Fara í efni

Skipulags- og framkvæmdaráð

78. fundur 15. september 2020 kl. 13:00 - 15:45 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Silja Jóhannesdóttir formaður
  • Kristinn Jóhann Lund varaformaður
  • Guðmundur Halldór Halldórsson aðalmaður
  • Kristján Friðrik Sigurðsson aðalmaður
  • Bergur Elías Ágústsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfulltrúi
  • Gunnar Hrafn Gunnarsson framkv.- og þjónustufulltrúi
  • Þórir Örn Gunnarsson hafnarstjóri
  • Hermína Hreiðarsdóttir Ritari
  • Ketill Gauti Árnason starfsmaður í stjórnsýslu
  • Jónas Hreiðar Einarsson starfsmaður í stjórnsýslu
Fundargerð ritaði: Hermína Hreiðarsdóttir þjónustu- og skjalafulltrúi
Dagskrá
Þórir Örn Gunnarsson hafnastjóri sat fundinn undir liðum 1-7.
Gunnar Hrafn Gunnarsson framkvæmda- og þjónustufulltrúi sat fundinn undir liðum 4-13.
Jónas Hreiðar Einarsson verkefnastjóri á framkvæmdasviði sat fundinn undir liðum 4-12.
Ketill Gauti Árnason verkefnastjóri á framkvæmdasviði sat fundinn undir liðum 9-13.

1.Hafnasamband Íslands - Fundargerðir 2020

Málsnúmer 202001107Vakta málsnúmer

425. fundargerð Hafnasambands Íslands lögð fram.
Lagt fram til kynningar.

2.Skipulag miðhafnarsvæðis

Málsnúmer 202002134Vakta málsnúmer

Í mars voru ræddar hugmyndir að skipulagi miðhafnarsvæðis. Nú liggur fyrir samantekt á atriðum sem rædd voru og ráðið þarf að taka afstöðu til framhaldsins.
Meirihluti skipulags- og framkvæmdaráðs felur hafnastjóra í samráði við skipulags- og byggingarfulltrúa að hefja ferlið við upptekt á skipulagi í samræmi við tillögur sem liggja fyrir fundi.

Bergur Elías telur að það sé ekki tímabært að fara í þessar breytingar á skipulaginu.

3.Óskað er eftir rekstraryfirliti fyrir fyrstu 6 mánuði ársins 2020 og áætlun fyrir seinni hluta árs

Málsnúmer 202008048Vakta málsnúmer

Á 75. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs var eftirfarandi bókað: Í ljósi verulegs samdráttar hjá höfnum Norðurþings felur skipulags- og framkvæmdaráð hafnastjóra að fara yfir rekstur hafna, koma með tillögur að hagræðingu, leita allra leiða til að lækka kostnað og leggja fyrir ráðið að tveimur vikum liðnum.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur hafnastjóra að draga úr bakvöktum á höfn og skerða þjónustu í samræmi við það.

Bergur Elías óskar bókað:
Rétt er að benda á að þessi ráðstöfun/þjónustuskerðing dugar ekki til, allt sem gert verður stærra eins og viðhald, fjárfesting og afborganir lána þarf að fjármagna með lántöku. Það er von mín að þjónustuskerðingin muni ekki hafa áhrif á tekjur hafna Norðurþings.

4.Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið: Drög að reglugerð um vigtun og skráningu sjávarafla.

Málsnúmer 202009070Vakta málsnúmer

Í samráðsgáttinni er Reglugerð um vigtun og skráningu sjávarafla. Umsagnarfrestur er til 18.09.2020.https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=2765&fbclid=IwAR3CvQUEscK46XNTvSBbEGeWI7pU74fJvaBy8J-OaPbRavqYypRd1RqWnsE
Lagt fram til kynningar.

5.Heimild til lántöku hjá Lánasjóði sveitarfélaga

Málsnúmer 202005065Vakta málsnúmer

Í október er gjalddagi 1.000.000 EUR láns hjá Lánasjóði sveitarfélaga og er hlutur Hafnasjóðs í láninu 66%. Óskað er heimildar til lántöku hjá Lánasjóði sveitarfélaga til endurfjármögnunar.
Skipulags- og framkvæmdaráð heimilar lántöku hjá Lánasjóði sveitarfélaga til endurfjármögnunar.

6.Erindi frá Sölkusiglingum vegna Covid-19.

Málsnúmer 202008081Vakta málsnúmer

Borist hefur erindi frá Sölkusiglingum ehf. þar sem óskað er leigu á verbúðarplássi, tímabundið án endurgjalds og gjaldfrests á legugjöldum og leigugjaldi verbúðarpláss.

Byggðarráð vísaði erindinu til skipulags- og framkvæmdaráðs en bendir á að framundan er upptekt á almennum aðgerðum sveitarfélagsins í tengslum við COVID-19.
Skipulags- og framkvæmdaráðs sér sé ekki fært að verða við erindinu, en fellst á að skuld vegna legugjalda og leigu vegna verbúðar 2020 verði ekki send í innheimtu og dráttarvaxtareiknað þar til upptekt á almennum aðgerðum sveitarfélagsins í tengslum við Covid 19. liggur fyrir.

Uppsögn verðbúðar taki gildi samkvæmt uppsagnarákvæði samnings.

7.Ósk um styrk til framkvæmda við gamla kirkjugarðinn.

Málsnúmer 202009033Vakta málsnúmer

Á 76. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs var bókað; Skipulags- og framkvæmdaráð hafnar erindinu en bendir á að hægt er að sækja um styrki til byggðarráðs. Byggðaráð vísar erindinu aftur til Skipulags- og framkvæmdaráðs vegna eðli málsins og komi til styrkveitingar færi það af rekstri sviðsins.
Meirihluti skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir að efnisgjald vegna efnis úr námum sveitarfélagsins verði ekki innheimt vegna verkefnisins.

Bergur Elías leggur til að skipulags og framkvæmdaráð styrki verkefnið um krónur 500.000.- á þessu fjárhagsári.
Kristinn, Silja, Guðmundur og Kristján Friðrik greiða atkvæði á móti tillögunni.

8.Fyrirspurn um efnistöku í Saltvík.

Málsnúmer 201910143Vakta málsnúmer

Samningur um efnistöku í Saltvík er lagður fyrir skipulags- og framkvæmdaráð til kynningar.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir fyrirliggjandi samningsdrög.

9.Eftirlitsskýrsla Umhverfisstofnunar vegna sorpmóttöku í Víðimóum 3, Húsavík

Málsnúmer 201907071Vakta málsnúmer

Búið er að kynna fyrirliggjandi tilboð í tengslum við niðurrif og förgun á síupokum sorpbrennslunnar, fyrir aðildarsveitarfélögum Sorpsamlags Þingeyinga. Taka þarf afstöðu til verksins og leggja drög að næstu skrefum svo uppfylla megi kröfur Umhverfisstofnunar.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að ganga til samninga um niðurrif og förgun á síupokum sorpbrennslunnar. Kynna skal verkið aftur fyrir ráðinu þegar niðurstaða liggur fyrir.

10.Húsin á Húsavík - styrkur frá EBÍ

Málsnúmer 201602132Vakta málsnúmer

Verkefnið "Húsin á Húsavík" fékk styrk frá styrktarsjóði EBÍ árið 2017. Stjórn Gafls óskar formlega eftir því við Norðurþing taki við verkefninu aftur og klári verkefnið svo sómi sé af. Í því felst eftirfarandi:
1. Að láta gera tvö skilti samkv. umsókn
2. Að koma verkefninu í það horf að húseigendur geti gert/keypt viðkomandi skilti og þá eftir því sem NÞ ákveður hvernig það fyrirkomulag verður.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að láta gera skiltin og setja í ferli að húseigendur hafi aðgang að hönnuninni og framkvæmdaaðilum á aðgengilegan hátt.

11.Skoðun í sundlaugum Norðurþings sumar 2020

Málsnúmer 202008139Vakta málsnúmer

Til kynningar eru skoðunarskýrslur frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra á sundlauginni í Lundi og íþróttamiðstöðinni á Raufarhöfn.

Fjölskylduráð bókaði eftirfarandi um málið á fundi ráðsins 7. september 2020.
"Lagt fram til kynningar. Málinu vísað til umfjöllunar í skipulags- og framkvæmdaráði."
Úrbótaáætlun hefur verið send til Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra og verður horft til hennar við gerð framkvæmdaáætlunar 2021.

12.Árleg aðalskoðun leiksvæða - 2020

Málsnúmer 202002043Vakta málsnúmer

Til umræðu eru skoðunarskýrslur leikvalla Norðurþings. Leikvellirnir voru skoðaðir sumarið 2020.

Fjölskylduráð bókaði eftirfarandi um málið á fundi ráðsins 7. september 2020.
"Fjölskylduráð leggur til við skipulags og framkvæmdaráð að allt það fjármagn sem áætlað var til viðhalds á leikvöllum Norðurþings árið 2020 verði veitt til skólalóðar við Öxarfjarðarskóla.
Ráðið mun hafa skýrslurnar til hliðsjónar við fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2021."
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir tillögu fjölskylduráðs og veitir allt að þremur milljónum til skólalóðar við Öxarfjarðarskóla til viðbótar þeim fjórum milljónum sem búið er að veita til framkvæmda á skólasvæðinu.

13.Umsókn um breytingar á gangstétt vegna aðkomu að bílaplani að Laugarbrekku 18.

Málsnúmer 202008116Vakta málsnúmer

Fyrir liggur erindi frá íbúum í Laugarbrekku 18 á Húsavík varðandi mögulegar breytingar á gangstétt sveitarfélagsins fyrir framan húsið vegna ástæðna sem raktar eru í erindinu. Óskað er afstöðu skipulags- og framkvæmdaráðs til erindisins. Skipulags- og framkvæmdaráð frestaði erindinu og óskaði eftir frekari útfærslu á efnisgerð, lokafrágangi og fyrirhuguðum halla gangstéttar. Þau gögn hafa nú borist.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir erindið byggt á þeim gögnum sem fyrir liggja á fundinum og verkinu verði lokið skv. þeim. Verði verkið ekki í samræmi við teikningar í verklok mun sveitarfélagið ljúka verkinu á kostnað eigenda verksins.

14.Fyrirspurn um leigu á landi til beitar fyrir Saltvík ehf.

Málsnúmer 202009046Vakta málsnúmer

Saltvík ehf. óskar eftir landi til leigu á Bakkahöfða til haust- og vetrarbeitar. Fyrir liggja drög að samningi og teikning af svæðinu sem um ræðir.
Skipulags- og framkvæmdaráð fellst á útleigu á landinu á grundvelli almennra skilmála, en þó með eftirfarandi sérákvæðum:

1. Útbúa þarf aðgengileg hlið á girðingar til að tryggja almennan umferðarrétt um útivistarsvæði á Bakkahöfða og í Héðinsvík.
2. Í ljósi þess að umrætt svæði er byggingarsvæði skv. gildandi skipulagi telur ráðið að gagnkvæmur uppsagnarfrestur vegna landafnotanna skuli ekki vera lengri en 3 mánuðir.

Framkvæmda- og þjónustufulltrúa er falið að ganga frá samningi við leigutaka á þessum grunni.

15.Deiliskipulag fyrir heilbrigðisstofnanir á Húsavík

Málsnúmer 201909080Vakta málsnúmer

Nú er lokið kynningu skipulagslýsingar vegna deiliskipulags fyrir heilbrigðisstofnanir á Húsavík. Athugasemdir og umsagnir bárust frá eftirfarandi aðilum: Magnús Hermannsson, Anna Sigrún Jónsdóttir, Fannar Emil Jónsson og Jónína Hildur Grímsdóttir (bréf ódags.) óska eftir að fyrirhugað mannvirki verði reist sem syðst á því svæði sem horft er til svo skerðing útsýnis og röskun á umhverfi þeirra lóða verði sem minnst. Skipulagsstofnun (bréf dags. 26. ágúst) telur skipulagsmörk skarast við gildandi deiliskipulag Auðbrekku. Jafnframt minnir stofnunin á ákvæði 37. gr. skipulagslaga um gerð húsakönnunar. Minjastofnun (bréf dags. 3. september) minnir á að taka þarf fullt tillit til minja við útfærslu deiliskipulags og færa þurfi útlínur skráðra minja með skýrum hætti inn á uppdrátt. RARIK (bréf dags. 10. september) minnir á að rafstrengur liggur um fyrirhugað skipulagssvæði, kostnaður muni fylgja því að færa strenginn og að ætla þarf strengnum nýja lagnaleið. Mikilvægt sé að hafa samband við RARIK á verktíma til að tryggja öryggi í kring um strenginn. Þingeyjarsveit (bréf dags. 1. sept), Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra (bréf dags. 26. ágúst), Veðurstofa Íslands (bréf dags. 8. september) og Vegagerðin (bréf dags. 3. september) gera ekki athugasemdir við skipulagslýsinguna.
Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar framkomnar athugasemdir og ábendingar. Tekið verður tillit til þeirra eins og aðstæður leyfa við vinnslu skipulagstillögu.

16.Deiliskipulag fyrir Pálsgarð og Útgarð

Málsnúmer 202009067Vakta málsnúmer

Fyrir liggur tillaga S. ap arkitekta aðskipulagslýsingu vegna deiliskipulags fyrir lóðirnar Pálsgarður 1 og Útgarður 2.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að skipulags- og byggingarfulltrúa verði falið að kynna skipulagslýsinguna til samræmis við ákvæði skipulagslaga.

17.Ósk um stofnun lóðar út úr Hóli í Kelduhverfi undir frístundarhús

Málsnúmer 202009066Vakta málsnúmer

Kristinn Rúnar Tryggvason og Hrund Ásgeirsdóttir óska eftir samþykki fyrir stofnun 41.538 m² frístundahúsalóðar úr jörðinni Hóli í Kelduhverfi. Þess er óskað að lóðin fái heitið Skógarhóll. Ennfremur er óskað samþykki fyrir því að lóðinni verði skipt út úr jörðinni. Fyrir liggur hnitsett lóðarmynd.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að stofnun lóðarinnar, útskipti hennar úr jörðinni og að hún fái heitið Skógarhóll verði samþykkt. Framlögð afstöðumynd felur í sér hugmynd að tengingu lóðar við þjóðveg nr. 85. Ráðið gerir ekki athugasemd við hugmyndina en minnir umsækjanda á að hafa samráð við Vegagerðina um vegtenginguna.

18.Ósk um stofnun lóðar út úr Hóli í Kelduhverfi undir skógrækt

Málsnúmer 202009065Vakta málsnúmer

Kristinn Rúnar Tryggvason og Hrund Ásgeirsdóttir óska eftir samþykki fyrir stofnun 149,6 ha landspildu út úr jörðinni Hóli í Kelduhverfi. Landspildan er ætluð til skógræktar. Þess er óskað að landspildan fái heitið Hólsskógur. Ennfremur er óskað samþykki fyrir því að landspildunni verði skipt út úr jörðinni. Fyrir liggur hnitsettur uppdráttur af landspildunni og undirritað samþykki eiganda aðliggjandi jarðar fyrir landamerkjum.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að stofnun landspildunnar, útskipti hennar úr jörðinni og að hún fái heitið Hólsskógur verði samþykkt. Framlögð afstöðumynd felur í sér hugmynd að tengingu lóðar við þjóðveg nr. 85. Ráðið gerir ekki athugasemd við hugmyndina en minnir umsækjanda á að hafa samráð við Vegagerðina um vegtenginguna. Ráðið áréttar einnig að samþykki fyrir stofnun landspildunnar felur ekki í sér framkvæmdaleyfi til skógræktar.

19.Ósk um stofnun íbúðarhúsalóðar á Hóli í Kelduhverfi

Málsnúmer 202009073Vakta málsnúmer

Kristinn Rúnar Tryggvason og Hrund Ásgeirsdóttir óska eftir samþykki fyrir stofnun 1.600 m² lóðar undir íbúðarhús jarðarinnar Hóls í Kelduhverfi. Þess er óskað að lóðin fái heitið Hóll 2. Fyrir liggur hnitsett lóðarmynd.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að stofnun lóðarinnar verði samþykkt og að hún fái heitið Hóll 2.

20.Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra óskar eftir umsögn um rekstrarleyfi v/Saltvík Guesthouse

Málsnúmer 202008006Vakta málsnúmer

Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra óskar umsagnar Norðurþings vegna erindis um leyfi til sölu gistingar með veitingum (fl. III) í tveimur húsum Saltvíkur ehf við Saltvík. Gert er ráð fyrir allt að 30 gestum, þar af 16 í nýlega byggðu gistiheimili og 14 í eldra íbúðarhúsi skv. viðbótarupplýsingum uppgefnum af rekstraraðila. Byggingarfulltrúa hafa borist ný drög að teikningum af eldra íbúðarhúsi til afgreiðslu.
Skipulags- og framkvæmdaráð telur að gistiaðstaða fyrir allt að 30 manns geti ekki fallið undir "minna gistiheimili". Ráðið heimilar skipulags- og byggingarfulltrúa að veita sýslumanni jákvæða umsögn um erindið þegar fullnægjandi teikningar eldra húss hafa verið samþykktar af byggingarfulltrúa og eldvarnareftirliti.

21.Umhverfis- og auðlindaráðuneytið: Áform um frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum nr. 123/2010.

Málsnúmer 202009071Vakta málsnúmer

Í samráðsgátt stjórnvalda eru nú kynnt áform um breytingar á skipulagslögum nr. 123/2010 til að einfalda málsmeðferð og stytta málsmeðferðartíma vegna framkvæmda í meginflutningskerfi rafmagns. Ennfremur er ætlunin að stytta málsmeðferðartíma deiliskipulagsbreytinga vegna uppbyggingar á íbúðarhúsnæði og tryggja forsendur fyrir innleiðingu skipulagsgáttar.
Lagt fram.

Fundi slitið - kl. 15:45.