Fara í efni

Byggðarráð Norðurþings

416. fundur 05. janúar 2023 kl. 08:30 - 10:30 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Hafrún Olgeirsdóttir formaður
  • Hjálmar Bogi Hafliðason varaformaður
  • Aldey Unnar Traustadóttir aðalmaður
  • Áki Hauksson áheyrnarfulltrúi
  • Benóný Valur Jakobsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Bergþór Bjarnason fjármálastjóri
  • Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Bergþór Bjarnason fjármálastjóri
Dagskrá

1.Úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2022-2023

Málsnúmer 202301006Vakta málsnúmer

Fyrir liggur erindi frá Matvælaráðuneytinu, bréf dagsett þann 12. desember sl. sem barst Norðurþingi eftir áramótin, þar sem fram koma upplýsingar um úthlutun byggðakvóta innan sveitarfélagsins fiskveiðiárið 2022/2023.

Úthlutun til byggðarlaga í Norðurþingi er eftirfarandi:
Kópasker 15 þorskígildistonn (óbreytt á milli ára).
Raufarhöfn 164 þorskígildistonn (aukning um 30 tonn á milli ára).

Sveitarfélögum er gefinn frestur til 13. janúar n.k. til að senda ráðuneytinu tillögur um sérreglur. Tillögur sveitarfélaganna verða síðan til kynningar á vef ráðuneytisins til 23. janúar og í framhaldinu teknar til efnislegrar meðferðar hjá ráðuneytinu.
Byggðarráð samþykkir að óska eftir samsvarandi sérreglum og undanfarin ár sem eru eftirfarandi;

Norðurþing (breyting á viðmiðun um úthlutun, afmörkun landaðs afla, vinnsluskylda innan sveitarfélags).
Ákvæði reglugerðar nr. 1370/2022 gilda um úthlutun byggðakvóta Kópaskers og Raufarhafnar með eftirfarandi breytingum:
a)
Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Skipting þess aflamarks, sem nú kemur í hlut byggðarlags, auk þess aflamarks byggðarlagsins sem kann að vera eftir af úthlutun fyrra fiskveiðiárs, skal að öðru leyti fara fram til einstakra fiskiskipa sem upp- fylla skilyrði 1. gr., sbr. og reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í ein- stökum sveitarfélögum sem ráðuneytið staðfestir samkvæmt 2.-3. gr., eftir því sem við á, og skal skipt hlutfallslega af því aflamarki sem fallið hefur til viðkomandi byggðarlags, miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið innan sveitarfélagsins á tímabilinu 1. september 2021 til 31. ágúst 2022.
b)
Ákvæði 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Afli sem landað er í sveitarfélagi úr fiskiskipum sem ekki eru skráð innan viðkomandi sveitarfélags á sama tíma, telst ekki til landaðs afla samkvæmt 1. mgr.
c)
Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Fiskiskipum er skylt að landa þeim afla sem telja á til byggðakvóta til vinnslu innan sveitarfélagsins á tímabilinu frá 1.september 2022 til 31. ágúst 2023.

Byggðarráð felur sveitarstjóra að koma þessum óskum á framfæri við ráðuneytið.

Undirritaður leggur til að sveitarstjóra verði falið að sækjast eftir auknum byggðakvóta, s.s. á Kópaskeri og Raufarhöfn. Sérstaklega verði hugað að fá byggðakvóta á Húsavík sem er enginn. Óskað verði eftir skýringum á hvers vegna engum byggðakvóta er úthlutað á Húsavík. Hægt er að sækja um í Varasjóð vegna óvæntra áfalla.

Greinargerð:
Dregið hefur úr úthlutun byggðakvóta í sveitarfélaginu. Árið 2014 hurfu um 60% af aflheimildum á Húsavík auk þess sem heimaaðilar seldu kvóta frá byggðalaginu. Það þarf að bregðast við því til að tryggja stöðu sjávarútvegs í sveitarfélaginu.
Eins og segir í frumvarpi um fiskveiðar (lög nr. 116/2006) ; „Ráðherra getur heimilað á grundvelli rökstuddra tillagna sveitarstjórnar að sett verði sérstök skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda í einstökum byggðarlögum er víkja frá eða eru til viðbótar hinum almennu skilyrðum enda séu þau byggð á málefnalegum og staðbundnum ástæðum og í samræmi við hagsmuni viðkomandi byggðarlaga.‟

Virðingafyllst
Hjálmar Bogi Hafliðason

Byggðarráð samþykkir tillögu Hjálmars Boga.

2.Viðræður við Björgu Capital vegna Aðalbrautar 20-22 á Raufarhöfn

Málsnúmer 202112087Vakta málsnúmer

Á 406. fundi byggðarráðs var bókað: Byggðarráð felur sveitarstjóra í samráði við lögfræðing sveitarfélagsins í samningagerðinni að senda fyrirliggjandi samningsdrög og afstöðu sveitarfélagsins til Bjargar Capital ehf.

Fyrir byggðarráði liggur að taka afstöðu til framhalds á sölumálum Aðalbrautar 20-22 á Raufarhöfn.
Byggðarráð metur það svo að ekki verði lengra komist í viðræðum við Björgu Capital ehf. vegna sölu á Aðalbraut 20-22 á Raufarhöfn.
Byggðarráð felur sveitarstjóra í samráði við lögfræðing sveitarfélagsins að upplýsa aðra tilboðsgjafa um þá niðurstöðu og ákveða hver verði næstu skref í sölumálum Aðalbrautar 20-22 á Raufarhöfn.

3.Ósk um heimild til rannsókna á vindauðlindinni í landi Norðurþings

Málsnúmer 202212024Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggja drög að rannsóknarsamningi milli Norðurþings og Landsvirkjunar vegna vindauðlindar norðaustan við Húsavíkurfjall í landi Norðurþings ásamt fylgiskjali með uppdrætti af umræddu landssvæði.
Byggðarráð tók drögin að rannsóknarsamningnum til umfjöllunar og tekur málið til afgreiðslu á næsta fundi þann 12. janúar.

4.Endurnýjun kjarasamningsumboðs og samkomulag um launaupplýsingar

Málsnúmer 202211107Vakta málsnúmer

Á fundi byggðarráðs 24.11.2022 frestaði ráðið afgreiðslu á afstöðu til undirritunar á samkomulagi um sameiginlega ábyrgð sem gert með vísan til ákvæða persónuverndarlaga. Taka skjölin mið af breyttu fyrirkomulagi á upplýsinga- og gagnaöflun í tengslum við gerð kjarasamninga, sem framvegis verður gerð með rafrænum hætti í gegnum gagnalón.

Með fundarboði nú fylgja lokaskjöl vegna málsins ásamt mati persónuverndarfulltrúa Norðurþings á efni samkomulagsins.
Byggðarráð samþykkir samkomulag um sameiginlega ábyrgð og vísar því til samþykktar í sveitarstjórn.

5.Reglur um afslátt af fasteignaskatti 2023

Málsnúmer 202212074Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggja drög að breytingum á reglum um afslátt af fasteignaskatti til tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega og aðila sem misst hafa maka eða sambýling.
Byggðarráð ræddi drög að breytingum á reglum um afslátt af fasteignaskatti til tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega og aðila sem misst hafa maka eða sambýling, þar sem lagt er til hækkun á viðmiðunarfjárhæðum. Ráðið felur sveitarstjóra að uppfæra reglurnar miðað við fyrirliggjandi drög og málið verði tekið fyrir á næsta fundi.

6.Skúlagarður-fasteignafélag ehf. - lausafjárstaða félagsins

Málsnúmer 202105006Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur beiðni um skammtíma fyrirgreiðslu til rekstrar vegna ársins 2022 að upphæð allt að 1 m.kr.
Byggðarráð samþykkir að veita Skúlagarði- fasteignafélagi ehf. skammtíma fyrirgreiðslu um allt að 1 m.kr. sem rúmast innan fjárheimilda ráðsins. Byggðarráð áréttar að unnið verði áfram að sölumálum félagsins.

7.Rekstur Norðurþings 2022

Málsnúmer 202201062Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggja til kynningar útsvarstekjur 2022 og yfirlit um framlög jöfnunarsjóðs vegna ársins 2022.
Lagt fram til kynningar.

8.Rekstur Norðurþings 2023

Málsnúmer 202212086Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur að staðfesta að Norðurþing hafi óbreytta fyrirgreiðslu hjá viðskiptabanka sveitarfélagsins á árinu 2023. Fyrirgreiðsla hefur verið 100 m.kr í formi yfirdráttar á veltureikningi.
Byggðarráð samþykkir óbreytta fyrirgreiðslu hjá viðskiptabanka sveitarfélagsins að upphæð 100 m.kr.

9.Ársrsreikningur Norðurþings 2022

Málsnúmer 202212080Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur til kynningar vinnulag vegna ársreiknings Norðurþings vegna ársins 2022.
Fjármálastjóri fór yfir drög að vinnulagi vegna ársreiknings Norðurþings vegna ársins 2022.

10.Nýir og endurnýjaðir rammasamningar Ríkiskaupa 2022

Málsnúmer 202205111Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur að taka ákvörðun um að segja sig frá rammasamningi RK 12 sem snýr að kaupum sveitarfélagsins á byggingavörum. Samningurinn rann sitt skeið 11 desember sl.
Byggðarráð samþykkir að segja sig úr rammasamning RK-12 um kaup á byggingavörum. Það er mat ráðsins að ekki hafi verið sýnt fram á það með óyggjandi hætti að hagsmunum sveitarfélagsins sé betur borgið innan samningsins.

11.Starfs og kjaranefnd

Málsnúmer 202206021Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggja til kynningar mál frá starfs og kjaranefnd.
Sveitarstjóri fór yfir mál frá starfs- og kjaranefnd sveitarfélagsins.

12.Erindi frá Skotfélagi Húsavíkur

Málsnúmer 202212029Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur viðauki við samstarfssamning sem er í gildi vegna árana 2020-2024 á milli Norðurþings og Skotfélags Húsavíkur. Viðaukinn felur í sér hækkun á framlagi Norðurþings vegna uppbyggingar félagsins um 4 m.kr á tímabilinu.
Byggðarráð samþykkir viðauka við samstarfssamning á milli Norðurþings og Skotfélags Húsavíkur. Viðaukinn felur í sér hækkun á framlagi Norðurþings um 4 m.kr til að koma til móts við kostnað sem fellur til við að koma rafstreng ásamt ljósleiðara á svæði félagsins. Byggðarráð felur sveitarstjóra að undirrita viðaukann.

13.Fráveitutengigjald 2022

Málsnúmer 202201091Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur bókun Orkuveitu Húsavíkur frá fundi nr. 227 haldinn þann 27. janúar 2022. Stjórn Orkuveitu Húsavíkur samþykkir að hér eftir muni Orkuveita Húsavíkur sjálf innheimta gjald fyrir stofngjald holræsatenginga nýbygginga.
Byggðarráð samþykkir að Orkuveita Húsavíkur muni hér eftir innheimta stofngjald holræsatenginga nýbygginga og vísar málinu til staðfestingar í sveitarstjórn.
Sveitarstjóra er falið að uppfæra opinber gögn sveitarfélagsins til samræmis við þessa ákvörðun.

14.Samstarf N4 og sveitarfélaga á Norðurlandi eystra

Málsnúmer 202112089Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur erindi frá framkvæmdastjóra N4 þar sem sveitarfélögum er boðið til viðræðna um að efla fjölmiðlun frá landshlutanum með þátttöku í áhersluverkefni til næstu þriggja ára.
Byggðarráð þakkar N4 fyrir erindið en telur sér ekki fært að gera svo viðamikinn samning við einn fjölmiðil.

Byggðarráð samþykkir neðangreinda ályktun:
Byggðarráð leggur það til við stjórnvöld að þar sem ákveðið hefur verið að styrkja einkarekna fjölmiðla, þá verði að tryggja það að ákveðin hluti þess framlags verði skilyrtur til dagskrárgerðar á landsbyggðinni.

15.Hverfisráð Raufarhafnar 2021 - 2023

Málsnúmer 202111163Vakta málsnúmer

Á 415. fundi byggðarráðs þann 15. desember fól ráðið sveitastjóra að vinna drög að svörum vegna fundargerðar Hverfisráðs Raufarhafnar frá 28. nóvember og leggja fyrir ráðið á fyrsta fundi á nýju ári.

Með fundarboði fylgdu drög að svörum við liðum 2-5 í fundargerðinni.
Byggðarráð þakkar Hverfisráði Raufarhafnar fyrir ábendingar sem koma fram í fundargerð ráðsins frá 28. nóvember sl. Lið 1 í fundargerðinni var vísað til umfjöllunar í skipulags- og framkvæmdaráði. Hér eftirfarandi eru viðbrögð og svör við liðum 2-5 í fundargerðinni.

2. Húsnæðismál á Raufarhöfn:
Hverfisráð óskar eftir því að sveitarfélagið taki húsnæðismál á Raufarhöfn sérstaklega til skoðunar með það að markmiði að fjölga íbúum. Vinna við slíkt gæti t.d verið einhverskonar spretthópavinna þar sem hverfisráð og aðilar skipaðir af sveitarfélaginu tækju fundartörn og ræddu lausnir. Ýmislegt þarf að mati hverfisráðs að laga bæði hjá sveitarfélaginu sjálfu og eins hjá íbúum og fasteignaeigendum. Í húsnæðisáætlun Norðurþings 2022 er Raufarhöfn ekki nefnt á nafn í lýsingu atvinnuástands og samkvæmt henni er ekki að sjá að nokkur húsnæðisþörf sé á Raufarhöfn næstu árin, þrátt fyrir þetta er staðan allt önnur. Það er ekkert
hús laust hvorki til sölu né leigu, sem er í íbúðarhæfu ástandi. Hverfisráð harmar að ekki skuli vera haft samráð við ráðið í vinnu við slíkar áætlanir.
Hverfisráð hefur óskað eftir því að sveitarfélagið taki Airbnb mál föstum tökum en engar reglur eru um slíkt í sveitarfélaginu. Tómhúsagjöld og afnám afsláttar sorpgjalda er eitthvað sem gæti veitt hvata fyrir fasteigendaeigendur ónýttra eigna að setja þær á sölu. Lausar einbílahúsalóðir á Raufarhöfn eru sex. Engar fjölbýlishúsalóðir og engar atvinnulóðir. Á Húsavík er veittur afsláttur á lóðum, ekki á Raufarhöfn. Þessi mál þarf að hugsa heildstætt og ef Raufarhöfn á að vaxa þarf að huga að þessum málum
sem allra fyrst.
Svar:
Húsnæðisáætlun var endurskoðuð í samvinnu við HMS. Eins og áætlunin liggur fyrir er byggt á upplýsingum frá skipulags- og byggingarfulltrúa um þau skipulög sem eru þegar samþykkt eða eru í vinnslu og fyrirséð. Einnig á gögnum frá félagsmálastjóra hvað varðar umsóknir og þörf í þeim málaflokki sem undir hann heyrir.
Byggðarráð tekur vel í ofangreindar ábendingar og lýsir yfir vilja sínum til að breyta vinnulagi við endurskoðun húsnæðisáætlunar í takt við það sem gert er í sambærilegum fjölkjarna samfélögum. Stefnt er á að það verklag verði viðhaft við næstu endurskoðun haustið 2023.

3. Staða á SR lóð
Hverfisráð óskar eftir upplýsingum hvernig mál standa með S.R. lóð. Fasteignir voru auglýstar til sölu 9. nóvember 2021 og engin opinber niðurstaða komin fram.
Svar:
Byggðarráð hefur verið í viðræðum við Björg Captial vegna mögulegrar viðskipta með SR lóðina og húseignir sem á henni standa. Ekki hefur náðst saman með samningsaðilum en málið hefur verið reglulega á dagskrá byggðarráðs á árinu 2022. Byggðarráð stefnir á að reyna að ljúka þessum viðræðum í byrjun árs 2023.

4. Fjarskipti og fjarskiptaöryggi á og við Raufarhöfn. Ábendingar vegna farnets og neyðarfjarskipta.
Hverfisráð óskar eftir því að Norðurþing komi áhyggjum heimamanna vegna fjarskipta fjarskiptaöryggis í réttan farveg hjá ríkisvaldinu.
Farnet (gsm-sími)í þéttbýlinu er ágætt samband en fer þó nokkuð eftir því hjá hvaða félagi fólk er með viðskipti.
3g netið dettur út um leið og siglt er útúr höfninni á Raufarhöfn, símasamband er líka mjög gloppótt á hafi, þetta er verulega vont fyrir smábátasjómenn.
Á þjóðveginum milli Raufarhafnar og Þórshafnar annarsvegar og Raufarhafnar og Kópaskers eru margir dauðir blettir allt uppí 6 km langir í Hófaskarði. Á Melrakkasléttu eru líka mjög margir dauðir puntar. Alltof margir sveitabæir hér í kring eru alveg án símasambands og með mjög lítið 3G Þar má nefna, Sveinungsvík, Borgir og Kollavík. Lélegt símasamband er á Hóli, Höfða, Ásmundastöðum og mjög lítið á Sigurðarstöðum. Lausn á allavega hluta þessa máls væri sendir í Hófaskarði en það er kostnaðarsamt þar sem ekkert rafmagn er til staðar.
Heilt yfir er því farnet slæmt þegar litið er til öryggis.
Neyðarfjarskipti (Tetra). Innanbæjar á Raufarhöfn er sambandið gott. Þegar komið er u.þ.b 10 km út fyrir sitt hvoru megin við þorpið fer samband að verða gloppótt, þetta skerðir verulega öryggi og hafa sjúkraflutningamenn, björgunarsveit og lögregla vakið máls á þessu. Hófaskarið er alveg dauður puntur. Ekki gott samband á Hólaheiði, slæmt samband á Raufarhafnarafleggjara og á Melrakkasléttu.
Heilt yfir er því tetranet slæmt þegar litið er til öryggis.
Svar:
Þann 2. desember sl. sendi byggðarráð Norðurþings eftirfarandi umsögn til umhverfis- og samgöngunefndar vegna tillögu til þingsályktunar um öruggt farsímasamband á þjóðvegum, 46. mál:

Víða í Norðurþingi er skortur á öruggu farsímasambandi á þjóðvegum. Í Norðurþingi býr töluverður hluti íbúa í dreifbýli og einnig hefur atvinnurekstur utan þéttbýlis farið vaxandi og má þar nefna t.d. öflug fiskeldisfyrirtæki. Margar fallegustu og eftirsóttustu náttúruperlur landsins eru í Norðurþingi og má þar nefna Dettifoss, Jökulsárgljúfur og Ásbyrgi, sem mikill fjöldi ferðamanna sækir ár hvert. Það að brotalamir séu í farsímakerfinu er ekki síst alvarlegt vegna þeirra fjölmörgu ferðamanna sem fara um vegi og leiðir Norðurþings all árið um kring, svo ekki sé talað um íbúa á svæðinu.
Þeir staðir og vegir sem einkum má tiltaka:
Norðausturvegur nr. 85 um Tjörnes.
Norðausturvegur nr. 85 um Hólaheiði.
Norðausturvegur nr. 85 um Raufarhafnarvegur.
Sléttuvegur nr. 870 við Kópasker.
Dettifossvegur vestri nr. 862 frá Vesturdal og upp að þjóðvegi nr.1
Dettifossvegur eystri nr. 890, á svæðinu ofan Dettifoss.

Sveitarstjóri sendi ábendingar og athugasemdir Hverfisráðs til Fjarskiptastofu þann 19. desember sl. með ósk um að að Fjarskiptastofa taki málið til umfjöllunar og sendi til baka hvað er í augsýn um mögulegar úrbætur til handa íbúum á Raufarhöfn og Melrakkasléttu sem og þeim sem leið eiga um það landssvæði.

5. Atvinnuuppbygging og framtíð Raufarhafnar.
Hverfisráð stefnir að íbúafundi í byrjun næsta árs. Hugmyndir ráðsins snúa að því að halda málþing, fund eða ráðstefnu um framtíð Raufarhafnar, atvinnu og samfélagsmál. Hverfisráð óskar eftir samstarfi sveitarfélagsins við skipulagningu slíks fundar og mögulega kostnaðarþátttöku við slíkan fund.
Svar:
Byggðarráð lýsir yfir vilja til þátttöku í skipulagningu íbúafundar/málþings/ráðstefnu um atvinnu- og samfélagsmál sem haldinn yrði seinni partinn í janúar eða í byrjun febrúar. Byggðarráð felur sveitarstjóra að vinna að málinu með atvinnu- og samfélagsfulltrúa Raufarhafnar.

16.Ósk um tækifærisleyfi vegna þorrablóts í Íþróttahöllinni á Húsavík

Málsnúmer 202301002Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur að veita umsögn vegna tækifærisleyfis og tímabundins áfengisleyfis.
Umsækjandi: Norðanmatur ehf. kt. 540219-1410, Hafnarstétt 9, 640 Húsavík.
Ábyrgðarmaður: Kristján Örn Sævarsson, kt. 070774-5859.
Staðsetning skemmtanahalds: Íþróttahöllin á Húsavík.
Tilefni skemmtanahalds: Þorrablót á Húsavík.
Áætlaður gestafjöldi: 500. Áætluð aldursdreifing gesta: frá 18 ára aldri.
Tímasetning viðburðar: 14. janúar 2023 frá kl. 15:00 til kl. 03:00 aðfararnótt 15. janúar 2023.
Helstu dagskráratriði: Matur, skemmtiatriði, dansleikur.
Eftirlit viðburðar: Fimm dyraverðir.
Byggðarráð veitir jákvæða umsögn.

17.Fundargerðir stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga 2022

Málsnúmer 202201056Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð 916. fundar Sambands íslenskra sveitarfélaga 2022 haldinn þann 14. desember sl.
Lagt fram til kynningar.

18.Fundargerðir Samtaka orkusveitarfélaga 2022

Málsnúmer 202201113Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð 54. fundar Samtaka orkusveitarfélaga haldinn þann 12. desember sl.
Lagt fram til kynningar.

19.Fundargerðir svæðisráðs norðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs

Málsnúmer 202211036Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggja til kynningar fundargerðir svæðisráðs norðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs 2022 frá:
93. fundi 3. október,
94. fundi 21. nóvember og
95. fundi 14. desember 2022.
Lagt fram til kynningar.

20.Fréttabréf SSNE 2022

Málsnúmer 202202050Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur til kynningar fréttabréf SSNE vegna nóvember 2022.
Lagt fram til kynningar.

21.Fundargerðir SSNE 2022

Málsnúmer 202201054Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fundarferð 45. fundar SSNE frá 9. desember sl.
Lagt fram til kynningar.

22.Atvinnuveganefnd Til umsagnar stefnur, lög og frumvörp 2022

Málsnúmer 202212062Vakta málsnúmer

Atvinnuveganefnd Alþingis sendir til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðar á fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997 (aflvísir), 538. mál.

Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 10. janúar nk. á netfangið nefndasvid@althingi.is
Lagt fram til kynningar.

23.Atvinnuveganefnd Til umsagnar stefnur, lög og frumvörp 2022

Málsnúmer 202212062Vakta málsnúmer

Atvinnuveganefnd Alþingis sendir til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006 (orkuskipti), 537. mál.

Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 10. janúar nk. á netfangið nefndasvid@althingi.is
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 10:30.