Fara í efni

Skipulags- og byggingarnefnd Norðurþings

120. fundur 16. september 2014 kl. 14:00 - 14:00 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Sif Jóhannesdóttir formaður
  • Röðull Reyr Kárason aðalmaður
  • Örlygur Hnefill Örlygsson aðalmaður
  • Soffía Helgadóttir aðalmaður
Fundargerð ritaði: Gaukur Hjartarson Skipulags- og byggingarfulltrúi
Dagskrá

1.Breyting aðalskipulags vegna efnislosunarsvæðis

Málsnúmer 201409033Vakta málsnúmer

Skipulags- og byggingarfulltrúi kynnti tillögu að skipulagslýsingu fyrir breytingu Aðalskipulags Norðurþings 2010-2030 sem geri ráð fyrir jarðvegslosunarsvæði við fjallsafleggjara.

Skipulags- og byggingarnefnd leggur til við bæjarstjórn að skipulagslýsingin verði kynnt skv. ákvæðum skipulagslaga. Ennfremur verði frumhugmyndir skipulagsbreytingarinnar kynntar á opnu húsi.

2.Deiliskipulag efnislosunarsvæðis

Málsnúmer 201409053Vakta málsnúmer

Skipulags- og byggingarfultrúi kynnti tillögu að skipulagslýsingu fyrir deiliskipulag jarðvegslosunarsvæðis við fjallsafleggjara.

Skipulags- og byggingarnefnd leggur til við bæjarstjórn að skipulagslýsingin verði kynnt skv. ákvæðum skipulagslaga. Ennfremur verði frumhugmyndir skipulagstillögunnar kynntar á opnu húsi.

3.Breyting aðalskipulags v/ norðurhafnar

Málsnúmer 201406081Vakta málsnúmer

Vigfús Sigurðsson mætti á fundinn og kynnti hugmynd að breytingu aðalskipulags vegna um 2 ha landfyllingar í norðurhöfn.

Skipulags- og byggingarnefnd samþykkir að halda formi uppfyllingar óbreyttu frá fyrirliggjandi tillögu. Bæta þarf við fyllingu við slipp svo þar megi útbúa byggingarreiti í tengslum við slippinn. Nefndin vísar fyrirliggjandi hugmynd til umfjöllunar í framkvæmda- og hafnanefnd.

4.Breyting á deiliskipulagi norðurhafnar

Málsnúmer 201406082Vakta málsnúmer

Vigfús Sigurðsson kynnti tillögu að deiliskipulagi norðurhafnarsvæðis til samræmis við fyrirhugaða landfyllingu. Ragnar Hermannsson kynnti hugmyndir að uppbyggingu við slippinn.

Skipulagsráðgjafa er falið að að halda áfram með skipulagstillöguna til samræmis við umræður á fundinum. M.a. verði teiknuð tillaga að byggingarreitum við slippinn sem heimili uppbyggingu aðstöðuhúss fyrir þá starfsemi. Nefndin vísar fyrirliggjandi hugmyndum til umfjöllunar í framkvæmda- og hafnanefnd.

5.Frágangur úthlutaðra lóða

Málsnúmer 201305024Vakta málsnúmer

Skipulags- og byggingarfulltrúi kynnti viðbrögð lóðarhafa að Lyngholti 2a og Laugarbrekku 23 vegna óska um úrbætur á lóðunum. Lóðarhafi að Lyngholti 2a hyggst fylla í grunninn á næstunni þannig að lóðin verði ekki hættuleg. Lóðarhafar að Laugarbrekku 23 sendu bréf á skipulags- og byggingarnefnd dags. 2. september s.l. þar sem þau gera grein fyrir sínum sjónarmiðum.

Skipulags- og byggingarfulltrúi kynnti bréf lóðarhafa að Höfðavegi 32 sem krefjast úrbóta á frágangi lóðarinnar að Laugabrekku 23. Telja þau að fok úr ófrágenginni lóðinni hafi verið nágrönnum til ama, lóðin sé ekki afgirt á fullnægjandi hátt og nú standi þar óvarin steypustyrktarjárn upp úr grunni þar sem borð sem áttu að verja þau hafi fallið niður.

Skipulags- og byggingarnefnd fer fram á það við lóðarhafa beggja lóða að girðingum sé haldið fullnægjandi öruggum meðan fallhætta er innan lóðanna. Ennfremur verði endar steypustyrktarstálteina varðir svo ekki sé af þeim slysahætta. Öryggisfrágangi verði lokið ekki síðar en 1. október 2014. Ganga verður sem fyrst frá yfirborði lóðanna þannig að sem minnst fjúki af þeim ryk og verði yfirborðsfrágangi lokið eigi síðar en 1. maí 2015.

6.Sjóböð ehf. sækja um lóð á Húsavíkurhöfða

Málsnúmer 201408054Vakta málsnúmer

Óskað er eftir viðræðum um lóð undir starfsemi félagsins norðan og austan við vitann á Húsavíkurhöfða eins og fram kemur á meðfylgjandi uppdrætti. Á lóðinni hyggst félagið byggja og reka sjóböð sem nýta munu heitt vatn úr borholum á svæðinu. Efnasamsetning vatnsins er talin heilsusamleg væntanlegum baðgestum. Áætluð stærð baðsvæðis er 985 m² og fyrirhugað byggingarmagn 498 m². Til lengri framtíðar verði mögulega byggt heilsuhótel á svæðinu í tengslum við sjóböðin.

Skipulags- og byggingarnefnd fagnar þeim hugmyndum sem fram koma í erindinu og leggur til við bæjarstjórn að hafnar verði viðræður við umsækjanda um breytingar á aðalskipulagi og gerð deiliskipulags vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar.

7.PCC BakkiSilicon hf. sækir um samþykki byggingaráforma á lóðinni Bakkavegi 2 á Bakka

Málsnúmer 201405060Vakta málsnúmer

Með bréfi dags. 19. ágúst 2014 óskar PCC BakkiSilicon hf eftir samþykki Norðurþings fyrir byggingaráformum á lóðinni að Bakkavegi 2 á iðnaðarsvæðinu á Bakka á grundvelli gr. 2.4.2, 2.4.4 og 2.4.5 í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Meðfylgjandi umsókn eru eftirfarandi gögn:

1. Umsóknarbréf.
2. Yfirlitsmynd yfir lóðina og ófullgerðir aðaluppdrættir allra fyrirhugaðra mannvirkja.
3. Skýrsla um forgreiningu vegna bruna- og öryggismála.
4. Umsögn Vinnueftirlits dags. 5. júní 2014.
5. Umsögn Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra dags. 16. júlí 2014.
6. Matsskýrsla, dags. 21. maí 2013, skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum, auk viðauka.
7. Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum dags. 3. júlí 2013.
8. Lýsing á fyrirhuguðum jarðvinnuframkvæmdum.

Skipulags- og byggingarfulltrúi, í samráði við eldvarnareftirlit sveitarfélagsins, óskaði yfirferðar óháðs sérfræðings á forgreiningu bruna- og öryggismála. Fyrir liggur nú umsögn Davíðs S. Snorrasonar verkfræðings hjá Verkís dags. 4. september 2014 um skýrslu ráðgjafa umsækjanda. Byggingarfulltrúi hefur yfirfarið framlagðar teikningar.

Skipulags- og byggingarnefnd telur fyrirhugaðar framkvæmdir á lóðinni í samræmi við samþykkt deiliskipulag 1. áfanga á Bakka. Hvorki Heilbrigðiseftirlit Norðurlands Eystra né Vinnueftirlit gera athugasemdir við að byggingaráform verði samþykkt á grundvelli þeirra gagna sem fram eru lögð, enda verði fullnægjandi teikningum mannvirkja skilað inn til yfirferðar eftir því sem deilihönnun vindur fram. Í umsögn Verkís um skýrslu um brunahönnun og áhættugreiningu koma fram nokkrar athugasemdir, flestar smávægilegar. Niðurstaða Verkís er sú að skýrslan í heild sé sannfærandi og nægilega nákvæm til samþykktar byggingaráforma. Eldvarnareftirlit Norðurþings gerir fyrirvara um samninga milli aðila um útvegun slökkvivatns í nægu magni og undir nægum þrýstingi innan lóðar til samræmis við það sem gengið er út frá í forhönnunarskýrslu.

Skipulags- og byggingarnefnd Norðurþings telur að fullnægjandi gögn hafi verið lögð fram til samþykktar byggingaráforma fyrir kísilmálmverksmiðju PCC BakkiSilicon hf og leggur til við bæjarstjórn að byggingarfulltrúa verði falið að tilkynna umsækjanda um samþykkt byggingaráformanna.

8.Svava Árnadóttir f.h. eiganda hússins Grund á Raufarhöfn, sækir um leyfi til að brenna og ryðja húsinu

Málsnúmer 201408023Vakta málsnúmer

Óskað er eftir leyfi til að fjarlægja húseignina Grund á Raufarhöfn.

Skipulags- og byggingarnefnd samþykkir fyrir sitt leiti að Grund verði fjarlægð. Umsækjandi þarf að hafa samráð við Heilbrigðiseftirlit varðandi förgun byggingarúrgangs.

9.Einar E. Sigurðsson sækir um leyfi til að einangra og klæða utan íbúðarhúsið að Vogsholti 12

Málsnúmer 201408021Vakta málsnúmer

Óskað er eftir leyfi til að einangra íbúðarhúsið að Vogsholti 12 á Raufarhöfn með 50 mm steinull og klæða með bárujárni.

Erindið var samþykkt af byggingarfulltrúa 19. ágúst s.l.

10.Svanhildur Á. Sigurðardóttir sækir um leyfi til að einangra og klæða utan íbúðarhúsið að Vogsholti 9, Raufarhöfn

Málsnúmer 201408016Vakta málsnúmer

Óskað er eftir leyfi til að einangra að utan og klæða með múrklæðningu íbúðarhúsið að Vogsholti 9 á Raufarhöfn. Jafnframt verði gluggar, gler og útihurðir endurnýjuð.

Erindið var samþykkt af byggingarfulltrúa 12. ágúst s.l.

11.Almar Eggertsson f.h. Impact ehf. sækir um leyfi til innri breytinga á Vínbúðinni að Garðarsbraut 21, Húsavík

Málsnúmer 201408050Vakta málsnúmer

Óskað er eftir samþykki fyrir breytingum innanhúss að Garðarsbraut 21 á Húsavík.

Erindið var samþykkt af byggingarfulltrúa 27. ágúst s.l.

12.Norðursigling ehf. óskar eftir fjölgun eigna að Hafnarstétt 11 v/ eignaskiptayfirlýsingar

Málsnúmer 201409044Vakta málsnúmer

Óskað er eftir samþykki fyrir fjölgun fasteigna að Hafnarstétt 11 skv. meðfylgjandi drögum að eignaskiptasamningi.

Skipulags- og byggingarnefnd samþykkir erindið.

13.IsMed ehf. sækir um fjölgun fasteigna að Skálabrekku 17 v/ eignaskiptasamnings

Málsnúmer 201409049Vakta málsnúmer

Óskað er eftir samþykki fyrir fjölgun fasteigna að Skálabrekku 17 skv. tillögu að eignaskiptasamningi. Gert er ráð fyrir að núverandi einbýlishúsi verði skipt í tvær sjálfstæðar íbúðir.

Skipulags- og byggingarnefnd samþykkir fjölgun fasteigna að því gefnu að lagðar verði fram fullnægjandi teikningar sem sýni tvær íbúðir í húsinu.

14.Vegagerðin, sjóvörn undir bökkum á Húsavík

Málsnúmer 201409046Vakta málsnúmer

Óskað er eftir framkvæmdaleyfi fyrir endurnýjun sjóvarnargarðs í fjörunni suður frá sláturhúsi Norðlenska á Húsavík. Meðfylgjandi erindi eru teikningar af fyrirhugaðri framkvæmd, grunnmynd og snið.

Skipulags- og byggingarnefnd Norðurþings fagnar því að verkið sé komið á framkvæmdastig og leggur til við Framkvæmda- og hafnanefnd og bæjarstjórn að veitt verði leyfi til framkvæmdanna.

15.ÁTVR óskar eftir leyfi til að opna áfengisútsölu á Kópaskeri

Málsnúmer 201408017Vakta málsnúmer

ÁTVR óskar heimildar Norðurþings til að opna áfengisverslun í Bakkagötu 10 á Kópaskeri með vísan til 10. gr. laga nr. 86/2011.

Skv. 11. gr. Áfengislaga nr. 75/1998 skal sveitarstjórn leita álits skipulags- og byggingarnefndar áður en hún veitir leyfi til rekstrar áfengisútsölu. Skipulags- og byggingarnefnd Norðurþings hefur kynnt sér fyrirliggjandi erindi ÁTVR. Fyrirhuguð staðsetning er á miðsvæði þéttbýlisins skv. gildandi aðalskipulagi og í sama húsi og matvöruverslunin. Skipulags- og byggingarnefnd veitir því jákvæða umsögn um veitingu leyfis fyrir áfengisverslun á lóðinni.

16.Kosning varaformanns skipulags- og byggingarnefndar

Málsnúmer 201409061Vakta málsnúmer

Formaður gerði tillögu um að Röðull Reyr Kárason verði varaformaður skipulags- og byggingarnefndar.

Tillagan var samþykkt samhljóða.

Fundi slitið - kl. 14:00.