Fara í efni

Skipulags- og framkvæmdaráð

44. fundur 24. september 2019 kl. 14:00 - 16:30 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Silja Jóhannesdóttir formaður
  • Heiðar Hrafn Halldórsson aðalmaður
  • Hjálmar Bogi Hafliðason aðalmaður
  • Kristján Friðrik Sigurðsson áheyrnarfulltrúi
  • Kristinn Jóhann Lund varaformaður
  • Guðmundur Halldór Halldórsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfulltrúi
  • Gunnar Hrafn Gunnarsson framkv.- og þjónustufulltrúi
  • Hermína Hreiðarsdóttir Ritari
Fundargerð ritaði: Hermína Hreiðarsdóttir þjónustu- og skjalafulltrúi
Dagskrá
Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri sat fundinn undir liðum 2-16.
Ketill Gauti Árnason verkefnastjóri sat fundinn undir liðum 11-13.
Grímur Snær Kárason slökkviliðsstjóri sat fundinn undir lið 12.
Smári Jónas Lúðvíksson umhverfisstjóri sat fundinn undir liðum 14-15.
Hjalmar Bogi Hafliðason vék af fundi kl. 16.05.

1.Breyting á aðalskipulagi Höfða vegna fyrirhugaðar hótelbyggingar.

Málsnúmer 201805009Vakta málsnúmer

Á 43. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs voru bókaðar inn athugasemdir sem bárust vegna breytingar aðalskipulags og tillögu að nýju deiliskipulagi við Vitaslóð á Húsavíkurhöfða. Skipulags- og byggingarfulltrúa var falið að gera tillögu að viðbrögðum við athugasemdunum.
Skipulags- og byggingarfulltrúi kynnti sína tillögur og uppfærða tillögu að breytingu aðalskipulags.
Athugasemdir og ábendingar sem bárust við kynningu skipulagstillagnanna snérust fyrst og fremst um útfærslur í deiliskipulagi. Breytingar á tillögu að aðalskipulagi frá því sem kynnt var fólust því eingöngu í óverulegum lagfæringum á orðalagi.

Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að tillaga að breytingu aðalskipulags verði samþykkt og framlögð tillaga send til yfirferðar Skipulagsstofnunar.

2.Breyting á deiliskipulagi Höfða vegna fyrirhugaðar hótelbyggingar.

Málsnúmer 201805010Vakta málsnúmer

Á 43. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs voru bókaðar inn athugasemdir sem bárust vegna breytingar aðalskipulags og tillögu að nýju deiliskipulagi við Vitaslóð á Húsavíkurhöfða. Skipulags- og byggingarfulltrúa var falið að gera tillögu að viðbrögðum við athugasemdunum.
Skipulags- og byggingarfulltrúi kynnti sína tillögur og uppfærða deiliskipulagstillögu.
Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar fram komnar athugasemdir og ábendingar.

1. Umhverfisstofnun (UST) bendir á að strandsvæðið er á tillögu Náttúrufræðistofnunar Íslands (NÍ) að framkvæmdaáætlun (B-hluta) Náttúruminjaskrár. NÍ leggur þar til að fjörum og grunnsævi verði ekki raskað. UST telur mikilvægt að allar byggingar falli eins vel að umhverfi og kostur er. UST bendir á að nálægð við iðnaðarsvæði á Bakka og hafnarsvæði Húsavíkur geti haft áhrif á loftgæði og hljóðvist á hótellóð og telur mikilvægt að skoða þá þætti við skipulagsvinnuna. Loks minnir UST á ákvæði skipulagsreglugerðar um aðgengi almennings að vötnum og sjó.

a. Tillaga vegna framkvæmdaáætlunar Náttúruminjaskrár
Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands við auglýstar tillögur kemur fram að skv. gögnum NÍ sé fjöldi fugla í bjarginu ekki mikill og nær ekki viðmiðum sem myndi skilgreina bjargið sjálft á þessu svæði sem mikilvægt fuglasvæði „..fyrirhugaðar framkvæmdir við uppbyggingu hótels séu ekki líklegar til að hafa verulega neikvæð áhrif á mikilvæg fuglasvæði og/eða fugl í bjarginu en þó verði að framkvæma með aðgát til að lágmarka rask."
b. Ásýnd
Í greinargerð deiliskipulagstillögunnar er fjallað um áhrif á umhverfið og ásýnd hótelbyggingar. Frumdrög að hönnun hótelsins eru sýnd í greinargerð. Ljóst er að fyrirhugað hótel verður áberandi kennileiti á Húsavíkurhöfða innan þéttbýlisins á Húsavík. Til að fella húsið sem best að landslagi sýna frumdrög hönnunarinnar byggingu í jarðarlitum, sem stallast niður og dregur form sitt af hringlaga gígum og hverum, þekktum formum úr náttúru Íslands. Byggingin rís upp af klettabeltinu, lágstemmd en jafnframt tignarleg. Skuggavarp á aðliggjandi íbúabyggð er óverulegt en þess gætir helst seinni part dags og á kvöldin.
c. Mengun
Í matsskýrslu fyrir Kísilmálmverksmiðju á Bakka við Húsavík eru sýndir hljóðvistarútreikningar, bæði vegna starfseminnar á Bakka og einnig vegna hafnarinnar. Samkvæmt þessum útreikningum er ekki ástæða til að hafa áhyggjur af hljóðvist á hótellóð. Það sama á við um niðurstöður loftdreifispár í matsskýrslunni.
d. Aðgengi
Í greinargerð deiliskipulagsins segir „Í aðalskipulagi Norðurþings er sýnd gönguleið sem liggur frá Húsavíkurhöfn, yfir deiliskipulagssvæðið og áfram í Laugardal. Kvöð um samsvarandi gönguleið er sýnd á deiliskipulagsuppdrætti. Lega gönguleiðar getur breyst við fullnaðarhönnun bygginga á svæðinu og við hönnun lóða en óheimilt er að fella hana niður með öllu og tryggja skal óheftan og greiðan aðgang gangandi vegfarenda meðfram ströndinni eins og skipulagið sýnir."

2. Náttúrufræðistofnun metur það sem svo að fyrirhugaðar framkvæmdir við uppbyggingu hótels séu ekki líklegar til að hafa verulega neikvæð áhrif á mikilvæg fuglasvæði og/eða fugl í bjarginu en þó verði að framkvæma með aðgát til að lágmarka rask. NÍ minnir á ákvæði skipulagsreglugerðar um aðgengi almennings að vötnum og sjó og jarðskjálftahættu við Húsavík.

Svar við umsögn: Sjá svar við umsögn UST varðandi aðgengi hér að ofan.

3. Veðurstofa Íslands bendir á að hönnunarhröðun vegna jarðskjálfta er rangt skilgreind í greinargerð og leggur jafnframt til að felld verði inn í greinargerð skipulagsins setning um að við hönnun mannvirkja verði sérstaklega tekið tillit til nærsviðsáhrifa í sterkum jarðskjálftum.

Svar við umsögn: Orðalagi í kafla um náttúruvá í greinargerð deiliskipulagsins er breytt í samræmi við umsögn Veðurstofunnar.

4. Vegagerðin gerir ekki athugasemd við framlagða tillögu að breytingu á aðalskipulagi en ítrekar umsögn sína við skipulagslýsingu. Vegagerðin bendir á að gatnamót aðkomuvegar að sjóböðunum og Höfðavegar þyrftu að vera nær því að vera hornrétta vegna umferðaröryggis. Fjarlægð milli þjónustuvegar sjóbaða og annarar innkeyrslu á bílastæði fyrirhugaðs hótels er mjög lítil og varasöm vegna umferðaröryggis. Það megi velta upp hvort þörf sé á að hafa þjónustuveg tengdan við Höfðaveg eða hvort hægt sé að tengja hann við aðkomuveg að sjóböðunum.

Svar við umsögn: Deiliskipulagsuppdrætti verður breytt þannig að tenging við Höfðaveg fyrir þjónustuveg fyrir sjóböðin er tekin út.

5. Minjastofnun gerir ekki athugasemdir við skipulagstillöguna en minnir á 2. mgr. 24. gr. laga um menningarminjar.

Svar við umsögn: Umsögn þarfnast ekki viðbragða.

6. Heilbrigðiseftirlit Norðurlands gerir ekki athugasemdir við skipulagsbreytingu.

Svar við umsögn: Umsögn þarfnast ekki viðbragða.

Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að deiliskipulagstillagan, með þeim breytingum sem bókaðar eru hér að ofan, verði samþykkt og gildistaka auglýst eftir yfirferð Skipulagsstofnunar.


3.Deiliskipulag fyrir nýtt hjúkrunarheimili.

Málsnúmer 201909080Vakta málsnúmer

Nú liggur fyrir verkefnistillaga frá Alta fyrir gerð deiliskipulags fyrir nýtt hjúkrunarheimili við Skálabrekku og Auðbrekku. Verkefnistillögunni fylgir mat á áætluðum kostnaði.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur skipulags- og byggingarfulltrúa að setja vinnu við skipulagsferli af stað. Í ljósi þess að fjárveitingar til deiliskipulagsvinnu í fjárhagsáætlun ársins hefur þegar verið að fullu ráðstafað verði fjárveitingar sem ætlaðar voru til vinnu við endurskoðun aðalskipulags nýttar til deiliskipulagsvinnunar.

4.Garðvík óskar eftir stöðuleyfi fyrir 18 m² vinnugámi að Kringlumýri 2.

Málsnúmer 201909071Vakta málsnúmer

Óskað er stöðuleyfis fyrir vinnugám/skúr, 2,5x7,2 m² á lóðinni að Kringlumýri 2. Fyrir liggur teikning af gámnum og afstaða hans til húss á lóð. Einnig liggur fyrir umsögn frá eldvarnareftirliti sem leggst ekki gegn því að stöðuleyfi verði veitt.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir stöðuleyfi fyrir umræddum vinnugámi til eins árs til samræmis við heimildir í 2.6.1. gr. í byggingarreglugerð.

5.Umsókn um byggingarleyfi fyrir 25 m² hús að Skógum 3 í Reykjahverfi.

Málsnúmer 201909057Vakta málsnúmer

Óskað er eftir heimild til að setja niður 25 m² bjálkahús sunnan við fjóshlöðuna að Skógum 3 í Reykjahverfi. Húsið stóð áður á félagssvæði Skotfélags Húsavíkur og eru til af því teikningar frá fyrra byggingarleyfi.
Skipulags- og framkvæmdaráð heimilar skipulags- og byggingarfulltrúa að veita byggingarleyfi fyrir húsinu þegar fullnægjandi gögn þar að lútandi hafa borist.

6.Ósk um stækkun lóðar að Höfða 24

Málsnúmer 201909089Vakta málsnúmer

Örlygur Hnefill Örlygsson, f.h. Fasteignafélags Húsavíkur ehf., óskar eftir lóðarstækkun til suðurs við Höfða 24 til að útbúa þar bílastæði, setja upp minnismerki og skilti. Meðfylgjandi umsókn er rissmynd af fyrirhugaðri notkun viðbótarlóðar.
Skipulags- og framkvæmdaráð tekur jákvætt í hugmyndir að stækkun lóðar og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að útbúa hnitsett lóðarblað til að leggja fyrir ráðið. Ráðið samþykkir að útbúið verði bílastæði á fyrirhugaðri lóð og jafnframt að minnismerki verði sett upp í samræmi við hugmyndir umsækjanda. Ráðið samþykkir hinsvegar ekki uppsetningu skiltis á þessu stigi.

7.Ósk um framlengingu á byggingarleyfi fyrir tvo gistiskála við Dvergabakka

Málsnúmer 201909035Vakta málsnúmer

PCC BakkiSilicon hf. óskar eftir framlengdu leyfi fyrir gistiskála á lóð að Dvergabakka. Um er að ræða skála sem merktir eru M og L á meðfylgjandi loftmynd, en áður er búið að samþykkja framlengt leyfi fyrir skálum K, J og X skv. sömu mynd.
Ástæður beiðninnar er að svo virðist sem smíði verksmiðjunnar sé ekki fulllokið, eins og menn ætluðu, þar sem vansmíði hafi orðið á reykhreinsivirki verksmiðjunnar, sem þurfi að endursmíða á næsta ári. Verði PCC BakkiSilicon hf. að leggja til húsnæði fyrir þá sem að þeirri vinnu munu koma.
Með vísan til framangreindra aðstæðna og þess að slíkt rúmast innan upphaflega samnings um lóðarafnot er umsóknin samþykkt með þeim skilmálum að öll ákvæði vinnubúðarsamningsins frá 1. október 2015 með síðari viðbótum, þ.m.t. ákvæðin um gjaldtöku sveitarfélagsins vegna vinnubúðanna, brottflutning þeirra og skil svæðisins gildi óbreytt um þessa skála M og L til loka ágústmánaðar 2020. Gerður verði sérstakur formlegur viðbótarsamningur um þessa framlengingu.

8.Vinnubúðir Árna Helgasonar ehf. á Bakka.

Málsnúmer 201907025Vakta málsnúmer

Árni Helgason ehf. óskar eftir endurnýjun stöðuleyfis vegna vinnubúða við Bakka, en fyrra leyfi rann út í lok árs 2015.

Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir endurnýjun stöðuleyfis út september 2020 og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að útfæra samning þar að lútandi og leggja fyrir ráðið að nýju, fyrir lok október.

9.Verkeftirlit með byggingu nýrrar slökkvistöðvar.

Málsnúmer 201809032Vakta málsnúmer

Framkvæmda- og þjónustufulltrúi kynnir fundargerðir verkfunda vegna byggingar nýrrar slökkvistöðvar að Norðurgarði 5.
Lagt fram til kynningar.

10.Hraðatakmarkanir á Húsavík og annarra þéttbýlisstaða innan Norðurþings

Málsnúmer 201709113Vakta málsnúmer

Takmarkanir á hámarkshraða umferðar innan þéttbýlis á Húsavík og í öðrum þéttbýliskjörnum Norðurþings, hafa verið ræddar í ráðum og stjórnum undanfarnar vikur og mánuði.
Þótt sú umræða hafi skilað töluverðum árangri í átt að niðurstöðu, standa enn eftir nokkur atrið sem þarf að taka afstöðu til áður en hægt verður að ráðast í það verkefni að færa umferðarmerkingar í þéttbýli í það horf sem stefnt er að.
Kristinn Jóhann Lund leggur til að tillaga skipulags- og framkvæmdaráðs um hraðatakmarkanir á Húsavík fari í íbúðasamráð í gegnum rafræna samráðsgátt. Samráðið verði sett af stað sem allra fyrst þannig að ráðið geti fjallað um umsagnir íbúa. Samráðið verði kynnt fyrir íbúum á vef sveitarfélagsins og facebooksíðu Norðurþings ásamt því að kynna það í öðrum staðbundnum miðlum.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir tillögu Kristins.

11.Staðan á SR-lóðinni á Raufarhöfn

Málsnúmer 201806133Vakta málsnúmer

Á 43. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs var framkvæmda-og þjónustufulltrúa falið að afla fleiri tilboða í niðurrif eigna á SR-lóð á Raufarhöfn og leggja fyrir ráðið að nýju.
Nokkrir aðilar hafa sýnt málinu áhuga og skilað inn kostnaðaráætlunum í verkið.
Fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggur að taka afstöðu til þess kostnaðar sem áætlaður er að verkefnið feli í sér, en einnig áætlaðrar tímasetningar verkefnisins m.t.t. fjárhagsáætlunar framkvæmdasviðs.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir að vísa ákvörðun um málið til fjárhagsáætlunargerðar 2020.

12.Framkvæmdáætlun framkvæmdasviðs 2020.

Málsnúmer 201908041Vakta málsnúmer

Fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggur fjöldi verkefna sem ætlunin er að framkvæma í fyrirsjáanlegri framtíð. Verkefnin eru misaðkallandi og ekki hafa öll verið kostnaðarmetin að fullu, né skipulögð að því marki að hægt sé að leggja af stað í framkvæmdir að svo stöddu.
Mikilvægt er að verkefnum verði forgangsraðað sem fyrst og valin úr þau verkefni sem áhugi er fyrir að framkvæma á árinu 2020 svo ljúka megi kostnaðaráætlunum og undirbúning viðkomandi verkefna.
Lagt fram.

13.Markmið svæðisáætlunar um úrgangsmál á Norðurlandi.

Málsnúmer 201909051Vakta málsnúmer

Samkvæmt 6. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs með síðari breytingum, skal sveitarstjórn, ein eða fleiri í sameiningu, „semja og staðfesta svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs sem gildir fyrir viðkomandi svæði til tólf ára í senn og skal sú áætlun fylgja stefnu um meðhöndlun úrgangs og stefnu um úrgangsforvarnir“, sbr. 5. gr. laganna. Áætlunin skal hafa að markmiði að draga markvisst úr myndun úrgangs og auka endurnotkun og endurnýtingu. Þar skulu m.a. koma fram upplýsingar um stöðu úrgangsmála á svæðinu, aðgerðir til að bæta endurnotkun, endurnýtingu og förgun og hvernig sveitarstjórnir hyggist ná markmiðum stefnu um meðhöndlun úrgangs og stefnu um úrgangsforvarnir.
Þann 8. mars 2012 var gengið frá samningi milli sorpsamlaga á svæðinu frá Hrútafirði í vestri að Melrakkasléttu í austri um gerð sameiginlegrar svæðisáætlunar fyrir allt starfssvæði samningsaðilanna, en á þessu svæði eru samtals 18 sveitarfélög. Svæðisáætlanir voru til staðar fyrir flest þessara sveitarfélaga en þær höfðu ekki verið endurskoðaðar þrátt fyrir að miklar breytingar hefðu orðið á málaflokknum frá því að þær voru upphaflega gerðar. Með gerð sameiginlegrar svæðisáætlunar töldu samningsaðilar að nást myndi betri yfirsýn yfir stöðu og framtíðarmöguleika í úrgangsmálum á svæðinu í heild, jafnframt því sem samvinna myndi að öllum líkindum leiða til bættrar nýtingar fjárfestinga í nútíð og framtíð.
Lagt fram.

14.Almennt um sorpmál 2019.

Málsnúmer 201901008Vakta málsnúmer

Fyrir fundi liggur fyrsta uppkast af útboðsgögnum. Söfnun, flutningur og afsetning úrgangs, endurvinnsla, moltugerð og rekstur móttökustöðvar á Húsavík fyrir sveitarfélögin Norðurþing og Tjörneshrepp.

Gögnin liggja til kynningar og beðið er um álit nefndarfólks til viðmiðunar í frekari vinnu.
Lagt fram.

15.CrowdThermal og samfélagsgróðurhús.

Málsnúmer 201909081Vakta málsnúmer

Eimur hlaut nýverið styrk í Horizon 2020 rannsóknaráætlun Evrópusambandsins vegna þátttöku í verkefninu Crowdthermal. Verkefnið gengur út á auka hlut jarðvarma í Evrópu og að nýta ný fjármögnunarmódel til að fjármagna verkefni á sviði endurnýjanlegrar orku og draga úr áhættu við slík verkefni. CrowdThermal byggir á samstarfi 10 aðila, stofnanir, háskóla og einkafyrirtæki frá 9 mismunandi löndum í Evrópu.
Hlutverk EIMS í verkefninu er að keyra tilraunaverkefni (Case study) þar sem sett verður upp verkefni þar sem horft verður til þess að stuðla að aukinni beinni nýtingu jarðvarma til matvælaframleiðslu. Vinnuhugmyndin sem unnið verður með byggir á því að gera tilraun til að fjármagna svokallað Samfélagsgróðurhús sem staðsett væri á Húsavík. Markmið með gróðurhúsinu er að efla innviði á sviði matvælaframleiðslu á svæðinu og byggja upp aðstöðu fyrir nýsköpunarfyrirtæki, skóla og aðra aðila til að auka staðbundna matvælaframleiðslu og stuðla þannig að aukinni sjálfbærni svæðisins og efla nýsköpun.
Unnið verður að mótun og útfærslu á verkefninu á næstkomandi mánuðum í samstarfi við hagsmunaaðila á svæðinu.
Lagt fram.

16.Ósk um samstarf - umsókn til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða vegna byggingar selaskoðunarskýlis við Bakkahlaup.

Málsnúmer 201909082Vakta málsnúmer

Fyrir liggur ósk frá Fuglastíg um samstarf vegna umsóknar um styrk í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða vegna byggingar selaskoðunarskýlis við Bakkahlaup.
Skipulags- og framkvæmdaráð tekur jákvætt í frekara samtal varðandi verkefnið.

17.Göngu- og hjólreiðastígar.

Málsnúmer 201909090Vakta málsnúmer

Formaður Skipulags- og framkvæmdaráðs hefur kynnt sér styrkmöguleika vegna göngu- og hjólreiðastíga utan þéttbýlis. Ljóst er að hægt er að sækja fé til þeirra en mikilvægt að vera búið að kostnaðargreina framkvæmdina. Formaður ráðsins fer fram á við að ráðið samþykki að fela framkvæmda- og þjónustufulltrúa að kostnaðargreina fyrirframgreinda stíga.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að kostnaðargreina göngu- og hjólreiðastíg frá Húsavík út að Bakka. Einnig að kostnaðargreina göngu- og hjólreiðastíg frá Húsavík að Yltjörn. Ráðið felur einnig formanni í framhaldi af kostnaðargreiningunni að senda inn umsókn í þá sjóði sem við á.

Fundi slitið - kl. 16:30.