tilefni til þess að gleðjast yfir fallegum vordögum undanfarið og þeirri staðreynd að á morgun brestur á með sumri. Í það minnsta að nafninu til og vil ég nota tækifærið og óska íbúum sveitarfélagsins gleðilegs sumars. Við held við kveðjum veturinn ekki með miklum söknuði þetta árið í það minnsta. Vonandi verður langt í að við þurfum að takast á við jafn válynd veður og ferlegt farsóttarálag sem yfir okkur hefur gengið sl. mánuði. Það er sömuleiðis hægt að gleðjast og vera þakklátur fyrir árangur okkar í baráttunni við kórónúveiruna. Enn höfum við náð að halda faraldrinum frá okkur að mestu leyti og hingað til höfum við ekki þurft að glíma við hópsmit í samfélaginu. Það er ekki hægt að þakka nógsamlega vel fyrir þá staðreynd. Nú er það bara dansinn framundan, að fara áfram eftir fyrirmælum, slaka ekkert á grunnatriðunum á sóttvarnarmálunum s.s. handþvotti, sprittun og fjarlægðarmörkum. Þá mun þetta áfram ganga vel.

Í dag eru ekki nema tveir einstaklingar með sýkingu í umdæmi lögreglustjórans á Norðurlandi eystra og 28 manns í sóttkví. Það er frábær árangur og á að vera ekki hvatning til þess að klára nú þennan tíma fram til 4. maí af fullri einurð. Eftir þann tíma verður enn í gildi samkomubann sem hefur áfram takmarkanir á samskiptum fólks í för með sér. Auglýsing heilbrigðisráðherra um tilslakanir á samkomubanninu sem nú gildir er að finna hér: https://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?RecordID=ab3485b5-a616-48bd-8db2-476a28fb45ce

Í Norðurþingi er gengið út frá því að skólahald muni færast aftur í fyrra horf frá og með 4. maí n.k. eins og auglýsingin tilgreinir, en skipulag síðustu vikna skólahalds fyrir sumarfrí m.v. núverandi forsendur er í fullum gangi hjá starfsmönnum og stjórnendum skólanna. Nákvæmlega hvernig málum verður háttað kemur í ljós í næstu viku og foreldra, forráðamenn og nemendur verða upplýstir um það eins skjótt og verða má.

Það er ljóst að covid-faraldurinn hefur haft í för með sér mjög erfiða tíma fyrir þá einstaklinga í okkar samfélagi sem hafa þurft að einangra sig frá utanaðkomandi íbúum að mestu. Hér á ég við elstu íbúana okkar á hjúkrunarheimilinu Hvammi og aðra sem búa við svipaða stöðu. Það er ekki síst þess vegna sem það er frábært að sjá þessa íbúa marga hverja njóta góða veðursins í fylgd starfsfólks Hvamms að rölta/hjóla um í bænum. Ég vil þó um leið minni á hversu gríðarlega mikilvægt það er að við virðum fjarlægðarmörkin gagnvart þessum íbúum sem og öllum öðrum. Það er kannski skiljanlegt að fólk geti gleymt sér þegar aldagamlir vinir hittast úti á götu og bjóði handaband eða faðmlag eftir þá innilokun sem ríkt hefur, en ég bið alla um að fara varlega og virða reglurnar innan sem utan dyra. Að þessu sögðu örkum við út í vorið og tökum fagnandi mót sumri, með minnst 2 metra á milli. Gleðilegt sumar!

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri