Fara í efni

Skipulags- og framkvæmdaráð

1. fundur 26. júní 2018 kl. 14:15 - 17:30 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Silja Jóhannesdóttir formaður
  • Örlygur Hnefill Örlygsson varaformaður
  • Kolbrún Ada Gunnarsdóttir aðalmaður
  • Heiðar Hrafn Halldórsson aðalmaður
  • Hjálmar Bogi Hafliðason aðalmaður
  • Kristján Friðrik Sigurðsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfulltrúi
  • Gunnar Hrafn Gunnarsson framkv.- og þjónustufulltrúi
  • Berglind Jóna Þorláksdóttir Ritari
  • Sigurdís Sveinbjörnsdóttir Ritari
Fundargerð ritaði: Berglind Jóna Þorláksdóttir skrifstofu- og skjalastjóri
Dagskrá

1.Breyting á Aðalskipulagi Norðurþings vegna efnistökusvæða

Málsnúmer 201806114Vakta málsnúmer

Ráðgjafafyrirtækið Alta hefur unnið tillögu að skipulags- og matslýsingu fyrir breytingum aðalskipulags Norðurþings 2010-2030 vegna fjögurra nýrra efnistökusvæða. Unnið er að því að setja þessi efnistökusvæði inn í aðalskipulag Norðurþings að beiðni Vegagerðarinnar. Efni hefur áður verið tekið úr þessum námum og þeim svo lokað. Nú er í undirbúningi að opna þær aftur. Efnitsökusvæðin eru við Hólssel, Norðmel og Vestari Tjaldstæðisás við Hólsfjallaveg og það fjórða við Kjalarás á norðanverðri Melrakkasléttu.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við byggðaráð í umboði sveitarstjórnar að skipulagslýsingin verði kynnt samkvæmt ákvæðum skipulagslaga.

2.Breyting á aðalskipulagi Höfða vegna fyrirhugaðar hótelbyggingar

Málsnúmer 201805009Vakta málsnúmer

Nú er lokið kynningu skipulagslýsingar fyrir breytingar aðalskipulags og deiliskipulags vegna fyrirhugaðrar hótelbyggingar á Húsavíkurhöfða. Umsagnir bárust frá Vegagerðinni, Minjastofnun, Skipulagsstofnun og Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra.

1) Vegagerðin gerir ekki athugasemdir við skipulagslýsinguna, en veltir upp möguleikum á að samtvinna inn í breytingu á aðalskipulagi nýjum efnistökusvæðum og mögulegum vegtengingum frá Þjóðvegi 85 að tjaldsvæði á Húsavík.

2) Minjastofnun gerir ekki athugasemd við skipulagslýsinguna.

3) Skipulagsstofnun telur ekki tilefni til að gefa umsögn um efni fyrirhugaðra skipulagsbreytinga á þessu stigi.

4) Heilbrigðiseftirlit gerir ekki athugasemdir við skipulagslýsinguna.

Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar umsagnir. Ráðið telur ekki heppilegt að samtvinna óskildar breytingar aðalskipulags inn í breytingu vegna fyrirhugaðrar hótelbyggingar. Ráðið felur skipulagsráðgjafa að vinna tillögu að aðalskipulagsbreytingu.

3.Breyting á deiliskipulagi Höfða vegna fyrirhugaðar hótelbyggingar

Málsnúmer 201805010Vakta málsnúmer

Nú er lokið kynningu skipulagslýsingar vegna breytingar aðalskipulags og deiliskipulags vegna fyrirhugaðrar hótelbyggingar á Húsavíkurhöfða. Umsagnir bárust frá Vegagerðinni, Minjastofnun, Skipulagsstofnun og Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra.

1) Vegagerðin gerir ekki athugasemdir við skipulagslýsinguna, en veltir upp möguleikum á að samtvinna inn í breytingu á aðalskipulagi nýjum efnistökusvæðum og mögulegum vegtengingum frá Þjóðvegi 85 að tjaldsvæði á Húsavík.

2) Minjastofnun gerir ekki athugasemd við skipulagslýsinguna.

3) Skipulagsstofnun telur ekki tilefni til að gefa umsögn um efni fyrirhugaðra skipulagsbreytinga á þessu stigi.

4) Heilbrigðiseftirlit gerir ekki athugasemdir við skipulagslýsinguna.
Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar fram komnar umsagnir og felur skipulagsráðgjafa að halda áfram vinnu við tillögu að breytingu deiliskipulags.

4.Deiliskipulag Fjöll 2, Kelduhverfi

Málsnúmer 201805003Vakta málsnúmer

Nú er lokið kynningu skipulagslýsingar vegna gerðar deiliskipulags fyrir frístundabyggð við Fjöll í Kelduhverfi. Umsagnir bárust frá Vegagerðinni, Minjastofnun, Skipulagsstofnun og Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra.

1) Vegagerðin gerir ekki athugasemdir við skipulagslýsinguna en óskar eftir að fá skipulagstillöguna til umsagnar á síðari stigum.

2) Minjastofnun bendir á að Minjastofnun Íslands er nú réttur umsagnarðaili vegna menningarminja en ekki Fornleifavernd ríkisins. Stofnunin minnir á að fornleifaskráning skal vera skv. stöðlum Minjastofnunar og skulu útlínur skráðra fornleifa koma fram á skipulagsuppdrætti. Tillaga að deiliskipulagi þarf að koma til umsagnar hjá minjaverði.

3) Skipulagsstofnun bendir á að frístundahúsasvæði H4 í aðalskipulagi er 40 ha fyrir allt að 10 frístundahús. Skipulagslýsing gengur út frá að deiliskipulagðar verði 10 frístundahúsalóðir út úr 19,7 ha svæði úr landi Fjalla 2 og þar með fyllt út í heildarfjölda frístundahúsa á hálfu skipulagssvæðinu. Gera þarf sérstaka grein fyrir þessu í skipulagstillögu og upplýsa eigendar Fjalla 1. Gera þarf grein fyrir líklegum umhverfisáhrifum við framfylgd skipulagsins skv. gr. 5.4 í skipulagsreglugerð. Minnt er á að tímafrestir eftir samþykkt deiliskipulags í 42. gr. skipulagslaga hafa breyst og fyrrum Fornleifavernd Íslands heitir nú Minjastofnun Íslands.

4) Heilbrigðiseftirlit gerir ekki athugasemdir við skipulagslýsinguna.
Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar fram komnar umsagnir. Ráðið vísar þeim til skoðunar hjá landeiganda og skipulagsráðgjafa.

5.Deiliskipulag Núpsmýri í Öxarfirði

Málsnúmer 201803144Vakta málsnúmer

Nú er lokið kynningu skipulagslýsingar vegna deiliskipulags fyrir fiskeldi í Núpsmýri. Umsagnir bárust frá Náttúrufræðistofnun (tölvupóstur 25. júní), Orkustofnun (tölvupóstur 7. maí), Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra (bréf dags. 22. maí) , Minjastofnun (bréf dags. 18. maí), Matvælastofnun (tölvupóstur 29. maí), Skipulagsstofnun (bréf dags. 30. maí), Vegagerðinni (bréf dags. 31. maí), Umhverfisstofnun (bréf dags. 29. maí)og Gunnari Einarssyni og fjölskyldu á Daðastöðum (bréf dags. 30. maí).
1) Náttúrufræðistofnun bendir á að í skipulags- og matslýsingu sé lítið fjallað um hvar áhersla verði í umhverfismati. Sérstaklega hefði verið rétt að horfa til þátta sem ástæða væri til að skoða m.t.t. rekstrar fiskeldisstöðvar. M.a. sé í lögum um náttúruvernd nr. 60/2013 að finna ákvæði sem eru leiðbeinandi um hvernig ber að nálgast vernd náttúruminja. Náttúrufræðistofnun leggur áherslu á að í allri skipulagsvinnu sé skoðað hvernig viðkomandi skipulag samræmist almennum markmiðum náttúruverndarlaga. Einnig þarf sérstaklega að huga að einstökum greinum laganna s.s. gr. 6-12 um meginreglur, 14. gr. um hlutverk náttúruverndarnefnda, kafla IV um almannarétt, útivist og umgengni, Kafla IX um friðun vistkerfa, vistgerða og tegunda, 61. gr. um sérstaka vernd vistkerfa, jarðminja o.fl. og 63. gr. um framandi lífverur og svo kafla XII um skipulagsgerð, framkvæmdir og fleira. Náttúrufræðistofnun leggur áherslu á að allar ákvarðanir í skipulagsvinnu byggi á sem bestum þekkingargrunni hvað varðar náttúrufar og alltaf sé leitað leiða til að koma í veg fyrir neikvæð áhrif á náttúruna.

2) Orkustofnun gerir ekki athugasemdir við skipulags- og matslýsingu.

3) Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra gerir ekki athugasemdir við skipulags- og matslýsingu.

4) Minjastofnun telur að skráðum fornleifum stafi ekki bein hætta af fyrirhuguðum framkvæmdum á lóðinni. Stofnunin telur þó mikilvægt að fimm skráðar tóftir í landi Daðastaða séu merktar á meðan á framkvæmdum stendur til að koma í veg fyrir að þær raskist vegna vangár. Útlínur allra uppmældra minja þurfa að koma fram á skipulagsuppdrætti og deiliskipulagstillagan þarf að koma til umsagnar hjá Minjastofnun.

5) Matvælastofnun gerir ekki athugasemdir við skipulags- og matslýsingu.

6) Skipulagsstofnun telur tilefni til að afla umsagnar Náttúrufræðistofnunar um skipulagslýsingu vegna nálægðar skipulagssvæðis við votlendi Öxarfjarðar. Samráð skal haft við almenning og aðra hagsmunaaðila við mótun tillögunnar sbr. gr. 5.1.2 í skipulagsreglugerð. Í lýsingu vantar að gera grein fyrir þeim umhverfisþáttum og áhrifum sem lagt verður mat á við gerð deiliskipulagstillögunnar.

7) Vegagerðin minnir á að sýna þurfi á uppdrætti veghelgunarsvæði sem er 30 m frá miðlínu Norðausturvegar. Eins fer Vegagerðin fram á að fá skipulagið sent til umsagnar á öllum stigum skipulagsferils.

8) Umhverfisstofnun minnir á ákvæði skipulagsreglugerðar (gr. 5.3.2.14) um að ekki skuli reisa mannvirki nær vötnum, ám eða sjó en 50 m. Mikilvægt er að ekki fari mengun frá stöðinni í Núpsvatn og ennig er mikilvægt að framkvæmdir við fiskeldi fari ekki nær Núpsvatni en 50 m. Bent er á að í nágrenni stöðvarinnar er mikið um mýrlendi og mikilvægt að vatnsstaða á votlendissvæðinu raskist ekki við áætlaðar framkvæmdir. Skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd nýtur votlendi 20.000 m² að flatarmáli og stærri sem og stöðuvötn og tjarnir 1.000 m² að flatarmáli eða stærri sérstakrar verndar og ber að forðast röskun þeirra. Öll fráveita skal vera skv. reglugerð um fráveitur og skólp nr. 798/1999 og mikilvægt að fjallað sé um fráveitu með skýrum hætti í deiliskipulagstillögu. Mikilvægt er að fjallað verði um settjarnir í umhverfisskýrslu væntanlegs deiliskipulags. Loks bendir stofnunin á mikilvægi þess að fram komi áætlanir um það hvernig grófhreinsun á affalli frá nýjum kerjum verði háttað.

9) Gunnar Einarsson og fjölskylda á Daðastöðum gera ýmsar athugasemdir við fiskeldi í Núpsmýri í bréfi sínu til Norðurþings.
9.1. Gunnar telur að Núpi tilheyri ekki nema helmingur af því vatni sem óhætt sé að dæla upp úr Núpsmýri, á móti Daðastöðum. Því sé ekki réttlætanlegt að fiskeldi í landi Núps nýti meira en helming þess grunnvatns sem óhætt sé að taka án röskunar á grunnvatnsstöðu.
9.2. Gunnar gagnrýnir að ekki hafi verið viðhaft samráð við eigendur Daðastaða við kynningu skipulags- og matslýsingarinnar og raunar önnur leyfisveitingarferli vegna fiskeldis í Núpsmýri.
9.3. Gunnar telur að ekki sé fullnægjandi meðhöndlun við losun úrgangs frá fiskeldinu í dag og því ekki að treysta að hún verði betri við stækkaða stöð. Lágmark sé að Íslandsbleikja sýni fram á að fyrirtækið ráði við úrganginn við núverandi stöð áður en þeir fái heimild til að stækka.
9.4. Gunnar telur að fyrirtækið losi saltmengað affallsvatn frá sveltikerjum út í Núpsvatn sem hann telur skýrt brot á 83. gr. vatnalaga.
9.5. Gunnar telur að núverandi vatnstaka úr mýrinni hafi valdið gríðarlegum breytingum á vatnsbúskap svæðisins. Augljóst sé af ummerkjum að grunnvatnsstaða í Núpsmýri er lægri en náttúruleg staða. Áður voru í mýrinni ótal uppsprettur, lækir og votlendi með stararbreiðum. Forarblautt á stórum svæðum. Kjörlendi fyrir fjölbreytt lífríki. Nú er hinsvegar vatn horfið úr þessari fyrrum forblautu mýri. Afleiðingar lækkunar grunnvatns koma m.a. niður á búskap á Daðastöðum.
9.6. Gunnar krefst þess að ferli við leyfisveitingu til stækkunar fiskeldis í Núpsmýri verði stöðvað og mat á umhverfisáhrifum verði tekið upp aftur. Ennfremur verði gerð umfangsmikil úttekt á samspili vatns og dælingar af óháðum sérfræðingum.

Skipulags- og framkvæmdaráð Norðurþings þakkar fram komnar umsagnir og athugasemdir. Ráðið hvetur framkvæmdaðila og skipulagsráðgjafa til að gaumgæfa vel þær athugasemdir sem fram hafa komið á þessu stigi og taka mið af þeim við áform um nýtingu svæðisins og deiliskipulagningu þess.

6.Umsókn um skiptingu lóðarinnar Kotasæla við Gestahús cottages.is

Málsnúmer 201806013Vakta málsnúmer

Snædís Gunnlaugsdóttir, f.h. Gestahús Cottages.is, óskar eftir að stofnuð verði lóð út úr lóðinni Kotasælu við Kaldbak þannig að hús nr. 17, Ólafsvellir. verði á sjálfstæðri lóð. Meðfylgjandi erindi er rissmynd af fyrirhugaðri lóð.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við byggðaráð, í sumarleyfisumboði sveitarstjórnar, að stofnuð verði sjálfstæð lóð umhverfis Ólafsvelli á grundvelli framlagðrar rissmyndar.

7.Sandfell ehf sækir um stöðuleyfi fyrir skála sem þegar standa við Dvergabakka 4

Málsnúmer 201806068Vakta málsnúmer

Sandfell ehf sækir um stöðuleyfi fyrir átta vinnubúðaskála við Dvergabakka. Skálarnir standa nú þegar á svæðinu skv. samkomulagi Norðurþings við PCC en óskað er eftir samþykki fyrir því að þeir fái að standa þarna í a.m.k. tvö ár í viðbót, til 1. júlí 2020. Meðfylgjandi erindi er rissmynd sem sýnir staðsetningu þeirra skála sem Sandfell óskar að fái að standa áfram.
Lóðirnar að Dvergabakka eru bundnar í þinglýstum samningi milli PCC og Norðurþings til nokkurra mánaða í viðbót. Norðurþing er því ekki í aðstöðu til að veita aðila öðrum en PCC stöðuleyfi fyrir mannvirkjum á svæðinu nema með formlegu samkomulagi við lóðarhafa. Skipulags- og framkvæmdaráð er þar fyrir utan ekki reiðubúið að ráðstafa byggingarlóðum við Dvergabakka sem langtíma geymslusvæði fyrir vinnubúðir í óverulegri notkun. Ráðið leggst því gegn erindinu.

8.Norðlenska sækir um stöðuleyfi fyrir 44 manna svefnbúðir norðan við sláturhús

Málsnúmer 201806091Vakta málsnúmer

Egill Olgeirsson, f.h. Norðlenska ehf, óskar eftir stöðuleyfi fyrir 44 manna svefnbúðum fyrir starfsfólk í sláturtíð norðanvert á lóð fyrirtækisins við Þingeyjarsýslubraut. Um er að ræða tvo skála á einni hæð, eins og nánar er sýnt á afstöðumynd. Ljóst er að ekki vinnst tími til að setja upp svefnskálana fyrir sláturtíð innan byggingarreits í nýlega samþykktu deiliskipulagi svæðisins. Því er þess óskað að fá leyfi til að setja þá niður norðan núverandi mannvirkja til bráðabirgða.
Meirihluti skipulags- og framkvæmdaráðs felst fyrir sitt leyti á uppsetningu svefnbúða innan lóðarinnar og á stöðuleyfi fyrir svefnskálunum skv. framlagðri afstöðumynd til loka apríl 2019. Stöðuleyfi er þó háð yfirferð eldvarnareftirlits vegna brunamála.

Kolbrún Ada og Silja greiða atkvæði á móti og vilja að gildandi skipulagi sé fylgt.

9.Umsókn um byggingu bátaskýla á Harðbak, Melrakkasléttu

Málsnúmer 201805315Vakta málsnúmer

Eigendur Harðbaks I og Harðbaks II óska eftir leyfi til að reisa tvö bátaskýli við gamalt bátalægi suðvestur af gömlu íbúðarhúsum við Harðbak. Meðfylgjandi erindi er rissmynd af fyrirhugaðri staðsetningu bátaskýlanna. Ekki liggja fyrir fullbúnar teikningar af mannvirkjum en þær verða lagðar fram ef sveitarfélagið telur líkur á að unnt sé að veita byggingarleyfi á þessum stað.
Harðbakur er á svæði á náttúruminjaskrá auk þess sem fyrirhugð mannvirki standa nær vatnsbakka en skipulagsreglugerð (gr. 5.3.2.14) gerir ráð fyrir. Því telur skipulags- og framkvæmdaráð nauðsynlegt að afla umsagnar Umhverfisstofnunar og skipulagsstofnunar um staðsetningu mannvirkja áður erindi er svarað. Ráðið felur skipulags- og byggingarfulltrúa að afla umsagna Umhverfisstofnunar og Skipulagsstofnunar vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar. Umsækjendur þurfa þar fyrir utan að skila inn til skipulagsfulltrúa umsögn minjavarðar Norðurlands eystra um staðsetningu húsa áður en byggingarleyfi verði veitt.

10.Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra óskar eftir umsögn um rekstrarleyfi fyrir Áin gistihús

Málsnúmer 201805114Vakta málsnúmer

Óskað er umsagnar um leyfi til sölu gistingar í flokki III í gistiskála á lóð úr landi Krossdals.
Skipulags- og framkvæmdaráð harmar það að hvorki þakform né litur á umræddu húsi er til samræmis við samþykkt byggingarleyfi eða ákvæði deiliskipulags þrátt fyrir að nokkur ár séu síðan húsið var reist. Ráðið leggst því gegn veitingu rekstrarleyfis til sölu gistingar í húsinu.

11.Fensalir ehf óska eftir stækkun á þegar útgefnu rekstrarleyfi fyrir Skjálfanda Apartments

Málsnúmer 201806054Vakta málsnúmer

Óskað er eftir auknu rekstrarleyfi til sölu gistingar að Stóragarði 13. Um er að ræða nýlega innréttaða íbúðareiningu sem frá er gengin skv. samþykktum uppdráttum.
Skipulags- og framkvæmdaráð heimilar skipulags- og byggingarfulltrúa að veita jákvæða umsögn um erindið þegar öryggisúttekt hefur átt sér stað.

12.Gistiheimili Húsavíkur ehf sækir um breytingu á útgefnu rekstrarleyfi fyrir Hótel Húsavíkurhöfða

Málsnúmer 201806057Vakta málsnúmer

Óskað er eftir auknu leyfi til sölu gistingar með áfengisveitingum í Húsavík Cape Hotel að Höfða 24b á Húsavík.
Örlygur Hnefill vék af fundi við umfjöllun og afgreiðslu þessa erindis.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur skipulags- og byggingarfulltrúa að veita jákvæða umsögn um erindið.

13.Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra óskar eftir umsögn um rekstrarleyfi fyrir Grímsstaði á Fjöllum

Málsnúmer 201806080Vakta málsnúmer

Óskað er umsagnar um endurnýjun leyfis til sölu gistingar í Grímstungu 2.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur skipulags- og byggingarfulltrúa að veita jákvæða umsögn um erindið.

14.Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra óskar eftir umsögn um rekstrarleyfi, Saltvík ehf.

Málsnúmer 201710024Vakta málsnúmer

Óskað er umsagnar um heimild til gistisölu í flokki III í gamla Saltvíkurbænum og nýjum gistiskála.
Skipulags- og framkvæmdaráð sér sér ekki fært að veita jákvæða umsögn um sölu gistingar í gamla Saltvíkurbænum þar sem ekki liggja fyrir fullnægjandi teikningar sem gera grein fyrir notkun hússins og eldvörnum þess.
Á hinn bóginn veitir ráðið jákvæða umsögn um rekstrarleyfi til sölu gistingar í nýlega innréttuðum gistiskála með sjö gistiherbergjum.

Hjálmar vék af fundi undir þessum lið.

15.Álit vegna íbúða við Útgarð 4-8

Málsnúmer 201806116Vakta málsnúmer

Fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggur álit Hilmars Gunnlaugssonar hrl. er varðar framsal lóðarréttinda og lágmarksaldur íbúa fyrirhugaðs fjölbýlishúss við Útgarð 4-8 á Húsavík. Óskaði sveitarstjóri álits þessa í kjölfar fyrirspurnar um málið í byggðarráði frá því 25. maí sl., þ.e. hvernig túlka beri ákvæði lóðarleigusamnings og deiliskipulags m.a. um aldursskilyrði fyrir búsetu að Útgarði 4-8 á Húsavík. Samandregnar niðurstöður álitsins eru þær að heimilt sé að framselja þau réttindi sem nefnd eru Útgarður 6 og Útgarður 8, Húsavík, eins og þau eru í dag (bílakjallari og lóðarréttindi). Er framsal beinlínis heimilað í lóðarleigusamningi. Þá er það álit Hilmars að heimilt sé að miða lágmarksaldur við 55 ára í þeim íbúðum sem fyrirhugað er að byggja á lóðinni að Útgarði 4-8, Húsavík. Rétt þykir hinsvegar að benda á að tilefni kann að vera til að taka af öll tvímæli um lágmarskaldurinn í eignaskiptayfirlýsingu, þar sem lóðarleigusamningur talar um íbúðir aldraðra en framkvæmd hefur alla tíð verið með hætti sem notar annað viðmið um lög um málefni aldraðra.
Álit lagt fram.


Minnihluti óskar bókað;
Samfélagsgerðin er að breytast. Fólk lifir lengur og hlutfallslega mun öldruðum fjölga talsvert. Svæðið við Útgarð er skipulagt fyrir eldri borgara enda í námunda við miðbæ og hvers konar þjónustu, sér í lagi heilbrigðis- og stoðþjónustu. Stefnan er mörkuð í skipulaginu og fyrir því eru ákveðnar ástæður. Sveitarfélögin hafa skyldum að gegna gagnvart þessum aldurshópi, nú og til lengri tíma litið. Fulltrúar minnihlutans telja að fyrirhuguð áform fari nokkuð út fyrir þá stefnu sem samfélagið hefur sett sér.
Það væri því um stefnubreytingu að ræða að leyfa, sé það heimilt, framsal á lóð sem Leigufélag Hvamms hefur til umráða til þriðja aðila. Enda markmið áhugasamra aðila sem vilja byggja þar upp ekki í samræmi við stefnuna. Vert er að benda á aðrar lausnir enda fagnaðarefni að áhugasamir aðilar vilja byggja íbúðarhúsnæði, s.s. í Grundargarði eða á Skemmureit við Vallholtsveg.
Töluverðir misbrestir virðast vera í þeirri vinnu sem unnin hefur verið í málinu fram að þessu. Sem dæmi má nefna þegar að fulltrúar meirihlutans, á byggðráðsfundi 25. maí síðastliðinn bókuðu að Skipulags- og umhverfisnefnd hefði þegar farið yfir fyrirhuguð byggingaráform. Svo var ekki og því farið með rangt mál. Þessi fundur er að fjalla um málið nú mánuði síðar en þessi bókun var gerð.

Hjálmar Bogi Hafliðason
Heiðar Hrafn Halldórsson
Kristján Friðrik Sigurðsson

16.Dagur Ingi óskar eftir að fá að stækka bílastæði við Túngötu 7

Málsnúmer 201806094Vakta málsnúmer

Óskað er eftir samþykki fyrir stækkun bílastæðis við Túngötu 7 þannig að það nái alveg að lóðarmörkum að Túngötu 9 eins og nánar er sýnt á rissaðri afstöðumynd.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir stækkun bílastæðisins. Samráð verði haft við verkstjóra áhaldahúss vegna niðurtektar kantsteins.

17.Uppsögn á gámageymslum

Málsnúmer 201805241Vakta málsnúmer

Vegna undirbúnings á uppbyggingu nýrrar vegtengingar frá Höfða niður á hafnarsvæði var óskað eftir því að hafnaryfirvöld létu færa geymslugáma sem staðsettir eru í fyrirhugðuðu vegstæði. Óskað var eftir því að þeir aðilar sem hafa verið með umrædda geymslugáma færðu gáma sína á þar til gert gámageymslusvæði suður í Haukamýri.

Eigendur gámanna hafa mótmælt tilfærslu þessari og fara fram á að þeim verði úthlutað framtíðarsvæði á hafnarvæðinu undir umrædda geymslugáma. Vilja þeir upplýsa Hafnarstjóra að innihald þessara gáma séu veiðarfæri og annar búnaður sem tilheyrir útgerð fiskibáta og því algjörlega óboðlegt að aka um eins kílómetra leið, jafnvel margar ferðir á dag vegna útgerðar þeirra og sjósóknar.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til að gámageymslur verði tímabundið færðar á norðurfyllingu gegnt Eimskip þangað til að framtíðarlausn finnst á málinu.

18.Grjótvörn við Suðurfyllingu

Málsnúmer 201701013Vakta málsnúmer

Send var út verðkönnun fyrir verkð "Sjóvörn sunnan hafnar" Tveir verktakar sendu inn tölur í verkið.
Óskað er eftir samþykki nefndarinnar að ganga til samninga við lægstbjóðanda.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir að ganga til samninga við lægstbjóðanda.

19.Uppbygging slökkvistöðvar

Málsnúmer 201701015Vakta málsnúmer

Á 252. fundi byggðarráðs Norðurþings var eftirfarandi bókað;

Í ljósi nýjustu upplýsinga um uppbyggingu slökkvistöðvar frá slökkviliðsstjóra leggja Olga og Jónas fram eftirfarandi tillögu: Sveitarstjóra verði falið að ganga til viðræðna um samning um uppbyggingu slökkvistöðvar og aðstöðu hafna Norðurþings við Trésmiðjuna Rein, m.t.t. könnunarviðræðna þar sem engin tilboð bárust í verkið í opinberu útboði. Drög að samningi verði lagt til endanlegrar ákvörðunartöku í framkvæmdanefnd.
Jónas og Olga greiddu atkvæði með tillögunni. Óli greiddi atkvæði á móti.

Óli óskar bókað: Fyrir liggur að útboð á byggingu slökkvistöðvar hefur farið fram án þess að tilboð hafi borist. Að ganga til samninga á þessum tímapunkti telur undirritaður ekki verjandi. Um er að ræða verðhugmyndir frá verktaka sem fengnar eru að loknu útboði þar sem ekkert tilboð barst, um verð sem er yfir kostnaðaráætlun og að auki með nokkru fráviki frá upphaflegum útboðsforsendum. Þá liggja ekki fyrir fullnægjandi upplýsingar um fýsileika annarra valkosta. Við blasir þó að húsnæðismál slökkvistöðvar þarf að leysa svo fljótt sem forsendur verða til. Áfram þarf því að vinna að málinu hratt og vel og leggja valkostina fyrir á ný til ákvörðunar þegar fullnægjandi upplýsingar hafa komið fram um alla raunhæfa kosti í stöðunni, hvort heldur sem boðið verður út á ný eða farið í aðra valkosti ef þeir reynast fýsilegir. Gunnlaugur vék af fundi undir þessum lið.
Legið hefur fyrir um langa hríð að nauðsynlegt er að byggja upp aðstöðu fyrir slökkvilið Norðurþings á Húsavík sem og aðstöðu fyrir ört vaxandi umsvif hafnarreksturs sveitarfélagsins. Útboð Eignasjóðs Norðurþings á verkinu sem byggja á upp við Norðurgarð 5 var haldið fyrr í vetur en ekkert tilboð hafði borist fyrir tilsettan tíma þann 7. febrúar sl.

Í ljósi brýnna þarfa og mikilvægra verkefna Slökkviliðs Norðurþings m.a. er lúta að samningi um eldvarnir á lóð BakkiSilicon hf norðan Húsavíkur er ákveðið að nýta heimild í 33. gr laga um opinber innkaup sem kveður á um heimild opinberra aðila til samningskaupa án opinberrar birtingar útboðsauglýsingar í ljósi þess að engin tilboð bárust í verkið. Fyrirliggjandi verksamningur við Trésmiðjuna Rein ehf víkur ekki í verulegum atriðum frá upphaflegum skilmálum útboðsgagna og fjárhæð samningsins er innan ramma fjárheimilda til verksins á árinu 2018. Samningsfjárhæðin að upphæð 247 mkr er tæpum 9 mkr yfir upphaflegri kostnaðaráætlun verksins, sem er innan vikmarka. Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir framlagðan verksamning og felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að ganga frá honum til samræmis við gögn fundarins.
Kolbrún Ada óskar bókað:
Undirrituð, f.h. V-lista í Norðurþingi, ítrekar fyrri bókanir um þetta mál í ljósi þess að forsendur eru allar hinar sömu. Um er að ræða verðhugmyndir frá verktaka sem fengnar eru að loknu útboði þar sem ekkert tilboð barst, um verð sem er yfir kostnaðaráætlun og að auki með nokkru fráviki frá upphaflegum útboðsforsendum. Því væri fýsilegt að bjóða verktökum að gera tilboð á sömu forsendum og bera saman tilboðin. Áfram þarf að vinna að málinu hratt og vel og leggja valkostina fyrir á ný til ákvörðunar þegar fullnægjandi upplýsingar hafa komið fram. Þar sem upphaf verkáætlunar er september 2018 ætti þessi skoðun ekki að tefja framkvæmdir.

Kolbrún Ada Gunnarsdóttir.

20.Fyrirspurn um raforkukaup.

Málsnúmer 201806047Vakta málsnúmer

Fyrir liggur erindi frá Íslenskri Orkumiðlun ehf. varðandi raforkukaup sveitarfélagsins.

Fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggur að taka ákvörðun um hvort bjóða skuli út raforkukaup sveitarfélagsins.
Einnig hvort ráðast skuli í stefnumótun varðandi útboð og kaup á raforku til sveitarfélagsins, umfram það sem almennt er kveðið á um varaðndi opinber innkaup.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að svara erindi Orkumiðlunar. Einnig er framkvæmda- og þjónustufulltrúa falið að skoða möguleika á útboði og forsendum til þess og leggja fyrir ráðið að nýju.

21.Gjaldskrá tjaldsvæðis á Húsavík 2018

Málsnúmer 201806106Vakta málsnúmer

Verðskrá tjaldsvæðis á Húsavík hefur ekki tekið breytingum síðan 2016, enda vísitala neysluverðs ekki mikið hreyfst á þessu tímabili.
Gistináttagjald sem rennur til ríkisins hefur hins vegar hækkað um 200% á milli áranna 2017 og 2018 (úr kr. 100 í kr. 300).

Fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggur að taka afstöðu til þess hvort gjaldskrá tjaldsvæðis á Húsavík standi óbreytt fyrir starfsárið 2018, eða hvort gera skuli ráð fyrir breytingum á henni og þá með hvaða hætti.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til að verðskrá verði uppfærð í takti við hækkun gistináttagjalds og virðisaukaskattinn af því.

22.Veiðileyfi göngusilungs í sjó fyrir landi Húsavíkur 2018

Málsnúmer 201805252Vakta málsnúmer

Eftir útgáfu silungsveiðileyfa fyrir landi Húsavíkur vorið 2017, barst erindi frá veiðifélögum Laxár, Reykjadalsár og Mýrarkvíslar um beiðni um afturköllun útgefinna veiðileyfa. Í kjölfarið skapaðist umræða um umrædd veiðileyfi og hvort sveitarfélagið ætti yfir höfuð að að standa í útgáfu þeirra.

Árlega hafa verið gefin út 10 leyfi til silungsveiði í net fyrir landi Húsavíkur, en fjöldi útgefinna leyfa byggir á fjölda lögbýla í landi Húsavíkur fyir árið 1957 skv. lögum nr. 61 frá 14. júní 2006 um lax- og silungsveiði.
Verð pr. leyfi árið 2017 var kr 20.000, en um helmingur þeirrar upphæðar fékkst endurgreiddur við skil á veiðiskýrslu í lok tímabils.

Fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggur að taka ákvörðun um hvort gefin verði út veiðileyfi til silungsveiði í sjó fyrir landi Húsavíkur árið 2018 og ef svo er, hvernig verðlagningu útgefinna leyfa skuli háttað.
Skipulags- og framkvæmdaráð ákveður að gefin verði út 10 leyfi göngusilungs í sjó fyrir landi Húsavíkur.

Gjald vegna veiðileyfis verði kr. 30.000 og við skil á veiðiskýrslu í lok tímabils fást kr 20.000 endurgreiddar.

23.Skansinn á Hafnarsvæði

Málsnúmer 201709136Vakta málsnúmer

Fyrir liggur tilboð frá Arnhildi Pálmadóttur í hönnun svæðis milli Langaneshúss og Hvalasafns sem nefnt er Skansinn. Samhliða fegrun þessa svæðis er stefnt að því að gera þar minningarreit um skáldkonuna Huldu, en erindi þess efnis var samþykkt í framkvæmdanefd á fyrrihluta árs 2018.

Svæðið sem um ræðir er á forsjá Norðurþings ásamt eigendum þeirra tveggja eigna sem áður eru nefndar.
Lóðahlutdeild þessara aðila er eftirfarandi:
Langanes ehf - 46%
Norðurþing - 42%
Hvalasafnið á Húsavík - 12%

Fyrir liggur óundirrituð viljayfirlýsing um kostnaðarskiptingu verkefnisins m.t.t. eignahlutar, en síðan þá hafa önnur sjónarmið varðandi kostnaðarlega aðkomu að verkefninu skotið upp kollinum.

Taka þarf afstöðu til fyrirliggjandi tilboðs vegna hönnunar á svæðinu.
Fljótlega þarf svo að liggja fyrir ákvörðun um þá kostnaðarskiptingu sem menn sjá fyrir sér varðandi framkvæmdina sjálfa og mögulega verkhlutaskiptingu ef það er eitthvað sem menn vilja skoða.
Skipulags- og framkvæmdaráð hafnar fyrirliggjandi tilboði vegna hönnunar á svæðinu með atkvæðum Kolbrúnar Ödu, Silju og Örlygs.

Heiðar og Hjálmar samþykkja fyrirliggjandi tilboð.

24.Malbikunarframkvæmdir í Norðurþingi sumarið 2018

Málsnúmer 201806112Vakta málsnúmer

Annað sumarið í röð mun malbikunarfyrirtækið Colas Iceland nú setja upp malbikunarstöð hér á Húsavík til þess að mæta þeim framkvæmdum sem verið hafa í gangi undanfarið í tengslum við uppbyggingu á svæðinu. Á síðasta ári voru allar malbikunarframkvæmdir á vegum sveitarfélagsins slegnar út af borðinu og lítið tekið inn af viðhaldsverkefnum við gerð fjárhags- og framkvæmdaáætlunar fyrir árið 2018.
Ástand gatna og gangstétta í sveitarfélaginu gefur þó ekki tilefni til þess að láta eins og stöðin sé ekki fyrir hendi og kostnaðarlegur ávinningur við að nýta veru hennar hér ótvíræður fyrir sveitarfélagið.
Kallað er eftir endurskoðun nefndarinnar á fjárveitingum til aðkallandi verkefna sem snúa að malbikun gatna og gangstétta í sveitarfélaginu öllu.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að kostnaðargreina frekar þær framkvæmdir sem liggur á og leggja fyrir næsta fund ráðsins.

Fundi slitið - kl. 17:30.