Fara í efni

Skipulags- og framkvæmdaráð

2. fundur 03. júlí 2018 kl. 14:15 - 17:30 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Silja Jóhannesdóttir formaður
  • Örlygur Hnefill Örlygsson varaformaður
  • Kolbrún Ada Gunnarsdóttir aðalmaður
  • Heiðar Hrafn Halldórsson aðalmaður
  • Hjálmar Bogi Hafliðason aðalmaður
  • Kristján Friðrik Sigurðsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfulltrúi
  • Gunnar Hrafn Gunnarsson framkv.- og þjónustufulltrúi
  • Hermína Hreiðarsdóttir Ritari
  • Berglind Jóna Þorláksdóttir Ritari
Fundargerð ritaði: Hermína Hreiðarsdóttir skjalafulltrúi
Dagskrá
Garðar Garðarson lögfræðingur sat fundinn undir lið 1 í síma.
Gunnar Hrafn Gunnarsson framkvæmda- og þjónustufulltrúi sat fundinn undir lið 1.-11.

1.Stefna á hendur landeigendum í Kelduhverfi í svokölluðu Ássandsmáli

Málsnúmer 201804060Vakta málsnúmer

Til kynningar fyrir skipulags- og framkvæmdaráði Norðurþings.
Garðar Garðarsson, lögmaður Norðurþings í svokölluðu Ássandsmáli mun kynna aðdraganda málsins, kröfur stefnanda og hvar málið er statt í dag.
Lagt fram til kynningar.

2.Staðan á SR-lóðinni á Raufarhöfn

Málsnúmer 201806133Vakta málsnúmer

Kallað er eftir framtíðarplönum varðandi nýtingu SR-lóðarinnar og fyrirætlanir sveitarfélagsins varðandi þær byggingar sem eru á lóðinni. Verksmiðjuhúsið er ónýtt ásamt allri þeirri lengju sambyggðra húsa og þarf að rífa þau, óháð öðru sem verður ákveðið í tengslum við málið.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að kostnaðargreina niðurrif verksmiðjuhúss á SR lóð leggja fyrir fund ráðsins þann 7. ágúst n.k. Einnig skal settur á fót vinnuhópur til að gera framtíðaráætlun um SR-lóð. Vinnuhópinn munu skipa framkvæmda- og þjónustufulltrúi, formaður skipulags- og framkvæmdaráðs, yfirmaður þjónustumiðstöðvar á Raufarhöfn og fulltrúi hverfisráðs Raufarhafnar.

3.Beiðni um að nýta "soðhús" og "lýsishús" á Raufarhöfn undir sýninguna "Þorpið".

Málsnúmer 201708060Vakta málsnúmer

Til stendur að setja upp sýninguna "Þorpið" á Raufarhöfn, en sýningin mun skýra frá mannlífi og byggð á þessu svæði í máli og myndum. Lýsishúsið á SR-lóð á Raufarhöfn hefur svo gott sem verið eyrnamerkt undir sýninguna og mögulega soðhúsið einnig í framtíðinni, en það er bygging sem er sambyggð lýsishúsinu.
Áður en hægt verður að hýsa sýninguna í húsinu liggja fyrir töluverðar viðhaldsframkvæmdir sem þurfa að fara fram á húsinu og þá sérstaklega á þaki þess.
Fyrir liggur gróf kostnaðaráætlun.

Taka þarf afstöðu til þess hvernig afgreiða á þann 2 milljóna króna styrk sem samþykkt hefur verið að veita til verkefnisins, vísað er til styrkveitingar sem samþykkt var í framkvæmdanefnd þann 25.10.2017.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir að framlag Norðurþings til sýningarinnar uppá 2. milljóna króna verði ráðstafað til þakviðgerða á Lýsishúsi.

4.Malbikunarframkvæmdir í Norðurþingi sumarið 2018

Málsnúmer 201806112Vakta málsnúmer

Við gerð fjárhags- og framkvæmdaáætlunar fyrir árið 2018 voru framkvæmdir sveitarfélagsins skornar niður til þess að mæta útgjöldum við byggingu nýrrar slökkvistöðvar á Húsavík sem ljúka átti á árinu 2018.
Nú þykir ljóst að það fjármagn sem áætlað hefur verið til byggingar slökkvistöðvarinnar verður ekki nýtt að fullu á þessu ári og opnast því fyrir þann möguleika að nýta malbikunarstöð Colas Iceland sem sett hefur verið upp á Húsavík og mun vera rekin þar í sumar.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við Byggðarráð að eftirfarandi malbikunarframkvæmdir verði teknar inná framkvæmdaáætlun: Plan við Borgarhólsskóla Húsavík, Garðarsbraut Húsavík, sleppistæði við Auðbrekku á Húsavík, gangstétt við Ásgötu á Raufarhöfn, Hnitbjörg á Raufarhöfn, Stjórnsýsluhús á Raufarhöfn og íþróttahús á Raufarhöfn.

5.Vatnsverndarsvæði í landi Norðurþings

Málsnúmer 201806113Vakta málsnúmer

Í tengslum við fyrirhugaða uppbyggingu afþreyingarsvæðis við Reyðarárhnjúk, liggur fyrir vinna við að ákvarða aðrennslissvæði vatnsbóla Húsavíkur og nánari skilgreiningu vatnsverndarmarka og grannsvæða. Það sem einnig kallar á þessa vinnu nú, er að hafin er vatnstaka á neysluhæfu vatni í tengslum við iðnaðarsvæðið á Bakka sem gera þarf grein fyrir í aðalskipulagi.

Verkfræðistofan Vatnaskil hefur sérhæft sig í gerð rennslis- og straumlíkana og hefur verið leitað til þeirra vegna þessarar vinnu.

Óskað er eftir ákvörðun skipulags- og framkvæmdaráðs um hvort ráðast skuli í þessa vinnu og einnig að tekin sé afstaða til fyrirliggjandi tilboðs frá Vatnaskilum í verkefnið.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir að fara í verkefnið.

6.Fiskifjara 1, 104 Uppsetning millilofts fyrir Leikfélag Húsavíkur

Málsnúmer 201806215Vakta málsnúmer

Framkvæmda- og þjónustufulltrúi kynnti stöðu mála í nýrri aðstöðu Leikfélags Húsavíkur í Fiskifjöru 1.
Kallað er eftir umboði frá skipulags- og framkvæmdaráði til þess að halda áfram með verkefnið á fyrirliggjandi forsendum.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir að halda áfram með verkefnið.

Kolbrún Ada vék af fundi undir þessum lið.

7.Hverfisráð Öxarfjarðar 2017-2018

Málsnúmer 201709132Vakta málsnúmer

Á 255. fundi byggðarráðs var eftirfarandi bókað undir liðum tvö og fjögur í fundargerð hverfisráðs Öxarfjarðar:

1. Þjóðgarður á Melrakkasléttu
Vísað til skipulags- og framkvæmdaráðs að fjalla um möguleika á breyttri landnýtingu á Melrakkasléttu, þ.m.t. að mynda fólkvang, þjóðgarð eða aðrar tegundir landnýtingar á svæðinu.

2. Umgengni á Kópaskeri
Byggðarráð þakkar ábendingar hverfisráðs um þörf á úrbótum í umhverfi fasteigna sveitarfélagsins og beinir því til skipulags- og framkvæmdaráðs að koma á úrbótum.

4. Sundlaugarsjóður
Í bókun hverfisráðs er óskað eftir afstöðu Norðurþings til Sundlaugar á Kópaskeri. Byggðarráð vísar erindinu til skipulags- og framkvæmdaráðs og fjölskylduráðs til umfjöllunar.
1. Umræðum um þjóðgarð á Melrakkasléttu er vísað til endurskoðunar á aðalskipulagi Norðurþings.
2. Umgengni á Kópaskeri. Framkvæmda- og þjónustufulltrúa er falið að fegra svæðið með blómakerjum.
4. Sundlaugarsjóður. Framkvæmda- og þjónustufulltrúa er falið að finna hvort Norðurþing sé með sundlaugarsjóðinn í sinni vörslu. Ekki eru áform um að byggja sundlaug á Kópaskeri.

8.Skansinn á Hafnarsvæði

Málsnúmer 201709136Vakta málsnúmer

Skipulags- og framkvæmdaráði hefur borist erindi frá Valdimar Halldórssyni f.h. Hvalasafnsins, varðandi Skansinn.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir fyrir sitt leyti að Skansinn verði malbikaður.

9.Umsókn um gerð bílastæðis á lóð við Garðarsbraut 55

Málsnúmer 201806207Vakta málsnúmer

Bjarni Haukdal Vilhjálmsson og Berglind Hauksdóttir óska eftir leyfi til að gera bílastæði á lóðinni við Garðarsbraut 55 á Húsavík. Meðfylgjandi umsókn er rissmynd af fyrirhugaðri framkvæmd og samþykktarundirskriftir annara lóðarhafa.
Skipulags- og framkvæmdaráð Norðurþings samþykkir gerð bílastæðisins. Haft verði samráð við verkstjóra áhaldahúss vegna frágangs niðurtekta á gangstétt.

10.Lóðarfrágangur við Hafnarstétt 13/Flókahús

Málsnúmer 201806214Vakta málsnúmer

Stefán Guðmundsson, f.h. Gentle Giants Hvalaferðir ehf, hefur sent inn erindi á skipulags- og framkvæmdaráð Noðurþings þar sem hann fer fram á:

1) Að afturkallað verði stöðuleyfi fyrir Helguskúr og samþykkt um lóðarafnot fyrir lóðinni að Hafnarstétt 15 sem afgreidd voru á fundi sveitastjórnar Norðurþings þann 19. desember s.l.
2) Eigendum Helguskúrs verði gert að fjarlægja bátinn Hreifa sem settur var niður á lóðarmörkum Hafnarstéttar 13 og 15 í síðustu viku.
3) Að samþykktur verði frágangur lóðar við Flókahús 1 m suður fyrir lóðarmörk til að unnt sé að þjónusta suðurhlið og verja fyrir ágangi nágranna.

Meðfylgjandi erindi eru ljósmyndir af umgengni lóðar að Hafnarstétt 15 og teikning af fyrirhuguðum lóðarfrágangi að Hafnarstétt 13.
Skipulags- og framkvæmdaráð sér ekki tilefni til að afturkalla stöðuleyfi fyrir Helguskúr og samþykki til eiganda hússins fyrir afnotum lóðar að Hafnarstétt 15. Helguskúr hefur staðið á þessum stað um áratugaskeið, og þó svo gildandi deiliskipulag geri ráð fyrir að húsið víki hefur tímasetning niðurrifs hússins ekki verið ákvörðuð.

Ráðið tekur undir með Stefáni að Hreifi var settur niður óheppilega nærri lóðarmörkum og mun fara fram á að báturinn verði færður innan tveggja vikna, lengra frá lóðarmörkum.

Ráðið fellst ekki á að lóðarhafi Hafnarstéttar 13 fái leyfi til frágangs, skv. framlagðri teikningu, suður- og austur fyrir lóðarmörk skv. lóðarsamningi. Vísar ráðið þar í ákvarðanir skipulags- og umhverfisnefndar Norðurþings frá 21. nóvember og 13. desember 2017.

11.Ósk um stöðuleyfi fyrir Hreifa ÞH 77 á lóð Helguskúrs, Hafnarstétt 15

Málsnúmer 201807001Vakta málsnúmer

Óskað er eftir stöðuleyfi fyrir bátinn Hreifa ÞH 77 á lóðinni að Hafnarstétt 15. Ætlunin er að setja bátinn niður 1,5 m sunnan við lóðarmörk Helguskúrs og Flókahúss. í erindi er farið yfir sögu bátsins sem smíðaður var á Húsavik á árinu 1973. Horft er til þess að færa bátinn til upprunalegs útlits og varðveita þannig.

Fyrir liggur umsögn slökkviliðsstjóra vegna erindisins.
Skipulags- og framkvæmdaráð Norðurþings samþykkir stöðuleyfi fyrir bátnum á lóðinni til eins árs enda standi hann að lágmarki 3 metra frá lóðarmörkum aðliggjandi bygginga til samræmis við umsögn slökkviliðsstjóra.

12.Arctic Edge Consulting ehf óskar eftir stækkun byggingarreits í suður við Útgarð 6-8

Málsnúmer 201806063Vakta málsnúmer

Friðrik Sigurðsson, f.h. Arctic Edge Consulting ehf, óskar eftir að gerðar verði eftirfarandi breytingar á deiliskipulagi lóðarinnar að Útgarði 4-8:

1) Byggingarreitur verði lengdur til suðurs til að rúma það hús sem teiknað hefur verið á lóðina.
2) Skýrð verði ákvæði skipulagsskilmála um aldur íbúa hússins. Þannig verði í skipulagsskilmálum gert ráð fyrir að á lóðinni verði byggðar íbúðir ætlaða fólki 55 ára og eldra í stað ákvæðis um að á lóðinni skuli byggðar íbúðir fyrir eldri borgara.

Arctic Edge Consulting ehf hefur gert samning við núverandi lóðarhafa, Leigufélag Hvamms ehf, um að fyrrgreinda fyrirtækið öðlist rétt til uppbyggingar á lóðinni. Samningurinn hefur verið undirritaður af báðum aðilum en honum ekki þinglýst.
Meirihluti skipulags- og framkvæmdaráðs felur skipulags- og byggingarfulltrúa að láta vinna tillögu að breytingu deiliskipulags til samræmis við óskir verkbeiðanda.

Heiðar Hrafn, Hjálmar Bogi og Kristján Friðrik óska bókað:
Nú sækir aðili sem er ekki lóðarhafi um breytingu á deiliskipulagi; annarsvegar um að byggingarreitur verði lengdur til suðurs miðað við gildandi skipulag og hinsvegar að ákvæðið ,,28 þjónustuíbúðir fyrir eldri borgara" falli brott og í stað komi ,,íbúðir fyrir 55 ára og eldri".
Þann 12. mars síðastliðinn skrifaði sveitarstjóri undir framsal á lóð sem Leigufélag Hvamms hefur til úthlutunar við Útgarð. Var það gert án samþykkis sveitarstjórna sem koma að Leigufélagi Hvamms? Nær væri að félagið óski eftir að lóðinni verði skipt upp og lóðum við Útgarð 6 & 8 verði skilað inn til sveitarfélagsins Norðurþings óski það eftir að byggja ekki á lóðinni. Áhöld eru uppi um það hvort Leigufélag Hvamms hafi heimild til að framselja umrædda lóð til þriðja aðila.
Þann 16. maí síðastliðinn skrifaði sveitarstjóri undir kaupsamning á fasteignum að Útgarði 6 annars vegar og hinsvegar Útgarð 8. Á þeim standa engar byggingar. Um er að ræða kaupsamning á bílakjallara sem er hugsaður sem sameign fyrir Útgarð 4, 6 og 8.
Ljóst má vera að verði málið samþykkt felur það í sér ákaflega mikla stefnubreytingu, þ.e. að svæðið er hugsað á samfélagslegum forsendum fyrir eldri borgara. Enda lausar lóðir fyrir byggingu fjölbýlishúss í nágrenni við lóðina, s.s. á Skemmureit við Vallholtsveg og Grundargarð 2. Úthlutun Hvamms miðast við 65 ára aldur í búseturéttarkerfið.

Heiðar Hrafn Halldórsson
Hjálmar Bogi Hafliðason
Kristján Friðrik Sigurðsson

Fulltrúar Framsóknarflokks og E-lista leggja til að lögfræðiálit verði fengið hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Sömuleiðis að fá stjórnsýsluúttekt á ferli málsins og lögmæti afsals enda mikilvægt að útkljá ágreining um málið.
Kolbrún Ada, Silja og Örlygur Hnefill hafna tillögu Heiðars Hrafns, Hjálmars Boga og Kristjáns Friðriks og minna á að fyrir liggur lögfræðiálit um framkvæmdina.

13.Óskað er eftir samþykki fyrir afmörkun lóðar umhverfis sumarhúsið Mylluna í óskiptu landi Hóls, Höfða og Vogs

Málsnúmer 201805098Vakta málsnúmer

Nanna Steina Höskuldsdóttir, f.h. landeigenda Hóls, Höfða og Vogs, óskar eftir samþykki fyrir afmörkun lóðar utan um frístundahúsið Mylluna. Lóðin hefur landnúmerið 154.170. Með umsókn fylgir hnitsettur lóðaruppdráttur. Flatarmál lóðar yrði 2.080 m².
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við byggðaráð, í sumarleyfisumboði sveitarstjórnar, að afmörkun lóðarinnar verði samþykkt.

14.Óskað er eftir samþykki fyrir afmörkun lóðar umhverfis veiðihúsið Daumaland í óskiptu landi Hóls, Höfða og Vogs

Málsnúmer 201805103Vakta málsnúmer

Nanna Steina Höskuldsdóttir, f.h. landeigenda, óskar eftir samþykki fyrir afmörkun lóðar undir Veiðihúsinu Draumalandi. Lóðin hefur landnúmerið 154.171. Lóðin verði 4.800 m² að flatarmáli eins og nánar er sýnt á hnitsettum uppdrætti. Ennfremur er þess óskað að lóðin verði skráð sem íbúðarhúsalóð og fái heitið Höfði 2.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við byggðaráð, í sumarleyfisumboði sveitarstjórnar, að afmörkun lóðarinnar verði samþykkt. Ennfremur leggur ráðið til að lóðin verði skráð sem íbúðarhúsalóð og fái heitið Höfði 2.

15.Umsögn óskast um mögulegt leyfi til reksturs gistiþjónustu að Garðarsbraut 39

Málsnúmer 201806241Vakta málsnúmer

Huld Hafliðadóttir óskar umsagnar skipulags- og framkvæmdaráðs vegna mögulegrar nýtingar íbúðar á 2. hæð Garðarsbrautar 39 á Húsavík undir rekstur "rólegrar gistiþjónustu". Innan íbúðarinnar yrði boðið upp á iðkun hugleiðslu og jóga og í tengslum við þá starfsemi yrði boðið upp á gistiþjónustu í svefnherbergjum íbúðarinnar.

Garðarsbraut 39 stendur á íbúðarsvæði skv. gildu aðalskipulagi. Húsið var hinsvegar byggt undir verslun að hluta og hefur æ síðan að nokkru verið nýtt undir mismunandi þjónustustarfsemi. Ennfremur liggur húsið vel við umferðaræðum og umhverfis það eru næg bílastæði. Skipulags- og framkvæmdaráð mun því fyrir sitt leyti ekki gera athugasemdir við umræddan rekstur í íbúðinni, svo fremi að aðrir eigendur í húsinu samþykki starfsemina.

16.Minnisblað um leyfisveitingar vegna efnislagna innan verndarsvæðis Mývatns og Laxár

Málsnúmer 201806003Vakta málsnúmer

Umhverfisstofnun hefur útbúið og sent á hlutaðeigandi sveitarfélög minnisblað vegna leyfisveitinga fyrir efnislögnum á göngustíga, vegi og bílaplön á verndarsvæði Mývatns og Laxár.
Minnisblað lagt fram.

17.Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra óskar eftir umsögn um rekstrarleyfi fyrir Hvalbak

Málsnúmer 201806211Vakta málsnúmer

Óskað er eftir umsögn um rekstrarleyfi vegna sölu veitinga í flokki III í Hvalbak að Hafnarstétt 11.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur skipulags- og byggingarfulltrúa að veita jákvæða umsögn um erindið.

18.Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra óskar eftir umsögn um breytingu á rekstrarleyfi fyrir Kaupfélagið á Raufarhöfn

Málsnúmer 201806240Vakta málsnúmer

Óskað er umsagnar um leyfi til sölu veitinga í flokki II í Kaupfélaginu á Raufarhöfn.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur skipulags- og byggingarfulltrúa að veita jákvæða umsögn um erindið.

19.Óskað er eftir umsögn um verklýsingu svæðisskipulags Austurlands

Málsnúmer 201806216Vakta málsnúmer

Svæðisskipulagsnefnd Austurlands leitar umsagna vegna verkefnislýsingar fyrir svæðiskipulag Austurlands sem auglýst hefur verið til kynningar. Þess er óskað að umsögnum verði skilað inn fyrir 13. ágúst n.k.
Skipulags- og framkvæmdaráð Norðurþings gerir ekki athugasemdir við verkefnislýsinguna.

Fundi slitið - kl. 17:30.