Fara í efni

Skipulags- og framkvæmdaráð

9. fundur 25. september 2018 kl. 13:00 - 16:00 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Silja Jóhannesdóttir formaður
  • Kolbrún Ada Gunnarsdóttir aðalmaður
  • Hjálmar Bogi Hafliðason aðalmaður
  • Kristján Friðrik Sigurðsson áheyrnarfulltrúi
  • Kristinn Jóhann Lund varamaður
  • Gísli Þór Briem varamaður
Starfsmenn
  • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfulltrúi
  • Gunnar Hrafn Gunnarsson framkv.- og þjónustufulltrúi
  • Hermína Hreiðarsdóttir Ritari
Fundargerð ritaði: Hermína Hreiðarsdóttir skjalafulltrúi
Dagskrá
Ketill Gauti Árnason verkefnisstjóri á framkvæmdasviði kom inná fundinn undir lið 8.

1.Heildarendurskoðun aðalskipulags Norðurþings 2010-2030

Málsnúmer 201807025Vakta málsnúmer

Á fundi skipulags- og framkvæmdaráðs 10. júlí s.l. var skipulags- og byggingarfulltrúa falið að undirbúa vinnu við endurskoðun aðalskipulags Norðurþings. Skipulags- og byggingarfulltrúi óskaði eftir verkefnistillögu og kostnaðarmati hjá Alta vegna uppfærslu skipulagsins. Árni Geirsson hjá Alta kom til fundarins og kynnti hugmynd að verkefnistillögu um endurskoðun aðalskipulags Norðurþings.
Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar Árna kynningu á hugmyndum. Stefnt er að frekari umfjöllun á næstu fundum svo að gera megi kostnaðarmat.

2.Beiðni um lóðarstofnun undir íbúðarhús í landi Klifshaga 2, Öxarfirði

Málsnúmer 201809048Vakta málsnúmer

Stefán Pétursson óskar samþykkis fyrir stofnun leigulóðar undir einbýlishús í landi Klifshaga 2 í Öxarfirði. Með umsókn fylgir hnitsett lóðarblað auk yfirlýsinga frá eigendum Klifshaga 1 og Klifshaga Haga um að þeir geri ekki athugasemdir við uppbyggingu íbúðarhúss á lóðinni. Lóðin er 2.500 m² að flatarmáli.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að lóðarstofnunin verði samþykkt.

3.Skeljungur hf. óskar eftir leyfi til að rífa niður þrjá olíugeyma við Hafnarbraut á Raufarhöfn

Málsnúmer 201809091Vakta málsnúmer

Skeljungur óskar eftir leyfi til að fjarlægja þrjá olíugeyma við Hafnarbraut á Raufarhöfn, ásamt lögnum og öðrum mannvirkjum. Unnin hefur verið áætlun um meðhöndlun jarðvegs á rekstrarsvæðinu með tilliti til olíumengunar að niðurrifi loknu. Áætlunin hefur verið samþykkt af Umhverfisstofnun.
Skipulags- og framkvæmdaráð fellst á niðurrif mannvirkjanna. Minnt er á að leita þarf tímabundins starfsleyfis hjá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra vegna niðurrifsins.

4.Umsókn um að setja niður smáhýsi við Bakkagötu 4, Kópaskeri

Málsnúmer 201809099Vakta málsnúmer

Óskað er eftir byggingarleyfi fyrir 19,3 m² húsi við Bakkagötu 4 á Kópaskeri. Meðfylgjandi umsókn er teikning af húsi og afstöðu þess.
Skipulags- og framkvæmdaráð frestar afgreiðslu málsins þar til kannaðir hafa verið aðrir möguleikar í samráði við umsækjanda.

5.Ósk um leyfi fyrir bílastæði við Urðargerði 3

Málsnúmer 201809055Vakta málsnúmer

Anna Soffía Halldórsdóttir, f.h. móður sinnar Matthildar Zophaníasdóttur, óskar samþykkis fyrir aðkomu að íbúð á neðri hæð Urðargerðis 3 frá Þverholti og að þar verði útbúið bílastæði fyrir eignina. Einnig er því velt upp hvort þarna gætu verið almenn bílastæði sem gætu nýst í vetrarófærð. Inngangur að íbúð Matthildar snýr að Þverholti og hafa eigendur hennar nýtt aðkomu frá Þverholti um langt árabil.
Skipulags- og framkvæmdaráð gerir ekki athugasemd við að aðkoma að neðri hæð Urðargerðis 3 verði áfram á sömu nótum og verið hefur þar til unnið hefur verið deiliskipulag af svæðinu. Við gerð deiliskipulags verði tekin afstaða til þess hvort heimiluð verði bílastæði á þessum stað til lengri tíma.

6.Beiðni um viðbótarpláss við lóðina Laugarbrekku 11

Málsnúmer 201809088Vakta málsnúmer

Fanney Hreinsdóttir og Guðmundur Árni Ólafsson óska eftir heimild til afnota af um 30 m² af almennu svæði milli lóða að Laugarbrekku og Höfðavegi.
Skipulags- og framkvæmdaráð frestar afgreiðslu erindisins og felur skipulags- og byggingarfulltrúa og umhverfisstjóra að gera tillögu að afnotum þessa svæðis.

7.Rekstraraðili Hnitbjargar óskar eftir kaupum á iðnaðaruppþvottavél í húsnæðið

Málsnúmer 201809046Vakta málsnúmer

Rekstraraðili félagsheimilisins Hnitbjargar, Raufarhöfn óskar eftir að keypt verði iðnaðaruppþvottavél í eldhúsið í húsnæðinu. Núverandi uppþvottavél er venjuleg heimilisvél og hefur verið dæmd ónýt. Kostnaður við kaup og tengingu á nýrri iðnaðaruppþvottavél verður kr. 350.000,-. Kvenfélagið Freyja vill styrkja félagsheimilið um kr. 100.000,- sem á að nýta í kaup á nýrri uppþvottavél.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir erindið.

8.Hjálmar Bogi óskar eftir að fá kostnaðarúttekt á verkefninu Vatnsrennibraut á Húsavík.

Málsnúmer 201809040Vakta málsnúmer

Kostnaðarmat vegna kaupa og uppsetningar vatnsrennibrautar við Sundlaug Húsavíkur var unnið af Faglausn ehf og liggur til grundvallar verkefninu.
Tekin hefur verið saman bókfærður kostnaður vegna verkefnisins, en einnig er lagt fram til kynningar kostnaðarmat þeirra framkvæmda sem eftir standa til þess að ganga frá svæðinu í kringum rennibrautina og afmarka það. Ketill Gauti Árnason kynnti málið.
Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar Katli kynninguna.

Hjálmar Bogi og Gísli óska bókað:
Vatnsrennibraut við Sundlaug Húsavíkur er dæmi um framkvæmd þar sem skortir vönduð vinnubrögð, og farið af stað án efnda.
Gísli og Hjálmar Bogi.

Meirihluti framkvæmdaráðs óskar bókað:
Þeim þykir miður að kostnaður við framkvæmd sé komin fram úr áætlun en gleðst að sama skapi yfir aukinni afþreyingu fyrir íbúa sveitarfélagsins sem er heilsueflandi samfélag.
Kolbrún Ada, Kristinn Jóhann og Silja.

9.Beiðni um lækkun á umferðarhraða í Auðbrekku og lagfæringar á götum.

Málsnúmer 201809080Vakta málsnúmer

Fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggur ósk frá íbúum við Auðbrekku á Húsavík um lækkun hámarkshraða úr 50 í 30 km/klst. Einnig er óskað eftir því að gatan fái eðlilegt viðhald þannig að hún verði aksturshæf.
Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar íbúum við Auðbrekku fyrir erindið og þau rök sem liggja til grundvallar óskum þeirra.
Unnið er að heildarskipulagi hraðatakmarkana á Húsavík og er sú vinna vel á veg komin. Sjálfsagt er í þeirri vinnu að taka tillit til óska íbúa við Auðbrekku varðandi umferðarhraða.

Fyrirliggjandi eru malbikunarframkvæmdir á vegum Norðurþings og munu þær framkvæmdir ná yfir lagfæringar við gatnamót Auðbrekku og Héðinsbrautar. Í beinu framhaldi verður til bráðabirgða gert við klæðningu í Auðbrekku þar sem þörf er á slíku, þar til fullnaðarviðgerð fer fram.

10.Hrossabeit og geymsla hrossa í landi Norðurþings - Raufarhöfn.

Málsnúmer 201809093Vakta málsnúmer

Borist hafa erindi frá Snæbirni Magnússyni f.h. Klifseigna ehf og fleiri íbúa Raufarhafnar, þar sem farið er fram á að hrossabeit verði ekki leyfð í griðlandi fugla. Hrossin troði niður og eyðileggi varplandið, en naga einnig og brjóta niður skógargróður íbúa. Hann varpar fram þeirri spurningu hvort hægt sé að nota annað beitarland en nú er gert.
Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar ábendingar Snæbjörns. Ekki eru skilgreind friðlönd fugla í skipulagi Raufarhafnar og því ekki hægt að banna beit á þeim forsendum. Umhverfisstjóra er falið að leita leiða til að stýra hrossabeit.

11.Flutningur aðstöðu Slökkviliðs Norðurþings úr Bakkagötu 4 í Bakkagötu 12, Kópaskeri

Málsnúmer 201809097Vakta málsnúmer

Komið hefur fram sú hugmynd að hagkvæmt geti verið að flytja slökkvistöðina á Kópaskeri úr núverandi húsnæði að Bakkagötu 4, í húsnæði þjónustumiðstöðvar á Kópaskeri að Bakkagötu 12.
Með því móti væri mögulegt að lækka rekstrarkostnað sveitarfélagsins, án þess þó að rýra svo nokkru nemi aðstöðu þjónustumiðstöðvar sveitarfélagsins þar.
Þetta byggist þó á því að hagstætt verð fáist fyrir núverandi aðstöðu slökkviliðs á staðnum og að kostnaður við þær breytingar sem ráðast þarf í á húsnæði þjónustumiðstöðvar, fari ekki yfir söluverðmæti Bakkagötu 4.
Fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggur að taka ákvörðun um hvort stefna skuli að þessum flutningi á aðstöðu slökkviliðs á Kópaskeri.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir flutning slökkvistöðvar og felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að undirbúa sölu á núverandi húsnæði slökkviliðs að Bakkagötu 4.

12.Hverfisráð Raufarhafnar 2017-2018

Málsnúmer 201709131Vakta málsnúmer

Á 264. fundi Byggðarráðs var eftirfarandi bókað:
Til kynningar í byggðarráði eru tvær fundargerðir hverfisráðs Raufarhafnar frá 4. og 5. fundi ráðsins.

Mál 3. Áningarstaður við gatnamóta á Hólaheiði
Byggðarráð vísar erindinu til skipulags- og framkvæmdanefndaráðs og leggur til að samráð verði haft við Vegagerðina varðandi málið.

Mál 5. Fegrun Raufarhafnar vor og sumar 2019 og mál 6. fasteignir sveitarfélagsins.
Byggðarráð vísar erindunum til skipulags- og framkvæmdaráðs. Málið verði skoðað í samhengi við fegrunaraðgerðir í miðsvæðum/miðbæjum þéttbýliskjarna í Norðurþingi fyrir komandi sumar.
Mál 3. Verið er að vinna að umsókn í framlög úr stefnumótandi byggðaáætlun 2018-2024 vegna þessa áningastaðar. Ef ekki kemur framlag þá verður þetta erindi tekið upp aftur fyrir áramót 2018/2019.
Mál 5. Fegrun Raufarhafnar. Verið er að vinna að því að fjarlægja rusl úr þorpinu og ráðið tekur vel í erindið um að vinna í opnum svæðum en beinir til Hverfisráðs að gera yfitlitskort yfir þau svæði sem vilji er til að taka út.
Mál 6. Fasteignir sveitafélagsins. Ráðið beinir til Hverfisráðs að lista upp um hvaða fasteignir ræðir og hvaða fegrun þyrfti.

13.Sölkusiglingar ehf. sækir um stöðuleyfi fyrir aðstöðuhúsi hjá flotbryggju sem félagið hefur aðstöðu við.

Málsnúmer 201809092Vakta málsnúmer

Guðrún Þórhildur sækir um, fyrir hönd Sölkusiglinga, stöðuleyfi fyrir aðstöðuhús við flotbryggju.
Skipulags- og framkvæmdaráð hefur í hyggju að endurskoða ákvæði um aðstöðuhús við flotbryggjur. Ráðið frestar því erindinu.

14.Umsókn um framlag úr stefnumótandi byggðaáætlun.

Málsnúmer 201809095Vakta málsnúmer

Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga er að búa til umsókn um framlag úr stefnumótandi byggðaáætlun 2018-2024. Sjá nánari upplýsingar um framlagið á vef Byggðastofnunar. Um er að ræða 13 verkefni á svæðinu frá Kelduhverfi til og með Bakkafirði. Öll verkefnin lúta að innviða- eða áningarstaðauppbyggingu tengda ferðaþjónustu. Umsóknin er enn í vinnslu en fyrir fundinum liggur að taka ákvörðun um að viðhalda salernisaðstöðu við fuglaskýli á Melrakkasléttu ef að styrkur fæst til að setja hana upp.
Skipulags- og framkvæmdaráðs telur ekki fullnægjandi forsendur til að samþykkja erindið.

Fundi slitið - kl. 16:00.