Fara í efni

Byggðarráð Norðurþings

227. fundur 28. september 2017 kl. 13:00 - 15:35 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Óli Halldórsson formaður
  • Olga Gísladóttir varaformaður
  • Jónas Hreiðar Einarsson aðalmaður
  • Kristján Þór Magnússon
  • Soffía Helgadóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Drífa Valdimarsdóttir fjármálastjóri
Fundargerð ritaði: Drífa Valdimarsdóttir fjármálastjóri
Dagskrá

1.Samstarfssamningur Norðurþings og Bakkisilicon um brunavarnir á Bakka

Málsnúmer 201709154Vakta málsnúmer

Til nokkurs tíma hafa fulltrúar sveitarfélagsins og fulltrúar PCC Bakkisilicon hf unnið að gerð samstarfssamnings um brunavarnir á Bakka með aðkomu Slökkviliðs Norðurþings. Nú liggja fyrir lokadrög að samstarfssamningi til umræðu í byggðarráði.
Byggðarráð fagnar því að samkomulag sé að nást milli sveitarfélagsins og PCC Bakkisilicon hf um brunavarnir á Bakka. Sveitarstjóra falið að ganga frá samningnum á grunni fyrirliggjandi gagna.

Soffía Helgadóttir lagði fram eftirfarandi bókun:

"Sveitarfélagið Norðurþing er íslenskt sveitarfélag því eiga þeir samningar sem gerðir eru við erlenda aðila að vera einnig á íslensku. Ítrekað hefur verið óskað eftir að samningar verði íslenskaðir og enn einu sinni er samningur lagður fyrir sveitarstjórn á ensku en ekki íslensku. Oftast eru flókin tæknileg orð og setningar, hvort sem er lögfræðileg eða sem snýr að flókinni tækni sem sveitarstjórnarfólk ber ábyrgð á fyrir hönd Norðurþings.
Því ítreka ég að enn einu sinni að tekið verði tillit til að íslenskan verði það tungumál sem notað verði í þeim samningum sem sveitarfélagið Norðurþing gerir."


2.Samstarf ISAVIA og Norðurþings á Húsavíkurflugvelli

Málsnúmer 201709155Vakta málsnúmer

Unnið hefur verið að því að leita leiða til samstarfs við ISAVIA um bakvakt og mönnun að hluta til á Húsavíkurvelli, með það að markmiði að tryggja enn betur öryggi flugfarþega, t.a.m. vegna sjúkraflutninga. Á borðinu liggja drög að samstarfssamningi milli aðila.
Byggðarráð felur sveitarstjóra að ganga frá samningi við ISAVIA á grunni fyrirliggjandi samningsdraga.

3.Uppbygging slökkvistöðvar

Málsnúmer 201701015Vakta málsnúmer

Sveitarstjóri fer yfir stöðu mála er varðar uppbyggingu nýrrar slökkvistöðvar sem fyrirhuguð er á uppfyllingu í norðurhöfninni á Húsavík. Áætlað er að útboðsferli hefjist um miðjan nóvember og samþykkt tilboð eftir fyrstu viku í desember.
Lagt fram til kynningar.

4.Samningur um tímamundin afnot af landi Tröllakots til geymslu á húsnæðiseiningum

Málsnúmer 201709158Vakta málsnúmer

Þýska verktakafyrirtækið M W Group, sem sér að stærstum hluta um uppbyggingu mannvirkja kísilvers PCC á Bakka, hefur óskað eftir aðstoð sveitarfélagsins við að finna tímabundna geymslu á vinnubúðaeiningum sem nú standa á lóð kísilversins. Einingarnar sem um ræðir voru settar upp til að hýsa skrifstofur og starfsmannaaðstöðu kísilversins. Í ljós hefur komið að vegna skemmda þá uppfylla einingarnar ekki skilyrði og þær þarf að fjarlægja. M W hefur þegar gengið frá pöntun á nýjum einingum erlendis frá sem væntanlegar eru á næstu vikum. Fyrst þarf að gera breytingar á undirstöðunni og því þarf að fjarlægja núverandi einingar sem fyrst.

Óskir M W eru um að geyma gömlu einingarnar tímabundið, eða frá lokum september til loka mars 2018 við Tröllakot.
Að því gefnu að tryggt verði með samningi að engar skuldbindingar eða kostnaður vegna geymslunnar falli á sveitarfélagið samþykkir byggðarráð að heimila tímabundna geymslu á umræddum einingum fyrir M W allt til loka mars 2018. Sveitarstjóra er falið að ganga frá samningum á grunni þeirra samningsdraga sem liggja fyrir fundinum.

5.Niðurstaða úthlutunarnefndar stofnframlaga

Málsnúmer 201709157Vakta málsnúmer

Niðurstöður liggja fyrir um úthlutun stofnframlaga til uppbyggingar íbúða á grundvelli laga nr. 52/2016. Norðurþing sótti um stofnframlög til byggingar fjögurra íbúða innan þessa nýja almenna íbúðakerfis. Tvær þeirra yrðu staðsettar við Höfðaveg 6 og tvær við Lyngholt 26-31.

Heildarstofnvirði samkvæmt umsókn Norðurþings er kr 94.230.000- og sótt var um 18% stofnframlag, 6% viðbótarframlag vegna markaðsbrest á grundvelli byggingarkostnaðar og 4% viðbótarframlag vegna þeirra íbúða sem ætlaðar eru einstaklingum með fötlun.

Það er markmið laga um almennar íbúðir að bæta húsnæðisöryggi fjölskyldna og einstaklinga undir tekju- og eignamörkum, með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi leiguhúsnæði og stuðla að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu leigjenda eða að jafnaði ekki umfram fjórðung tekna. Lögin byggja m.a. á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um húsnæðismál frá 28. maí 2015, þar sem m.a. er fjallað um fjölgun hagkvæmra og ódýrra íbúða til að tryggja tekjulágum fjölskyldum leiguhúsnæði til lengri tíma og að áhersla verði lögð á íbúðir af hóflegri stærð

Niðurstaða úthlutunarnefndarinnar var sú að samþykkja umsókn Norðurþings um samtals 24.267.200- kr stofnframlag til verkefnisins.
Byggðarráð fagnar þessari niðurstöðu sem ljóst er að leiði til aukins íbúðaframboðs á Húsavík á næsta ári. Sveitarstjóra falið að fylgja málinu eftir gagnvart samstarfsverktakanum í verkefninu, Trésmiðjunni Rein.

6.Erindi vegna húsnæðismála Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík

Málsnúmer 201612112Vakta málsnúmer

Í janúar á þessu ári barst erindi frá Háskóla Íslands vegna húsnæðisvandræða á Húsavík. Erindið var tekið fyrir og eftirfarandi bókað:

"Fyrir liggur erindi frá Háskóla Íslands þar sem greint er frá húsnæðisvanda rannsóknaseturs skólans á Húsavík. Háskólinn hefur misst íbúðarhúsnæði sem stofnunin hefur leigt og óskar liðsinnis sveitarfélagsins við úrlausn þessa. Byggðarráð metur starfsemi Rannsóknaseturs Háskóla Íslands afar mikilvæga fyrir samfélagið, en ljóst er að öflug heilsársstarfsemi Háskólans byggir að miklu leyti á því að til staðar sé aðstaða fyrir starfsmenn og gestarannsakendur sem dvelja tímabundið á Húsavík. Byggðarráð felur sveitarstjóra að leita eftir endurnýjun samstarfssamnings Norðurþings við Háskóla Íslands með úrlausn á þessum aðkallandi húsnæðisvanda að markmiði og jafnframt eflingu starfsemi Háskólans. Í þeim samningi verði útfærð útleiga til Háskólans á íbúðarrými í húsinu Túni, sem er í eigu Norðurþings. Stefnt verði að því að geta gert leigusamning sem uppfyllir þörf Háskólans og taki gildi eigi síðar en frá 15. apríl nk. Málinu ennfremur vísað til æskulýðs-, fræðslu- og framkvæmdanefnda til umfjöllunar að því leyti sem þær nefndir fara með starfsemi sem nú er starfrækt í Túni."

Nú liggur fyrir að núverandi húsnæði sem rannsóknarsetrið fékk til afnota að Iðavöllum er á leið í aðra notkun á vegum sveitarfélagsins, þ.e. nýja aðstöðu fyrir leikskólann Grænuvelli. Tilfærsla og uppbygging nýrrar aðstöðu Frístundar er fyrirhuguð í íþróttahöllinni á Húsavík. Syðri endi Túns, húseignar Norðurþings við Miðgarð myndi henta vel til að leysa húsnæðisvanda rannsóknarsetursins.
Byggðarráð telur starfsemi Háskóla Íslands afar mikilvæga í samfélaginu. Byggðarráð leggur til að rannsóknarsetrinu verði boðinn syðri hluti hússins Túns til leigu. Fyrir liggur tillaga Háskóla Íslands um verðhugmynd fyrir leigu en ekki samkomulag. Byggðarráð felur sveitarstjóra að ganga frá samningi samkvæmt umræðum á fundinum. Gert verði ráð fyrir tímabundnum samningi um húsnæðið með 3ja mánaða uppsagnarfresti. Drög að samningi verði lögð fyrir Byggðarráð.


Soffía Helgadóttir lagði fram eftirfarandi bókun:


"Nú er ráðgert að hækka fermetraverð á félagslegu húsnæði íbúa Norðurþings í 1.400 kr. í fjárhagsáætlunar ársins 2018. En nú óskar ríkið eftir fyrir hönd Rannsóknarseturs Háskóla Íslands að leigja 160 fermetra hluta af eign sveitarfélagsins, Tún, á 120.000 á mánuði með rafmagni og hita. Ef sama fermetraverð yrði til háskólans og verður til félagslegra íbúða í sveitarfélaginu, ætti leigan á mánuði að vera 224.000 án rafmagns og hita. Húsnæðið hefur verið í notkun fyrir börn og unglinga sveitarfélagsins en sú starfsemi hefur verið flutt annað.
Sveitarfélagið á að auglýsa eignina til leigu og taka hæsta tilboði, fyrst búið er að taka ákvörðun um að húsnæðið skuli ekki nýtast til félagsstarfsemi og dagvistun barna og unglinga á Húsavík."


7.Auglýsing umsóknar um byggðakvóta fiskveiðiársins 2017/2018

Málsnúmer 201709068Vakta málsnúmer

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur auglýst til umsóknar byggðakóta fiskveiðiársins 2017/2018 á grundvelli 10. gr. laga nr. 116/2006, með síðari breytingum.
Sveitarstjóra er falið að sækja um byggðakvóta f.h. Norðurþings.

8.Frístundarstyrkir ungmenna í Norðurþingi

Málsnúmer 201709039Vakta málsnúmer

Á 13. fundi æskulýðs- og menningarnefndar vísaði nefndin eftirfarandi erindi til byggðarráðs:

"Æskulýðs- og menningarnefnd vill að sveitarfélagið Norðurþing taki upp frístundarstyrki fyrir ungmenni sveitarfélagsins frá upphafi árs 2018. Tilgangur og markmið styrkjanna er að öll börn og unglingar geti tekið þátt í uppbyggilegu frístundastarfi óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum.

Kostnaður við frístundastyrki er metinn á um 4.500.000 króna miðað við að styrkurinn sé 10.000 krónur á einstakling á aldrinum 6-18 ára.

Æskulýðs og menningarnefnd óskar eftir auka fjármagni að upphæð 4.500.000 við úthlutun fjárhagsramma fyrir árið 2018."
Byggðarráð lýsir ánægju sinni með áform æskulýðs- og menningarnefndar um að taka upp frístundastyrki fyrir ungmenni og börn í sveitarfélaginu. Byggðarráð telur að ekki standi efni til að auka við þann fjárhagsramma sem lagður var fyrir nefndina vegna fjárhagsársins 2018. Byggðarráð leggur til við nefndina að leita allra leiða til að forgangsraða fjármunum innan sviðsins sem nú þegar fara til þjónustu við börn og ungmenni svo af þessum áformum megi verða.

9.Ljósleiðarakerfi í Norðurþingi

Málsnúmer 201709074Vakta málsnúmer

Kynnt verða gögn um uppbyggingu ljósleiðara í dreifbýli Norðurþings sem verkfræðistofan EFLA hefur unnið að. Stefnt er að umsókn
Lagt fram til kynningar.

10.Endurskoðun leiguverðs félagslegra íbúða Norðurþings

Málsnúmer 201708065Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði leggja samþykktar gjaldskrár um leiguverð félagslegra íbúða fyrir næsta ár.
Byggðarráð tekur undir fyrri bókanir framkvæmdanefndar og félagsmálanefndar um málið.

11.Opinber heimsókn forseta Íslands í Norðurþing

Málsnúmer 201709005Vakta málsnúmer

Sveitarstjóri fer yfir drög að dagskrá vegna heimsóknarinnar sem fyrirhuguð er um miðjan október.
Byggðarráð fór yfir drög að dagskrá heimsóknar Forseta Íslands dagana 18. og 19. október. Stefnt að sameiginlegri samkomu íbúa Norðurþings í íþróttahöllinni á Húsavík að kvöldi 18. október.

12.Kynning á starfsemi Aflsins - Samtaka gegn kynferðis- og heimilisofbeldi

Málsnúmer 201709150Vakta málsnúmer

Aflið- Samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi ætlar að fara af stað með kynningar á starfi samtakanna fyrir sveitarfélög á Norðurlandi nú í haust. Hugmyndin er að ná saman sveitarstjórnum ásamt helstu viðbragðsaðilum í hverju sveitarfélagi fyrir sig og halda stutta kynningu á sögu og starfsemi samtakanna. Í þeim sveitarfélögum þar sem það á við er ætlunin að reyna að fá fulltrúa frá framhaldsskólum/háskólum og fulltrúa frá heilsugæslu og löggæslu á staðnum til að mæta á kynningarnar.


Byggðarráð lýsir ánægju með erindi Aflsins og felur sveitarstjóra að finna tíma fyrir kynninguna í Norðurþingi.

13.Fundir hverfisráða Norðurþings

Málsnúmer 201709006Vakta málsnúmer

Kynningarfundir með fulltrúum hverfisráða á Raufarhöfn, Kópaskeri, Kelduhverfi og Reykjahverfi hafa farið fram og kynnir sveitarstjóri niðurstöður þessara fyrstu funda.
Lagt fram til kynningar.

14.Fundargerðir Heilbrigðisnefndar Norðurlandssvæðis eystra

Málsnúmer 201704060Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur til kynningar fundargerð 194. fundar Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra.
Lagt fram til kynningar.

15.Fjárlagafrumvarp 2018 - Framlag ríkisins til náttúrustofa á grundvelli samninga við sveitarfélög

Málsnúmer 201709169Vakta málsnúmer

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs er gert ráð fyrir tæplega 38% niðurskurði á fjárveitingum ríkisins til Náttúrustofu Norðausturlands. Starfsemi Náttúrustofunnar hefur verið burðarstólpi í náttúrufarsrannsóknum í Þingeyjarsýslum í heild sinni, en á meðal verkefna hafa verið rannsóknir á lífríki Mývatns.
Þessi niðurskurður kemur án nokkurs fyrirvara eða samráðs við Náttúrustofuna eða sveitarfélögin Skútustaðahrepp og Norðurþing sem reka Náttúrustofuna í samstarfi við ríkið skv. lögum nr. 60/1992, m.s.br.
Byggðarráð Norðurþings tekur heilshugar undir bókun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps og mótmælir harðlega boðuðum niðurskurði og ekki síst vinnubrögðunum sem setja starfsemi Náttúrustofu Norðausturlands í uppnám en þar starfa nú fimm manns. Það samræmist ekki gildandi samningi milli umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Náttúrustofunnar um vöktunarrannsóknir í Þingeyjarsýslum sem á uppruna sinn í sértækum aðgerðum forsætisráðuneytisins árið 2008 til að efla byggð og samfélag á Norðurlandi eystra. Ef ekkert verður að gert við að leiðrétta fram komna tillögu blasa við uppsagnir starfsfólks og faglegt starf stofunnar sett í algjört uppnám.

Fundi slitið - kl. 15:35.