Fara í efni

Framkvæmdanefnd

22. fundur 25. október 2017 kl. 16:00 - 19:30 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Sigurgeir Höskuldsson formaður
  • Trausti Aðalsteinsson varaformaður
  • Hjálmar Bogi Hafliðason aðalmaður
  • Örlygur Hnefill Örlygsson varamaður
Starfsmenn
  • Gunnar Hrafn Gunnarsson framkv.- og þjónustufulltrúi
Fundargerð ritaði: Gunnar Hrafn Gunnarsson framkvæmda- og þjónustufulltrúi
Dagskrá
Benóný Valur Jakobsson sat fundinn sem fulltrúi Samfylkingarinnar.

1.Sláttur opins svæði við Breiðagerði/Brúnagerði

Málsnúmer 201709061Vakta málsnúmer

Óskað er eftir því að sveitarfélagið sinni lúpínuslætti á bæjarlandi frá Brúnagerði 2 að Breiðagerði. Fastlega má gera ráð fyrir að um fleiri slík svæði sé að ræða og ef af verður, þarf væntanlega að gera ráð fyrir fjármagni til málaflokksins til þess að sinna verkefnum af þessum toga.
Framkvæmdanefnd þakkar íbúum frumkvæði þeirra sem slá lúpínu í íbúðarhverfum bæjarins.
Hins vegar hyggst sveitarfélagið ekki bæta við svæðum þar sem lúpínu er haldið niðri.

2.Upptaka á fyrirkomulagi landleigusamninga 2017

Málsnúmer 201702177Vakta málsnúmer

Smári Jónas Lúðvíksson fer yfir mögulegar breytingar á tilhögun landleigusamninga við endurnýjun þeirra um næstu áramót.
Mælst er til þess að samningarnir verði endurnýjaðir til eins árs svo svigrúm gefist til þess að móta þá í samvinnu við hestamenn og aðra mótaðila sem nýta sér beitarlönd og beitarhólf í eigu sveitarfélagsins.
Framkvæmdanefnd samþykkir að landleigusamningar verði framlengdir til eins árs og sá tími verði nýttur til þess að undirbúa formbreytingar á samningum í samráði við RML og annarra hlutaðeigandi aðila.

3.Viðbragðsáætlun vegna urðunarstaða Norðurþings

Málsnúmer 201709093Vakta málsnúmer

Fyrir liggur viðbragðsáætlun vegna urðunarstaða í Norðurþingi. Áætlunin hefur verið samþykkt í ráðuneyti og verður lögð fyrir Umhverfisstofnun sem fylgigagn í málefnum urðunarstaða í sveitarfélaginu.
Framkvæmdanefnd samþykkir fyrirliggjandi viðbragðsáætlun vegna urðunarstaða í Norðurþingi.

4.Skansinn á Hafnarsvæði

Málsnúmer 201709136Vakta málsnúmer

Lóðarhafar Þekkingarnets og Hvalasafns fara fram á endurbætur og fegrun á svæði sem nefnt er "skansinn" og er á hafnarsvæði milli Hvalasafns og Þekkingarseturs. Sveitarfélagið er einn þriggja aðila sem eiga aðkomu að málinu, en taka þarf afstöðu til þess hvernig staðið skuli að framkvæmdum á svæðinu.
Framkvæmdanefnd styður þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru til þess að fegra Skansinn og felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að vinna málið áfram í samvinnu við lóðarhafa.

5.Fjárhagsáætlun 2018 - Framkvæmdasvið

Málsnúmer 201710132Vakta málsnúmer

Umræða í framkvæmdanefnd um drög að fjárhags- og framkvæmdaáætlun 2018.
Fyrir liggur að ekki verði hægt að klára þær framkvæmdir sem áætlaðar voru á árinu 2017.
Því óskar framkvæmdanefnd eftir því að fjármagn, sem nemur u.þ.b. 150 milljónum verði flutt á milli ára til þess að mæta þeim framkvæmdum á næsta ári.
Framkvæmdaáætlun vegna 2018 ásamt 3ja ára áætlun er í vinnslu og verður afgreidd á næsta fundi framkvæmdanefndar.


Fjárhagsáætlanir vegna þjónustumiðstöðvar og eignasjóðs munu vera umfram ramma ef ekkert verður að gert.
Því leggur framkvæmdanefnd til að verkefnahópur um endurskipulagningu þjónustumiðstöðvar skili af sér tillögum fyrir næsta fund framkvæmdanefndar.

6.Gatnagerð í Hrísmóum og Lyngmóum

Málsnúmer 201710133Vakta málsnúmer

Vegna hugsanlegs skorts á lóðum undir atvinnuhúsnæði er því beint til framkvæmdanefndar að tekin verði afstaða til þess hvort ljúka skuli gatnagerð til samræmis við gildandi deiliskipulag í Hrísmóum og Lyngmóum á næsta ári.
Framkvæmdanefnd sér ekki ástæðu til þess að hefja gatnaframkvæmdir á deiliskipulögðum svæðum fyrr en umsóknir um lóðir liggja fyrir.
Hægt er að bregðast við með stuttum fyrirvara ef til þess kemur.

7.Yfirborð götu að Haukamýri á Húsavík

Málsnúmer 201709106Vakta málsnúmer

Farið er fram á að sveitarfélagið grípi til aðgerða til þess að koma í veg fyrir að óhreinindi af völdum þungaflutninga berist inn í starfsstöð Frumherja hf með tilheyrandi truflun á starfsemi.
Framkvæmda- og þjónustufulltrúa falið að ræða við leigutaka geymslusvæðis um leiðir til þess að bæta umgengni á svæðinu eins og tilgreint er í leigusamningi.

8.Niðurstaða úthlutunarnefndar stofnframlaga

Málsnúmer 201709157Vakta málsnúmer

Niðurstöður liggja fyrir um úthlutun stofnframlaga til uppbyggingar íbúða á grundvelli laga nr. 52/2016. Norðurþing sótti um stofnframlög til byggingar fjögurra íbúða innan þessa nýja almenna íbúðakerfis. Tvær þeirra yrðu staðsettar við Höfðaveg 6 og tvær við Lyngholt 26-31.

Heildarstofnvirði samkvæmt umsókn Norðurþings er kr 94.230.000- og sótt var um 18% stofnframlag, 6% viðbótarframlag vegna markaðsbrest á grundvelli byggingarkostnaðar og 4% viðbótarframlag vegna þeirra íbúða sem ætlaðar eru einstaklingum með fötlun.

Lögin byggja m.a. á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um húsnæðismál frá 28. maí 2015, þar sem m.a. er fjallað um fjölgun hagkvæmra og ódýrra íbúða til að tryggja tekjulágum fjölskyldum leiguhúsnæði til lengri tíma og að áhersla verði lögð á íbúðir af hóflegri stærð

Niðurstaða úthlutunarnefndarinnar var sú að samþykkja umsókn Norðurþings um samtals 24.267.200- kr stofnframlag til verkefnisins.
Framkvæmda- og þjónustufulltrúi fór yfir niðurstöðu úthlutunar stofnframlaga.

9.Beiðni um að nýta "soðhús" og "lýsishús" á Raufarhöfn undir sýninguna "Þorpið".

Málsnúmer 201708060Vakta málsnúmer

Farið hefur fram skoðun og gróft kostnaðarmat á "lýsishúsi" á lóð SR á Raufarhöfn, með það fyrir augum að húsið verði gert upp og nýtt undir sýninguna "Þorpið" sem til stendur að setja upp þar.
Áætlun kostnaðar við verkefnið er eftirfarandi:
- Einangrun og endurnýjun á þaki - 4,5 m.
- Málning innanhúss - 1,0 m.
- Málning utanhúss - 1,0 m.
- Endurnýjun raflagna og lýsing - 1,5 m.
Fyrir liggur styrkur upp á 6,0 m úr sjóðum brothættra byggða til verkefnisins.
Framkvæmdanefnd tekur jákvætt í erindið og lýsir sig reiðubúna til þess að styðja við endurbætur á húsinu, að hámarki 2 milljónir.

10.Gatnagerðargjöld að Lyngholti 3

Málsnúmer 201611070Vakta málsnúmer

Fyrir framkvæmdanefnd liggur erindi frá húsbyggjendum að Lyngholti 3 um aukið svigrúm varðandi tímamörk á fokheldi húsnæðis m.t.t. afsláttar gatnagerðargjalda.
Lóðin að Lyngholti 3 hefur þegar verið lengi í byggingu, en afslættinum var m.a. ætlað að tryggja góðan uppbyggingarhraða innan þegar byggðra hverfa. Hins vegar er vilji til þess að gefa meiri slaka en upphaflega var lagt upp með og í því samhengi að horfa til fokheldis og frágangs lóðar fyrir lok júní 2018.

11.Líkamsræktaraðstaða Raufarhöfn

Málsnúmer 201708012Vakta málsnúmer

Fyrir framkvæmdanefnd liggur erindi frá aðilum á Raufarhöfn um að færa líkamsræktaraðstöðuna úr kjallara í anddyri íþróttahússins, en þar mun vera betri aðstaða til slíkrar starfsemi. Einnig er farið fram á að fá að nýta aðstöðuna án endurgjalds gegn því að viðkomandi aðilar sjái um nauðsynlegar breytingar á húsnæðinu til þess að koma aðstöðunni fyrir.
Salerni fyrir fatlaða verður nýtt undir þessa aðstöðu og þarf að skoða hvernig það verður leyst m.t.t. byggingareglugerða.
Einnig þarf að vinna þetta til samræmis við brunavarnir og vinnueftirlit.
Framkvæmdanefnd setur sig ekki upp á móti því að líkamsræktaraðstaða á Raufarhöfn verði færð úr kjallara í anddyri íþróttahússins, að því gefnu að ekki verði brotið á byggingareglugerðum né reglugerðum sem snúa að brunavörnum og vinnueftirliti .
Gísla Þór Briem og Angelu Agnarsdóttur yrði heimilt að nýta aðstöðu í anddyri til líkamsræktar án endurgjalds, en í samráði og samstarfi við aðra aðila sem sinna starfsemi í íþróttasal og sundlaug. Allar breytingar á húsnæðinu sem tengjast aðstöðu líkamsræktar verði eins og getið er í erindinu, án kostnaðarþátttöku sveitarfélagsins.
Framkvæmda- og þjónustufulltrúa falið að ganga frá samningi.

12.Endurbætur á verbúð

Málsnúmer 201709130Vakta málsnúmer

Fyrir liggur lauslegt kostnaðarmat á þeim framkvæmdum sem ráðast þarf í til þess að hægt verði að leigja húsnæði verbúða á Hafnarstétt undir þá matvælastarfsemi sem stefnt er að.
Fyrir framkvæmdanefnd liggur að taka afstöðu til umfangs þeirra endurbóta sem eignasjóður þarf að fjármagna á næstu vikum og mánuðum og þá hvers konar starfsemi húsnæðið verður leigt undir þegar eignin hefur verið færð undir eignasjóð.
Framkvæmdanefnd er reiðubúin til þess að standa að nauðsynlegum endurbótum á húsnæðinu sem miða að því að stöðva leka o.þ.h. svo það sé hæft til útleigu.
Framkvæmda- og þjónustufulltrúa falið að ræða við umsækjendur um framkvæmdir og kostnað.

13.Uppbygging Holtahverfis

Málsnúmer 201603116Vakta málsnúmer

Í ljósi vætutíðar undangenginna daga og vikna þykir illgerlegt að ganga endanlega frá yfirborði gatna á svæði E í Holtahverfi. Ef farið verður í að malbika hverfið á þessum tímapunkti, er líklegt að endurtaka verði stóran hluta af verkinu næsta sumar vegna óstöðugleika jarðvegs og þ.m.t. undirlags í götum.
Fyrir framkvæmdanefnd liggur að taka ákvörðun um hvort halda skuli verkáætlun eða hvort nýta skuli ákvæði um óvissu verkloka vegna annarra verkefna og veðurs og fresta gatnaframkvæmdum til næsta vors.
Framkvæmdanefnd samþykkir að fresta malbikun á svæði E í Holtahverfi til næsta vors.

14.Ósk um viðræður vegna mögulegs fjölbýlishúss við Útgarð og afslátt af gatnagerðargjöldum

Málsnúmer 201710012Vakta málsnúmer

Fyrir framkvæmdanefnd liggur að taka afstöðu til erindis Arctic Edge Consulting ehf varðandi möguleg kaup Norðurþings á íbúðum í fyrirhuguðu fjölbýlishúsi við Útgarð.
Jafnframt er óskað eftir afslætti á gatnagerðargjöldum til jafns við áður auglýstan afslátt slíkra gjalda á völdum byggingasvæðum.
Framkvæmdanefnd samþykkir að stofna til viðræðna við félagið um möguleg kaup á völdum íbúðum í fyrirhuguðu 24 íbúða fjölbýlishúsi við Útgarð með fyrirvara um afsal Leigufélags Hvamms ehf á byggingarétti á umræddri byggingalóð.
Framkvæmdanefnd ítrekar það skipulagsákvæði að umrætt svæði er skilgreint fyrir íbúðarhúsnæði fyrir 60 ára og eldri.
Framkvæmdanefnd tekur jákvætt í að umrædd lóð falli undir áður auglýstan afslátt af gatnagerðargjöldum, með sömu skilmálum og þar kemur fram.

15.Íslands ljóstengt - byggðastyrkur 2018

Málsnúmer 201710087Vakta málsnúmer

Fjarskiptasjóður mun úthluta 450 m.kr. til uppbyggingar sveitarfélaga á ljósleiðarakerfum árið 2018 líkt og sjóðurinn gerði vegna uppbyggingar þeirra árin 2016 og 2017. Í ljósi þess að fjárhagur og aðstæður sveitarfélaga er mismunandi hefur verið ákveðið að styrkja samkeppnisstöðu tiltekinna sveitarfélaga gagnvart umsóknum í samkeppnispott fjarskiptasjóðs vegna 2018. Sérstökum 100 m.kr. byggðastyrk er varið til þessa verkefnis.

Byggðastyrknum er skipt í tvo hluta að þessu sinni. Annars vegar er 10 m.kr. úthlutað beint til tiltekinna "brothættra byggða" og hins vegar er 90 m.kr. úthlutað samkvæmt aðferð sem hér er útlistuð. Notast er við vog við samanburðarmat á aðstæðum í sveitarfélögum og fjárfestingargetu þeirra. Sveitarfélög fá þannig einkunn eða stig í samræmi við innbyrðis uppröðun þeirra á grundvelli töflu 1. Sveitarfélög sem fá fæst samanlögð stig lenda efst í forgangsröðun gagnvart byggðastyrknum. Þau sveitarfélög sem lenda efst í
forgangsröðun hljóta þannig byggðastyrk vegna 2018.

Alls hlýtur sveitarfélagið Norðurþing styrk að upphæð 9,9 mkr. Hlutfallslega er það skv. útreiknuðum byggðastryk 6,4 mkr og til brothættra byggða 3,5 mkr.
Framkvæmda- og þjónustufulltrúi fór yfir stöðu styrkveitinga vegna ljósleiðaravæðingar sveitarfélagsins.

16.Hönnun og framtíðarskipulag við lýsistanka á Raufarhöfn

Málsnúmer 201710190Vakta málsnúmer

Fyrir liggur erindi varðandi uppbyggingu og skipulag við lýsistanka á Raufarhöfn.
Óskað er eftir stuðningi sveitarfélagsins vegna umsóknar um styrk í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða fyrir hönnun á umhverfi tankanna og aðgengi að þeim.
Framkvæmdanefnd samþykkir erindið.

17.Umhverfisstjóri Norðurþings

Málsnúmer 201710194Vakta málsnúmer

Til umræðu er að breyta starfstitli Garðyrkjustjóra Norðurþings í Umhverfisstjóra Norðurþings.
Breytingunni er fyrst og fremst ætlað að ná utan um aukin verksvið sem í dag heyra undir starfið, þ.m.t. sorpmál, urðunarmál, umhverfismál á skipulagssviði o.fl.
Framkvæmdanefnd samþykkir fyrirliggjandi breytingar.

Fundi slitið - kl. 19:30.