Fara í efni

Byggðarráð Norðurþings

436. fundur 13. júlí 2023 kl. 08:30 - 10:40 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Hafrún Olgeirsdóttir formaður
  • Hjálmar Bogi Hafliðason varaformaður
  • Áki Hauksson aðalmaður
  • Aldey Unnar Traustadóttir áheyrnarfulltrúi
  • Benóný Valur Jakobsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Bergþór Bjarnason fjármálastjóri
  • Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Bergþór Bjarnason fjármálastjóri
Dagskrá
Undir lið nr. 2, sat fundinn Hróðný Lund félagsmálastjóri.

1.Kostnaðaráætlun nýs hjúkrunarheimilis á Húsavík

Málsnúmer 202104106Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur niðurstaða Samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir (S.O.F.). Nefndin hefur fjallað um málefni hjúkrunarheimilisins á Húsavík og lagt til að leyfi verði veitt fyrir því að hefja útboð vegna framkvæmdarinnar.
Byggðarráð fagnar því að ríkisvaldið hafi tekið ákvörðun um áframhald framkvæmda við hjúkrunarheimili á Húsavík og að verkið verði boðið út á næstu mánuðum.

2.Staða mála hjá sveitarfélaginu vegna móttöku flóttamanna

Málsnúmer 202307019Vakta málsnúmer

Félagsmálastjóri kemur á fund byggðarráðs og fer yfir stöðu á málefnum flóttafólks í Norðurþingi.
Byggðarráð þakkar félagsmálastjóra fyrir komuna á fundinn og greinargóða yfirferð á stöðu mála flóttafólks í sveitarfélaginu.

3.Krafa um skaðabætur vegna niðurrifs veggjar við Flókahús, Hafnarstétt 13

Málsnúmer 202307049Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur krafa um skaðabætur frá Gentle Giants- Hvalaferðum ehf. á hendur sveitarfélaginu Norðurþingi, vegna niðurrifs veggjar við Flókahús sem var framkvæmd haustið 2019. Fjárhæð kröfunnar er að upphæð 15.005.671 kr. og greiðsludagur eigi síðar en 1. ágúst nk.
Byggðarráð felur sveitarstjóra í samráði við lögfræðing sveitarfélagsins að svara MAGNA Lögmönnum ehf. í samræmi við umræður á fundinum og innan tilskilins frests sem er til 1. ágúst nk.

4.Sértækur byggðakvóti

Málsnúmer 202307050Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur tillaga frá Hjálmari Boga Hafliðasyni um aukin sértækan byggðakvóta til Raufarhafnar.
Byggðarráð samþykkir tillögu Hjálmars Boga um aukin sértækan byggðakvóta til Raufarhafnar enda hefur hann dregist saman í sama hlutfalli og aflamark í þorski eða um 24,9% á síðustu fjórum árum.
Byggðarráð felur sveitarstjóra að fylgja málinu eftir við Byggðastofnun.

5.Viðaukar vegna innleiðingar í sorpmálum og fjárfestingar á árinu 2023

Málsnúmer 202307010Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur frá 163. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs

Fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggja tveir viðaukar vegna fjárfestingar 2023. Viðauki nr. 2 að upphæð 18,6 m.kr vegna innleiðingar í sorpmálum. Viðauki nr. 3 að upphæð 11,5 m.kr vegna viðhalds á tveimur tækjum.
Viðaukarnir hafa áhrif til lækkunar á handbæru fé aðalsjóðs sem nemur sömu upphæð.

Skipulags- og framkvæmdaráð leggur fram fyrirliggjandi viðauka að upphæð 30,1 m.kr og vísar þeim til samþykktar og staðfestingar í byggðarráði í sumarleyfi sveitarstjórnar.
Byggðarráð samþykkir í sumarleyfi sveitarstjórnar meðfylgjandi viðauka að fjárhæð 30,1 m.kr. sem mætt verður með lækkun á handbæru fé.

6.Lokun þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar á Húsavík

Málsnúmer 202307020Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur að Vinnumálastofnun hafi tekið þá ákvörðun að loka þjónustuskrifstofu stofnunarinnar á Húsavík í byrjun júlímánaðar.
Byggðarráð mótmælir þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að loka þjónustuskrifstofu sinni á Húsavík sem hefur verið þar endurgjaldslaust í húsnæði stéttarfélagsins. Ráðið hvetur stofnunina til að endurskoða ákvörðun sína hið fyrsta.

7.Samgönguáætlun fyrir árin 2024-2038

Málsnúmer 202306078Vakta málsnúmer

Á 433. fundi byggðarráðs þann 22. júní sl. voru til kynningar drög að samgönguáætlun 2024-2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024-2028 sem er í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar.

Byggðarráð fól sveitarstjóra að gera tillögu til byggðarráðs um athugasemdir og ábendingar í samræmi við umræður á fundinum og leggja fyir ráðið að nýju. Einnig voru drögin til umræðu í stjórn Hafnasjóðs sem fól hafnarstjóra að taka saman þær athugasemdir sem fram komu á fundinum og koma þeim inn í umsögn Byggðarráðs Norðurþings vegna samgönguáætlunar.

Fyrir byggðarráði nú liggja drög að umsögn Norðurþings.
Byggðarráð felur sveitarstjóra að skila inn umsögn Norðurþings í samræmi við umræður á fundinum.

8.Styrktarsjóður EBÍ umsóknir

Málsnúmer 202203129Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur ósk frá atvinnu- og samfélagsfulltrúa á Raufarhöfn um mótframlag vegna styrkingar innviða við Heimskautsgerðið en Styrktarsjóður EBÍ úthlutaði Norðurþingi 600.000 kr. í verkefnið.

Með fundarboði fylgir minnisblað og kostnaðaráætlun vegna uppsetningar og endurnýjunar á 4 skiltum. Heildarkostnaður er áætlaður 1.510.000 kr.
Að frádregnum öðrum styrkjum er áætlað framlag Norðurþings í verkið 410.000 kr.
Byggðarráð samþykkir ósk frá atvinnu- og samfélagsfulltrúa á Raufarhöfn um mótframlag vegna styrkingar innviða við Heimskautsgerðið að upphæð 410.000 kr.

9.Heimild sveitarstjóra til afgreiðslu á umsögnum vegna tækifærisleyfa í tengslum við Mærudaga

Málsnúmer 202107016Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur að veita sveitarstjóra heimild til afgreiðslu umsagna vegna tækifærisleyfa ásamt umsóknum um flugeldasýningu í tengslum við Mærudaga sem haldnir verða á Húsavík dagana 28.- 30. júlí nk.
Byggðarráð samþykkir að veita sveitarstjóra heimild til afgreiðslu umsagna um tækifærisleyfi vegna viðburða og flugeldasýningar á Mærudögum sem fara svo í framhaldinu til staðfestingar ráðsins.

10.Reglur um stuðning til náms í menntavísindum

Málsnúmer 202305077Vakta málsnúmer

Á 158. fundi fjölskylduráðs 4. júlí 2023, var eftirfarandi bókað: Fjölskylduráð samþykkir reglur um stuðning til fjarnáms í menntavísindum og til fagháskólanáms í leikskólakennarafræðum. Ráðið vísar reglunum til staðfestingar í byggðarráði.
Byggðarráð samþykkir reglurnar í sumarleyfisumboði sveitarstjórnar.

11.Heimgreiðslur til foreldra barna á leikskólaaldri.

Málsnúmer 202306085Vakta málsnúmer

Á 157. fundi fjölskylduráðs 4. júlí 2023, var eftirfarandi bókað: Heiðar Hrafn Halldórsson B-lista leggur fram eftirfarandi breytingartillögu á drögum fræðslufulltrúa:
Heimgreiðslur til forráðamanna barna 12-24 mánaða sem eru að bíða eftir leikskólaplássi verði ákvarðaðar 200 þúsund krónur á mánuði.
Reglurnar verði endurskoðaðar að ári liðnu sé enn talin þörf á úrræði þessu.

Greinargerð með tillögu Heiðars:
Hér liggja til samþykktar reglur um heimgreiðslur til forráðamanna barna á aldrinum 12-24 mánaða sem eru með lögheimili í Norðurþingi enda njóti þeir ekki annarra niðurgreiðslna vegna vistunar barns og eru að bíða eftir leikskólaplássi.
Reglur þessar eru einskonar neyðarúrræði vegna yfirvofandi manneklu á leikskólanum Grænuvöllum og fáum aðlögunum á árinu 2024 þar af lútandi. Upphæð heimgreiðslna sem liggur til samþykktar á fundinum er aðeins lítill hluti þeirrar upphæðar sem leikskólapláss yngstu barna kosta Norðurþing á mánuði. Þar af leiðandi telur undirritaður að óhætt sé að hækka til lagða heimgreiðsluupphæð upp í 200 þúsund á mánuði enda enn nokkuð frá metnum kostnaði við leikskólapláss yngsta aldurshópsins.

Tillaga Heiðars var borin upp til atkvæða og Rebekka, Ingibjörg, Birna og Hanna Jóna hafna tillögu Heiðars Hrafns.

Rebekka fyrir hönd S -lista og Ingibjörg fyrir hönd V-lista óska bókað: Undirritaðar hafa áhyggjur af því að það halli á konur á vinnumarkaði ef heimgreiðslur fyrir börn á aldrinum 12-24 mánaða dragist á langinn og telja því brýnt að bráður vandi leiksskólans verði leystur sem fyrst.

Meirihluti fjölskylduráðs samþykkir heimgreiðslur að upphæð 150.000,- frá 1. september 2023 til 1. júlí 2024.

Heiðar Hrafn situr hjá við afgreiðslu tillögunnar.

Reglunum um heimgreiðslur er vísað til staðfestingar í byggðarráði.
Byggðarráð samþykkir reglur um heimgreiðslur og staðfestir þær í sumarleyfisumboði sveitarstjórnar. Ráðið ítrekar að kostnaðargreina reglurnar og gera viðauka þar um og leggja fram í haust.

Fyrir hönd V og S lista leggja undirrituð fram eftirfarandi bókun:
Mikilvægt er að heimgreiðslur til foreldra séu tímabundin lausn á meðan verið er að byggja upp fleiri leikskólapláss. Ein af sérstöðum Norðurþings hefur verið geta sveitarfélagsins til að taka við 12 mánaða börnum inn á leikskóla, þ.e. um leið og rétti foreldra til fæðingarorlofs lýkur. Fyrir núverandi og framtíðar atvinnuuppbyggingu á svæðinu er þörf á að halda þeirri sérstöðu áfram.
Ljóst er að atvinnuþátttaka kvenna skiptir miklu máli fyrir nútíma samfélag, þess vegna er mikilvægt jafnréttismál að brúa umönnunarbilið. Reynslan hefur sýnt að þetta bil er oftar brúað af konum en körlum. Mæður taka sér launalaust leyfi frá vinnu eða fara í hlutastörf með tilheyrandi afleiðingum á launakjör og lífeyrisréttindi. Þetta er tímaskekkja og Norðurþing þarf að gera það sem hægt er til að sporna gegn því. Undirrituð ítreka að brýnt er að bráður vandi leikskólans verði leystur sem fyrst og þ.a.l. verði ekki þörf fyrir úrræði eins og heimagreiðslur.
Aldey Unnar Traustadóttir og Benóný Valur Jakobsson

12.Ósk um gerð lóðarleigusamnings fyrir Árholt

Málsnúmer 202209051Vakta málsnúmer

Á 163. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs 11. júlí 2023, var eftirfarandi bókað: Skipulags- og framkvæmdaráð er ekki reiðbúið að gera tillögu að lóð við Árholt niður að bakka Búðarár eins og óskað er eftir. Ráðið leggur til við byggðarráð, í sumarleyfisumboði sveitarstjórnar, að umsækjendum verði boðinn lóðarsamningur á grunni fyrirliggjandi tillögu að 656,8 m² lóð umhverfis húsið, en jafnframt verði þeim boðið upp á samkomulag til 10 ára um óskert afnot eigenda Árholts að því svæði sem afmarkað hefur verið við Árholt.
Byggðarráð samþykkir tillögu skipulags- og framkvæmdaráðs í sumarleyfisumboði sveitarstjórnar.

13.Fundargerðir HNE 2023

Málsnúmer 202302054Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð 230. fundar Heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra sem haldinn var miðvikudaginn 28. júní 2023.
Lagt fram til kynningar.

14.Fundargerðir Samtaka orkusveitarfélaga 2023

Málsnúmer 202302028Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga frá 22. júní sl.
Lagt fram til kynningar.

15.Fundargerðir stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga 2023

Málsnúmer 202301065Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð 931. fundar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 22. júní sl.
Lagt fram til kynningar.

16.Fundargerðir stjórnar Húsavíkurstofu 2021-2023

Málsnúmer 202107017Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð 4. fundar Húsavíkurstofu frá 9. maí sl.
Byggðarráð tekur heilshugar undir ályktun stjórnar Húsavíkurstofu um áhyggjur af samkeppnisrekstri í innanlandsflugi og fyrirsjáanlegri skertri þjónustu í sjúkraflugi á landsbyggðunum vegna skilmála útboðs sjúkraflugs.

Ályktun stjórnar:
Stjórn Húsavíkurstofu lýsir þungum áhyggjum af samkeppnisrekstri í innanlandsflugi og fyrirsjáanlegri skertri þjónustu í sjúkraflugi á landsbyggðunum vegna skilmála útboðs sjúkraflugs.
Undanfarin ár hefur Mýflug verið með tvær vélar í sjúkraflugi en samkvæmt útboði er gert ráð fyrir að rekstur sjúkraflugs sé framkvæmdur með einni vél og möguleika á að útvega aðra vél innan 105 mínútna.
Þetta þýðir skert öryggi í bráðaþjónustu á landsbyggðunum. Jafnframt er ljóst að rekstur félaganna Mýflugs og Eagle Air er í bráðri hættu með fyrirsjáanlegri skerðingu á þjónustu við ferðafólk í Mývatnssveit og flugi um Húsavíkurflugvöll sem skipt hefur miklu í atvinnuuppbyggingu og ferðaþjónustu svæðisins.

17.Fjölskylduráð - 158

Málsnúmer 2306012FVakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði í umboði sveitarstjórnar liggur fyrir fundargerð 158. fundar fjölskylduráðs frá 4. júlí sl.
Lagt fram til kynningar.

18.Fjölskylduráð - 159

Málsnúmer 2307001FVakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði í umboði sveitarstjórnar liggur fyrir fundargerð 159. fundar fjölskylduráðs frá 11. júlí sl.
Lagt fram til kynningar.

19.Skipulags- og framkvæmdaráð - 163

Málsnúmer 2306013FVakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði í umboði sveitarstjórnar liggur fyrir fundargerð 163. fundar skipulags- og framkvæmdaráðs frá 11. júlí sl.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 10:40.