Fara í efni

Uppbygging slökkvistöðvar

Málsnúmer 201701015

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Norðurþings - 200. fundur - 05.01.2017

Fyrir byggðarráði liggja fyrstu drög að uppbyggingu nýrrar slökkvistöðvar á Húsavík.
Á fundinn mættu Grímur Snær Kárason, slökkviliðsstjóri ásamt Gunnari Hrafni Gunnarssyni, framkvæmda- og þjónustufulltrúa og Þóri Erni Gunnarssyni, rekstarstjóra hafna og fóru, ásamt sveitarstjóra yfir fyrstu drög að uppbyggingu nýrrar slökkvistöðvar á Húsavík.

Byggðarráð samþykkir að hafin verði vinna við fullnaðarhönnun og útboðsgögn vegna nýrrar slökkvistöðvar. Því er beint til framkvæmda-og hafnanefnda að taka afstöðu til þátttöku í nýbyggingunni. Lögð verði áhersla á að við útlitshönnun byggingarinnar verði þess gætt að húsið falli vel að útliti og ásýnd hafnarsvæðisins.

Framkvæmdanefnd - 12. fundur - 18.01.2017

Í tengslum við fyrirhugaða byggingu nýrrar slökkvistöðvar sem kemur einnig til með að nýtast undir starfsemi hafnarinnar hefur komið upp sú umræða hvort starfsemi OH og áhaldahúss eigi eitthvað erindi þar inn.
Framkvæmdanefnd telur ekki skynsamlegt að starfsemi þjónustustöðvar verði staðsett í umræddri byggingu.

Hafnanefnd - 10. fundur - 18.01.2017

Vegna fyrirhugaðrar byggingar á nýrri slökkvistöð á norðurhafnarsvæði voru viðræður hafnar við Eimskip um að þeir gæfu eftir hluta af lóð sinni á hafnarsvæðinu þar sem aðstaða þeirra er í dag. Núverandi lóð er 12.390 m2 samkvæmt gildandi lóðasamningi síðan 2009.
Rekstrarstjóri hafna fór yfir stöðu mála varðandi mögulega staðsetningu á fyrirhugaðri slökkvistöð á norðurhafnarsvæðinu og hvaða árhrif það gæti haft á aðrar lóðir á svæðinu.

Byggðarráð Norðurþings - 207. fundur - 02.03.2017

Til fundarins koma Grímur Kárason, slökkviliðsstjóri, Henning Aðalmundsson, aðstoðarslökkvistjóri og Þórir Örn Gunnarsson, rekstrarstjóri hafna og ræða stöðu mála er snúa að uppbyggingu nýrrar slökkvistöðvar.
Til fundarins mættu Grímur Kárason, slökkviliðsstjóri, Henning Aðalmundsson, aðstoðarslökkviliðsstjóri og Þórir Örn Gunnarsson, rekstrarstjóri hafna. Farið var yfir stöðu mála er varða uppbyggingu nýrrar slökkviliðsstöðvar, sem og önnur mál er tengjast þessari uppbyggingu.
Byggðarráð óskar eftir að Jón Helgi Björnsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands ásamt framkvæmdastjórn stofnunarinnar, mæti til næsta fundar byggðarráðs fimmtudaginn 9. mars nk.

Byggðarráð Norðurþings - 208. fundur - 09.03.2017

Rædd verður staða málsins. Framkvæmdastjórn boðaði forföll vegna fundahalda í RVK um málið á fimmtudagsmorgni. Fulltrúar stjórnar koma til fundar byggðarráðs í næstu viku. Sveitarstjóri mun fara yfir stöðuna og næstu skref.
Til fundarins mættu Grímur Kárason, slökkviliðsstjóri og Henning Aðalmundsson, aðstoðarslökkviliðsstjóri. Sveitarstjóri, ásamt Grím og Henning, fór yfir stöðuna frá síðasta fundi. Byggðarráð óskar eftir því að framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, ásamt framkvæmdastjórn mæti til næsta fundar byggðarráðs.

Byggðarráð Norðurþings - 209. fundur - 17.03.2017

Á fund byggðarráðs mætir Jón Helgi Björnsson forstjóri HSN og Örn Ragnarsson, framkvæmdastjóri lækninga hjá HSN til að fara yfir mögulegt samstarf HSN og Norðurþings um aðkomu slökkviliðs Norðurþings að sjúkraflutningaþjónustu HSN.
Byggðarráð þakkar Jóni og Erni fyrir komuna og leggur ríka áherslu á að samkomulag um samstarf náist sem fyrst.

Byggðarráð Norðurþings - 210. fundur - 31.03.2017

Fyrir byggðarráði liggur tilboð að fullnaðarhönnun nýrrar slökkvistöðvar. Taka þarf ákvörðun um hvort því tilboði skuli tekið og leggja til við framkvæmdanefnd að hefja þá vinnu svo sem fyrst liggi fyrir útboðsgögn og þar með áætlaður heildarkostnaður við uppbyggingu nýrrar aðstöðu fyrir slökkvilið Norðurþings.
Til fundarins mættu Róbert Ragnarsson ráðgjafi og Þórir Örn Gunnarsson, rekstrarstjóri hafna og fóru yfir fyrirliggjandi tilboð.
Byggðarráð óskar eftir því við framkvæmdanefnd, að lögð verði fyrir næsta fund greinargerð með þarfagreiningu fyrir byggingu björgunarmiðstöðvar. Þar komi fram kostnaðarmat á öllum byggingarkostnaði, að meðtöldum innan- og utanhúsfrágangi og nauðsynlegum húsbúnaði og áætlun um leigu. Stærðarþörf hverrar einingar sem ætlað er að húsið hýsi verði tilgreind og hvað af stofn- og rekstrarkostnaði tilheyri hverjum hluta.

Byggðarráð Norðurþings - 211. fundur - 06.04.2017

Á 15. fundi framkvæmdanefndar var eftirfarandi bókað varðandi mál 201701017 - Ný slökkvistöð á Húsavík - framvinda mála:
"Framkvæmdanefnd samþykkir að ljúka fullnaðarhönnun og gerð útboðsgagna fyrir nýja slökkvistöð til samræmis við fyrirliggjandi gögn frá Faglausn". Sveitarstjóri fer yfir fyrirliggjandi gögn um málið.
Fyrir liggur bókun framkvæmdanefndar um að fara í hönnun og gerð útboðsgagna fyrir nýja slökkvistöð. Byggðarráð leggur áherslu á að

a) við hönnunarvinnu verði skoðaðir til hlítar þeir valkostir sem komið hafa upp varðandi samnýtingu á húsinu.
b) unnið verði innan gildandi fjárhagsáætlunar 2017.
 

Byggðarráð Norðurþings - 212. fundur - 27.04.2017

Fyrir byggðarráði liggja tillögur að hönnun og útliti nýrrar slökkvistöðvar á Húsavík. Til fundarins var framkvæmdanefndarfulltrúum boðið, sem og Almari Eggertssyni frá Faglausn.

Slökkviliðsstjóri Grímur Kárason og Henning Aðalmundsson aðstoðarslökkviliðsstjóri, Gunnar Hrafn Gunnarsson framkvæmda- og þjónustufulltrúi, Þórir Örn Gunnarsson Rekstrarstjóri hafna, Sigurgeir Höskuldsson formaður framkvæmdanefndar, Örlygur Hnefill Örlygsson, Trausti Aðalsteinsson, Hjálmar Bogi Hafliðason og Kjartan Páll Þórarinsson ásamt Almari Eggertssyni frá Faglausn sátu fundinn undir lið 1.

Erindinu vísað til sveitarstjórnar.

Framkvæmdanefnd - 16. fundur - 27.04.2017

Sameiginleg umræða framkvæmdanefndar og byggðaráðs um byggingu nýrrar slökkvistöðvar á Húsavík
Erindinu vísað til sveitarstjórnar.

Sveitarstjórn Norðurþings - 68. fundur - 02.05.2017

Á 16. fundi framkvæmdanefndar og 212. fundi byggðarráðs var samþykkt að vísa umræðu um uppbyggingu slökkvistöðvar til sveitarstjórnar.

Fyrir sveitarstjórn Norðurþings liggja gögn er varða þrjár meginleiðir til uppbyggingar slökkvistöðvar á Húsavík. Sveitarstjórn telur mikilvægt að horft sé til framtíðar hvað rekstur liðsins varðar og unnið verði út frá því að húsnæðið sem byggja á geti rúmað aðstöðu hafna sem og samstarfsverkefni sem slökkviliðið kann að sinna.
Sveitarstjórn telur æskilegast að unnið verði út frá svokallaðri "leið 3", sem byggir á að starfsmannaaðstaða og mannvistarrými verði í syðri enda hússins á einni hæð og áfast stærri skemmu sem hýsa mun tækjabúnað liðsins, geymslur og aðstöðu hafna Norðurþings á Húsavík. Gert verði ráð fyrir því að ef til aukinna verkefna komi m.v. núverandi áform megi byggja aðra hæð ofan á mannvistarrýmið, sem og fleiri bil við skemmuálmu hússins.
Ljóst er að kostnaðaráætlun m.v. fyrirliggjandi gögn er nokkru hærri en sveitarstjórn lagði upp með að setja í verkefnið skv. fjárhagsáætlun ársins. Þrátt fyrir það fer sveitarstjórn fram á að eignasjóður útfæri húsbygginguna á ofangreindum forsendum, en áður en til fullnaðarhönnunar komi verði þó leitað leiða til að draga úr byggingarmagni mannvistarhluta hússins.

Til máls tóku: Hjálmar, Óli, Kristján, Sif og Erna.

Samþykkt samhljóða.

Framkvæmdanefnd - 17. fundur - 11.05.2017

Fyrir framkvæmdanefnd liggur að taka afstöðu til greinagerðar Faglausnar um hönnun nýrrar slökkvistöðvar.
Miðað við núverandi stöðu mála er ljóst að ný slökkvistöð verður ekki byggð fyrir það fjármagn sem fjárhagsáætlun segir til um.
Framkvæmdanefnd leggur til að farin verði "leið 3" sem kynnt hefur verið og vísar málinu til afgreiðslu í sveitarstjórn.

Sveitarstjórn Norðurþings - 69. fundur - 16.05.2017

Á 17. fundi framkvæmdarnefndar var eftirfarandi bókað:

"Miðað við núverandi stöðu mála er ljóst að ný slökkvistöð verður ekki byggð fyrir það fjármagn sem fjárhagsáætlun segir til um.
Framkvæmdanefnd leggur til að farin verði "leið 3" sem kynnt hefur verið og vísar málinu til afgreiðslu í sveitarstjórn."
Til máls tóku: Óli, Jónas, Hjálmar, Erna, Kjartan, Soffía og Kristján.

Sveitarstjórn lagði fram eftirfarandi tillögu:

"Sveitarstjórn samþykkir að hefja lokahönnun slökkvistöðvar á þeim forsendum sem fjallað hefur verið um og bókað á fundi framkvæmdanefndar Norðurþings 11.maí sl. Til þess að hægt sé að hefja þetta brýna verkefni, telur sveitarstjórn nauðsynlegt að verkefninu verði áfangaskipt og dregið úr kostnaði við fyrsta áfanga. Til verkefnisins liggja fyrir 150 m.kr. á fjárhagsáætlun Norðurþings fyrir árið 2017. Í fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2018 verður væntanlega fjallað um siðari áfanga."

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða ofangreinda tillögu.

Framkvæmdanefnd - 19. fundur - 13.07.2017

Á fundinn kemur Almar Eggertsson fyrir hönd Faglausnar og kynnir lokadrög að teikningum hússins sem hýsa skal slökkvilið Norðurþings og starfsemi hafna Norðurþings á Húsavík.
Framkvæmdanefnd samþykkir fyrirliggjandi teikningar af nýrri slökkvistöð með aðstöðu fyrir starfsemi hafna Norðurþings, ásamt þeim tímaás sem einnig var lagður fram.

Framkvæmdanefnd - 20. fundur - 23.08.2017

Fyrir framkvæmdanefnd liggur að taka afstöðu til endanlegs útlits á nýrri slökkvistöð.
Framkvæmdanefnd telur bogadregið þak slökkvistöðvar fallegra, en á móti kemur að það mun stinga í stúf við aðrar byggingar í nágrenninu.
Einnig er verðmunur á þessum tveimur valkostum töluverður, bogaþaki í óhag.
Framkvæmdanefnd vísar málinu til ákvörðunar í byggðaráði.

Hjalmar Bogi Hafliðason óskar bókað:
Bogadregið þak á þessum stað er ekki fallegra.

Byggðarráð Norðurþings - 225. fundur - 04.09.2017

Nú er unnið að lokahönnun nýrrar slökkvistöðvar á Húsavík og útboð vinnu við byggingu hússins á næsta leyti. Fyrir byggðarráði liggur fyrir ákvarðantaka um útlit hússins eftir að neðangreind bókun var samþykkt á síðasta fundi framkvæmdanefndar: "Framkvæmdanefnd telur bogadregið þak slökkvistöðvar fallegra, en á móti kemur að það mun stinga í stúf við aðrar byggingar í nágrenninu. Einnig er verðmunur á þessum tveimur valkostum töluverður, bogaþaki í óhag. Framkvæmdanefnd vísar málinu til ákvörðunar í byggðaráði. Hjalmar Bogi Hafliðason óskar bókað: Bogadregið þak á þessum stað er ekki fallegra."
Byggðarráð hafnar kostnaðarauka sem fælist í breytingu á þakhönnun slökkvistöðvarinnar miðað við upphaflegar hönnunarforsendur.

Byggðarráð Norðurþings - 227. fundur - 28.09.2017

Sveitarstjóri fer yfir stöðu mála er varðar uppbyggingu nýrrar slökkvistöðvar sem fyrirhuguð er á uppfyllingu í norðurhöfninni á Húsavík. Áætlað er að útboðsferli hefjist um miðjan nóvember og samþykkt tilboð eftir fyrstu viku í desember.
Lagt fram til kynningar.

Framkvæmdanefnd - 24. fundur - 10.01.2018

Útboðsgögn í tenglsum við byggingu nýrrrar slökkvistöðvar á Húsavík eru tilbúin hjá verkfræðistofunni Eflu.
Beðið er eftir lokaniðurstöðum sigmælinga á norðurfyllingu áður en hægt er að auglýsa útboðið og gefa grænt ljós á framkvæmdir á lóðinni.
Lagt fram til kynningar fyrir framkvæmdanefnd.
Framkvæmda- og þjónustufulltrúi fór yfir stöðuna á fyrirhuguðum framkvæmdum við byggingu nýrrar slökkvistöðvar á norðurfyllingu.

Byggðarráð Norðurþings - 242. fundur - 09.02.2018

Opnað var fyrir tilboð í uppbygginu slökkvistöðvar og starfsstöðva hafna Norðurþings, ekkert tilboð barst.
Fundargerð vegna opnunar í tilboð var lögð fram.

Framkvæmdanefnd - 26. fundur - 14.03.2018

Lagt fyrir framkvæmdanefnd til kynningar.
Fyrir liggur kostnaðaráætlun frá VHE í byggingu nýrrar slökkvistöðvar á Húsavík.
Lagt fram til kynningar.

Byggðarráð Norðurþings - 246. fundur - 16.03.2018

Sveitarstjóri fer yfir stöðuna varðandi uppbyggingu á nýrri slökkvistöð.

Nýverið lauk útboðsferli fyrir byggingu nýrrar slökkvistöðvar við Húsavíkurhöfn án þess að neitt tilboð bærist. Í kjölfarið hefur verið leitað verðtilboða og kostnaðaráætlun borist frá einum aðila sem er verulega yfir kostnaðaráætlun.

Ljóst er að þessi staða útheimtir endurskoðun á verkefninu. Byggðarráð felur sveitarstjóra að greina valkosti í stöðunni og leggja fyrir byggðarráð.

Byggðarráð Norðurþings - 250. fundur - 27.04.2018

Sveitarstjóri gerir grein fyrir stöðunni á uppbyggingu slökkvistöðvar á Húsavík.
Sveitarstjóri kynnti stöðu mála.

Byggðarráð Norðurþings - 251. fundur - 04.05.2018

Framhald á umræðum um byggingu nýrrar slökkvistöðvar.
Jónas og Óli telja á þessum tímapunkti ekki vera forsendur fyrir því að taka ákvörðun um slökkvistöð á grunni þeirra upplýsinga sem fyrir liggja. Unnið verði að málinu og valkostir lagðir fyrir á ný til ákvörðunar fyrir sveitarstjórn þegar fullnægjandi upplýsingar hafa komið fram um alla raunhæfa kosti í stöðunni.

Byggðarráð Norðurþings - 252. fundur - 11.05.2018

Grímur Kárason slökkviliðsstjóri Norðurþings óskaði eftir því við byggðarráð að fá að koma til fundar við ráðið og gera grein fyrir sinni afstöðu sem snýr að uppbyggingu aðstöðu fyrir slökkviliðið á Húsavík. Gaukur Hjartarson, skipulags- og byggingafulltrúi kemur einnig til til umræðnanna.
Í ljósi nýjustu upplýsinga um uppbyggingu slökkvistöðvar frá slökkviliðsstjóra leggja Olga og Jónas fram eftirfarandi tillögu:

Sveitarstjóra verði falið að ganga til viðræðna um samning um uppbyggingu slökkvistöðvar og aðstöðu hafna Norðurþings við Trésmiðjuna Rein, m.t.t. könnunarviðræðna þar sem engin tilboð bárust í verkið í opinberu útboði. Drög að samningi verði lagt til endanlegrar ákvörðunartöku í framkvæmdanefnd.

Jónas og Olga greiddu atkvæði með tillögunni. Óli greiddi atkvæði á móti.


Óli óskar bókað:
Fyrir liggur að útboð á byggingu slökkvistöðvar hefur farið fram án þess að tilboð hafi borist. Að ganga til samninga á þessum tímapunkti telur undirritaður ekki verjandi. Um er að ræða verðhugmyndir frá verktaka sem fengnar eru að loknu útboði þar sem ekkert tilboð barst, um verð sem er yfir kostnaðaráætlun og að auki með nokkru fráviki frá upphaflegum útboðsforsendum. Þá liggja ekki fyrir fullnægjandi upplýsingar um fýsileika annarra valkosta. Við blasir þó að húsnæðismál slökkvistöðvar þarf að leysa svo fljótt sem forsendur verða til. Áfram þarf því að vinna að málinu hratt og vel og leggja valkostina fyrir á ný til ákvörðunar þegar fullnægjandi upplýsingar hafa komið fram um alla raunhæfa kosti í stöðunni, hvort heldur sem boðið verður út á ný eða farið í aðra valkosti ef þeir reynast fýsilegir.


Gunnlaugur vék af fundi undir þessum lið.

Skipulags- og framkvæmdaráð - 1. fundur - 26.06.2018

Á 252. fundi byggðarráðs Norðurþings var eftirfarandi bókað;

Í ljósi nýjustu upplýsinga um uppbyggingu slökkvistöðvar frá slökkviliðsstjóra leggja Olga og Jónas fram eftirfarandi tillögu: Sveitarstjóra verði falið að ganga til viðræðna um samning um uppbyggingu slökkvistöðvar og aðstöðu hafna Norðurþings við Trésmiðjuna Rein, m.t.t. könnunarviðræðna þar sem engin tilboð bárust í verkið í opinberu útboði. Drög að samningi verði lagt til endanlegrar ákvörðunartöku í framkvæmdanefnd.
Jónas og Olga greiddu atkvæði með tillögunni. Óli greiddi atkvæði á móti.

Óli óskar bókað: Fyrir liggur að útboð á byggingu slökkvistöðvar hefur farið fram án þess að tilboð hafi borist. Að ganga til samninga á þessum tímapunkti telur undirritaður ekki verjandi. Um er að ræða verðhugmyndir frá verktaka sem fengnar eru að loknu útboði þar sem ekkert tilboð barst, um verð sem er yfir kostnaðaráætlun og að auki með nokkru fráviki frá upphaflegum útboðsforsendum. Þá liggja ekki fyrir fullnægjandi upplýsingar um fýsileika annarra valkosta. Við blasir þó að húsnæðismál slökkvistöðvar þarf að leysa svo fljótt sem forsendur verða til. Áfram þarf því að vinna að málinu hratt og vel og leggja valkostina fyrir á ný til ákvörðunar þegar fullnægjandi upplýsingar hafa komið fram um alla raunhæfa kosti í stöðunni, hvort heldur sem boðið verður út á ný eða farið í aðra valkosti ef þeir reynast fýsilegir. Gunnlaugur vék af fundi undir þessum lið.
Legið hefur fyrir um langa hríð að nauðsynlegt er að byggja upp aðstöðu fyrir slökkvilið Norðurþings á Húsavík sem og aðstöðu fyrir ört vaxandi umsvif hafnarreksturs sveitarfélagsins. Útboð Eignasjóðs Norðurþings á verkinu sem byggja á upp við Norðurgarð 5 var haldið fyrr í vetur en ekkert tilboð hafði borist fyrir tilsettan tíma þann 7. febrúar sl.

Í ljósi brýnna þarfa og mikilvægra verkefna Slökkviliðs Norðurþings m.a. er lúta að samningi um eldvarnir á lóð BakkiSilicon hf norðan Húsavíkur er ákveðið að nýta heimild í 33. gr laga um opinber innkaup sem kveður á um heimild opinberra aðila til samningskaupa án opinberrar birtingar útboðsauglýsingar í ljósi þess að engin tilboð bárust í verkið. Fyrirliggjandi verksamningur við Trésmiðjuna Rein ehf víkur ekki í verulegum atriðum frá upphaflegum skilmálum útboðsgagna og fjárhæð samningsins er innan ramma fjárheimilda til verksins á árinu 2018. Samningsfjárhæðin að upphæð 247 mkr er tæpum 9 mkr yfir upphaflegri kostnaðaráætlun verksins, sem er innan vikmarka. Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir framlagðan verksamning og felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að ganga frá honum til samræmis við gögn fundarins.




Kolbrún Ada óskar bókað:
Undirrituð, f.h. V-lista í Norðurþingi, ítrekar fyrri bókanir um þetta mál í ljósi þess að forsendur eru allar hinar sömu. Um er að ræða verðhugmyndir frá verktaka sem fengnar eru að loknu útboði þar sem ekkert tilboð barst, um verð sem er yfir kostnaðaráætlun og að auki með nokkru fráviki frá upphaflegum útboðsforsendum. Því væri fýsilegt að bjóða verktökum að gera tilboð á sömu forsendum og bera saman tilboðin. Áfram þarf að vinna að málinu hratt og vel og leggja valkostina fyrir á ný til ákvörðunar þegar fullnægjandi upplýsingar hafa komið fram. Þar sem upphaf verkáætlunar er september 2018 ætti þessi skoðun ekki að tefja framkvæmdir.

Kolbrún Ada Gunnarsdóttir.

Skipulags- og framkvæmdaráð - 32. fundur - 21.05.2019

Ragnar Bjarnason frá Verkís, eftirlitsmaður með byggingu slökkvistöðvar, kemur á fundinn og kynnir stöðu mála.
Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar Ragnari fyrir kynninguna. Ráðið ítrekar að verkið verði áfram unnið samkvæmt verksamningi.