Skipulags- og framkvæmdaráð
Dagskrá
1.Ósk um leyfi fyrir staðsetningu á útibekk á Húsavík
Málsnúmer 202506035Vakta málsnúmer
Fermingarsystkini úr árgangi 1961 á Húsavík vilja gefa vegfarendum Húsavíkur bekk til að tylla sér á og njóta líðandi stundar. Jafnframt óskar árgangurinn eftir leyfi til að koma bekknum fyrir við sneiðinginn á milli Höfðavegar 11 og 13.
Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar fermingarsystkinum úr árgangi 1961 á Húsavík fyrir höfðinglega gjöf. Nánari staðsetning á bekknum verði ákvörðuð í samráði við sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs.
2.Ósk um leyfi til borunar eftir heitu vatni á landi Húsavíkur 2025
Málsnúmer 202506037Vakta málsnúmer
Orkuveita Húsavíkur ohf. óskar eftir leyfi til að bora allt að 10 hitastigulsholur í landi Húsavíkur og Saltvíkur. Tilgangur holanna eru jarðhitarannsóknir og leit að heitu vatni. Horft er til þess að holur verði 60-90 m djúpar, en þó er mögulegt að farið verði niður í allt að 200 til 250 m dýpi ef tilefni telst til. Ekki liggur fyrir hvar holurnar verða boraðar en reiknað er með að þær verði í kringum Skeiðvöll ofan Laugardals norðan Húsavíkur og einhverjar holur í landi Saltvíkur. Staðsetning holanna tekur mið af því að auðvelt verði að koma tækjum að og frá borstað.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við byggðarráð, í sumarleyfisumboði sveitarstjórnar, að Orkuveitu Húsavíkur verði heimilaðar boranir.
3.Flóki ehf.og Fiskbúð Húsavíkur ehf.óska eftir tímabundnu leyfi fyrir matarvagni á Húsavík
Málsnúmer 202506054Vakta málsnúmer
Fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggur erindi frá Fiskbúð Húsavíkur ehf og Flóka ehf þar sem sótt er um leyfi fyrir matarvagni á svokölluðum Guðjohnsensreit á Húsavík.
Skipulags- og framkvæmdaráð heimilar sviðsstjóra að veita leyfið að því tilskyldu að skriflegu samþykki lóðarhafa verði skilað til sveitarfélagsins.
4.Starfshópur vegna vinnu við aðalskipulag Norðurþings
Málsnúmer 202211095Vakta málsnúmer
Beiðni Eysteins Heiðars Kristjánsonar um lausn frá störfum í sveitarstjórn og öðrum ráðum Norðurþings var samþykkt á 154. fundi sveitarstjórnar þann 19. júní sl.
Fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggur að skipa í starfshóp vegna vinnu við aðalskipulag Norðurþings í stað Eysteins.
Fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggur að skipa í starfshóp vegna vinnu við aðalskipulag Norðurþings í stað Eysteins.
Skipulags- og framkvæmdaráð skipar Hjálmar Boga Hafliðason í starfshóp vegna vinnu við aðalskipulag Norðurþings í stað Eysteins Heiðars Kristjánssonar.
5.Endurskoðun samþykktar um sorphirðu
Málsnúmer 202505027Vakta málsnúmer
Fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggja samþykktir um sorphirðu til umfjöllunar, en fyrri umræða fór fram í sveitarstjórn 19. júní sl.
Skipulags- og framkvæmdaráð vísar samþykktum um sorphirðu til síðari umræðu í byggðarráði, í sumarleyfisumboði sveitarstjórnar.
6.Breyting aðalskipulags Stórhóll - Hjarðarholt
Málsnúmer 202409090Vakta málsnúmer
Fyrir liggur tillaga skipulagsráðgjafa að breytingu aðalskipulags á svæði sem afmarkast af Hjarðarhóli í norðri, Garðarsbraut í vestri, Þverholti í suðri og Baughóli í austri. Tillaga að breytingu felur í sér þéttingu byggðar og fjölgun íbúða um allt að 80 á skipulagssvæðinu. Breyting aðalskipulags felur eingöngu í sér breytingu á greinargerð aðalskipulags og skilmálum fyrir uppbyggingu á íbúðarsvæðunum. Samhliða breytingu aðalskipulags hefur verið unnin tillaga að breytingu deiliskipulags sama svæðis.
Skipulagsfulltrúa er falið að leita samþykkis Skipulagsstofnunar, skv. 3. mgr. 30. gr. skipulagslaga, fyrir kynningu aðalskipulagsbreytingarinnar. Að fengnu samþykki Skipulagsstofnunar er skipulagsfulltrúa falið að auglýsa tillögu að breytingu aðalskipulags samhliða breytingu deiliskipulags sama svæðis.
7.Breyting deiliskipulags Stórhóll- Hjarðarholt
Málsnúmer 202311126Vakta málsnúmer
Fyrir liggur tillaga að heildarendurskoðun deiliskipulags Stórhóls - Hjarðarholtssvæðisins. Í skipulaginu er skilgreindar nýjar lóðir fyrir allt að 65 íbúðir í fjölbýlihúsum, raðhúsum og einbýlishúsum jafnframt því sem heimiluð er fjölgun um allt að 10 íbúða í þegar byggðum húsum. Skipulagið er sett fram í greinargerð með umhverfisskýrslu, deiliskipulagsuppdrætti, sneiðingum og skýringarmyndum.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur skipulagsfulltrúa að auglýsa skipulagstillöguna skv. ákvæðum skipulagslaga samhliða kynningu fyrirliggjandi tillögu að breytingu aðalskipulags sama svæðis.
8.Hólaravöllur Breiðulág
Málsnúmer 202506066Vakta málsnúmer
Verkefnastjóri á velferðarsviði kynnti fyrirhugaða staðsetningu og uppbyggingu á nýjum leikvelli á Hólaravelli, Húsavík.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir fyrirhugaða uppbyggingu á nýjum leikvelli á Hólaravelli á Húsavík, með vísan í framkvæmdaáætlun, að undangenginni grenndarkynningu. Ráðið felur sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs að fylgja málinu eftir.
9.Lokun Regnbogabrautar
Málsnúmer 202506083Vakta málsnúmer
Sveitarstjóri óskar eftir umfjöllun ráðsins um mögulega lokun svokallaðrar Regnbogabrautar á Húsavík fyrir akandi umferð í júlí 2025, fram yfir verslunarmannahelgi.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir lokun hluta Garðarsbrautar frá Garðarshólma að Samkomuhúsi frá 18. júlí til 5. ágúst 2025.
Fundi slitið - kl. 14:45.
Bergþór Bjarnason, fjármálastjóri, sat fundinn undir liðum 8 og 9.
Birna Björnsdóttir sat fundinn í fjarfundi.