Fara í efni

Byggðarráð Norðurþings

256. fundur 05. júlí 2018 kl. 08:30 - 11:55 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Kristján Þór Magnússon
  • Helena Eydís Ingólfsdóttir varaformaður
  • Bergur Elías Ágústsson aðalmaður
  • Silja Jóhannesdóttir áheyrnarfulltrúi
  • Guðbjartur Ellert Jónsson áheyrnarfulltrúi
  • Kolbrún Ada Gunnarsdóttir varamaður
Starfsmenn
  • Drífa Valdimarsdóttir fjármálastjóri
Fundargerð ritaði: Drífa Valdimarsdóttir fjármálastjóri
Dagskrá

1.Ný löggjöf um persónuvernd

Málsnúmer 201706150Vakta málsnúmer

Alþingi samþykkti þann 12. júní sl. ný persónuverndarlög sem taka gildi 15. júlí n.k. Nokkurrar óvissu og óánægju hefur gætt meðal sveitarfélaga varðandi hvernig staðið hefur verið að löggjöfinni og að lítið hefur verið hlustað á sjónarmið um kostnað sveitarfélaganna við hina nýju löggjöf. Nú eru aðeins nokkrir dagar til stefnu hvað undirbúning varðar fyrir löggjöfina og því er mikilvægt að byggðarráð sé upplýst um stöðu mála er snýr að vinnu sveitarfélagsins í þeim efnum. Berglind Jóna Þorláksdóttir, skrifstofustjóri og Jón Höskuldsson fræðslufulltrúi koma til fundarins og upplýsa fundarmenn um þær breytingar í lagaumhverfinu sem hafa áhrif á rekstur og starfsemi sveitarfélagsins til framtíðar litið. Jafnframt verður farið yfir stöðuna á þeirri vinnu sem unnin hefur verið til undirbúnings þessum breytingum.
Lagt fram til kynningar.

2.Samningur Norðurþings við PACTA lögmenn

Málsnúmer 201806170Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggja drög að samningi við PACTA Lögmenn um verkefnastjórnun, ráðgjöf og lögfræðiþjónstu við innleiðngu nauðsynlegra breytinga á vinnslu, skráningu, meðhöndlun og vistun persónuupplýsinga til samræmis við reglugerð ESB 2016/679 og lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga staðfest á Alþingi í júní s.l. Með samningnum skuldbinda PACTA Lögmenn sig til þess að sinna störfum fyrir sveitarfélagið með þeim hætti að við framkvæmdina koma þeir fram í nafni og umboði Norðurþings.
Byggðarráð felur sveitarstjóra að ganga frá verk- og þjónustusamningi við PACTA lögmenn.
Að svo stöddu er ekki talin ástæða fyrir samningum um víðtækari þjónustu á lögfræðisviði fyrir sveitarfélagið.

3.Sjúkraflutningar í Norðurþingi

Málsnúmer 201410116Vakta málsnúmer

Með samningi þeim sem nú liggur fyrir byggðarráði er greint á um að Slökkvilið Norðurþings skuli annast sjúkraflutninga fyrir Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík eins og nánar er lýst, á þjónustusvæði HSN-Húsavík. Slökkvilið Norðurþings munu annast framkvæmd samningsins en áætlaður heildarfjöldi sjúkraflutninga á starfssvæðinu er áætlaður um 400 á ársgrundvelli. Meginverkefni þessa samnings snýr að mönnun slökkviliðs Norðurþings á sjúkrabíl 2 hjá HSN-Húsavík (2. viðbragð), og leggur slökkviliðið til þess mannskap. Jafnframt verða slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn á vegum Norðurþings tiltækir til afleysinga á bíl 1 eins og verið hefur auk þess sem sjúkraflutningamenn á vegum HSN munu styrkja slökkviliðið með því að ganga í gegnum grunnmenntun í brunavörnum. Samstarfssamningnum er ætlað að verða ánægjulegt og öflugt skref í átt að enn tryggari sjúkraflutningaþjónustu og eldvörnum á svæðinu.
Grímur Kárason sat fundinn undir þessum lið. Sveitarstjóra falið að uppfæra samninginn og leggja fyrir fylgiskjöl vegna málsins á næsta fundi byggðarráðs.

4.Framlag Vegagerðarinnar til Slökkviliðs Norðurþings vegna Húsavíkurhöfðaganga

Málsnúmer 201806205Vakta málsnúmer

Vegagerðin og Slökkvilið Norðurþings hafa undanfarin misseri farið yfir öryggismál í nýjum Húsavíkurhöfðagöngum og drög að viðbragðsáætlun. Aðilar eru sammála um að til þess að ná ásættanlegu öryggi hvað varðar bruna og slys í göngunum þarf að efla þann búnað sem slökkviliðið hefur yfir að ráða. Vegagerðin hefur samþykkt að greiða styrk að upphæð 4 mkr með VSK til kaupa á búnaði sem nýst getur slökkviliðinu ef upp koma þannig aðstæður í göngunum. Styrkurinn er skilyrtur við að fjárhæðin sé notuð til innkaupa á búnaði, en ekki nýttur vegna æfinga eða annars rekstrar liðsins. Slökkviliðið tekur að sér að sjá um göngin hvað þeirra verksvið varðar með fyrirliggjandi búnaði eftir þessa viðbót.
Grímur Kárason sat fundinn undir þessum lið. Lagt fram til kynningar.

5.Skipulags- og framkvæmdaráð - 1

Málsnúmer 1806004FVakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur staðfesting 19. liðar í fundargerð 1. fundar skipulags- og framkvæmdaráðs frá 26. júní s.l.
Grímur Kárason sat fundinn undir þessum lið. Byggðarráð staðfestir 19. lið fundargerðar 1. fundar skipulags- og framkvæmdaráðs.

6.Verksamningur um uppbyggingu slökkvistöðvar við Norðurgarð 5 á Húsavík

Málsnúmer 201807016Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggja drög að verksamningi við Trésmiðjuna Rein ehf. til uppbyggingar slökkvistöðvar við Norðurgarð 5 á Húsavík.

Verktakinn tekur að sér að reisa slökkvistöð og aðstöðu fyrir hafnir Norðurþings við Norðurgarð á Húsavík, eins og lýst er í útboðsgögnum „Slökkvistöð og hafnir - Norðurgarður 5“, útboðsnúmer 177003. Engin tilboð bárust í verkið áður en frestur til innsendingar rann út og því hefur Norðurþing ákveðið að semja sérstaklega um verkið í ljósi brýnnar þarfar sveitarfélagsins að koma upp umræddri aðstöðu.

Innifalið í samningsverðinu er allur efniskostnaður, kostnaður við vinnu, vélar, áhöld, vinnuaðstöðu, tryggingar, flutninga, o.s.frv. svo og öll þau lög- og samningsbundnu gjöld sem leiða af því að hafa menn og tæki í vinnu og selja efni og vinnu, þ.m.t. virðisaukaskattur.

Samningsfjárhæð er, samkvæmt tilboði verktaka og með leiðréttingum samkvæmt ákvæðum útboðsgagna kr. 247.223.692,- með virðisaukaskatti. Áætluð verklok eru í ágúst mánuði 2019.
Byggðarráð samþykkir fyrirliggjandi verksamning og veitir sveitarstjóra heimild til að undirrita hann. Samþykkt með atkvæðum Bergs Elíasar Ágústssonar og Helenu Eydísar Ingólfsdóttur. Kolbrún Ada Gunnarsdóttir greiðir atkvæði gegn afgreiðslunni.

Bergur Elías óskar bókað: Hér er um viðamikla og kostnaðarsama framkvæmd að ræða. Fulltrúi framsóknarflokks leggur ríka áherslu á að allir kostnaðarliðir framkvæmdarinnar standist fyrirliggjandi áætlanir. Jafnframt er rétt að það komi fram að miður sé að ekki hafi náðst full sátt um framkvæmdina meðal kjörinna fulltrúa.

Grímur Kárason sat fundinn undir þessum lið.

7.Áfangastaðaáætlun DMP

Málsnúmer 201807013Vakta málsnúmer

Áfangastaðaáætlun Norðurlands DMP hefur verið birt á vef Markaðsstofu Norðurlands (MN). Áfangastaðaáætlun er sameiginleg viljayfirlýsing um hvernig stýra skuli áfangastað yfir ákveðið tímabil. Hlutverk mismunandi hagaðila
eru skilgreind, aðgerðaáætlun sett fram og farið yfir hvernig auðlindum skuli ráðstafað. Áfangastaðaáætlun er besta tækifærið fyrir íbúa og hagaðila áfangastaðar til að gera framtíðaráætlun svo að laða megi þá ferðaþjónustu sem þeir vilja inn á svæðið, og til að draga úr mögulegum neikvæðum áhrifum.

Í áætlanagerðinni er horft á ferðaþjónustu út frá víðu sjónarhorni og tillit tekið til margra ólíkra hagaðila við þróun áfangastaðarins. Áætlanagerðin tekur tillit til gesta, íbúa, fyrirtækja og umhverfisins og reynir að skapa jafnvægi þar á milli, og fullnægja þörfum þessara fjögurra þátta. Áfangastaðaáætlanir gera íbúum kleift að ákveða hvernig áhrif þeir vilja að ferðaþjónusta hafi á nánasta umhverfi, efnahag og samfélag og hvaða skref skuli taka að því marki.

Í þessari vinnu kemur fram mikilvæg stöðugreining á Norðurlandi varðandi ferðaþjónustuna auk þess sem búið er með samstarfi sveitarfélaga, fyrirtækja og íbúa að forgangsraða verkefnum fyrir svæðið. Mikilvæg grunnvinna á Norðurlandi á vegum ferðaþjónustunnar í samstarfi við MN síðastliðin ár gerði það að verkum að á stuttum tíma er búið að vinna mikilvægt plagg sem nýta verður til uppbyggingar greinarinnar á svæðinu. Þannig að svo megi verða má vænta mikilla samskipta m.a. Markaðsstofu Norðurlands við sveitarfélögin, ferðaþjónustuna og hagsmunaaðila til að tryggja að verkefnið komi að gagni og verði ferðaþjónustunni til framþróunar á öllum svæðum.


Lagt fram til kynningar.

8.Samstarfsverkefni sveitarfélaga

Málsnúmer 201807014Vakta málsnúmer

Fyrir liggur að þingeysk sveitarfélög eiga óhjákvæmilega í samstarfi af ýmsum toga vegna nábýlis. Samstarfsmöguleikar geta verið fleiri en nú eru þegar.


Málinu er frestað.

9.Aðalfundur Rifós 2018

Málsnúmer 201806212Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur boð á aðalfund Rifóss hf. þann 11. júlí n.k. í Skúlagarði.
Byggðarráð felur sveitarstjóra að fara með umboð Norðurþings á fundinum og staðgengil sveitarstjóra til vara.

10.Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra óskar eftir umsögn um tímabundið áfengisleyfi fyrir Donda ehf.,vegna Mærudaga

Málsnúmer 201807002Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur beiðni frá sýslumanninum á Norðurlandi eystra um umsögn vegna tímabundins áfengisleyfis fyrir Donda ehf. frá kl. 14:00 þann 27. júlí til kl. 01:00 þann 29. júlí.
Byggðarráð veitir jákvæða umsögn.

11.Fjárfestingarfélag Norðurþings - hluthafafundur 2018

Málsnúmer 201807012Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur erindi um hluthafafund í Fjárfestingarfélagi Norðurþings hf.
Byggðarráð felur sveitarstjóra að fara með umboð sveitarfélagsins á fundinum.

12.Malbikunarframkvæmdir í Norðurþingi sumarið 2018

Málsnúmer 201806112Vakta málsnúmer

Eftirfarandi var bókað á 2. fundi skiplags- og framkvæmdaráðs;

Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við byggðarráð að eftirfarandi malbikunarframkvæmdir verði teknar inná framkvæmdaáætlun: Plan við Borgarhólsskóla Húsavík, Garðarsbraut Húsavík, sleppistæði við Auðbrekku á Húsavík, gangstétt við Ásgötu á Raufarhöfn, Hnitbjörg á Raufarhöfn, Stjórnsýsluhús á Raufarhöfn og íþróttahús á Raufarhöfn.
Byggðaráð vísar erindinu aftur til skipulags- og framkvæmdaráðs. Óskað er eftir að tillaga verði unnin að uppfærðri framkvæmda- og viðhaldsáætlun og áhrif umræddra malbikunarframkvæmda útlistuð í henni.

13.Óskað er eftir samþykki fyrir afmörkun lóðar umhverfis veiðihúsið Draumaland í óskiptu landi Hóls, Höfða og Vogs

Málsnúmer 201805103Vakta málsnúmer

Eftirfarandi var bókað á 2. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs:

Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við byggðaráð, í sumarleyfisumboði sveitarstjórnar, að afmörkun lóðarinnar verði samþykkt. Ennfremur leggur ráðið til að lóðin verði skráð sem íbúðarhúsalóð og fái heitið Höfði 2.
Byggðarráð samþykkir tillöguna.

14.Óskað er eftir samþykki fyrir afmörkun lóðar umhverfis sumarhúsið Mylluna í óskiptu landi Hóls, Höfða og Vogs

Málsnúmer 201805098Vakta málsnúmer

Eftirfarandi var bókað á 2. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs:

Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við byggðaráð, í sumarleyfisumboði sveitarstjórnar, að afmörkun lóðarinnar verði samþykkt.
Byggðarráð samþykkir tillöguna.

15.Aðalfundur Leigufélags Hvamms ehf 2018

Málsnúmer 201807015Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráð liggur fundarboð á Aðalfund Leigufélags Hvamms ehf 2018. Fundurinn verður haldinn fimmtudaginn 12. júlí 2018 í fundarsal á fyrstu hæð í húsnæði HSN, við Auðbrekku, Húsavík. Fundurinn verður haldinn að loknum fyrsta fundi nýrrar stjórnar Dvalarheimilisins aldraðra sf., og má því áætla að Aðalfundurinn hefjist kl. 16.00.
Byggðarráð felur sveitarstjóra að fara með umboð Norðurþings á fundinum og til vara Guðbjartur Ellert Jónsson.

16.Fundargerðir Eyþings 2016-2018

Málsnúmer 201603019Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð 306. fundar stjórnar Eyþings frá 27. júní 2018.
Lagt fram til kynningar.

17.Fundagerðir 2018 - Samband íslenskra sveitarfélaga

Málsnúmer 201802023Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð 861. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Lagt fram til kynningar.

18.Orkuveita Húsavíkur ohf - 178

Málsnúmer 1806005FVakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð hluthafafundar Orkuveitu Húsavíkur ohf. frá 28. júní s.l.
Lagt fram til kynningar.

19.Orkuveita Húsavíkur ohf - 179

Málsnúmer 1806006FVakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð 179. fundar stjórnar Orkuveitu Húsavíkur ohf. frá 28. júní s.l.
Til máls tók undir lið 2 Bergur Elías og undir lið 3 Bergur Elías og Guðbjartur Ellert. Lagt fram til kynningar.

20.Fjölskylduráð - 2

Málsnúmer 1806009FVakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð 2. fundar fjölskylduráðs frá 2. júlí s.l.
Helena Eydís fór yfir lið 1 í fundargerðinni. Lagt fram til kynningar.

21.Skipulags- og framkvæmdaráð - 2

Málsnúmer 1806008FVakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð 2. fundar skipulags- og framkvæmdaráðs frá 3. júlí s.l.
Til máls tók undir lið 10 og 12 Guðbjartur Ellert. Byggðarráð frestar staðfestingu liðar 12 í fundargerðinni. Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 11:55.