Fara í efni

Skipulags- og framkvæmdaráð

5. fundur 16. ágúst 2018 kl. 13:00 - 16:00 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Silja Jóhannesdóttir formaður
  • Örlygur Hnefill Örlygsson varaformaður
  • Kolbrún Ada Gunnarsdóttir aðalmaður
  • Heiðar Hrafn Halldórsson aðalmaður
  • Hjálmar Bogi Hafliðason aðalmaður
  • Kristján Friðrik Sigurðsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfulltrúi
  • Gunnar Hrafn Gunnarsson framkv.- og þjónustufulltrúi
  • Hermína Hreiðarsdóttir Ritari
Fundargerð ritaði: Hermína Hreiðarsdóttir skjalafulltrúi
Dagskrá

1.Breyting á deiliskipulagi Útgarðs

Málsnúmer 201808025Vakta málsnúmer

Skipulags- og byggingarfulltrúi kynnti tillögu að deiliskipulagsbreytingu á Útgarði 4. Breytingar felast í stækkun byggingarreits vegna fyrirliggjandi hugmynda að uppbyggingu, breytt skilgreining á aldri notanda íbúða og breytt staðsetning sorpgeymsla.
Fulltrúar minnihluta leggja til að hugtakið eldri borgarar verði áfram notað í skipulaginu á Útgarði 4-8. Þannig verði tryggt að svæðið sé áfram skipulagsreitur ætlaður eingöngu eldri borgurum sem þurfa á lítilli eða engri hjúkrunarþjónustu að halda.
Heiðar Hrafn, Hjálmar Bogi og Kristján Friðrik.

Meirihluti skipulags- og framkvæmdaráðs hafnar tillögu minnihluta og leggur til við sveitarstjórn að skipulagstillagan verði auglýst til kynningar eins og hún er lögð fram.



2.Umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við bílskúr að Boðagerði 4, Kópaskeri

Málsnúmer 201808011Vakta málsnúmer

Óskað er eftir leyfi til að byggja 36 m² viðbyggingu við bílgeymslu að Boðagerði 6 á Kópaskeri. Teikning er unnin af Marínó Eggertssyni. Fyrir liggur skriflegt samþykki nágranna að Boðagerði 6. Slökkviliðsstjóri telur ekki tilefni til að leggjast gegn viðbygginunni.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur skipulags- og byggingarfulltrúa að grenndarkynna fyrirhugaða uppbyggingu áður en afstaða er tekin til erindisins. Grenndin innifeli lóðirnar að Boðagerði 2 og 6 og Akurgerði 3, 5 og 7. Ef ekki koma fram athugasemdir við grenndarkynningu, heimilar ráðið byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi.

3.Ósk um breytta skráningu á Höfðabrekku 9

Málsnúmer 201808012Vakta málsnúmer

Óskað er eftir samþykki fyrir sjálfstæðri íbúð á jarðhæð Höfðabrekku 9 á Húsavík. Fyrir liggur teikning af sjálfstæðri íbúð sem unnin er af Bjarna Reykjalín arkitekt og tæknifræðingi. Slökkviliðsstjóri hefur yfirfarið teikninguna og gerir ekki athugasemd við að samþykkt verði sjálfstæð íbúð á grundvelli fyrirliggjandi teikningar.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir stofnun sjálfstæðrar íbúðar samkvæmt framlagðri teikningu.

4.Umhverfis- og auðlindaráðuneytið: Drög að frumvarpi til laga um Þjóðgarðastofnun

Málsnúmer 201808017Vakta málsnúmer

Umhverfis- og auðlindaráðuneyti óskar eftir umsögnum um frumvarp um nýja stofnun sem ætlað er að hafa með höndum umsýslu allra þjóðgarða á Íslandi og annarra friðlýstra svæða auk almennrar náttúruverndar. Samhliða er kallað eftir tillögum að nafni á hina nýju stofnun.
Lagt fram til kynningar, horft er til afgreiðslu á næsta fundi ráðsins.

5.Fyrirspurnir vegna lóða og ýmis gjöld

Málsnúmer 201806107Vakta málsnúmer

Bjarni Þór Björgvinsson óskar eftir því að veittur verði 50% afsláttur af gatnagerðargjaldi vegna lóðarinnar að Hraunholti 32 með sömu skilyrðum og gildir um tilgreindar lóðir í fundargerð skipulags- og framkvæmdaráðs 17. júlí s.l.
Afsláttur hefur á undanförnum árum verið veittur á tilteknum lóðum í Norðurþingi sem tilraun til að hraða uppbyggingu óbyggðra lóða í þegar byggðum hverfum. Á síðasta ári hófst hinsvegar uppbygging nýs hverfis í Holtahverfi, svokallað E-svæði þar sem eru göturnar Lágholt og Hraunholt. Þar þurfti sveitarfélagið að standa að nýbyggingu innviða með tilheyrandi kostnaði. Gjaldskrá um gatnagerðargjöld í Norðurþingi tekur mið af rauntölum við uppbyggingu gatna og lætur þannig nærri að kostnaður við uppbyggingu gatnakerfis E-svæðis Holtahverfis sé í jafnvægi við full gatnagerðargjöld allra lóða á svæðinu.

Skipulags- og framkvæmdaráð telur ekki forsendur til að veita afslátt af gatnagerðargjöldum lóða í Hraunholti og Lágholti og hafnar því erindinu.

6.Uppsetning veðurstöðvar á vegum Rannsóknastöðvarinnar Rifs á Melrakkasléttu

Málsnúmer 201808023Vakta málsnúmer

Rannsóknarstöðin Rif óskar eftir leyfi til að setja upp sjálfvirka veðurathugunarstöð í landi Rifs á Melrakkasléttu. Veðurstöðin samanstendur af 10 m háu mastri auk búnaðar sem hengdur verður utan á mastrið. Fyrirhuguð staðsetning er við norðurenda Urriðatjarnar, um 150 m sunnan þjóðvegar um Melrakkasléttu. Fylgjandi umsókn eru teikningar og myndir af búnaði og kort sem sýnir staðsetningu.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir erindið.

7.Óskað er eftir stækkun lóðar að Kringlumýri 2

Málsnúmer 201808024Vakta málsnúmer

Garðvík ehf óskar eftir lóðarstækkun að Kringlumýri 2 til samræmis við samþykkt deiliskipulag.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að gerður verði nýr lóðarsamningur á grundvelli deiliskipulagsins.

8.Kristinn sækir um stöðuleyfi fyrir 2 gáma að Röndinni 7, Kópaskeri

Málsnúmer 201802148Vakta málsnúmer

Óskað er eftir stöðuleyfi fyrir tvo 40 feta gáma við Röndina 7 á Kópaskeri eins og nánar kemur fram á afstöðumynd. Slökkviliðsstjóri Norðurþings hefur skoðað aðstæður og leggst ekki gegn veitingu umbeðins stöðuleyfis.
Skipulags- og framkvæmdaráð Norðurþings samþykkir umbeðið stöðuleyfi fyrir gámunum tveimur til eins árs, þ.e. til 16. ágúst 2019, að því gefnu að umsækjandi skili inn skriflegu samþykki næsta nágranna, lóð nr. 9.

9.Umsókn um byggingu bátaskýla á Harðbak, Melrakkasléttu

Málsnúmer 201805315Vakta málsnúmer

Erindið var áður til umfjöllunar á fundi ráðsins 26. júní s.l. og þá óskaði ráðið umsagna frá Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun. Þær umsagnir liggja nú fyrir. Umhverfisstofnun telur að fyrirhuguð bátaskýli muni ekki hafa neikvæð áhrif á verndargildis svæðis nr. 538 á náttúruminjaskrá og gerir því ekki athugasemdir við að uppbygging verði heimiluð.
Skipulags- og framkvæmdaráð tekur undir sjónarmið Umhverfisstofnunar um að fyrirhuguð uppbygging verði að teljast hluti eðlilegrar uppbyggingar á hlunnindajörð. Sjónræn áhrif bátaskýlanna verði óveruleg og þau munu ekki tálma för um vatnsbakka. Skipulags- og framkvæmdaráð heimilar því byggingarfulltrúa að veita byggingarleyfi fyrir bátaskýlunum þegar lagðar hafa verið fram fullnægjandi teikningar af mannvirkjunum og jákvæð umsögn Minjastofnunar vegna staðsetningar.

10.Ósk um framkvæmdaleyfi vegna varnargarðs í Bakkahlaupi í Kelduhverfi.

Málsnúmer 201807096Vakta málsnúmer

Vegagerðin óskar framkvæmdaleyfis til að byggja upp varnargarð í Bakkahlaupi í Jökulsá á Fjöllum. Vegagerðin mun annast þessa framkvæmd f.h. Landgræðslu ríkisins sem er umráðaaðili landsins. Nú þegar hafa verið byggðir upp nokkrir varnargarðar á svæðinu til að varna því að Jökulsá á Fjöllum brjóti sér leið í Skjálftavatn sem gæti haft víðtæk áhrif á farveg Jökulsár á Fjöllum. Fyrirhugaður garður yrði um 430 m langur og er ætlað að ýta ánni frá Skjálftavatni. Í verkið yrðu notuð um 3.900 m3 af grjóti sem tekið verði úr opnum og samþykktum efnistökusvæðum við Meiðavelli og Eyvindarstaði. Verki er skýrlega lýst í greinargerð erindis og með teikningum. Sérstök aðgæsla verður viðhöfð vegna vatnsverndar á svæðinu. Fyrir liggur leyfi Fiskistofu fyrir framkvæmdinni. Í leyfi Fiskistofu er tekið undir mikilvægi framkvæmdarinnar vegna veiðihagsmuna í Litluá og Skjálftavatni. Svæðið er innan hverfisverndarsvæðis Hv5 í aðalskipulagi Norðurþings 2010-2030. Sérstaklega er tiltekið í greinargerð aðalskipulags að gerð flóðvarnargarða innan Hv5 sé heimil. Áætlað er að efnisvinnsla hefjist í september en framkvæmdin sjálf í nóvember þegar rennsli í ánni er í lágmarki.
Skipulags- og framkvæmdaráð Norðurþings telur ekki að framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Annarsvegar er umfang framkvæmdarinnar ekki verulegt og hinsvegar er framkvæmdin í eðli sínu viðhald og viðbætur á fyrri framkvæmdum vegna stýringar Jökulsár. Ráðið tekur undir sjónarmið Landgræðslunnar og Fiskistofu um mikilvægi framkvæmdarinnar vegna veiðihagsmuna í Litluá og Skjálftavatni. Ráðið telur að fullnægjandi forsendur fyrir veitingu framkvæmdaleyfis liggi fyrir í aðalskipulagi Norðurþings 2010-2030. Ráðið telur einnig að fullnægjandi grein sé gerð fyrir framkvæmdinni og efnistöku vegna hennar í framlögðum gögnum.

Skipulags- og framkvæmdaráð leggur því til við sveitarstjórn að skipulagsfulltrúa verði falið að veita framkvæmdaleyfi fyrir uppbyggingu fyrirhugaðs varnargarðs í Bakkahlaupi. Ráðið telur ekki tilefni til að setja frekari skilyrði um framkvæmdina, enda verði framkvæmdin til samræmis við framlögð gögn. Skipulagsfulltrúa verði falið að hafa eftirlit með framkvæmdunum til samræmis við ákvæði 15. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi.

11.Vegagerðin óskar eftir leyfi til að vinna efni úr námu við Hólssel

Málsnúmer 201808038Vakta málsnúmer

Vegagerðin óskar eftir leyfi til að vinna efni til lagfæringar á vegi um Hólssand í núverandi námu við Hólssel. Efnistökusvæðið er opið og hefur verið notað um árabil, en er ekki skilgreint í gildandi aðalskipulagi. Í vinnslu er breyting á aðalskipulagi þar sem fyrirhugað er að skilgreina þessa námu til efnistöku. Ástand vegar um Hólssand er nú þannig að brýnt er að bera ofan í hann til að hann teljist fullnægjandi og því þarf að útbúa sem fyrst viðunandi efni.
Skipulags- og framkvæmdaráð Norðurþings telur brýnt að lagfæra veg um Hólssand sem fyrst og heimilar því efnistöku og vinnslu úr núverandi námu við Hólssel til lagfæringar.

12.Malbikunarframkvæmdir í Norðurþingi sumarið 2018

Málsnúmer 201806112Vakta málsnúmer

Reiknað með að kostnaður við þær framkvæmdir sem hafnar eru og útlit er fyrir að kláraðar verði í ár, sé gróflega metinn rétt rúmlega 400 milljónir króna.
Er í því kostnaðarmati m.a. gert ráð fyrir að um 100 milljónir renni til byggingar slökkvistöðvar og að gatnagerð við sjóböð og við Reykjaheiðarveg verði fresta til næsta árs.
Það fjármagn sem áætlað var til framkvæmda á árinu 2018 er rétt tæpar 540 milljónir króna og því ljóst að það nýtist ekki allt til góðra verka, sem rekja má að stórum hluta til tafa á framkvæmdum við byggingu slökkvistöðvar.
Fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggur að taka afstöðu til þess hvort nýta skuli að hluta eða öllu leyti það fjármagn sem ekki mun nýtast á árinu, til malbikunarframkvæmda og nýta þannig malbikunarstöð Colas á meðan hún er uppsett á svæðinu.
Byggðaráð beindi þeim tilmælum til skipulags- og framkvæmdaráðs að taka upp framkvæmdaáætlun þessa árs og finna möguleika til fjármögnunar malbikunarverkefna sem kynnt voru á síðasta fundi ráðsins.
Gert var ráð fyrir ákv. upphæð til byggingar nýrrar slökkvistöðvar, en ljóst er að það fjármagn mun ekki nýtast að fullu á þessu ári. Því er svigrúm til þess að fara í þessar framkvæmdir.

13.Bruna- og eftirlitskerfi í byggingum Norðurþings

Málsnúmer 201702114Vakta málsnúmer

Á síðasta ári var gerð greining á stöðu mála varðandi bruna- og eftirlitskerfa í opinberum byggingum og stofnunum Norðurþings.
Í ljós kom að alls ekki allar byggingar í eigu sveitarfélagins uppfylla skilyrði um slíkan búnað og eftirlit með þeim kerfum sem eru til staðar ekki á einni hendi.
Lagt er til að samið verði við einn þjónustuaðila um uppsetningu nauðsynlegra kerfa eftir því sem við á og um þjónustu við þau. Einnig er lagt til að tekin verði í notkun aðgangsstýrð kerfi (kortakerfi) í stað lyklaaðgengis í opinberum byggingum sveitarfélagsins til þess að auka öryggi, eftirlit og hagræðingu.
Óskað er eftir samþykki nefndarinnar til þess að leggja í nauðsynlega undirbúningsvinnu áður en tekin er ákvörðun um fjárfestingar þessu tengdu.

Framkvæmda- og þjónustufulltrúa er falið að hefja nauðsynlega vinnu til undirbúnings á þessu verkefni.

14.Leiðrétting taxta útseldrar vinnu þjónustumiðstöðva

Málsnúmer 201808002Vakta málsnúmer

Vegna niðurskurðar fjármagns til reksturs þjónustumiðstöðvar á Húsavík á síðasta rekstrarári, var farið í greiningarvinnu á rekstri einingarinnar og reynt að finna tækifæri til hagræðingar.
Gerð var úttekt á mannafla, húsnæði, tækjakosti, bílaflota ásamt taxta útseldrar vinnu m.t.t. þess sem gengur og gerist á almennum markaði og hjá öðrum sveitarfélögum.
Sú greining leiddi m.a. í ljós að taxti útseldrar vinnu þjónustumiðstöðva Norðurþings er langt undir því sem almennt gerist og umtalsvert lægri en hjá öðrum sveitarfélögum.
Fastráðnum starfsmönnum á Húsavík hefur verið fækkað úr 8 í 5 á einu ári og er fjöldi þeirra kominn niður að sársaukamörkum ef sinna á þeim verkefnum sem til er ætlast, en það verður aðeins gert með því að mæta fækkuninni með tækjum sem gera færri höndum kleift að sinna fyrirliggjandi verkefnum.
Samspil þess sem að ofan er talið gerir það að verkum að reksturinn verður þyngri en hann þyrfti að vera og fjármagni er síður varið til þeirra verkefna sem æskilegt væri.
Óskað er eftir samþykki skipulags- og framkvæmdaráðs til 50% hækkunar á taxta útseldrar vinnu þjónustumiðstöðva NÞ og að tímagjald véla og tækja verði tekið til endurskoðunar í samráði við aðrar deildir sveitarfélagsins.
Framkvæmda- og þjónustufulltrúa er falið að útbúa tillögu að gjaldskrá og leggja fyrir ráðið á næsta fundi.

15.Ísland ljóstengt 2018

Málsnúmer 201710129Vakta málsnúmer

Fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggja tvö aðkskilin mál sem tengjast ljósleiðaravæðingu Norðurþings.

1. Við framkvæmd ljósleiðaratengingar Raufarhafnar frá Svalbarðshreppi í lok árs 2016 voru Höskuldarnes og Ásmundarstaðir ekki tengdir samhliða öðrum eignum á þessu svæði.
Taka þarf afstöðu til þess hvort bjóða eigi þessa framkvæmd út og setja á áætlun í haust, eða hvort bíða eigi með verkið til næsta vors.

2. Við gerð staðarlista sem unnir voru af verkfræðistofunni Eflu og lagðir voru til grundvallar í útboði verkefnisins "Ísland Ljóstengt 2018" sem snýr að ljósleiðaravæðingu austursvæðis Norðurþings, hafa einhverjar eignir sem að öllu eðlilegu ættu að teljast styrkhæfar ekki ratað inn á þá lista. Taka þarf afstöðu til þessara eigna varðandi niðurgreiðslur sveitarfélagsins á ljósleiðaratengingum.
1. Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að afla tilboða í verkið og taka hagstæðasta tilboði. Miðað verður við að verkið verði unnið í haust.
2. Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir að niðurgreiddar tengingar ljósleiðara verði lagðar að öllum eignum á Melrakkasléttu, Öxarfirði og Kelduhverfi, þar sem lögheimilisskráning var til staðar þegar framkvæmdir hófust.

16.Reykjaheiðavegur - gatnagerð

Málsnúmer 201801196Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar.
Vegna áforma um yfirborðsfrágang Reykjaheiðarvegar hefur skipulags- og framkvæmdaráð kallað eftir kynningu á þeim hönnunargögnum sem unnin hafa verið og snúa að verkefninu.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur sviðstjórum að afla upplýsinga um stöðu lóðamála á svæðinu og leggja fyrir ráðið á næsta fundi. Einnig felur ráðið framkvæmda- og þjónustufulltrúa að útbúa hönnun á lýsingu á svæðinu.

17.Aðgengi að Hvammi, heimili aldraðra.

Málsnúmer 201808007Vakta málsnúmer

Fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggur ósk frá íbúum við Litla-Hvamm um að gerðar verði lagfæringar varðandi yfirborðsfrágang við íbúðirnar þannig að yfirborðsvatn safnist ekki fyrir í lágpunktum í malbiki gatna.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að útfæra lausn á vandamálinu og sjá til þess að svæðið verði lagfært.

18.Fyrirspurn varðandi gangstéttir við Lyngholt á Húsavík

Málsnúmer 201612066Vakta málsnúmer

Fyrir liggur krafa íbúa við Lyngholt um gerð gangstéttar í fullri breidd sunnan götunnar, til viðbótar við þá sem gerð var norðan götunnar fyrr í sumar.
Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar erindi íbúa í Lyngholti og samþykkir að gangstéttafrágangur við götuna verði þannig að barnavagnar og hjálpartæki eigi greiðan aðgang um gangstéttina.

19.Trésmiðjan Rein óskar eftir heimild til að taka 20m3 af fjörugrjóti þar sem efnistaka hefur verið framkvæmd.

Málsnúmer 201808036Vakta málsnúmer

Fyrir liggur ósk frá Trésmiðjunni Rein ehf um efnistöku á fjörugrjóti úr suðurfjöru til frágangs og fegrunar í kringum sjóböðin á Húsavíkurhöfða.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir efnistöku á allt að 20 m3 af fjörugrjóti úr suðurfjöru í þeim tilgangi sem nefndur er í erindi frá Trésmiðjunni Rein ehf.
Farið er fram á að staðið verði að efnisnáminu á sama hátt og áður hefur verið gert þannig að ekki sjáist ummerki eftir það í fjörunni. Miðað skal við sömu verðlagningu og áður hefur verið.

20.Uppfylling vegna tjaldsvæðis í Hvammi

Málsnúmer 201808045Vakta málsnúmer

Óskað er samþykkis skipulags- og framkvæmdaráðs fyrir flutningi moldarefnis frá Vitaslóð að Hvammi.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að finna viðeigandi stað til að nýta umrætt efni.

Fundi slitið - kl. 16:00.