Fara í efni

Skipulags- og byggingarnefnd Norðurþings

93. fundur 14. júní 2012 kl. 13:00 - 13:00 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Jón Grímsson formaður
  • Soffía Helgadóttir varaformaður
  • Hilmar Dúi Björgvinsson aðalmaður
  • Hannes Höskuldsson 3. varamaður
  • Anna Ragnarsdóttir varamaður
  • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfulltrúi
Fundargerð ritaði: Gaukur Hjartarson Skipulags- og byggingarfulltrúi
Dagskrá

1.Tillaga að breyttu deiliskipulagi hesthúsahverfis í Saltvík

Málsnúmer 201206044Vakta málsnúmer

Per Langsöe Christensen kynnti tvær tillögur að breytingum deiliskipulags hesthúsasvæðis í Saltvík. Stefán Haraldsson mætti til fundarins og kynnti sjónarmið hestamanna. Fram kom í máli Stefáns að afar ósennilegt væri að þörf yrði fyrir stórt hesthús eins og gildandi skipulag gerir ráð fyrir. Skipulags- og byggingarnefnd felur skipulagsráðgjafa að breyta tillögu 2 á þann veg að fellt verði út stóra hesthúsið og þess í stað gera ráð fyrir óbreyttum byggingarrétti á lóð undir félagsaðstöðu. Skipulags- og byggingarnefnd telur þessa breytingu frá gildandi deiliskipulagi óverulega og leggur því til við bæjarstjórn að farið verði með skipulagstillöguna á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga og að skipulags- og byggingarfulltrúa verði falið að grenndarkynna breytinguna til þess eina húseiganda sem er á svæðinu.

2.Trésmiðjan Rein ehf. óskar eftir breytingu á deiliskipulagi iðnaðarsvæðis við Kaldbak

Málsnúmer 201206025Vakta málsnúmer

Óskað er eftir að gerð verði breyting á deiliskipulagi athafnasvæðis við Kaldbak. Breytingin feli í sér lengingu lóðar sem Trésmiðjan Rein hefur verið úthlutað á svæðinu. Meirihluti skipulags- og byggingarnefndar telur umrædda breytingu óverulega og því megi fara með hana skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Breytingin felur í sér lengingu lóðar og byggingarreits á áður úthlutaðri lóð að Víðmóum 14 á kostnað annarar óráðstafaðrar lóðar að Víðimóum 12. Skipulags- og byggingarfulltrúa er falið að grenndarkynna tillögu að breytingu deiliskipulags til samræmis við ósk umsækjanda. Umrædd breyting verði færð inn í endurskoðun deiliskipulags á svæðinu sem nú er í vinnslu. Hannes sat hjá við þessa afgreiðslu.

3.Tillaga að breyttu deiliskipulagi iðnaðarsvæðis við Kaldbak

Málsnúmer 201206043Vakta málsnúmer

Per Langsöe Christensen arkitekt kynnti tillögu sína að nýju deiliskipulagi iðnaðarsvæðis við Víðimóa. Í gildi er á svæðinu deiliskipulag en í nýrri tillögu er er afmörkun svæðisins breytt frá gildandi deiliskipulagi til samræmis við breytta legu þjóðvegar og útvíkkun iðnaðarsvæðsins (I5) og sorpförgunarsvæðis (S2) í aðalskipulagi Norðurþings 2010-2030.

4.Frá Iðnaðarráðuneyti varðandi mótun stefnu um lagningu raflína í jörð

Málsnúmer 201204002Vakta málsnúmer

Bæjarráð hefur óskað eftir umsögn skipulags- og byggingarnefndar varðandi mótun stefnu um lagningu raflína í jörð. Í bréfi frá iðnaðarráðuneyti er athygli hagsmunaaðila vakin á að þann 1. febrúar sl. hafi alþingi samþykkt þingsályktunartillögu þar sem iðnaðarráðherra í samráði við umhverfisráðherra er falið að skipa nefnd er móti stefnu um lagningu raflína í jörð og þau sjónarmið sem taka ber mið af hverju sinni ákvarðanir þar um. Nefndin skal skila tillögu til iðnaðarráðherra fyrir 20. september 2012.Nefndin vill með bréfinu hvetja alla sem hagsmuna eiga að gæta
og aðra sem áhuga hafa til að kynna sér þingsályktunartillöguna og senda athugasemdir og ábendingar, sem varða mótun stefnu um raflínur í jörð, til nefndarinnar.
Erindi til Norðurþings fylgdi ekki afrit tillögunnar og ekki tókst nefndinni að finna hana á vef ráðuneytisins. Nefndin hefur því ekki haft tök á að kynna sér hana til umsagnar.

5.Fornleifakönnun v/framkvæmda á Bakka

Málsnúmer 201205104Vakta málsnúmer

Skipulags- og byggingarfulltrúi kynnti skýrslu Fornleifastofnunar um fornleifar á tveimur iðnaðarlóðum við Bakka auk vegstæðis milli lóðanna.

6.Umhverfisstofnun og Skipulagsstofnun vekja athygli á lögum um efnistöku, framkvæmdaleyfi og mat á umhverfisáhrifum

Málsnúmer 201206020Vakta málsnúmer

Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun vekja með bréfi athygli sveitarfélaga á lagaákvæðum sem snerta efnistöku, framkvæmdaleyfi og mat á umhverfisáhrifum.Stofnanirnar hvetja sveitarstjórnir til þess að ganga nú þegar úr skugga um að öll efnistaka sem lagaákvæðin eiga við uppfylli kröfu um framkvæmdaleyfi.Í þeim tilvikum þar sem sem framkvæmdaleyfi er ekki í gildi verði efnistaka stöðvuð þar til leyfi hefur verið gefið út en í einhverjum tilvikum er þó svigrúm hvað þetta varðar til 1. júlí næstkomandi.
Lagt fram til kynningar.

7.Jón Halldór Guðmundsson Ærlæk óskar eftir leyfi til að skipta út úr jörðinni og taka úr landbúnaðarnotum tveimur landspildum Dranghólum og Þrastarlundi

Málsnúmer 201205061Vakta málsnúmer

Óskað er eftir samþykki fyrir að skipta út úr jörðinni Ærlæk tveimur frístundahúsasvæðum og taka þau úr landbúnaðarnotum. Annarsvegar er um að ræða 28,1 ha svæði í Þrastarlundi og hinsvegar 17,5 ha svæði í Dranghólum. Um er að ræða áður deiliskipulögð svæði sem skilgreind eru undir frístundahús í aðalskipulagi Norðurþings 2010-2030. Erindi fylgja tveir hnitsettir uppdrættir sem sýna afmörkun hvorrar landspildu um sig. Skipulags- og byggingarnefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkt verði að skipta tilgreindum frístundahúsasvæðum út úr jörðinni, taka þau úr landbúnaðarnotum og skilgreina sem frístundahúsasvæði, enda er það í samræmi við aðal- og deiliskipulag.

8.Inga Fanney Sigurðardóttir óskar eftir lóð í mynni Ásbyrgis

Málsnúmer 201206009Vakta málsnúmer

Óskað er eftir að skilgreind verði lóð í deiliskipulagi fyrir þjónusturekstur við Gljúfrastofu eða byggðakjarnann í minni Ásbyrgis og jafnframt að umsækjanda verði úthlutað lóðinni. Norðurþing er ekki umráðaaðili lands í Ásbyrgi og er því ekki í stöðu til að úthluta þar landi. Skipulags- og byggingarnefnd telur sér ekki fært að taka þátt í deiliskipulagsvinnu í Ásbyrgi á þessu fjárhagsári. Bent er á að í gildi er deiliskipulag á svæðinu og þar hefur ekki verið ráðstafað öllum lóðum.

9.Rarik ohf. sækir um leyfi til að leggja tvo 12KV jarðstrengi frá aðveitustöð, annan á Háhöfða og hinn út á Tjörnes

Málsnúmer 201205031Vakta málsnúmer

Óskað er eftir leyfi til að leggja tvo 12 kV jarðstrengi frá aðveitustöð, annarsvegar að Háhöfða og hinsvegar út á Tjörnes. Strengir verða plægðir niður svo jarðrask verður lítið. Meðfylgjandi erindi er teikning af fyrirhugaðri strenglegu. Skipulags- og byggingarnefnd telur strenglegu falla vel að gildandi aðalskipulagi og samþykkir því framkvæmdina.

10.Sýslumaðurinn á Húsavík, ósk um umsögn vegna leyfisveitingar til handa Örlygi H. Örlygssyni v/Gistiheimilis Húsavíkur, Höfða 24b, Húsavík

Málsnúmer 201205049Vakta málsnúmer

Óskað er eftir umsögn vegna leyfisveitingar til handa Örlygi H. Örlygssyni vegna reksturs hótels að Höfða 24b á Húsavík. Skipulags- og byggingarnefnd felur skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa jákvæða umsögn um erindið þegar fullnægjandi öryggisúttekt hefur farið fram.

11.Stefán Guðmundsson f.h. Gentle Giants-Hvalaferðir ehf. óskar eftir leiðréttingu á meintu misræmi á gjaldtöku samkeppnisaðila

Málsnúmer 201205041Vakta málsnúmer

Í erindi sínu spyr Stefán hvernig skipulags- og byggingarnefnd hyggist leiðrétta eða gera tillögu að leiðréttingu fyrir 10 ára misræmi milli samkeppnisaðila í hvalaskoðun hvað varðar leigugreiðslur fyrir afnot af þökum Hafnarstéttar við Garðarsbraut. Leigusamningar og greiðslur vegna afnota húsþaka milli hafnarstéttar og Garðarsbrautar eru ekki á forræði skipulags- og byggingarnefndar. Nefndin telur því ekki í sínum verkahring að gera tillögur að leiðréttingu meints misræmis milli kostnaðar hvalaskoðunarfyrirtækja vegna aðstöðu þeirra við Garðarsbraut.

12.Stefán Guðmundsson f.h. Gentle Giants-Hvalaferðir ehf. óskar eftir leyfi fyrir staðsetningu skúra af Hafnarstétt 5

Málsnúmer 201205040Vakta málsnúmer

Ítrekuð er ósk um leyfi til að færa þrjú gömul sjóhús af lóðinni að Hafnarstétt 5 út á Naustagarð. Nú er í kynningu tillaga að deiliskipulagi miðhafnarsvæðis og í undirbúningsvinnu við skipulagstillöguna voru hugmyndir Stefáns til umfjöllunar. Niðurstaða nefndarinnar var sú að ekki væri heppilegt að gera ráð fyrir húsunum þremur á umbeðnum stað og því er ekki gert ráð fyrir þeim í skipulagstillögunni sem nú er í kynningu.

13.Stefán Guðmundsson f.h. Gentle Giants-Hvalaferðir ehf. óskar eftir rýmri nýtingarrétti á Hafnarstétt 5

Málsnúmer 201205038Vakta málsnúmer

Óskað er eftir samþykki fyrir 63% nýtingarhlutfalli á lóðinni að Hafnarstétt 5. Nú er í kynningu deiliskipulagstillaga sem gerir ráð fyrir 60% nýtingarhlutfalli lóðarinnar að Hafnarstétt 5. Ósk Stefáns um aukið nýtingarhlutfall verður tekin til umfjöllunar með athugasemdum við skipulagstillöguna að loknum kynningarfresti.

14.Stefán Guðmundsson f.h. Gentle Giants-Hvalaferðir ehf. óskar eftir svörum um skiltamál

Málsnúmer 201205042Vakta málsnúmer

Óskað er eftir svörum um gildi skiltasamþykktar Norðurþing og framfylgd hennar. Samþykkt Norðurþings um skilti er úr gildi fallin og gilda nú ákvæði nýrrar byggingarreglugerðar frá febrúar s.l. Skipulags- og byggingarnefnd mun nú sem fyrr reyna að vinna eftir gildandi reglugerðum.

15.Gentle Giants-Hvalaferðir ehf. sækja um stöðuleyfi fyrir tengibyggingu milli smáhýsa á þaki Hafnarstéttar 7

Málsnúmer 201206023Vakta málsnúmer

Óskað er eftir stöðuleyfi fyrir þegar byggðri tengibyggingu milli smáhýsa á þaki hafnarstéttar 7. Meðfylgjandi erindi er rissmynd af byggingunni sem byggð var í óleyfi á síðasta ári. Skipulags- og byggingarnefnd leggur til við bæjarstjórn að veitt verði stöðuleyfi fyrir umræddri byggingu til loka október 2012.

16.Trésmiðjan Rein ehf. sækir um byggingarleyfi fyrir iðnaðarhús að Víðimóum 14

Málsnúmer 201206026Vakta málsnúmer

Óskað er eftir byggingarleyfi fyrir 1278,0 m² iðnaðarhúsi á lóðinni að Víðimóum 14. Teikning er unnin af Haraldi Árnasyni. Umrædd bygging er lengri en byggingarreitur lóðarinnar heimilar skv. gildu deiliskipulagi. Skipulags- og byggingarfulltrúa hefur verið falið að grenndarkynna ósk umsækjanda um breytingu á deiliskipulagi sem heimili umsótta byggingu. Skipulags- og byggingarfulltrúa er falið að gefa út byggingarleyfi fyrir mannvirkinu þegar og ef breyting deiliskipulagsins gengur í gegn.

17.Norðursigling sækir um stöðuleyfi fyrir söluaðstöðu fyrir ofan Skuld, Húsavík

Málsnúmer 201206030Vakta málsnúmer

Óskað er eftir stöðuleyfi fyrir lítinn söluskúr á lóð Hafnarstéttar 11 ofan bakka við Garðarsbraut. Skipulags- og byggingarnefnd fellst ekki á erindið.

18.Sævar Guðbrandsson óskar eftir tilfærslu á spennistöð við Langholt

Málsnúmer 201206045Vakta málsnúmer

Óskað er eftir að spennistöð Rarik við Langholt verði færð á óbyggt svæði austan götunnar við yfirstandandi endurnýjun, til að færa hana lengra frá núverandi íbúðarbyggð. Skipulags- og byggingarnefnd fellst á tilfærslu spennistöðvarinnar fyrir sitt leiti.

19.Örlygur Hnefill Örlygsson f.h. Gistiheimilis Húsavíkur ehf. sækir um leyfi fyrir skilti

Málsnúmer 201206046Vakta málsnúmer

Óskað er eftir leyfi til að setja skilti upp á ljósastaur í Laugarbrekku til að merkja staðsetningu ferðaþjónustu. Skipulags- og byggingarnefnd samþykkir fyrir sitt leiti hóflega stórt skilti á tilteknum ljósastaur í samráði við skipulags- og byggingarfulltrúa.

20.Áki Hauksson f.h. eigenda eigna við Garðarsbraut 18, 18a og 20- Ósk um samstarf framkvæmda við Gudjohnsensreit

Málsnúmer 201204028Vakta málsnúmer

Framkvæmda- og hafnanefnd Norðurþings skorar á skipulags- og byggingarnefnd Norðurþings að láta deiliskipuleggja s.k. Gudjohnsensreit svo unnt verði að hefja þar framkvæmdir við endurbætur sem fyrst. Skipulags- og byggingarnefnd telur sér ekki fært að fara í vinnu við gerð deiliskipulags reitsins á yfirstandandi fjárhagsári.

21.Íslandsbanki sækir um byggingarleyfi fyrir skýli við starfsmannainngang að Stóragarði 1

Málsnúmer 201205028Vakta málsnúmer

Óskað er eftir byggingarleyfi fyrir opnu skýli við starfmannainngang Íslandsbanka að Stóragarði 1. Meðfylgjandi erindi er teikning og undirritað samþykki nágranna. Skipulags- og byggingarfulltrúi samþykkti erindið 14. maí s.l. Lagt fram.

22.Dagbjartur Sigtryggsson sækir um leyfi til að gera bílstæði á lóðinni Höfðabrekku 19

Málsnúmer 201205029Vakta málsnúmer

Óskað er eftir leyfi til að gera bílastæði að Höfðabrekku 19 við lóðarmörk að Höfðabrekku 17. Fyrir liggur skriflegt samþykki eiganda Höfðabrekku 17. Skipulags- og byggingarfulltrúi samþykkti erindið 8. maí s.l.

23.Svan Jörgensen óskar eftir leyfi til að breyta gluggum að Baughóli 17

Málsnúmer 201205030Vakta málsnúmer

ÓSkað er eftir leyfi til útlitsbreytinga glugga að Baughóli 17 við yfirstandandi endurnýjun. Meðfylgjandi erindi eru rissmyndir sem sýna fyrirhugaðar breytingar. Skipulags- og byggingarfulltrúi samþykkti erindið 8. maí s.l.

24.Egill Olgeirsson hjá Mannvit sækir um byggingarleyfi fyrir hús við íþróttavöll

Málsnúmer 201203096Vakta málsnúmer

Óskað er eftir byggingarleyfi fyrir 127,9 m2 húsi á einni hæð milli íþróttavalla á íþróttasvæði merkt O3 í aðalskipulagi Norðurþings 2010-2030. Meðfylgjandi erindi eru teikningar unnar af Per Langsöe Christensen arkitekt. Skipulags- og byggingarnefnd samþykkir erindið, enda telur hún fyrirhugað mannvirki í samræmi við skipulag.

Fundi slitið - kl. 13:00.