Fara í efni

Skipulags- og framkvæmdaráð

97. fundur 11. maí 2021 kl. 13:00 - 14:35 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Silja Jóhannesdóttir formaður
  • Kristinn Jóhann Lund varaformaður
  • Guðmundur Halldór Halldórsson aðalmaður
  • Bergur Elías Ágústsson aðalmaður
  • Ásta Hermannsdóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfulltrúi
  • Gunnar Hrafn Gunnarsson framkv.- og þjónustufulltrúi
  • Þórir Örn Gunnarsson hafnarstjóri
  • Hermína Hreiðarsdóttir Ritari
  • Smári Jónas Lúðvíksson starfsmaður í stjórnsýslu
  • Ketill Gauti Árnason starfsmaður í stjórnsýslu
Fundargerð ritaði: Hermína Hreiðarsdóttir þjónustu- og skjalafulltrúi
Dagskrá
Gaukur Hjartarson skipulags- og byggingarfulltrúi sat fundinn undir liðum 1-11.
Ketill G. Árnason Verkefnastjóri sat fundinn undir liðum 9-13.
Smári J. Lúðvíksson umhverfisstjóri sat fundinn undir liðum 10-14.
Gunnar Hrafn Gunnarsson framkvæmda- og þjónustufulltrúi sat fundinn undir liðum 5-15.
Þórir Örn Gunnarsson hafnastjóri sat fundinn undir liðum 14-15.

1.Ósk um breytingu á Aðalskipulagi Norðurþings vegna uppbyggingar vindorkuvers á Hólaheiði

Málsnúmer 202009002Vakta málsnúmer

Á fundi skipulags- og framkvæmdaráðs 12. janúar s.l. var fjallað um athugasemdir sem bárust við kynningu skipulagslýsingar vegna breytingar aðalskipulags Norðurþings 2010-2030 vegna mögulegrar uppbyggingar vindorkuvers á Hólaheiði. Athugasemdirnar voru ekki nánar tíundaðar í fundargerðinni en skipulagsráðgjafa var falið að vinna úr þeim við áframhaldandi vinnslu skipulagstillögu. Nú hafa skipulagsráðgjafar hjá verkfræðistofunni Eflu skilað af sér minnisblaði þar sem farið er yfir athugasemdir sem bárust og tillögu að úrvinnslu þeirra. Skipulags- og byggingarfulltrúi kynnti minnisblaðið.
Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar framlagt minnisblað og fellst á að áfram verði haldið með tillögu að aðalskipulagsbreytingu þar sem tekið verði tillit til athugasemda og ábendinga í samræmi tillögur í minnisblaði.

2.Breyting á deiliskipulagi fiskeldisstöðvar á Röndinni á Kópaskeri

Málsnúmer 202105040Vakta málsnúmer

Á fundi sínum þann 27. apríl s.l. heimilaði skipulags- og framkvæmdaráð Rifósi að leggja fram tillögu að breytingu deiliskipulags iðnaðarsvæðis I1 á Röndinni á Kópaskeri. Skipulagsráðgjafi, Ómar Ívarsson hjá Landslagi, hefur nú skilað til sveitarfélagsins tillögu að deiliskipulagsbreytingu og f.h. lóðarhafa óskað umfjöllunar um hana á fundi skipulags- og framkvæmdaráðs. Breytingartillagan felur í sér sameiningu og stækkun byggingarreita auk þess sem gert er ráð fyrir að byggja megi hús með allt að 11,2 m vegghæð og 14,2 m mænishæð á kerjapöllunum. Gert er ráð fyrir að byggja megi allt að 800 m² þjónustuhús innan byggingarreits A1. Tillaga að breytingu deiliskipulags er sett fram í einu blaði í mkv. 1:1000 á blaðstærð A1.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að breytingartillaga deiliskipulagsins verði kynnt skv. ákvæðum 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

3.Deiliskipulag á Höfða

Málsnúmer 202103143Vakta málsnúmer

Nú er lokið kynningu á skipulagslýsingu deiliskipulags athafnasvæðis A2 á Höfða á Húsavík. Umsagnir bárust frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra, Minjastofnun, Vegagerðinni, Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun. Umhverfisstofnun telur ekki tilefni til að veita formlega umsögn um tillöguna. Skipulagsstofnun og Heilbrigðiseftirlit gera ekki athugasemdir við skipulagslýsinguna. Vegagerðin tilgreinir að færa verði legu jarðganga og 20 m öryggissvæði meðfram þeim á skipulagsuppdrátt. Skv. skipulagsreglugerð þarf að sýna veghelgunarsvæði á uppdrætti. Minjastofnun telur misskilnings gæta varðandi skráðar fornminjar á skipulagssvæðinu í skipulagslýsingunni. Minjavörður stefnir á að mæla upp fornleifar innan skipulagssvæðisins og meta hvort tilefni er til mótvægisaðgerða.
Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar fram komnar athugasemdir og ábendingar. Tekið verður mið af þeim við framhald deiliskipulagsvinnunnar.

4.Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra óskar eftir umsögn um rekstrarleyfi v/ Skúlagarðs

Málsnúmer 202105016Vakta málsnúmer

Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra óskar umsagnar Norðurþings vegna rekstar gististaðar í flokki IV fyrir Skúlagarð í Kelduhverfi.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur skipulags- og byggingarfulltrúa að veita jákvæða umsögn um erindið.

5.Ósk um samþykki fyrir breyttri afmörkun íbúðarhúsalóðar Steinholts í Reykjahverfi

Málsnúmer 202105061Vakta málsnúmer

Landeigendur og lóðarhafar að Steinholti (L174411) í Reykjahverfi óska eftir samþykki fyrir hnitsetningu lóðarinnar skv. meðfylgjandi lóðarblaði. Á lóðarblaði er afmörkuð 4.705 m² lóð en þinglýst lóð skv. lóðarleigusamningi er 30.000 m². Miðað er við að sá hluti núverandi lóðar sem lendir utan nýrra lóðarmarka falli aftur til upprunajarðarinnar, Þverár. Ennfremur er óskað heimildar til að skipta lóðinni út úr jörðinni.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að ný afmörkun lóðarinnar verði samþykkt og jafnframt verði samþykkt að lóðinni megi skipta út úr jörðinni.

6.Aðgengismál fatlaðs fólk / sveitarfélagið / Fasteignasjóður 2021-2022

Málsnúmer 202104043Vakta málsnúmer

Á 90. fundi fjölskylduráðs þann 3.5 2021, var félagsmálastjóra falið að ráða aðgengisfulltrúa til að taka út aðgengismál í sveitarfélaginu. Félagsmálastjóri bendir á að eðlilegt er að slíkt verkefni sé á hendi skipulags- og framkvæmdráðs þar sem um fasteignir og aðrar eignir Norðurþings er að ræða.

Á 91. fundi fjölskylduráðs, leggur ráðið til við skipulags- og framkvæmdaráð að ráðinn verði aðgengisfulltrúi í sumar.


Skipulags- og framkvæmdaráð tekur vel í erindið en telur verkefnið heyra undir fjölskylduráð en í framhaldi verði úrbætur aðgengismála vísað til framkvæmdasviðs. Ráðið vísar því erindinu aftur til fjölskylduráðs.

7.Hvatning um friðun lands og vatna í sveitarfélaginu

Málsnúmer 202105014Vakta málsnúmer

Sigurjón Benediktsson að Kaldbaki hvetur sveitarstjórn til að endurvekja friðun lands og vatna í sveitarfélaginu gagnvart fuglalífi. Í því tilliti leggur hann til að byrjað verði með áréttingum um friðun fuglalífs umhverfis Kaldbakstjarnir sunnan Húsavíkur. Á fundi sínum þann 22. apríl 2003 ákvað þáverandi bæjarstjórn Húsavíkur að heimila ekki neina eggjatöku í landi Kaldbaks og var sú friðun auglýst árlega til margra ára. Langt er hinsvegar síðan birt hefur verið auglýsing um friðun svæðisins. Í gildandi aðalskipulagi er umhverfi tjarnanna skilgreint sem hverfisverndarsvæði (Hv4) sem mikilvægt búsvæði fugla.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að öll fuglaveiði og eggjataka í umhverfi Kaldbakstjarna sunnan Húsavíkur verði áfram óheimil. Afmörkun friðaðs svæðis sé til samræmis við afmörkun hverfisverndarsvæðis Hv4 í gildandi aðalskipulagi. Framkvæmda- og þjónustufulltrúa verði falið að auglýsa bannið á heimasíðu sveitarfélagsins og í Skránni. Ákvörðunin gildi þar til annað hefur verið ákveðið.

8.Öryggisaðgerðir við gatnamót Aðalbrautar og Höfðabrautar á Raufarhöfn

Málsnúmer 202105038Vakta málsnúmer

Fyrir liggur að ráðist verði í breytingar í tengslum við tengingu Höfðabrautar inn á Aðalbraut innan Raufarhafnar í sumar. Staðið hefur til um nokkurt skeið að gera nauðsynlegar breytingar á gatnamótunum m.t.t. umferðaröryggis, án þess þó að af því hafi orðið þar til nú.
Vegagerðin hefur lagt fram tillögu að kostnaðarskiptingu aðila í tengslum við verkið, en óskað er afstöðu skipulags- og framkvæmdaráðs til þeirrar tillögu. Einnig þarf afstaða skipulags- og framkvæmdaráðs að liggja fyrir varðandi umfang fyrirhugaðrar framkvæmdar svo áætla megi kostnaðarhlutdeild Norðurþings í tengslum við verkefnið.
Skipulags- og framkvæmdaráð tekur jákvætt í erindið en óskar eftir áætlun varðandi hlutdeildarkostnað Norðurþings.

9.Erindi vegna tjaldsvæðis á Raufarhöfn - frá hverfisráði Raufarhafnar

Málsnúmer 202104149Vakta málsnúmer

Á 90. fundi fjölskylduráðs var m.a. eftirfarandi bókað: Ráðið vísar til skipulags- og framkvæmdaráðs að brýnt sé að koma upp aðstöðu til að losa ferðasalerni fyrir sumarið 2021. Einnig að gera ráð fyrir því að fjölga rafmagnstenglum á tjaldsvæðinu.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að skoða útfærslu á losun ferðasalerna en ekki verður farið að þessu sinni í fjölgun rafmagnstengla þar sem það felur í sér sverun heimtaugar.

10.Beiðni um lagfæringu á gangstétt og bekk við Sýsluskrifstofuna á Húsavík

Málsnúmer 202105033Vakta málsnúmer

Fyrir liggur erindi frá Sýslumanni þar sem óskað er eftir því að umhverfi sýsluskrifstofunnar á Húsavík við Útgarð 1 hljóti þá andlitslyftingu sem svæðinu ber.
Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar erindið og lýsir jafnframt yfir ánægju sinni með að fá innsýn í skoðanir og álit íbúa Norðurþings á því umhverfi sem við höfum skapað okkur.
Framkvæmdaráætlun Norðurþings gerir ekki ráð fyrir því að ráðist verði í útlitsframkvæmdir opinna svæða í kringum Útgarð 1 sumarið 2021. Þó má að líkindum bregðast við erindinu að því marki sem ekki kallar á fjármögnun umfram það sem rekstraráætlun yfirstandandi árs heimilar og verður sú nálgun skoðuð í tengslum við málið.

11.Hundagerði - erindi

Málsnúmer 202105062Vakta málsnúmer

Bergur Elías og Silja leggja fram eftirfarandi tillögu.

Undirrituð leggja fram tillögu í framhaldi af erindi um að skilgreina svæði fyrir lausagöngu hunda sem samþykkt var á fundi skipulags- og framkvæmdaráðs. Tillagan lýtur að því að setja upp hundagerði við Ásgarðsveg á leið upp að Botnsvatni, sjá mynd. Kostnaðaráætlun með breytingum má sjá í meðflygjandi skjali. Á Húsavík er virkt hundasamfélag sem er tilbúið að koma að vinnunni við uppsetningu á gerðinu. Undirrituð leggja til að efniskostnaður verði greiddur auk aðstoðar við uppsetningu staura, samsvarandi leið A í kostnaðaráætlun. Fulltrúar hundasamfélagsins munu síðan leggja til vinnu við uppsetningu gerðisins. Bera skuli þetta erindi upp við þá og er Benóný Valur tilbúin til að vera forsvarsmaður hundasamfélagsins í þeim viðræðum.
Tillagan er samþykkt með atkvæðum Bergs Elíasar, Ástu og Silju

Kristinn og Guðmundur kjósa á móti tillögunni.

Framkvæmda- og þjónustufulltrúa er falið að fylgja málinu eftir.

12.Íbúar Árgötu 6 og 8 óska eftir lagfæringum á vegi um Árgil

Málsnúmer 202105032Vakta málsnúmer

Óskað hefur verið eftir því af íbúum við Árgötu 6 og 8, að nauðsynlegar lagfæringar verði gerðar á vegi um Árgil svo hindra megi að vegryk berist yfir svæðið í þurru veðri.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að láta klæða veg um Árgil með bundnu slitlagi frá gatnamótum Garðarsbrautar að gatnamótum suðurfjöruvegar. Kostnaður vegna þeirrar framkvæmdar er lauslega metinn á 2 mkr.

13.Ósk um að bann verði lagt við netaveiðum á göngusilungi í sjó í Skjálfandaflóa

Málsnúmer 202105034Vakta málsnúmer

Fyrir fundi skipulags- og framkvæmdaráðs liggur afrit af bréfi til Fiskistofu frá Jóni Helga Björnssyni f.h. Veiðifélags Laxár í Aðaldal, Páli Ólafssyni f.h. Veiðifélags Mýrarkvíslar og Guðmundi Helga Bjarnasyni f.h. Veiðifélags Reykjadalsár og Eyvindarlækjar.
Í bréfinu kalla formenn veiðifélaganna eftir því að stofnunin beiti sér gegn útgáfu netaveiðileyfa til silungsveiða fyrir landi Húsavíkur til handa íbúum í Norðurþingi og að árleg útgáfa veiðileyfanna verði bönnuð með öllu.
Erindið lagt fram til kynningar en ráðið óskar bókað:
Ekki verður annað séð en að útgáfa veiðileyfa fyrir landi Húsavíkur geti með auðveldum hætti farið saman með starfsemi veiðifélaga í Norðurþingi án þess að starfsemi veiðifélaganna sé ögrað á nokkurn hátt. Úthlutun þeirra 10 netaveiðileyfa sem Norðurþing auglýsir laus til umsókna á hverju ári er til verulegrar ánægju og aukningar lífsgæða þeirra íbúa Norðurþings sem hljóta. Með áður auglýstum netaveiðileyfum er sveitarfélagið aðeins að nýta lögbundinn rétt sinn til nýtingar þeirra auðlinda sem falla innan lands sveitarfélagsins og eru því Norðurþings með réttu, á þann sama hátt og veiðifélögin nýta sinn lögbundna rétt til sölu þeirra veiðileyfa sem tilheyra þeim á forsendum eignarhalds.

14.Húsavíkurslippur óskar eftir samvinnu við Norðurþing um frágang á lóðamörkum

Málsnúmer 202105007Vakta málsnúmer

Óskað er eftir að fá að nýta stórgrýti úr "miðgarði" Húsavíkurhafnar til að ganga frá á lóðamörkum við Naustagarð 2, í samráði við hafnastjóra. Kostnaður við
frágang grjótsins falli á lóðareiganda og frágangur og viðskilnaður verði í samráði við hafnastjóra.
Skipulags- og framkvæmdaráð tekur jákvætt í erindið og felur hafnastjóra að fylgja því eftir.

15.Hafnasamband Íslands - Fundargerðir 2021

Málsnúmer 202101143Vakta málsnúmer

Fundargerð 434. fundar Hafnasambands Íslands lögð fram.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 14:35.